Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Gjaldfærsla eftirlaunaskuldbindinga

Úrskurður nr. 970/1998

Gjaldár 1996 og 1997

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 30/1992, 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)  

Krafa bankastofnunar um frádrátt vegna lífeyrisskuldbindinga var tekin til greina með vísan til úrskurðaframkvæmdar, enda var ekki fallist á með skattstjóra að þeirri framkvæmd hefði verið hnekkt með H 1996:470 og H 1997:385.

I.

Með kæru, dags. 29. janúar 1998, sbr. greinargerð í bréfi, dags. 8. júní 1998, hefur umboðsmaður kæranda kært úrskurð skattstjóra, dags. 30. desember 1997, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárin 1996 og 1997 vegna niðurfellingar gjald- og skuldfærðrar lífeyrisskuldbindingar í skattframtölum kæranda þau ár.

Í kæru til yfirskattanefndar er gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi og að skattframtöl kæranda árin 1996 og 1997 standi óhögguð. Þá er krafist málskostnaðar, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 6. júlí 1998.

II.

Kærandi er viðskiptabanki og fellur undir lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði. Með bréfi, dags. 19. ágúst 1997, boðaði skattstjóri kæranda niðurfellingu gjald- og skuldfærðra lífeyrisskuldbindinga í skattframtölum kæranda árin 1996 og 1997 á þeim grundvelli að þessir liðir teldust ófrádráttarbærir frá skattskyldum tekjum og eignum kæranda, sbr. 31. og 76. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Vísaði skattstjóri í því sambandi til dóma Hæstaréttar frá 14. febrúar 1996 (H 1996:470) í máli Olíufélagsins hf. og 30. janúar 1997 (H 1997:385) í máli Vífilfells ehf.

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðaðri endurákvörðun skattstjóra með bréfi, dags. 3. nóvember 1997. Lagði umboðsmaðurinn áherslu á að á árinu 1987 hefði ríkisskattanefnd fellt úrskurð um sama atriði í skattskilum kæranda og fleiri innlánsstofnana vegna ársins 1983 og fallist á kröfu kæranda um frádrátt vegna lífeyrisskuldbindinga. Þessum úrskurðum hefði ekki verið skotið til dómstóla.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 30. desember 1997, hækkaði skattstjóri tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 1996 um 229.155.000 kr. og gjaldárið 1997 um 85.173.228 kr. svo og eignarskattsstofn gjaldárið 1996 um 1.799.914.000 kr. og gjaldárið 1997 um 1.994.522.000 kr. vegna niðurfellingar gjald- og skuldfærðra lífeyrisskuldbindinga og breytingar á verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981 síðara árið og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda umrædd ár samkvæmt því. Skattstjóri tók fram að ekki væri í málinu um að ræða hefðbundin framlög til lífeyrissjóða skv. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Umræddar gjaldfærslur væru skuldfærðar sem hugsanlegar greiðslur til eftirlaunasjóðs starfsmanna kæranda. Hefðu dómstólar talið að eftirlaunaskuldbindingar væru ekki frádráttarbærar í skattskilum, sbr. dóma Hæstaréttar sem að framan er getið. Þá vék skattstjóri að ákvæðum laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, sbr. nú lög nr. 113/1996, og reglna nr. 554/1994, um gerð ársreiknings viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana, og kvað vera um að ræða reikningsskilareglur sem væru óháðar skattalögum. Hinar gjald- og skuldfærðu fjárhæðir byggðust því ekki á settum laga- eða stjórnvaldsfyrirmælum. Vegna þeirrar málsástæðu kæranda að ákvörðun skattstjóra væri andstæð úrskurðaframkvæmd ríkisskattanefndar tók skattstjóri fram að dómar Hæstaréttar gengu framar úrskurðum ríkisskattanefndar, nú yfirskattanefndar, og yrði ekki séð að tilvik í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar væru frábrugðin því sem tíðkist hjá innlánsstofnunum, svo sem skattstjóri reifaði nánar.

III.

Í greinargerð umboðsmanns kæranda, dags. 8. júní 1998, eru eftirfarandi málsástæður færðar til stuðnings kröfu um að ákvörðun skattstjóra verði hnekkt.

1. Fyrir liggi bindandi niðurstaða um álitaefnið, þ.e. úrskurður ríkisskattanefndar nr. 693/1987, og hafi skattyfirvöld ekki talið atvik í því máli sambærileg og í málum nokkurra atvinnufyrirtækja sem dómstólar hafi fjallað um.

2. Úrskurður skattstjóra gangi gegn sjónarmiðum ríkisskattstjóra, sem sé æðra stjórnvald, er komi fram í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 5. apríl 1994, í tilefni af málshöfðun Hf. Eimskipafélags Íslands.

3. Niðurstaða þeirra dóma, sem vitnað sé til í úrskurði skattstjóra, byggi á forsendum, sem ekki eigi við um lífeyrisskuldbindingar banka og sparisjóða, m.a. að til sjóðs sé stofnað einhliða af launagreiðanda. Vísar umboðsmaðurinn þessu til stuðnings til ákvæða kjarasamnings bankastarfsmanna sem gilti tímabilið 1. apríl 1995 -– 31. desember 1996.

4. Ótvírætt sé að gjaldfærslur vegna lífeyrisskuldbindinga kæranda falli undir rekstrarkostnað skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, svo sem umboðsmaður rökstyður nánar, og hafi kærandi hagað gjald- og skuldfærslu þeirra og skattskilum í samræmi við viðauka II í reglum nr. 554/1994, um gerð ársreiknings viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana.

5. Verði úrskurður skattstjóra staðfestur sé brotin jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en fyrir liggi að lánastofnanir utan Reykjavíkur hafi ekki sætt endurákvörðun af sömu ástæðu og kærandi og aðrar lánastofnanir í Reykjavík.

6. Úrskurður skattstjóra brjóti í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Lágmarkskrafa sé að breyting á skattframkvæmd, sem felist í úrskurðinum, sé tilkynnt fyrirfram.

IV.

Með bréfi, dags. 19. júní 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Með vísan til bréfs ríkisskattstjóra til allra skattstjóra dags. 14. maí sl. nr. 034/98 og bréfs ríkisskattstjóra til Sambands íslenskra viðskiptabanka dags. 12. júní sl., telur ríkisskattstjóri rétt að fallast á kröfu kæranda.“

Í málinu liggja fyrir bréf ríkisskattstjóra, sem vísað er til í kröfugerð embættisins, svo og bréf fjármálaráðuneytisins, dags. 3. júlí 1998, til ríkisskattstjóra, vegna lífeyrisskuldbindinga banka og sparisjóða, og svarbréf ríkisskattstjóra, dags. 14. júlí 1998.

V.

Með úrskurði ríkisskattanefndar nr. 693/1987, sem birtur er á bls. 256 í úrtaki úrskurða ríkisskattanefndar frá árunum 1986–1989, og fleiri úrskurðum frá sama tíma, m.a. úrskurði nr. 680/1987 í máli kæranda, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1984, var komist að þeirri niðurstöðu að viðskiptabönkum og sparisjóðum væri heimilt að færa í skattskilum sínum til frádráttar við ákvörðun skattstofna vegna rekstrarársins 1983 lífeyrisskuldbindingar sem um var fjallað í málum þessum. Verður ekki talið að þessari úrskurðaframkvæmd hafi verið hnekkt með dómsúrlausnum sem getið er í hinum kærða úrskurði skattstjóra. Því er fallist á kröfu kæranda í máli þessu um að skattframtöl hans árin 1996 og 1997 standi óhögguð að því er varðar frádrátt vegna lífeyrisskuldbindinga.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum, og rökstutt kröfuna í bréfi, dags. 6. júlí 1998. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Með hliðsjón af framlögðum gögnum um kostnað kæranda af málinu og með vísan til lagaskilyrða fyrir greiðslu slíks kostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður hæfilega ákveðinn 60.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja