Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 133/2001

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 106. gr. 1. mgr.  

Skattstjóri rökstuddi álagsbeitingu vegna síðbúinna framtalsskila kærenda árið 2000 með vísan til þess að framtalsskil þeirra árið 1996 hefðu einnig verið síðbúin. Yfirskattanefnd féll frá álagsbeitingu, m.a. með tilliti til þess að nokkuð var um liðið frá því að dráttur varð á framtalsskilum kærenda árið 1996.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtal kærenda árið 2000 barst skattstjóra 15. júní 2000, eða að framtalsfresti liðnum en áður en álagningu var lokið. Skattstjóri tók framtalið sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með kæruúrskurði, dags. 14. nóvember 2000, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda í stað áætlunar. Við skattstofna bætti skattstjóri 10% álagi, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, vegna síðbúinna framtalsskila og með vísan til síðbúinna framtalsskila kærenda gjaldárið 1996, en ekki þætti sýnt fram á að 3. mgr. 106. gr. nefndra laga ætti við í tilviki kærenda.

Með kæru, dags. dags. 27. nóvember 2000, hefur umboðsmaður kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Er þess krafist að álagsbeiting skattstjóra verði felld niður. Greinir umboðsmaðurinn frá því að um vorið þegar verið var að ganga frá uppgjöri og gerð ársreiknings hafi orðið misskilningur milli umboðsmannins og kærenda og hafi þau verið í sumarfríi erlendis og ekki komið til landsins fyrr en um miðjan júní en umboðsmaðurinn hafi talið að þau kæmu til landsins viku fyrr og hefði tjáð þeim að skil yrðu nægjanlega tímanleg þótt síðbúin væru. Væru þessi síðbúnu skil því sök umboðsmannsins.

Með bréfi, dags. 2. mars 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Umboðsmaður krefst þess að álag vegna síðbúinna skila verði fellt niður þar sem það hafi verið sök umboðsmannins að framtölum kærenda var skilað of seint til skattstjóra.

Ríkisskattstjóri gerir þá kröfu að álagsbeiting skattstjóra verði staðfest. Kærendur geta ekki öðlast rýmri rétt til undanþágu frá beitingu álags þó þeir fái aðstoð við framtalsgerðina. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kærenda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eigi við.“

II.

Krafan um niðurfellingu álags er rökstudd með því að atvik, er varða umboðsmann kærenda, hafi valdið þeim drætti sem varð á framtalsskilum kærenda árið 2000.

Samkvæmt úrskurðarframkvæmd er litið svo á að framteljendur geti ekki losnað undan ábyrgð sinni á því að skattframtal berist skattstjóra á réttum tíma með því að fela öðrum gerð þess og skil. Þá hefur skipt máli samkvæmt skatt- og úrskurðarframkvæmd varðandi beitingu álags vegna síðbúinna framtalsskila hvort um ítrekuð síðbúin framtalsskil er að ræða. Hvað snertir síðargreinda atriðið þá hefur skattstjóri einungis vísað til þess að framtalsskil kærenda árið 1996 hafi verið síðbúin. Að þessu athuguðu og þar sem þannig er nokkuð umliðið frá því að umræddur dráttur varð á framtalsskilum kærenda og með tilliti til þess að skattframtal kærenda árið 2000 barst fyrir lok álagningar það ár þykir að þessu sinni mega falla frá beitingu álags samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 í tilviki kærenda gjaldárið 2000.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfur kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja