Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 1186/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Reglugerð nr. 483/1994, 3. gr. 7. mgr.  

Kaup kæranda á kertastjökum, kertum og blómum til skreytinga á kaffistofu starfsfólks og kaup hans á sælgæti til að afhenda börnum á öskudag voru talin frádráttarbær rekstrarkostnaður, enda var um hófleg útgjöld að ræða. Fallist var á gjaldfærslu kostnaðar vegna þátttökugjalds í firmakeppni sem starfsmenn kæranda tóku þátt í og kaupa á íþróttafatnaði fyrir starfsmenn vegna sama tilefnis, enda var tekið undir með kæranda að þátttakan gæti sem slík haft auglýsingagildi fyrir kæranda. Á hinn bóginn var synjað um frádrátt kostnaðar vegna íþróttaiðkunar starfsfólks, þ.e. leigu á íþróttasal.

I.

Með kæru, dags. 24. mars 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. febrúar 1998, um að lækka frádráttarbæran rekstrarkostnað kæranda. Kærandi krefst þess að nánar tilgreindir kostnaðarliðir, samtals að fjárhæð 57.518 kr., verði viðurkenndir sem rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hinar kærðu breytingar eru sem hér segir:

1. Ríkisskattstjóri felldi niður gjaldfærðan kostnað vegna þátttökugjalds í firmakeppni sem starfsmenn kæranda tóku þátt í og kaupa á íþróttafatnaði fyrir starfsmenn vegna sama tilefnis, samtals að fjárhæð 16.408 kr. Taldi ríkisskattstjóri kostnað þennan ekki frádráttarbæran samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem útgjöld þessi yrðu ekki talin falla undir rekstrarkostnað til öflunar, viðhalds eða tryggingar tekna.

2. Ríkisskattstjóri felldi niður gjaldfærðan kostnað vegna leigu á íþróttasal, 26.650 kr. Vísaði ríkisskattstjóri til 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri og sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt greininni væri heimilt að telja til rekstrarkostnaðar kostnað við almenna heilsubótaraðstöðu starfsmanna. Var það mat ríkisskattstjóra að þetta þýddi að heimilt væri að gjaldfæra kostnað sem til félli við að útbúa eða viðhalda heilsubótaraðstöðu sem væri til staðar í fyrirtækinu. Kostnaður vegna líkamsræktar sem stunduð væri í almennum líkamsræktarstöðvum eða leiga á sal til íþróttaiðkunar, teldist ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður nema hann væri gefinn upp á launamiðum sem hlunnindi starfsmanna, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 og 1. mgr. 92. gr. sömu laga. Taldi ríkisskattstjóri með vísan til framangreinds ekki um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, enda hefði kærandi ekki byggt á að um hefði verið að ræða skattskyldar tekjur starfsmanna. Í kæru til yfirskattanefndar bendir kærandi á að samkvæmt 8. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994 teljist framlög til starfsmannafélaga til rekstrarkostnaðar. Í firmakeppni klæðist starfsmenn keppnisbúningi með nafni fyrirtækisins og sé það auglýsing fyrir fyrirtækið. Kostnaður vegna íþróttaiðkunar starfsmanna sé greiddur vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins telji að með því sé verið að greiða fyrir almenna fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu, sbr. 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994.

3. Ríkisskattstjóri felldi niður gjaldfærðan kostnað vegna sælgætiskaupa á öskudag að fjárhæð 3.468 kr. Taldi hann að þrátt fyrir að kærandi kysi að halda í þann sið á öskudag að gefa sælgæti til barna sem heimsæktu fyrirtæki og syngju fyrir starfsmenn yrði það ekki talið falla undir rekstrarkostnað til öflunar, viðhalds eða tryggingar tekna í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kærandi bendir á í kæru til yfirskattanefndar að þetta hafi góð áhrif á ímynd fyrirtækisins gagnvart viðskiptavinum framtíðarinnar. Áratuga hefð sé fyrir þessu á Akureyri og hafi það að mati kæranda mikið auglýsingagildi fyrir fyrirtækið að ná þannig til framtíðarviðskiptavina sinna. Af þeim sökum hljóti umræddur kostnaður að teljast rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981.

4. Ríkisskattstjóri felldi niður gjaldfærðan kostnað vegna kaupa á kertastjökum, kertum og blómum til skreytinga á kaffistofu starfsfólks að fjárhæð 10.992 kr, þar sem hann gæti ekki talist rekstrarkostnaður í skilningi 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Kærandi bendir á í kæru til yfirskattanefndar að ef vinnuumhverfi starfsmanna sé gott verði afköst starfsmanna meiri, betri vinnuandi skapist á vinnustað o.s.frv. Hafi þessi atriði búið að baki hjá stjórnendum fyrirtækisins þegar framangreindir munir hafi verið keyptir fyrir kaffistofu starfsfólks.

Með bréfi, dags. 24. apríl 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Í ágreiningi í máli þessu er einungis sú ákvörðun ríkisskattstjóra að fella niður frádrátt að fjárhæð 57.518 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1995.

...

Um 1. Að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á þennan gjaldalið, enda verður að taka undir það með kæranda að þátttaka í firmakeppni geti sem slík haft auglýsingagildi fyrir kæranda og að auki felist ákveðin auglýsing í að fulltrúar fyrirtækisins í firmakeppni klæðist búningum merktum fyrirtækinu.

Um 2. Kostnaður vegna íþróttaiðkunar starfsfólks hefur í úrskurðaframkvæmd ekki verið talinn falla undir frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá tekur ákvæði 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, þar sem fram kemur að kostnaður við almenna fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustu og almenna heilsubótaraðstöðu teljist til rekstrarkostnaðar, ekki til umræddra útgjalda kæranda, enda verður ákvæði þetta ekki skýrt rýmri skýringu en felst í beinu orðalagi þess. Tekið skal fram að kærandi hefur ekki haldið því fram að hann hafi talið viðkomandi starfsmönnum umrædd útgjöld til tekna. Er ákvörðun ríkisskattstjóra um niðurfellingu þessa kostnaðarliðar því staðfest.

Um 3. Að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á þennan gjaldalið, enda verður að taka undir það með kæranda að kostnaður þessi geti talist til kynningarkostnaðar og kostnaðurinn hóflegur.

Um 4. Að virtum skýringum kæranda þykir mega fallast á að kaup á kertastjökum, kertum og blómum til skreytinga á kaffistofu sé frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 enda er um hóflegan kostnað að ræða.

Það leiðir af framangreindri niðurstöðu um einstaka kæruliði að rekstrarkostnaður hækkar um 30.868 kr. og samtala flýtifyrninga samkvæmt hinum kærða úrskurði lækkar um sömu fjárhæð í 814.282 kr. Er lækkun flýtifyrningar færð á A sem lækkar úr 109.831 kr. í 78.963 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja