Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 1079/2000

Lög nr. 45/1987, 16. gr., 24. gr. 1. mgr., 24. gr. 2. mgr., 30. gr. 2. mgr. (brl. 42/1995, 2. gr.)  

Yfirskattanefnd vísaði frá kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins um að framkvæmdastjóra og stjórnarmanni í einkahlutafélagi yrði gerð sekt fyrir að hafa ekki staðið að fullu skil á skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna félagsins í samræmi við skilagrein þess. Niðurstaða nefndarinnar var m.a. byggð á því að við rannsókn málsins hefðu komið fram vísbendingar um að tilgreind laun og afdregin staðgreiðsla á skilagrein félagsins næmu hærri fjárhæðum en vera bæri samkvæmt 16. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Var talið að ekki hefði verið lagður nægur grundvöllur að sektarákvörðun með skattrannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins.

I.

Með bréfi, dags. 23. desember 1999, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til meðferðar mál A og B fyrir brot á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 1996.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra segir:

„A sem fyrrum eiganda hlutafjár, stjórnarmanni, framkvæmdastjóra og prókúruhafa og B, sem fyrrum eiganda hlutafjár og stjórnarmanni skattaðilans X ehf., nú þrotabú með lögheimili að …, er báðum gefið að sök að hafa ekki staðið að fullu skil á afdreginni skilaskyldri staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf., samkvæmt staðgreiðsluskilagrein fyrir greiðslutímabilið febrúar 1996, samtals að fjárhæð kr. 1.672.045.

Telst þessi háttsemi A og B brjóta í bága við ákvæði 1. og 2. mgr. 15. gr., 1. mgr. 16. gr. og 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda með áorðnum breytingum, sbr. aðalreglur 1. - 3. gr., 1. tl. 5. gr., 1. mgr. 7. gr. og 1. og 3. mgr. 8. gr. þeirra laga.

Varðar framanlýst háttsemi A og B þá sektum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.

Við ákvörðun á fjárhæð vangoldinnar skilaskyldrar staðgreiðslu grundvelli að sektarákvörðun komi til frádráttar framangreindum kr. 1.672.045, greiðslur á kr. 827.823, sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, sem og til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna virðisaukaskatts X ehf. frá því umrædd vanskil byrjuðu að myndast þann 15. mars 1996. Mismunurinn, eða kr. 844.222 er því sú fjárhæð sem skattrannsóknarstjóri ríkisins krefst að þeim A og B verði gerð sekt fyrir að hafa ekki staðið skil á.

Þess er krafist að A og B verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sektum í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 23. desember 1999, sem fylgdi kröfugerð hans.

II.

1.

Með bréfum yfirskattanefndar, dags. 29. desember 1999, var gjaldendum veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef þeir vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál þeirra og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

2.

Engar athugasemdir hafa borist nefndinni frá gjaldanda, A. Í málinu liggur hins vegar fyrir bréf umboðsmanns gjaldanda, dags. 30. október 1999, til skattrannsóknarstjóra ríkisins, þar sem því er mótmælt að krafist verði sektarmeðferðar í tilviki gjaldanda. Segir í bréfinu að gjaldandi telji sig ekki geta borið refsiábyrgð samkvæmt skýrslum vegna mars og apríl 1996, enda verði ekki séð að refsiheimild sé til staðar. Hafi skiptastjóri haft forræði á búi X ehf. frá og með 9. apríl 1996. Þá telji gjaldandi óeðlilegt hvernig innborgun frá 21. janúar 1997 sé notuð við útreikning á stöðu vangoldinnar staðgreiðslu. Eðlilegt hefði verið að færa innborgun 1.582.860 kr. með þeim hætti sem hagkvæmast væri gjaldanda og öðrum í hugsanlegu refsimáli, þ.e. til lækkunar höfuðstóls, en ekki að nýta 40% innborgunarinnar inn á vexti o.fl.

Fram hafi komið í skýrslutöku af gjaldanda að bókhald félagsins hafi verið komið úr hans höndum í byrjun mars 1996. Treysti gjaldandi sér ekki til að segja hver hafi staðið skil á skýrslu vegna febrúar 1996, en undirskriftin sé óskiljanleg. Hafni gjaldandi því að bera refsiábyrgð á grundvelli þeirrar skyldu.

3.

Umboðsmaður gjaldanda, B, hefur með bréfi, dags. 23. mars 2000, krafist þess að yfirskattanefnd hafni kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins og að gjaldanda verði ekki gerð sekt í málinu. Þá er krafist greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði að mati yfirskattanefndar.

Kemur fram hjá umboðsmanninum að gjaldandi hafi verið einn af stofnendum einkahlutafélagsins X og hafi hann verið í stjórn allan starfstíma félagsins. Hluthafar hafi verið fjórir og hafi þeir allir átt sæti í stjórn félagsins frá stofnun til gjaldþrotaskipta hinn 9. apríl 1996. Gjaldandi hafi verið meðstjórnandi allan rekstrartímann. Fullyrðing í skýrslu skattrannsóknarstjóra um að gjaldandi hafi tekið við stjórnarformennsku á árinu 1995, sem höfð sé eftir stjórnarmanninum C, sé röng og vísist í því sambandi til framlagðrar útprentunar úr hlutafélagaskrá þar sem fram komi að nefndur C hafi verið stjórnarformaður á þeim tíma er vanskil urðu. Gjaldandi, sem sé vélstjóri að mennt, hafi starfað hjá félaginu að málum sem tengdust fagi hans, en hann hafi engin afskipti haft af daglegri fjármálastjórn, bókhaldi eða skýrslugerð til skattyfirvalda. Svo sem fram komi í gögnum málsins hafi meðkærði A verið framkvæmdastjóri félagsins þá mánuði ársins 1996 sem hér skipti máli og séð um allan daglegan rekstur og fjármálastjórn. Prókúru fyrir félagið hafi þeir A og C haft.

Fyrir liggi að kröfugerð um sekt fyrir vanskil á staðgreiðslu sé aðeins beint að gjaldanda og fyrrum framkvæmdastjóra félagsins og engar kröfur séu gerðar á hendur fyrrgreindum stjórnarmanni félagsins og öðrum meðstjórnanda. Megi af þessu draga þá ályktun að skattrannsóknarstjóri byggi málatilbúnað sinn á því að stjórnarseta ein leiði ekki til ábyrgðar samkvæmt lagaákvæðum sem kröfur séu byggðar á. Leiði það til þess að fyrirsvarsmaður félagsins þurfi að hafa komið að starfsemi þess og stjórnun með þeim hætti að hann hafi af ásetningi eða stórfelldu gáleysi vanrækt að greiða skatta þá sem um ræði. Verði þannig ábyrgð ekki aðeins byggð á þeim skyldum sem stjórnarmenn beri samkvæmt 44. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Samkvæmt framangreindu verði ekki séð að á því sé byggt af hálfu skattrannsóknarstjóra að refsiábyrgð samkvæmt tilgreindum skattalögum verði ein og sér byggð á þeim skyldum sem á öllum stjórnarmönnum hvíli samkvæmt tilvitnuðu ákvæði.

Skattrannsóknarstjóri, sem krefjist í máli þessu sektarákvörðunar gegn einum af þremur stjórnarmönnum X ehf., hafi ekki tekið skýrslur af öðrum stjórnarmönnum eða leitað upplýsinga hjá þeim um stöðu þeirra hjá félaginu eða hvort þeir hafi átt þátt í ákvarðanatöku um að tilgreindir skattar væru ekki greiddir. Sé engin tilraun til þess gerð af skattrannsóknarstjóra að rökstyðja af hverju skyldur gjaldanda sem fyrirsvarsmanns skattaðila séu taldar ríkari en annarra meðstjórnenda og í hverju meint sök hans sé talin fólgin umfram aðra meðstjórnendur. Sé málið algerlega vanreifað að þessu leyti af hálfu skattrannsóknarstjóra. Í þessu sambandi verði að líta til þess að stjórnarmenn í fjölskipaðri stjórn einkahlutafélags fari með sameiginlegt fyrirsvar og séu skyldur stjórnarmanna jafnar innbyrðis að lögum. Þeir hafi hver um sig ekki sjálfstæðar heimildir til þess að taka ákvarðanir er lúti að rekstri þess félags sem þeir sitji í stjórn í heldur sé farið með fyrirsvar á stjórnarfundum sem stjórnarformaður boði til lögum samkvæmt. Kveðst gjaldandi ekki minnast þess að ákvarðanir hafi verið teknar um það á fundum stjórnar að láta hjá líða að greiða staðgreiðslu skatta launamanna þann mánuð sem hér um ræði. Utan stjórnarfunda hafi stjórnarmenn sem einstaklingar engar formlegar heimildir til afskipta eða til þess að stýra rekstri þess félags sem þeir sitji í stjórn fyrir, t.d. hvað varðar ráðstöfun fjármuna félagsins, enda slíkt í höndum framkvæmdastjóra eða prókúruhafa. Ekki séu þekkt dómafordæmi frá Hæstarétti um að meðstjórnendur í fjölskipaðri stjórn hlutafélags hafi verið látnir sæta refsiábyrgð vegna framangreindra lagaákvæða á grundvelli skyldna þeirra og ábyrgðar sem stjórnarmanna. Samkvæmt framangreindu sé byggt á því að skattrannsóknarstjóri hafi ekki sýnt fram á að uppfyllt hafi verið huglæg skilyrði til að ákvarða gjaldanda sekt vegna vanskila félagsins á greiðslu staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna sem leidd verði af upphafsorðum 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987.

Þá sé til þess að líta að á eindaga hinnar skilaskyldu staðgreiðslu vegna febrúar 1996, þ.e. 15. mars 1996, hafi félagið verið hætt starfsemi og fram komin gjaldþrotabeiðni á hendur félaginu, sbr. meðfylgjandi útprentun frá Héraðsdómi … þar sem fram komi að gjaldþrotabeiðni á hendur félaginu hafi borist 27. febrúar 1996. Sá dagur sé frestdagur við gjaldþrotaskiptin. Eftir að gjaldþrotabeiðni hafi komið fram á hendur félaginu hafi stjórnendum félagsins verið óheimilt að mismuna kröfuhöfum með því að greiða staðgreiðsluskuld við ríkissjóð, enda krafa um staðgreiðslu skatta almenn krafa á hendur þrotabúinu. Hefði greiðsla átt sér stað eftir frestdag megi ljóst vera að hún hefði orðið riftanleg samkvæmt 139. gr. laga nr. 21/1991. Sé fráleitt að fyrirsvarsmenn lögaðila geti skapað sér refsiábyrgð með vangreiðslu við þessar aðstæður, en kröfugerð skattrannsóknarstjóra lúti aðeins að því að ekki hafi verið staðin full skil á afdreginni staðgreiðslu fyrir greiðslutímabilið febrúar 1996.

Að því er varði fjárhæð vanskila vegna staðgreiðslu í febrúar 1996, samtals 844.222 kr., sé því haldið fram að þá hafi verið dregnar frá allar fjárhæðir sem innheimtumaður ríkissjóðs hafi ráðstafað til greiðslu álags og dráttarvaxta vegna vanskila á skattgreiðslum. Þar á meðal komi fram að 212.745 kr., sem hafi verið ráðstafað til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar vegna virðisaukaskatts eftir 15. mars 1996, komi til lækkunar fjárhæðinni. Heildargreiðsla til ríkissjóðs vegna virðisaukaskatts hafi hins vegar verið 1.187.675 kr. en ekki liggi fyrir nein gögn í málinu um þessar greiðslur svo að séð verði. Gjaldandi kannist ekki við að í vanskilum hafi verið virðisaukaskattur hjá félaginu, enda hljóti sú greiðsla er komið hafi inn á staðgreiðsluskuldina í janúar 1997 að hafa verið vegna endurgreiðslu innskatts vegna rekstrar félagsins. Þá sé ljóst að engin rannsókn hafi farið fram vegna vanskila eða vanefnda greiðslu virðisaukaskatts X ehf. Ekki komi fram virðisaukaskattsskuld í tilkynningu innheimtumanns ríkissjóðs, dags. 9. september 1997, á tímabilum fyrir úrskurðardag um gjaldþrot. Ennfremur sé vert að benda á að í skýrslu sem skiptastjóri þrotabúsins hafi tekið af A, fyrrum framkvæmdastjóra, komi fram hjá A að hann hafi talið að inneign í virðisaukaskatti myndi duga til greiðslu staðgreiðsluskulda.

Að mati gjaldanda sé málið algerlega vanreifað hvað þetta varði en samkvæmt þessu geti verið að öll afdregin staðgreiðsla teldist að fullu greidd eftir þeim aðferðum sem ágreiningslaust sé að beita eigi við ráðstöfun innborgana, þ.e. að þær gangi til greiðslu þeirra skulda sem hagfelldast sé fyrir sakborning, sbr. dóm Hæstaréttar, H 1997:2446 [H 1997:70]. Þannig eigi öll greiðslan 1.187.675 kr. að renna til greiðslu skuldar þeirrar sem mál þetta snúist um og með því hefði allri afdreginni staðgreiðslu starfsmanna félagsins fyrir febrúar 1996 verið skilað og því þegar af þeirri ástæðu ekki forsenda fyrir refsiábyrgð gjaldanda. Að minnsta kosti megi ljóst vera að ekki sé unnt að ákvarða gjaldanda sekt meðan ekki hafi verið gerð nánari grein fyrir atvikum sem að þessu lúti, enda verði hér sem endranær að túlka allan vafa sakborningi í hag.

Verði talið að gjaldandi beri refsiábyrgð í máli þessu sé þess krafist að sekt verði ákveðin eins lág og lög frekast leyfi og að refsing verði einungis ákvörðuð fyrir hluta þeirra tímabila sem málið varði. Ennfremur sé þess krafist að sekt verði ákveðin lægri en sem nemi lágmarksfjárhæð sekta skv. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 auk þess sem við ákvörðun fjárhæðar sektar beri að líta til þess að skattrannsóknarstjóri hafi krafist þess að fleiri en einum af fyrirsvarsmönnum félagsins verði gerð sekt vegna vanskila þess. Ekki geti komið til álita að refsiábyrgð þeirra sem fari sameiginlega með fyrirsvar fyrir hönd lögaðila sem launagreiðanda eigi í heild að vera þyngri en refsiábyrgð félags þess sem þeir séu í fyrirsvari fyrir og telst vera launagreiðandi í skilningi nefndra laga.

Loks bendir umboðsmaðurinn á að gjaldandi hafi ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af vanskilum þeim sem um ræði og hafi hann auk þess þurft að taka á sig verulegar skuldir vegna ábyrgða fyrir félagið.

III.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. desember 1999, er gerð sú krafa að gjaldendum, A og B, verði sem fyrirsvarsmönnum X ehf., gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með því að hafa vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launamanna félagsins fyrir greiðslutímabilið febrúar 1996.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf í febrúar 1998 rannsókn á staðgreiðsluskilum X ehf. vegna ársins 1996. Rannsókninni lauk með skýrslu, dags. 10. ágúst 1999. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi, A, til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. maí 1999 og gjaldandi, B, 31. maí 1999. Gjaldandi, A, hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hann mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni. Gjaldandi, B, hefur lagt fram athugasemdir í tilefni af sektarkröfunni.

Samkvæmt því sem fram kom við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á staðgreiðsluskilum X ehf. hafði afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna félagsins greiðslutímabilin febrúar, mars og apríl 1996, samtals að fjárhæð 2.563.735 kr., ekki verið greidd til innheimtumanns ríkissjóðs. Í máli þessu er eingöngu krafist sektarákvörðunar vegna vanskila að því er fyrstnefnda greiðslutímabilið varðar. Rannsókn málsins var m.a. byggð á staðgreiðsluskilagreinum félagsins og sundurliðunum á afdreginni staðgreiðslu vegna umræddra tímabila svo og upplýsingum um greiðslustöðu hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 9. apríl 1996.

Í skýrslutöku af gjaldanda, A, sem var framkvæmdastjóri X ehf., kom fram að félagið hefði hætt reglulegri starfsemi í byrjun mars 1996. Félagið hefði verið úrskurðað gjaldþrota í apríl 1996 og öll bókhaldsgögn verið afhent skiptastjóra. Gjaldandi kvað launaútreikning og útreikning staðgreiðslu opinberra gjalda vegna félagsins m.a. fyrir febrúar 1996 hafa verið unninn á skrifstofu þess undir sinni stjórn. Aðspurður um fyrirliggjandi skilagrein staðgreiðslu m.a. vegna febrúar 1996 staðfesti gjaldandi að hún væri vegna félagsins, en gjaldandi kannaðist ekki við undirskrift á skilagreinina og kvaðst ekki vita hvers vegna henni hefði ekki verið skilað á lögmæltum tíma til innheimtumanns. Hefði það verið komið úr sínum höndum í byrjun mars, því þá hefði X ehf. hætt starfsemi. Hefði bókhaldið verið tekið af þeim í byrjun mars 1996, en þá hefði verið búið að ganga frá skilagreinum. Fram kom hjá gjaldanda að fram til þess tíma, er félagið hætti starfsemi í byrjun mars 1996, hefðu starfsmenn félagsins fengið laun sín greidd að fullu og á réttum tíma, þrátt fyrir vanskil á staðgreiðslu. Aðspurður kvaðst gjaldandi ekki treysta sér til að segja til um hvort fyrirliggjandi skýrslur og greinargerðir gæfu rétta mynd af rekstri X ehf. og öðru því sem þær bæru með sér.

Í skýrslutöku af gjaldanda, B, kom fram að hann hefði verið í stjórn X ehf. og unnið hjá félaginu. Gjaldandi kvaðst ekki hafa komið að fjármálum félagsins og ekki hafa vitað um skuldir vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna. Aðspurður um það hvort laun hefðu verið greidd starfsmönnum félagsins að fullu og á réttum tíma, þrátt fyrir vanskil á staðgreiðslu, sagðist gjaldandi halda að svo hefði verið. Gjaldandi tók fram að hann hefði ekki fengið sín laun greidd. Gjaldandi kvaðst ekki draga í efa að fyrirliggjandi skýrslur og greinargerðir væru réttar.

Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er lýst refsivert ef launagreiðandi innir ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum borið að halda eftir. Samkvæmt fortakslausum ákvæðum nefndra laga og með stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar 27. febrúar 1997 (H 1997:789), 25. september 1997 (H 1997:2446), 14. janúar 1999 (H 1999:79), 18. febrúar 1999 (H 1999:544 og 550), 10. júní 1999 (H 1999:2645) og 30. mars 2000 í málinu nr. 36/2000, geta fyrirsvarsmenn lögaðila unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma, enda sé huglægum refsiskilyrðum fullnægt.

Með kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins er krafist sektarákvörðunar vegna vangoldinnar staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 844.222 kr. Er sú fjárhæð þannig fengin að til frádráttar vangreiddri staðgreiðslu, 1.672.045 kr. samkvæmt fyrirliggjandi rannsókn skattrannsóknarstjóra, eru færðar greiðslur vegna X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs, samtals að fjárhæð 827.823 kr. Fjallað er um greiðslur þessar í skýrslu skattrannsóknarstjóra svo og í kröfubréfi og greinargerð hans til yfirskattanefndar og kemur fram að annars vegar er um að ræða greiðslur vegna staðgreiðslu opinberra gjalda sem inntar voru af hendi vegna félagsins til innheimtumanns ríkissjóðs eftir að umrædd staðgreiðsluskuld byrjaði að myndast og ráðstafað var til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar og hins vegar greiðslur vegna virðisaukaskatts félagsins, sem ráðstafað var til greiðslu álags, dráttarvaxta og kostnaðar, þ.e. 212.745 kr. af 1.187.675 kr. heildargreiðslu vegna virðisaukaskatts. Vegna þeirrar viðbáru umboðsmanns gjaldanda, B, að öll síðastnefnd fjárhæð eigi að koma til frádráttar vangreiddri staðgreiðslu, skal tekið fram að ekki verður fallist á að greiðslur á höfuðstól virðisaukaskatts eigi að koma til frádráttar fjárhæðum við sektarákvörðun. Vísast um þetta m.a. til dóms Hæstaréttar Íslands 22. júní 2000 í málinu nr. 49/2000. Að öðru leyti hefur ekkert komið fram af hálfu gjaldenda um aðrar greiðslur á umræddu tímabili, sem taka beri tillit til með hliðstæðum hætti, né verður ráðið um það af gögnum málsins. Verður því að telja að í kröfugerðinni sé tekið tillit til greiðslna vegna X ehf. til innheimtumanns ríkissjóðs, sem innheimtumaður hefur ráðstafað til greiðslu álags og dráttarvaxta og eftir atvikum inn á aðrar skattskuldir, á þann hátt sem gjaldendum hefði verið hagfelldast, og í samræmi við dómaframkvæmd, sbr. fyrrnefnda dóma Hæstaréttar frá 25. september 1997, 14. janúar 1999 og 30. mars 2000.

Samkvæmt gögnum málsins var afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna launamanna X ehf. fyrir greiðslutímabilið febrúar 1996 ekki afhent innheimtumanni ríkissjóðs á tilskildum tíma, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Skilagrein félagsins vegna afdreginnar staðgreiðslu fyrir febrúar 1996, sem fyrir liggur í málinu, er dagsett 8. mars 1996, en barst innheimtumanni ríkissjóðs 24. maí 1996 samkvæmt móttökustimpli hans. Eins og áður er getið kom fram í skýrslutöku af gjaldanda, A, hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 11. maí 1999 að útreikningur staðgreiðslu m.a. fyrir greiðslutímabilið febrúar 1996 hefði verið unninn á skrifstofu félagsins undir hans stjórn og legið fyrir við rekstrarlok í byrjun mars 1996, sbr. svör við spurningum nr. 6 og 11. Í skýrslutökunni bar gjaldandi út af fyrir sig ekki brigður á þær upplýsingar um vangreidda staðgreiðslu opinberra gjalda vegna febrúar 1996, sem skattrannsóknarstjóri ríkisins taldi sig hafa upplýsingar um og byggði m.a. á fyrrnefndri skilagrein, en í framburði hans fólst á hinn bóginn ekki staðfesting á þeim fjárhæðum sem skilagreinin bar með sér. Gjaldandi svaraði því játandi að launamenn X ehf. hefðu fengið laun sín greidd á réttum tíma og að fullu, þrátt fyrir vanskil á staðgreiðslu, „fram að þeim tíma, er fyrirtækinu var lokað í byrjun mars 1996“, sbr. svar við spurningu nr. 14. Í skýrslutöku af gjaldanda, B, sem fram fór 31. maí 1999, kom hins vegar fram að hann hefði sjálfur ekki fengið laun frá félaginu greidd að fullu. Sundurliðun vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda launamanna X ehf. fyrir febrúar 1996, sem rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins er m.a. byggð á, liggur ekki fyrir í málinu, en samkvæmt tiltækum upplýsingum úr tölvukerfi ríkisskattstjóra verður ekki betur séð en að launagreiðslur til B hafi verið meðtaldar í staðgreiðsluskilagrein félagsins fyrir þann mánuð.

Samkvæmt framansögðu komu fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins vísbendingar um að tilgreind greidd laun og afdregin staðgreiðsla á skilagrein félagsins vegna febrúar 1996 næmu hærri fjárhæðum en vera bar samkvæmt 16. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem fram kemur sú meginregla að afdráttur staðgreiðslu á hverju greiðslutímabili miðist við þau laun sem greidd séu fyrir það, enda fari útborgun fram eigi síðar en 14 dögum eftir lok þess. Þá liggur fyrir að skýrslan var ekki send innheimtumanni ríkissjóðs fyrr en 24. maí 1996 og verður því að ætla að fyrirsvarsmenn félagsins hafi ekki sjálfir staðið skil á henni. Þegar þetta er haft í huga og til þess litið að gjaldendur staðfestu ekki með óyggjandi hætti í skýrslutökunum að skilagreinin bæri með sér réttar upplýsingar um laun og afdregna staðgreiðslu í samræmi við bókhald félagsins, var ríkt tilefni til þess að skattrannsóknarstjóri ríkisins kannaði grundvöll skýrslunnar nánar en með þeim skýrslutökum sem fram fóru. Með því að það var ekki gert verður ekki talið að nægur grundvöllur hafi verið lagður fyrir sektarákvörðun í máli þessu. Samkvæmt þessu er sektarkröfunni vísað frá yfirskattanefnd.

Gjaldandi, B, hefur gert kröfu um að sér verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða gjaldanda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Gjaldandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til þess ákvarðast málskostnaður gjaldanda úr ríkissjóði 30.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er vísað frá yfirskattanefnd. Málskostnaður gjaldanda, B, til greiðslu úr ríkissjóði ákvarðast 30.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja