Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sektarmál

Úrskurður nr. 1046/1998

Tekjuár 1993

Lög nr. 19/1940, 2. gr.   Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1., 6. og 8. mgr. (brl. 42/1995, 3. gr.)  

Talið sannað að A, sem var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri X ehf., hefði með saknæmum hætti oftalið innskatt á virðisaukaskattsskýrslu X ehf. Var A og X ehf. gerð sameiginleg sekt vegna þessa brots.

I.

Með bréfi, dags. 23. desember 1997, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A og X ehf. (áður hf.) … fyrir brot á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, framin vegna tekjuársins 1993.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra segir:

„A er gefið að sök að hafa, af ásetningi eða í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, sem stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi skattaðilans X ehf., rangfært virðisaukaskattskil skattaðilans á tekjuárinu 1993, með því að útbúa fyrir hönd téðs skattaðila ranga og tilhæfulausa virðisaukaskattsskýrslu vegna uppgjörstímabils virðisaukaskatts fyrir maí–júní 1993, þar sem tilgreindur var innskattur að fjárhæð kr. 941.905, á grundvelli reiknings frá Y hf., án þess að innheimtur hafi verið virðisaukaskattur (útskattur) af viðskiptunum, og standa skil á þeirri virðisaukaskattsskýrslu til skattstjórans í B-umdæmi í því skyni að fá fyrir hönd skattaðilans endurgreiddan tilgreindan innskatt á virðisaukaskattsskýrslunni.

Varðar þessi háttsemi A hana sekt samkvæmt ákvæði 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Þá telst brot þetta varða skattaðilann X ehf. sekt samkvæmt 8. mgr. 40. gr. sömu laga, enda sýnt að brotið var drýgt til hagsbóta fyrir skattaðilann. Hafa ber hér hliðsjón af ákvæði 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að A og skattaðilanum X ehf. verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sektum vegna framangreindra brota.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 23. desember 1997, sem fylgdi kröfugerð hans.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 7. janúar 1998, var A og X ehf. veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef gjaldendur vildu ekki hlíta því að yfirskattanefnd fjallaði um mál þetta og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um það hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Engar athugasemdir hafa borist nefndinni.

III.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á virðisaukaskattsskilum X ehf. uppgjörstímabilið maí–júní 1993, sem einskorðuð var við viðskipti gjaldanda við Y hf., hófst í janúar 1996 og lauk með skýrslu, dags. 6. maí 1996. Vegna rannsóknar málsins var gjaldandi, A, kvödd til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 26. febrúar 1996. Gjaldendur hafa átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Hins vegar liggur fyrir bréf lögmanns gjaldenda til skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 11. febrúar 1997, þar sem farið er fram á að mál þetta verði sent yfirskattanefnd til úrlausnar. Þar sem gjaldendur hafa ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að þeir mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

Við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins kom fram að A hefði vegna X ehf. staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu (viðbótarskýrslu), dags. 3. desember 1993, til skattstjórans í B-umdæmi, þar sem tilgreind var inneign virðisaukaskatts að fjárhæð 941.905 kr. samkvæmt sölureikningi frá Y hf. vegna kaupa X ehf. á … . Sölureikningi þessum hafði A breytt eða látið breyta þannig að tilgreint var að virðisaukaskattur væri innifalinn í heildarfjárhæð sölureikningsins með fyrrnefndri fjárhæð, en seljandi hafði ekki innheimt virðisaukaskatt af viðskiptunum. A var á þessum tíma framkvæmdastjóri og stjórnarformaður X ehf.

Skattstjórinn í B-umdæmi féllst ekki á endurgreiðslu virðisauka-skatts samkvæmt umræddri skýrslu.

Fullsannað þykir með stoð í gögnum málsins, þ.m.t. framburði A í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, að hún hafi með saknæmum hætti oftalið innskatt á virðisaukaskattsskýrslu X ehf. fyrir uppgjörstímabilið maí–júní 1993 um 941.905 kr. Brot A varða hana sektum samkvæmt 6. mgr., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber A sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum, þó þannig að henni verður ekki gerð þyngri refsing en samkvæmt gildandi lögum á þeim tíma er hún framdi brot sitt, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga. Þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 800.000 kr. til ríkissjóðs.

Rétt þykir með vísan til 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, að gera X ehf., …, að greiða sekt þessa in solidum með A.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja