Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur, sekt
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 421/2002

Þungaskattur 2001

Lög nr. 3/1987, 14. gr., 18. gr. 3. mgr.   Stjórnsýslulög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr.  

Ákvörðun ríkisskattstjóra um að gera kæranda sekt á þeim grundvelli að innsigli við ökumæli bifreiðar hans hefði verið rofið var felld úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Var m.a. talið að málið hefði í veigamiklum atriðum verið óupplýst þegar ríkisskattstjóra boðaði kæranda endurákvörðun þungaskatts og sektarákvörðun vegna rofins innsiglis og andmælaréttur kæranda verið fyrir borð borinn.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, sem móttekin var hinn 14. maí 2002, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 23. apríl 2002, um að gera kæranda sekt að fjárhæð 5.000 kr. samkvæmt 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að innsigli á ökumæli ökutækisins X hafi verið rofið.

II.

Málavextir eru þeir að ríkisskattstjóri ritaði kæranda bréf, dags. 10. desember 2001, sem bar yfirskriftina „fyrirspurn og boðun á grundvelli skýrslu um brot á reglum um þungaskatt“. Í bréfi þessu var vísað til þess að embættið hefði móttekið skýrslu nr. 5404 frá eftirlitsmönnum Vegagerðarinnar um brot á reglum um þungaskatt sem gerð hefði verið hinn 5. júní 2001 vegna ökutækisins X. Í bréfinu vísaði ríkisskattstjóri til umræddrar skýrslu og tók fram að samkvæmt henni hefði innsigli verið rofið við ökumæli. Var óskað upplýsinga um hvort kærandi hefði haft vitneskju um að innsiglið hefði verið rofið og ef svo væri frá hvaða tíma. Ennfremur var óskað eftir afriti af akstursbók ökutækisins frá þeim tíma sem innsiglið hefði verið rofið og þar til gert hefði verið við það svo og afriti af kvittun verkstæðis fyrir viðgerðinni og afriti af smurbók væri hún fyrir hendi.

Ríkisskattstjóri vísaði í bréfi sínu til 1. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, og gerði efnislega grein fyrir þeim ákvæðum. Í samræmi við ákvæði þessi bæri ríkisskattstjóra, bærist honum tilkynning um að innsigli ökumælis hefði verið rofið, að tilkynna eiganda eða umráðamanni ökutækisins skriflega um fyrirhugaða endurákvörðun vegna vantalins aksturs og skora á viðkomandi að láta í té skýringar og gögn. Bærust ríkisskattstjóra fullnægjandi skýringar eða gögn innan frests endurákvarðaði hann skatt á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ef gögn bærust hins vegar ekki eða væru ófullnægjandi skyldi endurákvörðun vegna vantalins aksturs nema sem svaraði annað hvort til 2.000 km eða 500 km aksturs fyrir hverja byrjaða viku sem talið yrði að akstur hefði verið vantalinn, nema fyrirliggjandi gögn bentu til þess að akstur kynni að hafa verið meiri.

Ríkisskattstjóri tók fram, sbr. greind ákvæði 14. gr. laga nr. 3/1987, að bærust honum fullnægjandi skýringar eða gögn kæranda innan veitts svarfrests endurákvarðaði hann skatt á grundvelli fyrirliggjandi gagna eða skýringa, en að öðrum kosti yrði akstur áætlaður og endurákvarðað á þeim grundvelli. Þannig viðbættur, áætlaður þungaskattur mynda verða 16.000 km fyrir síðustu átta vikur áður en greind skýrsla var gerð. Ef innsend eða fyrirliggjandi gögn bentu hins vegar ekki til þess að akstur ökutækisins hefði verið vantalinn kæmi ekki til endurákvörðunar þungaskatts samkvæmt 14. gr. laga nr. 3/1987. Við þær aðstæður væri hins vegar fyrirhugað að beita kæranda sekt að fjárhæð 5.000 kr. með vísan til 3. mgr., sbr. 1. mgr., 18. gr. laga nr. 3/1987. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir efni þess ákvæðis. Þar kæmi fram að hefði eigandi eða umráðamaður ökutækis brotið gegn 1. mgr. án þess að talið yrði að akstur hefði verið vantalinn skyldi ríkisskattstjóri ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 50.000 kr. Tók ríkisskattstjóri jafnframt fram að embættið hefði á grundvelli ákvæðisins sett sér verklagsreglur um beitingu sekta í þeim tilvikum þegar innsigli hefði verið rofið. Kæmi fram í verklagsreglunum að fyrir fyrsta brot næmi sektarfjárhæð 5.000 kr., 7.500 kr. fyrir annað brot, 10.000 kr. fyrir þriðja brot og 20.000 kr. fyrir fjórða brot eða fleiri, þ.e. fyrir ítrekuð brot. Brot teldist vera ítrekað ef gjaldandi hefði áður verið sektaður vegna rofins innsiglis. Í lok bréfs síns tók ríkisskattstjóri fram að með vísan til 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/1987 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri kæranda veittur 15 daga frestur frá dagsetningu bréfsins til að koma að skriflegum athugasemdum.

Ekki bárust athugasemdir frá kæranda við bréf ríkisskattstjóra, dags. 10. desember 2001. Með bréfi, dags. 23. apríl 2002, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og tók fram að sekt kæranda ákvarðaðist 5.000 kr. með vísan til 3. mgr., sbr. 1. mgr., 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, þar sem innsigli við ökumæli á ökutækinu X hefði verið rofið. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir ákvæðum 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 og verklagsreglum embættisins um beitingu sekta samkvæmt ákvæði þessu. Forsendur ríkisskattstjóra voru svohljóðandi:

„Samkvæmt skýrslu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar er gerð var þann 5. júní 2001 var innsigli rofið við ökumæli. Í kjölfar þess sendi ríkisskattstjóri yður fyrirspurnar- og boðunarbréf dags. 10. desember 2001, tilvísun 200102058 4827, sem þér hafið eigi svarað. Af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu telur ríkisskattstjóri að hér sé ekki um vantalinn akstur að ræða. Hins vegar eru eigi að finna skýringar né gögn sem til þess eru fallin að falla beri frá beitingu áðurnefndrar sektar.“

III.

Af hálfu kæranda hefur greindri sektarákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 23. apríl 2002, verið skotið til yfirskattanefndar með ódagsettri kæru sem barst 14. maí 2002. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi lánað malarvagn með skráningarnúmerinu X til Z síðastliðið sumar og hafi hann ekki verið látinn vita af því að innsigli ökumælis hefði rofnað. Honum hafi fyrst verið tilkynnt um það með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 10. desember 2001, og mótmæli hann því ekki að innsiglið hafi rofnað, enda hafi hann verið í öðrum landshluta þegar þetta hafi gerst. Mjög algengt sé að innsigli á ökumælum brotni eða slitni af án þess að ökumaður veiti því athygli. Telji hann að það sé athugandi hvort ekki eigi að breyta um aðferð við að innsigla mæla af þessu tagi.

IV.

Með bréfi, dags. 30. maí 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að sektarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

I.

Ríkisskattstjóri sendi fyrirspurn og boðun v/skýrslu um brot á reglum um þungaskatt dags. 10. desember 2001 (tilv. 200102058 4827), en skv. skýrslunni var innsigli rofið við ökumæli. Óskað var eftir upplýsingum um hvort eiganda var kunnugt um að innsigli var rofið og frá hvaða tíma. Jafnframt var óskað eftir afriti af akstursbók frá þeim tíma er innsiglið rofnaði þar til gert var við það, afriti af kvittun verkstæðis fyrir viðgerðinni og afriti af smurbók, væri hún fyrir hendi. Þá var boðuð sekt skv. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. síðari breytingar, en þar er ríkisskattstjóra gert að ákvarða sekt þrátt fyrir að eigi sé um vantalinn akstur að ræða, ef um brot skv. 1. mgr. 18. gr. sömu laga er að ræða.

Ekkert svar barst frá kæranda. Ríkisskattstjóri taldi, af þeim gögnum sem fyrir lágu í málinu, að ekki hafi verið um vantalinn akstur að ræða. Engar skýringar eða gögn komu fram sem til þess voru fallin að falla mætti frá beitingu sektar og kom því boðuð sekt til framkvæmdar sbr. bréf ríkisskattstjóra dags. 23. apríl (tilv. 200102058 6446).

II.

Kærandi kemur ekki fram með neinar nýjar upplýsingar í ódagsettu bréfi sínu er barst yfirskattanefnd 14. maí 2002 og ríkiskattstjóra 21. maí 2002. Í bréfi kæranda er ekki að finna neinar kröfur eða rökstuðning fyrir þeim. Kærandi kveðst hafa lánað vagninn og ekki vitað af því að innsiglið var rofið. Þá telur hann algengt að innsigli rofni án þess að ökumaður taki eftir því og athugandi væri hvort ekki ætti að reyna að breyta um aðferð við að innsigla mæla af þessu tagi.

III.

Ríkisskattstjóri vill taka fram að hér er um formbrot að ræða sem ber að sekta fyrir skv. ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987. Ríkisskattstjóri hefur sett sér verklagsreglur um beitingu sekta þegar innsigli er rofið. Þær eru kr. 5.000 fyrir fyrsta brot, kr. 7.500 fyrir annað brot, kr. 10.000 fyrir þriðja brot og kr. 20.000 fyrir fjórða brot eða fleiri. Þar sem hér var um fyrsta brot að ræða ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda 5.000 kr. sekt.

Ríkisskattstjóri fer fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra um sekt verði staðfest með vísan til forsendna, þar sem gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 3. júní 2002, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í bréfi sínu, dags. 10. desember 2001, krafði ríkisskattstjóri kæranda jöfnum höndum um upplýsingar og gögn um ýmiss atriði og boðaði kæranda jafnframt endurákvörðun þungaskatts vegna hugsanlegs vantalins aksturs, sbr. 14. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, sbr. c-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, svo og kvaðst ríkisskattstjóri hafa í hyggju að ákvarða kæranda sekt eftir heimild í 3. mgr., sbr. 1. mgr., 18. gr. sömu laga ef innsend eða fyrirliggjandi gögn bentu ekki til þess að akstur hefði verið vantalinn. Hinn 23. apríl 2002 ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda hina umdeildu sekt á þeim grundvelli að innsigli við ökumæli á X hefði verið rofið og engar skýringar eða gögn lægju fyrir sem gæfu tilefni til að falla frá sektarbeitingu. Þá kom fram að ríkisskattstjóri taldi að ekki væri um vantalinn akstur að ræða. Samkvæmt bréfi ríkisskattstjóra, dags. 10. desember 2001, er ljóst að málið var í veigamiklum atriðum óupplýst, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þannig að ekki var gerlegt og andstætt ákvæðum 14. gr. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. lög nr. 68/1996, að boða kæranda á því stigi endurákvörðun þungaskatts og sektarákvörðun. Með þessari málsmeðferð var og andmælaréttur kæranda borinn fyrir borð, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ástæða er til að benda á að skv. 17. gr. laga nr. 3/1987, sbr. lög nr. 68/1996, er endurákvörðun ríkisskattstjóra formlegur úrskurður sem er kæranlegur til yfirskattanefndar. Sama gildir um sektarákvörðun ríkisskattstjóra, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. nefndra laga. Eðli málsins samkvæmt er sérstaklega brýnt, svo sem kærumeðferð er háttað, að tryggur grundvöllur sé lagður undir þær breytingar sem ríkisskattstjóri boðar. Ótækt er með öllu að ríkisskattstjóri boði breytingar áður en hann hefur fullnægt lögmæltri rannsóknarskyldu í máli eins og gerst hefur í máli þessu.

Að virtri framangreindri málsmeðferð ríkisskattstjóra þykir rétt að fella hinu kærðu sektarákvörðun úr gildi.

Ástæða er til að taka fram að málsmeðferð ríkisskattstjóra í máli þessu er sömu annmörkum haldin og var á árinu 1997, sbr. m.a. úrskurði yfirskattanefndar nr. 402/1998 og nr. 1150/1998 í hliðstæðum málum. Ber að átelja það að embættið skuli ekki hafa komið málsmeðferð sinni í lögmætt horf.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja