Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Söluhagnaður

Úrskurður nr. 245/2002

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 7. gr. B-liður og C-liður 8. tölul.  

Kærandi var sjálfstætt starfandi lögmaður. Ágreiningur var um hvort hagnaður kæranda af sölu atvinnuhúsnæðis teldist til tekna af atvinnurekstri hans eða hvort um væri að ræða eignatekjur sem skattleggja bæri sem fjármagnstekjur utan rekstrar. Um var að ræða sölu á alls níu eignarhlutum í húsnæðinu sem allir voru seldir á sama ári. Yfirskattanefnd féllst á með skattstjóra að um væri að ræða tekjur kæranda af atvinnurekstri. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem er sjálfstætt starfandi lögmaður, tilgreindi í reit 522 í skattframtali sínu árið 1998 söluhagnað af húsnæði að fjárhæð 14.810.000 kr. Skattframtalinu fylgdi ekki greinargerð um kaup og sölu eigna (RSK 3.02) vegna sölu húsnæðis á árinu 1997.

Með bréfi, dags. 12. mars 1999, lagði skattstjóri fyrir kæranda að standa skil á útfylltu eyðublaði RSK 3.02 vegna sölu húsnæðis. Svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 6. apríl 1999, fylgdi sundurliðun vegna kaupa kæranda á fasteign að Z í Reykjavík. Kom þar fram að kærandi hefði keypt níu eignarhluta í fasteigninni af X hinn 10. janúar 1997 fyrir 55.390.000 kr. Hefði kærandi selt eignarhlutana tilgreindum aðilum á sama ári fyrir alls 70.200.000 kr. og söluhagnaður þannig numið 14.810.000 kr.

Með bréfi til kæranda, dags. 26. maí 2000, fór skattstjóri fram á frekari skýringar vegna viðskipta kæranda með fasteignina að Z. Tók skattstjóri fram að með tilliti til þess að um atvinnuhúsnæði virtist vera að ræða, sem keypt hefði verið og selt á sama ári, væri óskað eftir rökstuðningi fyrir því „að færa söluhagnað á persónuframtal en ekki með atvinnurekstrartekjum“, eins og sagði í bréfi skattstjóra. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 26. júní 2000, var greint frá því að kærandi hefði um árabil rekið lögmannsstofu, en sá rekstur gengið illa og safnað verulegum skuldum, m.a. vegna ábyrgða sem kærandi hefði tekist á hendur vegna rekstrarins. Kærandi hefði persónulega lagt fram verulega fjármuni til þess að standa við skuldbindingar rekstrarins og hefði sala á eignum verið liður í því að forða rekstrinum frá gjaldþroti. Á árinu 1997 hefði kærandi keypt húsnæði af X og tekist að selja húsnæðið aftur á sama ári. Hefði kærandi lagt alla fjármuni sem fengist hefðu vegna þeirra viðskipta inn í rekstur lögmannsstofunnar til þess að bæta fjárhag hennar og væru það ekki einu fjármunirnir sem kærandi hefði lagt í reksturinn á árinu 1997 vegna eldri áfalla. Eignaskiptin tengdust með engu móti rekstri lögmannsstofunnar og kærandi hefði engan rekstur stundað „með umræddar fjárfestingar“. Kærandi hefði ekki haft neinar tekjur eða útgjöld af fasteigninni og engar viðbætur hefðu átt sér stað á henni á eignarhaldstímanum. Hefði verið talið eðlilegt að færa söluna á persónuframtal, enda væri salan ótengd rekstri kæranda.

Með bréfi, dags. 8. janúar 2001, boðaði skattstjóri endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1998 þar sem fyrirhugað væri að færa söluhagnað fasteignar að fjárhæð 14.810.000 kr. með rekstrartekjum í rekstrarreikningi og fella niður tekjufærslu söluhagnaðarins í reit 522 í skattframtali kæranda. Í bréfinu rakti skattstjóri fram komnar skýringar kæranda á viðskiptum með eignina, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 26. júní 2000. Þá sagði svo í bréfi skattstjóra:

„Ekki er því fallist á að umræddur söluhagnaður af Z tengist yður persónulega þar sem ekki verður annað séð en eignin hafi verið keypt til að selja aftur og [um] atvinnuhúsnæði er að ræða og sá hagnaður sem varð af sölunni rann inní reksturinn. Verður því ekki annað séð en að rekstrartengsl séu þar á milli.

Allt frá framtali 1989 hefur veigamikil tekjuöflun rekstursins skv. rekstrarreikningum verið kaup og eignasala sbr. tekjufærslur og frestun söluhagnaðar milli ára.

Það er því fyrirhugað að færa söluhagnað kr. 14.810.000 af persónuframtali á rekstrarreikning með framtali 1998.“

Af hálfu kæranda var boðunarbréfi skattstjóra ekki svarað og með úrskurði um endurákvörðun, dags. 23. mars 2001, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu í framkvæmd og hækkaði hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda um fjárhæð söluhagnaðar fasteignar 14.810.000 kr. Ítrekaði skattstjóri fyrri rökstuðning og tók fram að engin andmæli hefðu borist frá kæranda við boðunarbréfi skattstjóra.

II.

Með kæru, dags. 21. júní 2001, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 23. mars 2001, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1998 verði felld úr gildi og að kæranda verði heimilað að færa söluhagnað fasteignarinnar Z sem fjármagnstekjur í persónuframtali. Þá er krafist málskostnaðar úr ríkissjóði. Í kærunni ítrekar umboðsmaður kæranda áður fram komin rök í málinu og tekur fram að þegar kærandi hafi fest kaup á umræddri fasteign á árinu 1997 hafi ekki verið ljóst að hagnaður yrði af sölu hennar. Hafi kærandi þannig tekið vissa áhættu, sem reyndar hafi borið árangur. Í 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, komi fram að tekjuskattur af fjármagnstekjum utan rekstrar skuli vera 10% af þeim tekjum. Til fjármagnstekna í því sambandi teljist tekjur samkvæmt 1. – 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, þ. á m. hagnaður af sölu eigna, sbr. 10. – 27. gr. laganna. Þá segir svo í kærunni:

„Það er rétt sem fram kemur í bréfi skattstjóra að kærandi hafi lagt söluhagnaðinn af fasteigninni inn í reksturinn, enda var honum nauðugur kostur einn m.t.t. stöðu rekstrarins á þeim tíma. Kærandi hefur ekki stundað það persónulega að kaupa og selja fasteignir eins og hér um ræðir. Á það er einnig að benda að hér er aðeins um kaup á einni tiltekinni fasteign að ræða en ekki mörgum, sem jafnan gefur tilefni til þess að um atvinnurekstur aðila sé að ræða. Þá naut kærandi ekki annarra tekna af húsnæðinu þannig að varla getur húsnæðið sem slíkt talist atvinnurekstrareign af þeim sökum hjá kæranda. Þá hefur ekki verið upplýst af hálfu skattstjóra hvort breytingar hefðu verið gerðar á framtali hefði ekki verið til staðar söluhagnaður af eigninni.“

III.

Með bréfi, dags. 27. júlí 2001, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Eins og fram er komið er kærandi sjálfstætt starfandi lögmaður. Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort telja beri hagnað kæranda af sölu fasteignar að Z í Reykjavík á árinu 1997 til tekna af atvinnurekstri hans, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða hvort um sé að ræða eignatekjur samkvæmt 8. tölul. C-liðar sömu lagagreinar sem skattleggja beri sem fjármagnstekjur utan rekstrar samkvæmt 3. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 7. gr. laga nr. 97/1996. Skattstjóri taldi að sala fasteignarinnar félli undir atvinnurekstur kæranda, sbr. boðunarbréf skattstjóra, dags. 8. janúar 2001, og úrskurð um endurákvörðun, dags. 23. mars 2001, og færði söluhagnaðinn 14.810.000 kr. sem hreinar tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali kæranda árið 1998 og felldi niður tilgreiningu hagnaðarins í reit 522 í persónuframtali kæranda. Af hálfu kæranda er því hins vegar haldið fram að skattleggja beri umræddan söluhagnað sem fjármagnstekjur utan rekstrar þar sem sala fasteignarinnar hafi ekki tengst rekstri lögmannsstofu kæranda.

Kærandi keypti umrætt atvinnuhúsnæði að Z af X í ársbyrjun 1997. Samkvæmt því sem fram er komið var um að ræða alls níu eignarhluta í fasteigninni og seldi kærandi þá alla á sama ári. Eins og skattstjóri hefur bent á hefur kaup og sala fasteigna verið liður í atvinnurekstri kæranda á liðnum árum og tekjur af útleigu atvinnuhúsnæðis voru færðar með rekstrartekjum í rekstrarreikningum kæranda fyrir árin 1992, 1993, 1994, 1995, 1996 og 1997, sbr. fyrirliggjandi skattframtöl kæranda árin 1993, 1994, 1995, 1997 og 1998. Að þessu athuguðu og að virtum hinum umdeildu viðskiptum kæranda með fasteignina að Z að öðru leyti verður að fallast á það með skattstjóra að hagnaður af sölu eignarinnar falli undir tekjur kæranda af atvinnurekstri, sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt því og þar sem ekki er deilt um fjárhæð söluhagnaðar er kröfu kæranda hafnað.

Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kröfu þar að lútandi er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja