Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjutímabil
  • Greiðsla úr ábyrgðasjóði launa

Úrskurður nr. 786/1998

Gjaldár 1995 og 1996

Lög nr. 75/1981, 60. gr. 2. mgr.  

Talið að kæranda hafi borið að telja greiðslur úr ábyrgðasjóði launa sem hann fékk á árinu 1995 til tekna á skattframtali sínu árið 1996 þar sem ákvæði um óvissar tekjur í 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981 var talið eiga við í málinu. Var kröfu kæranda þess efnis að umræddar greiðslur kæmu til skattlagningar á skattframtali hans árið 1995 synjað.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 9. ágúst 1996, óskaði kærandi leiðréttingar opinberra gjalda sinna gjaldárin 1995 og 1996. Fór hann fram á að greiðslur frá ábyrgðasjóði launa á árinu 1995, 88.353 kr., yrðu færðar af skattframtali sínu árið 1996 á skattframtal 1995, enda væri um að ræða greiðslu launa sem hefðu fallið til á árinu 1994. Með bréfi, dags. 22. október 1996, hafnaði ríkisskattstjóri að færa greiðslur ábyrgðasjóðs launa af skattframtali kæranda árið 1996 á framtal 1995. Tók ríkisskattstjóri fram að litið væri á greiðslur frá ábyrgðasjóðnum sem óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og bæri af þeim sökum að telja þær með tekjum greiðsluárs. Kærandi mótmælti synjun ríkisskattstjóra með bréfi til hans, dags. 29. október 1996, enda nytu laun til launamanns fullrar ábyrgðar og væru því í raun ekki óvissar tekjur. Ríkisskattstjóri staðfesti synjun sína með úrskurði, dags. 19. nóvember 1996.

Með kæru, dags. 4. desember 1996, skaut kærandi úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Með úrskurði yfirskattanefndar nr. 645/1997 var kærunni vísað frá yfirskattanefnd og send skattstjóra til meðferðar.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 23. september 1997, og hafnaði kröfum kæranda. Vísaði skattstjóri til þess að fram kæmi í leiðbeiningum með skattframtali vegna áranna 1995 og 1996 afstaða ríkisskattstjóra til greiðslna úr ábyrgðasjóði launa. Þar kæmi fram það mat ríkisskattstjóra að líta bæri á slíkar greiðslur sem óvissar tekjur, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sem skattleggja skyldi á því ári sem þær fengjust greiddar.

Með kæru, dags. 31. október 1997, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni ítrekar kærandi fyrri rök sín og kröfur í málinu.

Með bréfi, dags. 28. nóvember 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Ríkisskattstjóri gerir ekki kröfu um að málinu verði vísað frá yfirskattanefnd þrátt fyrir að kæran sé dagsett eftir að 30 daga kærufrestur var úti. Ástæða þessa er sú að kærandi kom til ríkisskattstjóra í kærufresti til yfirskattanefndar til að fá ráð varðandi kæruna. Að hluta til má rekja það til misskilnings milli kæranda og starfsmanns ríkisskattstjóra að kæran var ekki útbúin fyrr en að kærufresti liðnum.

Ríkisskattstjóri hefur verið þeirrar skoðunar og gefið þau fyrirmæli í leiðbeiningum með skattframtölum einstaklinga að fáist laun ekki greidd á tekjuárinu þá skuli gera grein fyrir þeim í athugasemdareit skattframtals en telja þau síðan fram á greiðsluári. Þessi regla hefur líka verið talin eiga við um greiðslur úr ábyrgðasjóði launa. Byggir það á því að líta verði á greiðslur úr ábyrgðasjóðnum sem óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Efnislega gerir því ríkisskattstjóri þá kröfu að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

II.

Eftir atvikum þykir rétt að taka kæru kæranda til efnislegrar úrlausnar, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra.

Fram kemur í leiðbeiningum ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtals einstaklinga árin 1995 og 1996 (RSK 8.01) að liggi það fyrir að laun fáist ekki greidd frá vinnuveitanda vegna gjaldþrots hans skuli ekki færa hin ógreiddu laun til tekna en gera grein fyrir þeim í athugasemdum á forsíðu. Þá segir að greiðsla frá ábyrgðasjóði launa teljist til tekna á greiðsluárinu. Telur ríkisskattstjóri þannig að ákvæði um óvissar tekjur í niðurlagi 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi við þegar svo stendur á sem lýst er að framan. Í úrskurðaframkvæmd yfirskattanefndar hefur verið fallist á slíka tilhögun. Samkvæmt þessu bar kæranda að telja til tekna á skattframtali sínu árið 1996 greiðslur þær frá ábyrgðasjóði launa sem hann fékk á árinu 1995, svo sem hann gerði. Er kröfu kæranda því hafnað.

Tekið skal fram að samkvæmt gögnum málsins hefur ríkisskattstjóri með endurákvörðun, dags. 22. október 1996, fellt undan skattlagningu gjaldárið 1995 tilfærðar tekjur kæranda frá hinum gjaldþrota vinnuveitanda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja