Úrskurður yfirskattanefndar

  • Endurbætur eða viðhald

Úrskurður nr. 127/2002

Gjaldár 2000

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Reglugerð nr. 483/1994, 4. gr.  

Kærandi, sem rak smábátaútgerð, endurnýjaði vél, sjálfstýringu og fiskileitartæki í báti sínum þar sem fyrri vél og tæki höfðu gengið úr sér vegna venjulegrar notkunar bátsins við útgerð kæranda um árabil. Yfirskattanefnd hafnaði því að umrædd kaup vélar og tækja gætu talist til frádráttarbærs viðhaldskostnaðar.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi hefur með höndum smábátaútgerð. Skattframtali hans árið 2000 fylgdi ársreikningur fyrir árið 1999 vegna útgerðar X. Samkvæmt rekstrarreikningi nam gjaldfærður viðhaldskostnaður báts og búnaðar 2.501.525 kr. og gjaldfærð tölva og tölvubúnaður 181.353 kr. Í kjölfar bréfaskipta, sbr. bréf skattstjóra, dags. 20. og 31. október 2000, og svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 26. október og 16. nóvember 2000, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 11. janúar 2001, endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 2000 vegna tilgreindra breytinga sem hann hygðist gera á skattskilum kæranda fyrir rekstrarárið 1999. Um var að ræða lækkun gjaldfærðs viðhaldskostnaðar báts og búnaðar um samtals 2.039.847 kr., þar sem ekki væri fallist á gjaldfærslu kostnaðar vegna vélarskipta og kaupa á fiskileitartæki og sjálfstýringu, og lækkun gjaldfærðrar tölvu og tölvubúnaðar samtals að fjárhæð 175.631 kr., enda væri um að ræða endurbætur í fyrra tilvikinu og eignasamstæðu í hinu síðara, sbr. 41. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri boðaði eignfærslu greindra liða á fyrrnefndum grundvelli og að almenn fyrning yrði reiknuð 8% í fyrra tilvikinu eða 163.188 kr. og 20% í hinu síðara eða 35.126 kr. Þá boðaði skattstjóri beitingu álags á þá hækkun skattstofna sem af þessum breytingum leiddi, sbr. 2. mgr. 106 gr. laga nr. 75/1981. Fyrirhuguðum breytingum skattstjóra var mótmælt af hálfu kæranda með bréfi umboðsmanns hans, dags. 9. febrúar 2001, og á því byggt m.a. að ekki væri um endurbætur að ræða á bátnum og búnaði hans. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd. Skattstjóri bætti 25% álagi við vantalda skattstofna kæranda samkvæmt fyrrgreindri lagaheimild.

Með kæru, dags. 25. maí 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001, til yfirskattanefndar. Þess er krafist aðallega að allar breytingar skattstjóra samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun verði felldar úr gildi. Til vara er þess krafist að gjaldfærðar verði hæstu lögleyfðar almennar fyrningar skips, vélar, fiskileitartækis og sjálfstýringar í stað 8% fyrningar og að áður eignfærður tölvubúnaður í skattframtali árið 2000 65.821 kr. verði gjaldfærður. Þá verði álag fellt niður. Ennfremur er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, en sá kostnaður nemi 70.000 kr. án virðisaukaskatts.

II.

Nánar eru kæruefnin í máli þessu sem hér segir:

1. Kostnaður vegna vélarskipta.

Samkvæmt bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 16. nóvember 2000, var upplýst að kostnaður vegna vélarskipta í báti kæranda hefði numið 1.611.820 kr. sem gjaldfærður hafði verið undir viðhaldskostnaði báts og búnaðar samtals að fjárhæð 2.501.525 kr. Eins og fram er komið leit skattstjóri svo á að greindur kostnaður vegna vélarskiptanna gæti ekki talist til frádráttarbærs viðhaldskostnaðar, heldur bæri að líta svo á að hér væri um endurbætur að ræða sem eignfæra bæri. Lækkaði skattstjóri greindan gjaldalið því um 1.611.820 kr. Niðurstöðu sinni til stuðnings vísaði skattstjóri til 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Nánar sagði svo um þetta í úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001:

„Hér er um það að ræða að vél í bát sem orðin var úr sér gengin vegna aldurs og eðlilegrar notkunar var færð í svipað horf og þegar gjaldandi eignaðist hana en deilt er um hvort fara eigi með slíka breytingu sem viðhald eða endurbætur. Þegar litið er á fyrstu þrjár málsgreinar 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994 telur skattstjóri að ekki fari milli mála að breyting eins og hér er um að ræða teljist til endurbóta. Það að færa eign sem gengið hefur úr sér vegna aldurs eða notkunar í fyrra horf telst ótvírætt til endurbóta en ekki viðhalds. Við slíka breytingu verður eignin verðmeiri og því ber að eignfæra kostnað við breytinguna. Ef endurbætur af þessu tagi væru gjaldfærðar yrði bókfærð eign ekki í samræmi við raunverulegt verðmæti sem er andstætt 23. gr. laga nr. 145/1994, sbr. einnig 6. gr. laganna. Það er misskilningur hjá umboðsmanni yðar að skattstjóri hafi talið að sundurliðun efnahagsreiknings yðar væri áfátt. Skattstjóri var að benda á að skv. ákvæðum bókhaldslaga ættu þær upplýsingar sem fram koma í ársreikningi að gefa skýra mynd af verðmæti eigna.“

Samkvæmt framansögðu eignfærði skattstjóri sem endurbætur 1.611.820 kr. vegna vélarskipta í báti kæranda að teknu tilliti til almennrar fyrningar. Reiknaði skattstjóri 8% almenna fyrningu eða 128.946 kr. og hækkaði gjaldfærðar almennar fyrningar um þá fjárhæð. Samkvæmt þessu hækkaði skattstjóri eignaliðinn „Vélbátur, bókfært endurmetið verð“ um 1.482.874 kr. Skattstjóri tók fram varðandi fyrningarhlutfall að miðað væri við það hlutfall sem kærandi notaði, enda yrði andmælabréf umboðsmanns kæranda, dags. 9. febrúar 2001, ekki skilið þannig að farið væri fram á hækkun fyrningarhlutfalls í 10%.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2001, mótmælir umboðsmaður kæranda því að um endurbætur hafi verið að ræða sem beri að eignfæra. Umboðsmaðurinn tekur fram að umræddur kostnaður sé þannig til kominn að skipt hafi verið um vél í báti kæranda á árinu 1999 og hafi nýja vélin komið í stað þeirrar vélar sem fyrir var í bátnum og verið jafnstór þeirri vél. Þannig hafi hvorki verið um breytingu né stækkun að ræða. Af hálfu umboðsmanns kæranda er vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994 og þá sérstaklega til 2. mgr. þessarar greinar þar sem tekið sé fram að þótt eign gangi úr sér fyrir aldurs sakir, þ.e. fyrnist, þá skuli hún samt talin í svipuðu ástandi að því er viðhald varðar. Því teljist vélarskiptin til viðhalds þar sem verið sé að halda eigninni í svipuðu ástandi og til samræmis við upphaflegt verð en ekki til samræmis við ástand vélarinnar þegar viðhaldið fór fram.

Umboðsmaður kæranda tekur fram að ágreiningsefnið sé það hvort heimilt sé á grundvelli 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994 að gjaldfæra kostnað við vélarskipti í bát kæranda, sem hann hafi átt í 10 ár, sem viðhald þar sem nýja vélin sé sams konar og sú fyrri og engar breytingar eða endurbætur gerðar eða hvort eignfæra beri vélina og fyrna. Í kæru til yfirskattanefndar gerir umboðsmaðurinn þá varakröfu að miðað verði við hæsta lögleyfða fyrningarhlutfall í stað 8% fyrningarhlutfalls, sbr. athugasemd varðandi fyrningarhlutfall í bréfi til skattstjóra, dags. 9. febrúar 2001.

2. Kaup á fiskileitartæki og sjálfstýringu.

Samkvæmt bréfi umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 16. nóvember 2000, var upplýst að meðal gjaldfærðs viðhaldskostnaðar báts og búnaðar 2.501.525 kr. væri kaupverð fiskileitartækis 253.700 kr. og kaupverð sjálfstýringar 174.327 kr. eða samtals 428.027 kr. Eins og fram er komið leit skattstjóri svo á að kostnaður vegna kaupa á tækjum þessum gæti ekki talist til frádráttarbærs viðhaldskostnaðar, heldur væri um endurbætur að ræða sem bæri að eignfæra. Lækkaði skattstjóri því greindan gjaldalið um 428.027 kr. (ranglega tilgreint 428.077 kr. í úrskurði skattstjóra um endurákvörðun). Tók skattstjóri fram að hér gegndi sama máli og varðandi vélarskiptin. Nýir hlutir kæmu í stað annarra sem hefðu verið úr sér gengnir vegna notkunar og aldurs. Samkvæmt þessu eignfærði skattstjóri sem endurbætur 428.027 kr. vegna kaupa á fiskileitartæki og sjálfstýringu að teknu tilliti til almennrar fyrningar. Reiknaði skattstjóri 8% almenna fyrningu eða 34.242 kr. og hækkaði gjaldfærðar almennar fyrningar um þá fjárhæð. Samkvæmt þessu hækkaði skattstjóri eignaliðinn „Vélbátur, bókfært endurmetið verð“ um 393.785 kr. til viðbótar hækkun samkvæmt 1. tölulið hér að framan.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2001, mótmælir umboðsmaður kæranda því að um endurbætur hafi verið að ræða sem borið hafi að eignfæra. Kemur fram að umrædd tæki hafi komið í stað eldri tækja. Er rökstuðningur umboðsmannsins að öllu leyti sá sami og færður er fram varðandi kostnað vegna vélarskipta, sbr. 1. tölul. hér að framan, og vísast til þess sem þar greinir. Þá er sama varakrafa gerð um hækkun fyrningarhlutfalls varðandi þennan lið og vélarskiptin.

3. Kaup á tölvu og tölvubúnaði.

Kærandi gjaldfærði í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1999 tölvu og tölvubúnað að fjárhæð 181.353 kr. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var m.a. gjaldfært undir þessum lið kaupverð prentara 10.988 kr., kaupverð tölvu 84.329 kr. og kaupverð skjás 80.313 kr. eða samtals 175.630 kr. Í bréfi sínu, dags. 11. janúar 2001, boðaði skattstjóri niðurfellingu á 175.631 kr. á þeim grundvelli að eignfæra bæri þessa muni og fyrna, enda teldist vera um eignasamstæðu að ræða, sbr. 41. gr. laga nr. 75/1981, og verðmæti eignanna væri yfir þargreindri hámarksfjárhæð sem sett væri fyrir gjaldfærslu. Vísaði skattstjóri og til tilgreinds úrskurðar yfirskattanefndar í þessu sambandi. Samkvæmt þessu boðaði skattstjóri lækkun á greindum gjaldalið um 175.631 kr. og jafnframt eignfærslu á kaupverði tækjanna að teknu tilliti til almennrar fyrningar. Reiknaði skattstjóri 20% almenna fyrningu eða 35.126 kr. og hækkaði gjaldfærðar fyrningar um þá fjárhæð. Samkvæmt þessu nam eignfærsla í efnahagsreikningi 140.505 kr. Í andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. febrúar 2001, kom fram að um hefði verið að ræða endurnýjun á tölvu sem áður hefði verið gjaldfærð svo og viðbætur. Því væri ekki mótmælt „ef skattstjóri álítur að eignfæra beri þennan kostnað og afskrifa í stað þess að gjaldfæra eins og gert er í skattskilunum, þótt varla teljist það góð reikningsskilavenja að eignfæra tölvubúnað og afskrifa á fimm árum, eins og gert er í skattframkvæmd, þegar haft er í huga að venjulega er tölva álitin úrelt stuttu eftir að hún er keypt“. Skattstjóri leit svo á að þessum breytingum væri ekki andmælt af hálfu kæranda, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001, þar sem þetta kemur fram og breytingunum hrundið í framkvæmd.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2001, er sú aðalkrafa gerð, eins og fram er komið, að ógiltar verði allar breytingar skattstjóra samkvæmt úrskurði hans um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001. Í kærunni gerir umboðsmaðurinn athugasemdir við rökfærslu skattstjóra í boðunarbréfi, dags. 11. janúar 2001, m.a. vegna meðferðar á tölvu og tölvubúnaði. Þá kemur þar fram að umboðsmaður kæranda telur fyrningartíma þessara eigna of langan miðað við úreldingu. Allt að einu er ítrekað að ekki séu gerðar athugasemdir við eignfærslu og fyrningu á fimm árum verði litið svo á að um eignasamstæðu sé að ræða. Þá er sú varakrafa gerð að áður eignfærður tölvubúnaður 65.821 kr. verði gjaldfærður.

4. Álag.

Skattstjóri bætti 25% álagi á þá hækkun skattstofna, sem leiddi af breytingum hans, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Nam álag á hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda 504.291 kr. og hækkun eignarskattsstofns 419.635 kr. Taldi skattstjóri að um verulega annmarka á framtalsgerð kæranda hefði verið að ræða og féllst ekki á að deilt væri um túlkun.

Umboðsmaður kæranda hefur mótmælt álagsbeitingu skattstjóra, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2001, á þeim grundvelli að hin umþrættu atriði í skattskilum kæranda geti ekki talist til verulegra annmarka, enda sé um að ræða ágreining á milli kæranda og skattstjóra um það hvort gjaldfæra eða eignfæra eigi ákveðinn kostnað í rekstri kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Í kæru sinni til yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2001, gerir umboðsmaður kæranda athugasemdir við málsmeðferð skattstjóra. Finnur hann að því að skattstjóri hafi þegar í bréfi sínu, dags. 31. október 2000, notað orðið „endurbætur“ og verði þannig að draga þá ályktun að skattstjóri hafi þá þegar og áður en hann hafi fengið umkrafin gögn talið sig hafa vissu fyrir því að um endurbætur hafi verið að ræða sem eignfæra bæri. Að virtu sakarefninu verður ekki talið að þessi orðanotkun skattstjóra gefi tilefni til þessarar ályktunar umboðsmanns kæranda þótt undir það megi taka, sbr. m.a. orðan 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, að rétt hefði verið að skattstjóri orðaði greint bréf með markvissari hætti að þessu leyti. Að svo vöxnu þykja ekki efni til frekari umfjöllunar um þessa athugasemd umboðsmanns kæranda. Þá finnur umboðsmaður kæranda að tilvísunum skattstjóra til réttarreglna í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 11. janúar 2001, varðandi ranga frásögn af efni bréfs skattstjóra, dags. 31. október 2000, svo sem nánar greinir. Rétt er að skattstjóri tekur ranglega fram í boðunarbréfi sínu að í bréfi, dags. 31. október 2000, hafi verið vísað til 31. gr. laga nr. 75/1981 varðandi eignfærslu og fyrningar. Þessi ónákvæmni er þess eðlis að fráleitt er að ætla að hún hafi getað villt um fyrir kæranda og valdið honum réttarspjöllum. Rétt er að taka fram að bæði í boðunarbréfi sínu, dags. 11. janúar 2001, og úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001, vísaði skattstjóri til 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994 sem hefur grundvallarþýðingu varðandi þann þátt málsins sem lýtur að gjaldfærðum viðhaldskostnaði. Samkvæmt þessu verður ekki talið að neinir þeir annmarkar hafi verið á tilvísunum skattstjóra til réttarreglna að gefi tilefni til athugasemda, sbr. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

1. -– 2. Um vélarskipti og kaup á fiskileitartæki og sjálfstýringu.

Rétt þykir að fjalla í einu lagi um meðferð vélarskipta og endurnýjunar fiskileitartækja og sjálfstýringar í skattskilum kæranda, enda eiga sömu rök við hvað þessa þætti báða varðar.

Samkvæmt því, sem upplýst er í málinu, var vél í báti kæranda svo og fiskileitartæki og sjálfstýring endurnýjuð á árinu 1999 þar sem fyrri vél og tæki höfðu gengið úr sér vegna venjulegrar notkunar bátsins við útgerð kæranda um árabil. Er ekki ágreiningur um það að hin nýja vél og tæki voru sambærileg hinum eldri. Ágreiningurinn varðar það hvort líta eigi á kaup kæranda á nýrri vél í bátinn og greindum tækjum sem endurbætur eða viðhald. Við úrlausn málsins og við mat á því hvað telja beri viðhaldskostnað þykir bera að líta til skilgreiningar í 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir svo um viðhaldsfrádrátt: „Viðhald telst það sem gera þarf til þess að halda eignunum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær voru í, þegar rekstraraðili eignaðist þær, hvort heldur þær voru þá gamlar eða nýjar.“ Þessi regla hefur lengi verið talin gilda í skattskilum, sbr. H 1943:150. Tekið er fram í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar að þótt eign gangi úr sér fyrir aldurs sakir, þ.e. fyrnist, þá skuli hún samt talin í svipuðu ástandi að því er viðhald varðar. Fyrning hennar komi hins vegar til frádráttar samkvæmt 7. gr. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að ef aðili lætur endurbæta eign, sem hann hefur keypt, ellegar er orðin úr sér gengin fyrir aldurs sakir, stækka eign, eða breyta henni, þá skuli það ekki talið til viðhalds. Ennfremur kemur fram að til viðhalds skuli aftur á móti telja að halda eigninni í svipuðu ástandi og hún varð að stækkun, breytingu eða endurbót lokinni. Sé annars vegar viðhald og hins vegar breytingar, endurbætur og/eða stækkun framkvæmd í einu lagi, verður að meta hvað telja beri til hvors um sig, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Eins og fram er komið hefur af hálfu umboðsmanns kæranda sérstaklega verið vísað til 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, sem hér hefur verið rakin, og telur hann að það ákvæði styðji það sérstaklega að líta beri á vélarskiptin og endurnýjun tækjanna til viðhalds, þar sem verið sé að halda eigninni í svipuðu ástandi og til samræmis við upphaflegt verð en ekki til samræmis við ástand vélar og tækja þegar viðhaldið fór fram. Á þessa túlkun umboðsmanns kæranda verður ekki fallist, enda þykir orðalag ákvæðisins, sbr. og tilvísun til frádráttar fyrninga í niðurlagi þess, fremur benda til hins gagstæða.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið, verður ekki talið að umrædd kaup vélar og tækja geti talist til frádráttarbærs viðhaldskostnaðar samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994. Er kröfu kæranda varðandi þessi kæruatriði því hafnað. Eftir atvikum þykir rétt að fallast á varakröfu umboðsmanns kæranda um að miðað verði við 10% fyrningarhlutfall, sbr. 1. tölul. 38. gr. laga nr. 75/1981.

3. Um kaup á tölvu og tölvubúnaði.

Eins og fram er komið leit skattstjóri svo á, sbr. úrskurð hans um endurákvörðun, dags. 24. apríl 2001, að kærandi sætti sig við hinar boðuðu breytingar samkvæmt bréfi skattstjóra, dags. 11. janúar 2001, varðandi meðferð á tölvu og tölvubúnaði í skattskilum kæranda. Að virtum athugasemdum umboðsmanns kæranda í bréfi til skattstjóra, dags. 9. febrúar 2001, varðandi þennan þátt málsins verður ekki fundið að þessari ályktun skattstjóra. Samkvæmt kröfugerð umboðsmanns kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. maí 2001, er hins vegar ljóst að gerð er sú krafa að breytingar skattstjóra varðandi þennan þátt málsins verði felldar niður og til vara að leyfð verði gjaldfærsla á bókfærðu verði áður eignfærðs tölvubúnaðar 65.821 kr. Verður því að veita kröfum þessum úrlausn.

Skattstjóri felldi niður gjaldfærslu á kaupverði tölvu, skjás og prentara samtals að fjárhæð 175.631 kr. samkvæmt þremur reikningum frá Z frá því í september 1999 á þeim forsendum að virða bæri kaup þessi sem kaup á eignasamstæðu, sbr. 41. gr. laga nr. 75/1981. Bæri því að eignfæra og fyrna þessa muni, enda væru kaupin yfir þeirri hámarksfjárhæð sem sett væri í greindu lagaákvæði varðandi gjaldfærslu einstakra eigna og eignasamstæðna.

Ljóst er að gjaldfærsla samkvæmt 41. gr. laga nr. 75/1981 er í eðli sínu sérstök tegund almennrar fyrningar. Vísast til nánari umfjöllunar um gjaldfærsluheimild þessa í úrskurði yfirskattanefndar nr. 636/1997 sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum 2. hefti 1997 (ST 1997:114) og á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Eins og þar kemur fram er ákvæði 41. gr. laga nr. 75/1981 undantekning frá meginreglu laganna um almennar fyrningar. Af þessum sökum þykir bera að skýra ákvæði þetta þröngt og byggja á því sem meginsjónarmiði að hallkvæmisrök til einföldunar og hagræðis í skattskilum vegna kaupa á smáeignum búi að baki fyrningarheimild þessari. Auk þess þykir hafa sérstaka þýðingu við skýringu ákvæðisins að ekki nægir við beitingu heimildarinnar að horfa eingöngu til þess hvort um einstakar, afmarkaðar eignir er að ræða þar sem ákvæðið gerir ráð fyrir því að virða þurfi eignir heildstætt þannig að gjaldfærsluheimild er ekki til staðar, ef þannig háttar til og farið er umfram fjárhæðarmörk að því er tekur til eignasamstæðu.

Í kæru til yfirskattanefndar er því út af fyrir sig ekki mótmælt að virða beri umrædd kaup sem eignasamstæðu í skilningi 41. gr. laga nr. 75/1981. Virðast málsástæður umboðsmanns kæranda frekast byggjast á vangaveltum um endingartíma greindra eigna almennt og jafnvel hvort rétt sé að líta á þær sem fyrnanlegar eignir samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981. Af þessu tilefni skal tekið fram að umræddar eignir ber að telja fyrnanlegar eignir samkvæmt 32. gr. laga nr. 75/1981, sbr. og skatt- og úrskurðaframkvæmd hvað þetta varðar. Eiga þessar málsástæður því ekki við rök að styðjast. Vegna röksemda umboðsmanns kæranda um skamman endingartíma er og rétt að benda á ákvæði 34. gr. laga nr. 75/1981, en þar kemur fram að heimilt sé að gjaldfæra að fullu eftirstöðvar bókfærðs verðs eigna til skatts á því ári sem eignir verða ónothæfar. Varðandi það álitaefni hvort virða beri einstaka þætti hins keypta, þ.e. tölvu, prentara og skjá, sem sjálfstæðar einingar skal tekið fram að þegar litið er til eðlis gjaldfærsluheimildar 41. gr. laga nr. 75/1981 og hvernig skýra ber ákvæðið samkvæmt framansögðu þykir að meginstefnu til bera að taka mið af því hvort um kaup á samkynja eignum er að ræða. Samkvæmt því og eins og búnaði þessum er farið þykja með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, sbr. og úrskurðaframkvæmd, ekki efni til annars en að virða kaup þessi heildstætt með tilliti til gjaldfærsluheimildar 41. gr. laga nr. 75/1981. Ber því að eignfæra búnaðinn og fyrna hann sem eignasamstæðu, sbr. 38. gr. laga nr. 75/1981, svo sem skattstjóri hefur gert. Samkvæmt þessu er aðalkröfu kæranda hafnað að því er tekur til þessa kæruatriðis.

Eins og málið liggur fyrir þykir mega taka varakröfu kæranda um gjaldfærslu á áður eignfærðum tölvubúnaði 65.821 kr. til greina.

4. Um álag.

Í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 er tekið fram að séu annmarkar á framtali, sbr. 96. gr. laganna, eða einstakir liðir ranglega fram taldir megi skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinar þessarar skal fella niður álag m.a. ef skattaðili færir rök að því að honum verði ekki kennt um annmarka á framtali eða óviðráðanleg atvik hafi hamlað því að hann bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess.

Varðandi niðurfellingu álags ber umboðsmaður kæranda því við að engir annmarkar hafi verið á framtalinu eða ranglega fram taldir liðir, heldur sé um að ræða ágreining milli kæranda og skattstjóra um það hvernig fara skuli með kostnaðarliði í skattskilum. Þegar litið er almennt til meðferðar tölvu og tölvubúnaðar í skattskilum með tilliti til gjaldfærsluheimildar 41. gr. laga nr. 75/1981, sbr. skilgreiningu á hugtakinu eignasamstæðu, samkvæmt skatt- og úrskurðarframkvæmd, sbr. m.a. fyrrgreindan úrskurð yfirskattanefndar nr. 636/1997 sem birtur er í Skatta- og tollatíðindum 2. hefti 1997 (ST 1997:114), þykja engin efni til að falla frá beitingu álags að því er tekur til þeirrar hækkunar á skattstofnum kæranda sem leiddi af breytingum skattstjóra á meðferð tölvu og tölvubúnaðar í skattskilum hans fyrir rekstrarárið 1999. Eftir öllum atvikum og með tilliti til eðlis þess sakarefnis, sem varðar ákvörðun þess hvort um viðhald eða endurbætur hafi verið að ræða á báti kæranda, þykir hins vegar mega taka kröfu kæranda til greina og falla frá beitingu álags á þá hækkun skattstofna sem leiddi af þeim breytingum skattstjóra.

Leiðréttingar á úrskurði skattstjóra.

Það athugast að í ljós kemur að í skattútreikningi þeim sem liggur til grundvallar gjaldabreytingum hins kærða úrskurðar hafa verið gerð þau mistök að ekki hefur verið tekið tillit til millifærðs persónuafsláttar frá maka 93.316 kr. Þá hefur gjald í framkvæmdasjóð aldraðra hækkað úr 3.936 kr. í 4.259 kr. Þykir bera að leiðrétta þessi atriði með úrskurði þessum.

Um málskostnað.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins, sem gengið hefur kæranda í hag að hluta, þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en gert grein fyrir slíkum kostnaði. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 10.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfum kæranda í máli þessu er hafnað, að því undanskildu að álag er lækkað að því marki sem að framan greinir. Varakröfur kæranda um hækkun fyrningarhlutfalls báts og búnaðar úr 8% í 10% og um gjaldfærslu á áður eignfærðum tölvubúnaði 65.821 kr. eru teknar til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 10.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja