Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frestun á skattlagningu söluhagnaðar
  • Álag vegna söluhagnaðar

Úrskurður nr. 422/2002

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 13. gr. 1. mgr.  

Kærandi, sem hafði óskað eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar fasteignar um tvenn áramót í skattframtali sínu árið 2000, fór fram á að söluhagnaðurinn yrði skattlagður gjaldárið 2001 með því að hann hygðist ekki afla sér eigna til að fyrna á móti söluhagnaði innan tilskilins tíma. Skattstjóri féllst á kröfu kæranda og tekjufærði söluhagnaðinn en að viðbættu 10% álagi. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda þess efnis að 10% álag yrði fellt niður. Var tekið fram að ákvörðun skattstjóra um að fallast á beiðni kæranda um tekjufærslu söluhagnaðar í skattframtali hans árið 2001 væri í samræmi við verklagsreglu ríkisskattstjóra sem rúmaðist innan orðalags 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981.

I.

Kæruefni í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 10. desember 2001, er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt kæruúrskurði, dags. 30. október 2001, að bæta 10% álagi, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, við tekjufærðan frestaðan söluhagnað frá árinu 1999 í skattframtali kæranda árið 2001.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda árið 2000 var gerð grein fyrir sölu X fyrir 25.500.000 kr. og útreikningi söluhagnaðar 23.121.843 kr., sbr. greinargerð um kaup og sölu eigna sem fylgdi skattframtalinu, og fór kærandi fram á frestun skattlagningar söluhagnaðarins.

Með kæru til skattstjóra, dags. 13. ágúst 2001, kærði kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2001. Kærandi vísaði til þess að að hann hefði árið 1999 selt fasteign að X-götu í R og gert grein fyrir sölunni í skýrslu um kaup og sölu eigna (RSK 3.02), sem fylgt hefði skattframtali hans árið 2000, og óskað eftir frestun á skattlagningu skattskylds söluhagnaðar 23.121.843 kr.. Kvaðst kærandi ekki hafa fjárfest neitt á móti frestaðri skattlagningu söluhagnaðar og ákveðið að gera það ekki og færi hann því fram á að söluhagnaðurinn yrði skattlagður.

Með kæruúrskurði, dags. 30. október 2001, féllst skattstjóri á að tekjufæra frestaðan söluhagnað frá árinu 1999 í skattframtali kæranda árið 2001, framreiknaðan samkvæmt verðbreytingarstuðli 1,0418 og að viðbættu 10% álagi. Skattstjóri vísaði í þessu sambandi til 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981 og tók fram að ekki yrði séð að ákvæðið um 10% álag ætti ekki við þótt ekki væri búið að fresta söluhagnaðinum yfir tvenn áramót. Alls kæmu því til tekna 26.497.169 kr.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. desember 2001, gerir kærandi þá kröfu að 10% álag samkvæmt kæruúrskurði skattstjóra verði fellt niður þannig að fjárhæð tekjufærðs söluhagnaðar lækki um 2.408.835 kr. Kveðst kærandi hafa haft þær upplýsingar að ef hann nýtti sér ekki rétt til að fresta skattlagningu á söluhagnaði að fullu um tvenn áramót yrði 10% álagi ekki beitt. Því hefði kærandi ákveðið að nýta sér ekki rétt sinn að fullu og beðið um skattlagningu söluhagnaðar og hætt við fjárfestingu.

IV.

Með bréfi, dags. 11. janúar 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, telst hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna samkvæmt 32. gr. laganna, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 75/1981 er skattaðila heimilt að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 32. gr. laganna, um fjárhæð sem nemur skattskyldum söluhagnaði samkvæmt 11. gr. laganna á því ári sem hagnaðurinn færist til tekna. Í 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. laganna er kveðið á um að eigi skattaðili ekki eignir, sem hann geti fyrnt á þennan hátt á því ári þegar sala fer fram, geti hann farið fram á frestun skattlagningar á söluhagnaði um tvenn áramót, enda afli hann sér eigna sem fyrna má samkvæmt 32. gr. innan þess tíma og fyrni þær um fjárhæð sem nemi hinum skattskylda söluhagnaði. Í 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981 segir: „Ef eignanna er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist að viðbættu 10% álagi.“

Í Handbók um tekjuskatt og eignarskatt, sem ríkisskattstjóri gaf út í mars 1996, er í kafla 3.8.8.2 gerð grein fyrir túlkun og skýringum ríkisskattstjóra á þeim álitaefnum sem á reynir í máli þessu. Þar segir m.a.:

„Ef ekki er aflað … fyrnanlegra eigna innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn eða eftirstöðvar hans með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því hann myndaðist að viðbættu 10% álagi skv. 1. mgr. 13. gr. SL. Ekki [skiptir] máli varðandi beitingu álags þótt tap hafi verið á næstu tveimur árum á eftir söluári. Sé óskað eftir að söluhagnaðurinn sé skattlagður á fyrra ári frestsins þótt ekki hafi verið keyptar fyrnanlegar eignir skal fallast á það en 10% álag bætist við framreiknaðan söluhagnað.“

Eins og fram er komið féllst skattstjóri með hinum kærða úrskurði á þá beiðni kæranda að færa til tekna í skattskilum hans vegna tekjuársins 2000 söluhagnað sem frestað hafði verið skattlagningu á frá árinu 1999, þótt ekki hefði kærandi árið 2000 aflað sér eigna sem heimilt væri að fyrna sérstakri fyrningu á móti söluhagnaði, og bætti skattstjóri 10% álagi við framreiknaðan söluhagnað með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981. Ákvörðun skattstjóra var í samræmi við framangreinda verklagsreglu ríkisskattstjóra sem heimilar að orðið sé við beiðni af því tagi sem kærandi bar fram, en að viðbættu 10% álagi samkvæmt nefndu ákvæði. Með því að telja verður verklagsreglu þessa rúmast innan orðalags 1. mgr. 13. gr. laga nr. 75/1981 og þar sem krafa kæranda verður ekki skilin þannig að hann hverfi frá fyrrgreindri beiðni sinni, þannig að söluhagnaður komi til skattlagningar gjaldárið 2002, þykir verða að synja kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um niðurfellingu 10% álags á tekjufærðan söluhagnað gjaldárið 2001 er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja