Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður lausafjár
  • Atvinnurekstrareign

Úrskurður nr. 1009/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 15. gr.  

Talið að virða bæri viðskipti kæranda með tiltekna bifreið heildstætt þannig að þau hefðu verið hluti af atvinnurekstri hans, en kærandi hélt því fram að um einkabifreið væri að ræða. Var bent á að kærandi hefði eignast bifreiðina með því að taka hana upp í söluverð vörubifreiðar sem tilheyrt hefði atvinnurekstri hans og síðan látið bifreiðina upp í kaupverð annarrar atvinnubifreiðar. Var kröfu kæranda um niðurfellingu á tekjufærslu söluhagnaðar vegna umræddra viðskipta hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1997 fylgdi ársreikningur vegna sjálfstæðrar starfsemi kæranda við verktakastarfsemi. Þá var í greinargerð um eignabreytingar, sem fylgdi framtalinu, gerð grein fyrir kaupum og sölu bifreiðarinnar B. Samkvæmt greinargerðinni var bifreiðin keypt þann 25. janúar 1996 fyrir 1.000.000 kr. og seld 26. apríl sama ár fyrir 1.330.000 kr. Söluhagnaður vegna þessara bifreiðaviðskipta var ekki tekjufærður í skattframtalinu.

Með bréfi, dags. 10. desember 1997, óskaði skattstjóri eftir því að kærandi gerði grein fyrir hvers vegna hann hefði ekki talið til tekna hagnað af sölu framangreindrar bifreiðar. Taldi skattstjóri söluhagnað vegna bifreiðaviðskiptanna falla undir atvinnurekstur kæranda með eftirfarandi hætti:

„Þér takið þessa bifreið upp í söluverð vörubifreiðarinnar A … og þá er kaupverð kr. 1.000.000. Þremur mánuðum síðar seljið þér … þessa bifreið á kr. 1.330.000, í skiptum fyrir Patrol-bifreiðina C, sem þér kaupið á kr. 2.330.000. Þar sem bæði Man vörubifreiðin sem þér selduð og Patrol bifreiðin sem þér keyptuð tilheyra atvinnurekstri yðar verður að líta svo á að tekjur vegna sölu bifreiðarinnar B tengist svo atvinnustarfseminni að ekki verði sundurskildar.“

Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 19. desember 1997, var þess krafist að fallið yrði frá fyrirhugaðri tekjufærslu söluhagnaðar, enda féllu umrædd bifreiðaviðskipti undir ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Tekið var fram að kærandi hefði getað selt bifreiðina A með því að taka bifreiðina B sem hluta af söluverðinu. Kærandi hefði getað notað bifreiðina sem einkabifreið þann tíma sem hann átti hana. Bifreiðin hefði ekkert verið notuð við atvinnurekstur kæranda og hefði kostnaður við rekstur hennar ekki verið færður í rekstrarreikning í atvinnurekstri. Fram kom hjá umboðsmanninum að hann teldi ekki skipta máli hvernig kærandi hefði eignast bifreiðina B. Eftir þriggja mánaða notkun hefði kærandi ákveðið að selja hana þar sem hún hefði ekki hentað honum nógu vel sem heimilisbifreið.

Með bréfi, dags. 5. janúar 1998, boðaði skattstjóri kæranda tekjufærslu á söluhagnaði að fjárhæð 330.000 kr. vegna sölu á bifreiðinni B. Var það niðurstaða skattstjóra að 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981 ætti ekki við í tilviki kæranda. Í bréfi skattstjóra kom fram að ekki gæti talist líklegt að viðskiptin tengdust ekki atvinnustarfsemi kæranda. Kæmi það til af því að „uppítökuverð“ bifreiðarinnar B hefði bein áhrif á söluverð bifreiðarinnar A og „þar með söluhagnað vegna sölu þeirrar bifreiðar“. Auk þess hefði söluverð bifreiðarinnar B bein áhrif á fyrningarstofn bifreiðarinnar C sem gjaldfærðar fyrningar reiknuðust af.

Umboðsmaður kæranda mótmælti boðaðri endurákvörðun skattstjóra með bréfi, dags. 7. janúar 1998. Fram kom að ekki væri hægt að fullyrða að „uppítökuverð“ bifreiðarinnar B hefði haft áhrif á söluverð bifreiðarinnar A eða á sama hátt að kaupverð bifreiðarinnar C hefði ráðist af söluverði bifreiðarinnar B. Auk þess vísaði umboðsmaðurinn í rökstuðning í bréfi sínu, dags. 19. desember 1997. Til vara var þess krafist að bifreiðin C yrði aukaafskrifuð sem næmi hinum umdeilda söluhagnaði á árinu 1996.

Með úrskurði, dags. 2. mars 1998, ákvarðaði skattstjóri hina boðuðu breytingu sem fólst í að tekjufæra söluhagnað vegna hinna umdeildu bifreiðaviðskipta 330.000 kr. Vísaði skattstjóri til bréfs síns, dags. 5. janúar 1998, varðandi rökstuðning fyrir því að um skattskyldan söluhagnað væri að ræða og að ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ætti ekki við. Skattstjóri féllst hins vegar á varakröfu kæranda um að á móti hinum umdeilda söluhagnaði, 330.000 kr., yrði heimiluð sérstök fyrning bifreiðarinnar C sem næmi söluhagnaðinum.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 19. mars 1998. Í kærunni vísar umboðsmaðurinn til rökstuðnings í bréfum sínum til skattstjóra, dags. 19. desember 1997 og 7. janúar 1998, varðandi það að um skattfrjálsan söluhagnað sé að ræða af lausafé, sem ekki hafi verið notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981. Er það áréttað að bifreiðin hafi eingöngu verið notuð sem einkabifreið þann tíma sem hún hafi verið í eigu kæranda og að rekstrarkostnaður vegna hennar hafi ekki verið færður á rekstrarreikning í atvinnurekstri. Til vara er þess krafist að heimilað verði að bifreiðin C verði aukaafskrifuð sem nemi hinum umdeilda söluhagnaði á árinu 1996.

Með bréfi, dags. 14. ágúst 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst söluhagnaður af sölu ófyrnanlegs lausafjár, annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári, og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar telst hagnaður manns af sölu lausafjár, sem ekki er notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þó ekki til tekna, enda geri hann líklegt að sala þess falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi hans eða að eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði. Kærandi hefur mótmælt því að bifreiðaviðskipti þau sem deilt er um í málinu hafi tengst atvinnurekstri hans og heldur því fram að um sölu á einkabifreið hafi verið ræða. Bifreið þá sem deilt er um í máli þessu eignaðist kærandi með því að taka hana upp í söluverð á vörubifreið sem ekki er ágreiningur um að tilheyrði atvinnurekstri hans. Bifreiðin var síðan seld með því að láta hana upp í kaupverð annarrar bifreiðar sem færð var til eignar í atvinnurekstri kæranda. Í ljósi þessa þykir verða að meta bifreiðaviðskipti kæranda heildstætt þannig að kaup hans og sala á bifreiðinni B hafi verið hluti af atvinnurekstri hans. Aðalkröfu kæranda um niðurfellingu tekjuviðbótar skattstjóra er því hafnað.

Skattstjóri hefur þegar fallist á varakröfu kæranda og er hún því tilefnislaus. Ber að vísa henni frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja