Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 747/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr., 95. gr. 1. mgr.   Reglugerð nr. 483/1994, 6. gr. d-liður  

Ekki talið sýnt fram á að útgjöld kæranda, sem var sjálfstætt starfandi læknir, vegna hófs sem hann hélt í tilefni af doktorsprófi sínu gætu talist til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi færði til gjalda í ársreikningi vegna rekstrar læknastofu á árinu 1996, sem fylgdi skattframtali hans árið 1997, kostnað að fjárhæð 47.634 kr. vegna doktorsvarnar. Með bréfi, dags. 28. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að ofangreindur gjaldaliður hefði verið felldur niður þar sem ekki væri um að ræða kostnað vegna öflunar tekna í atvinnurekstri samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu skattstjóra með kæru til hans, dags. 29. ágúst 1997. Kvað umboðsmaður ljóst mega vera að með doktorsnámi tryggði kærandi betur tekjur sínar til frambúðar auk þess sem tekjur lækna hækkuðu almennt að loknu doktorsnámi. Gjaldfærður kostnaður kæranda hafi verið til kominn vegna hófs sem haldið hefði verið í tilefni doktorsprófsins og þar hefði kærandi verið að kynna doktorspróf sitt fyrir áhrifamönnum. Kostnaðurinn væri því sambærilegur við auglýsinga- og viðskiptakostnað fyrirtækja vegna kynningar á söluvörum sínum. Með vísan til þessa fór umboðsmaður fram á að hinn umþrætti gjaldaliður yrði látinn standa óbreyttur og álagning á kæranda árið 1997 leiðrétt til samræmis. Þá kvaðst umboðsmaður mótmæla því með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981 að umræddur gjaldaliður hefði verið strikaður út án þess að kæranda væri gefinn kostur á að koma skýringum sínum á framfæri.

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 27. október 1997. Kvaðst skattstjóri ekki fallast á að gjaldfærður kostnaður kæranda við doktorsvörn væri sambærilegur við auglýsinga- og viðskiptakostnað fyrirtækja. Doktorsnám og doktorsvörn félli undir almennan menntunarkostnað og útgjöld kæranda vegna doktorsvarnar og veisluhófs af því tilefni teldist því til persónulegra útgjalda hans sem ekki væru frádráttarbær samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri tók fram að hann teldi ótvírætt að umræddur kostnaður væri ekki frádráttarbær á grundvelli nefndrar lagagreinar og því hefði fyrirspurnar ekki verið þörf. Var mótmælum kæranda þar að lútandi vísað frá.

Með kæru, dags. 11. nóvember 1997, sbr. bréf, dags. 22. janúar 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og krafist þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og álagning árið 1997 leiðrétt til samræmis. Um málsástæður og rökstuðning vísar umboðsmaður til kæru sinnar til skattstjóra, dags. 29. ágúst 1997.

Með bréfi, dags. 6. mars 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er heimilað að draga rekstrarkostnað frá þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, „það eru þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við… og það sem varið er til tryggingar og viðhalds eignum þeim sem arð bera í rekstrinum“. Ákvæði þetta er samkvæmt orðalagi sínu heimildarákvæði og er það því undantekning frá þeirri meginreglu að mönnum sé skylt að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, sbr. 1. gr. laganna. Af þessu leiðir að skattaðila ber að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt. Kostnaður vegna persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær.

Almennur kostnaður einstaklinga vegna framhaldsnáms getur ekki talist til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heldur er um að ræða persónulegan námskostnað viðkomandi. Með hliðsjón af því og eins og umræddur liður lá fyrir í skattskilum kæranda verður ekki talið að skattstjóra hafi ekki verið unnt að fara með hina kærðu breytingu á skattframtali kæranda eftir ákvæðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, enda bar heiti hins umþrætta frádráttarliðar í ársreikningi kæranda með sér að um væri að ræða kostnað vegna doktorsnáms hans. Af hálfu umboðsmanns kæranda er komið fram að með hófi í tilefni doktorsprófs hafi kærandi verið að „kynna doktorspróf sitt fyrir áhrifamönnum, meðal annars til tryggingar og viðhalds á framtíðartekjum sínum“. Ekkert frekara hefur komið fram um tengsl hófs þessa við rekstur kæranda á læknastofu, svo sem um þátttakendur í hófinu og tengsl þeirra við tekjuöflun kæranda, sbr. til hliðsjónar d-lið 6. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Verður ekki talið að með fram komnum skýringum hafi verið sýnt fram á að umrædd útgjöld, sem fólgin eru í leigu á sal og veitingum, hafi staðið í þeim tengslum við tekjuöflun kæranda að um hafi verið að ræða rekstrarkostnað í skilningi 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er kröfu kæranda því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja