Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vörubirgðir

Úrskurður nr. 120/2003

Gjaldár 2001

Lög nr. 75/1981, 74. gr. 4. tölul.  

Kærandi, sem var sjálfstætt starfandi tónlistarmaður, gjaldfærði í rekstrarreikningi sínum niðurfærslu á birgðum af útgefnum geisladisk á þeim grundvelli að verðmæti diskanna hefði minnkað. Yfirskattanefnd féllst á gjaldfærsluna og benti á að í reynd væri um birgðabreytingu að ræða, enda hefði kærandi hagað uppgjöri sínu á þann veg að eignfæra birgðir geisladiska í árslok og gjaldfæra kostnaðarverð seldra diska á hverju ári fyrir sig.

I.

Kærður er úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 4. júní 2002, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2001. Með úrskurði sínum felldi ríkisskattstjóri niður gjaldfærða niðurfærslu geisladiska að fjárhæð 581.853 kr. í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2000, og hækkaði hreinar tekjur kæranda samsvarandi. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við vantalda skattstofna kæranda, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að breyting ríkisskattstjóra verði felld niður, en til vara að álagi verði ekki beitt.

II.

Málavextir eru þeir að kærandi stundar sjálfstæða starfsemi m.a. við hljómlistarflutning og fylgdu skattframtölum kæranda árin 1998, 1999, 2000 og 2001 ársreikningar vegna starfseminnar. Með fyrirspurnarbréfi, dags. 25. október 2001, óskaði ríkisskattstjóri eftir því að kærandi legði fram hreyfingalista bókhalds rekstrarárin 1997, 1998, 1999 og 2000, auk innskatts- og útskattslista þau ár sem það ætti við. Einnig óskaði ríkisskattstjóri eftir stöðulista aðalbókar með lokafærslum, auk yfirlits yfir bókhaldslykla með virðisaukaskattstengingum. Af hálfu kæranda voru umbeðin gögn lögð fram með bréfi, dags. 10. desember 2001.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2002, óskaði ríkisskattstjóri eftir frekari upplýsingum frá kæranda varðandi tiltekna liði í rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 2000. Óskaði ríkisskattstjóri m.a. eftir upplýsingum um gjaldfærða niðurfærslu á verðmæti geisladiska að fjárhæð 581.853 kr. samkvæmt rekstrarreikningi kæranda umrætt ár og tók fram að óskað væri eftir ítarlegum upplýsingum þar sem m.a. væru tilgreindar skattalegar forsendur fyrir gjaldfærslunni og hvort um skemmdir á vörulager hefði verið að ræða.

Kærandi svaraði fyrirspurn ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 22. febrúar 2002, og kom þar m.a. fram að kærandi hefði gefið út geisladisk á árinu 1998 með tónsmíðum eftir sjálfan sig. Hefði ekkert verið til sparað, en diskurinn hefði selst illa og t.a.m. hefði ekkert selst af honum árið 2000. Væri verðmæti hljómplatna með dægurtónlist mest við útgáfu, en það minnkaði óhjákvæmilega þegar frá liði. Í árslok 2000 hefði kærandi því fært niður virði hvers geisladisks í 728,75 kr. og hefði það verið gert til þess að verðmæti birgða yrði ekki ofmetið í bókhaldi. Vísaði kærandi til ákvæða 28. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, og c-liðar 3. tölul. 1. mgr. 20. gr. nr. 144/1994, um ársreikninga, varðandi þetta.

Með bréfi, dags. 26. mars 2002, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2001 samkvæmt 4. mgr. 96. gr., sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981. Rakti ríkisskattstjóri bréfaskipti sín við kæranda og vísaði til 2. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, varðandi ákvörðun á kostnaðarverði seldra vara, og 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, en í síðargreinda ákvæðinu segði að vörubirgðir verslana og framleiðsluaðila, þar með taldar rekstrarvörubirgðir, svo sem hráefni, eldsneyti, veiðarfæri og vörur á framleiðslustigi, skyldi telja til eignar á kostnaðar- eða framleiðsluverði eða dagverði í lok reikningsárs, að frádregnum afföllum á gölluðum og úreltum vörum. Ljóst mætti vera af framansögðu að notast ætti við kostnaðar- eða framleiðsluverð við virðisákvörðun birgða væru vörurnar í seljanlegu ástandi og dagverð þeirra (markaðsverð/söluverð) væri ekki lægra en kostnaðar- eða framleiðsluverð. Af framkomnum skýringum kæranda yrði ekki ráðið að umræddir geisladiskar gætu talist til gallaðra eða úreltra vara, auk þess sem ekki yrði ráðið af þeim að dagverð þeirra væri mun lægra en almennt gerðist um slíka vöru, þ.e. 1.500-2.500 kr. á hvert stykki. Væru heimildir skattalaga um frádrátt frá tekjum einstaklinga og lögaðila undantekning frá þeirri meginreglu að skylt væri að greiða tekjuskatt af öllum tekjum, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 75/1981. Bæri skattaðilum af þeim sökum að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt heimildarákvæðunum væri fullnægt. Að mati ríkisskattstjóra hefði kærandi ekki sýnt fram á að niðurfærsla umræddra birgða gæti talist frádráttarbær kostnaður í rekstri kæranda og væri því fyrirhugað að hafna gjaldfærslunni. Ennfremur hefði ríkisskattstjóri í hyggju að bæta 25% álagi við fjárhæðir vantaldra gjaldstofna, sbr. heimild í 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, en samkvæmt ákvæðinu væri heimilt að bæta slíku álagi við vantalda gjaldstofna, væru annmarkar á framtali eða einstakir liðir ranglega fram taldir. Samkvæmt 3. mgr. 106. gr. skyldi þó fella niður álag ef skattaðili færði rök fyrir því að honum yrði eigi kennt um annmarka á framtali eða að óviðráðanleg atvik hefðu hamlað því að hann bætti úr annmörkum á framtali eða leiðrétti einstaka liði þess. Tók ríkisskattstjóri fram í þessu sambandi að skattaðili bæri sönnunarbyrðina fyrir því að honum yrði eigi kennt um vantalda gjaldstofna, sbr. greinargerð með frumvarpi því sem orðið hefði að lögum nr. 75/1981.

Kærandi andmælti boðaðri breytingu með bréfi, dags. 5. apríl 2002. Vísaði kærandi til þess að í bréfi, dags. 22. febrúar 2002, hefði komið fram að ætlun hans hefði einungis verið að færa birgðir af geisladiskum í átt að raunvirði þeirra og alls ekki haft í huga að fara á svig við lög í þeim efnum. Þær fjárhæðir, 1.500-2.500 kr., sem ríkisskattstjóri hefði nefnt sem verðmat á hverjum diski gæti kærandi vel sætt sig við að fá í sinn hlut við sölu en það verð væri þó ekki í samræmi við raunveruleikann. Miklu nær væri að virðið væri 500 kr. hver diskur, eða jafnvel minna. Hefði ekkert verið til sparað við gerð geisladisksins og viðtökurnar því verið mikil vonbrigði. Sæi kærandi fram á mikið tap af útgáfunni og færi fram á að ríkisskattstjóri beitti ekki álagi í þessu tilviki, enda hefði niðurfærslan verið gerð í góðri trú og ekki verið reynt að leyna henni í rekstrarreikningnum.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 4. júní 2002, hratt ríkisskattstjóri boðaðri breytingu í framkvæmd. Rakti ríkisskattstjóri málavexti og ítrekaði fyrri rökstuðning sinn og lagarök. Af framkomnum skýringum kæranda yrði hvorki ráðið að umræddir geisladiskar gætu talist til gallaðra eða úreltra vara né þætti sýnt að dagverð þeirra væri lægra en almennt gerðist með slíka vöru, þ.e. 1.500-2.500 kr. pr. disk. Ekki hefðu verið lögð fram frekari gögn til stuðnings áætlun kæranda um verðmæti diskanna og hefði að mati ríkisskattstjóra ekki verið sýnt fram á að gjaldfærð niðurfærsla þeirra gæti talist til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. laga nr. 75/1981. Þá hratt ríkisskattstjóri boðaðri álagsbeitingu í framkvæmd og bætti 25% álagi við þá hækkun skattstofna sem leiddi af breytingunni, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Nam álagsfjárhæðin 145.463 kr. Tók ríkisskattstjóri fram í tilefni af andmælum kæranda að gera yrði þær kröfur til þeirra sem stunduðu atvinnurekstur að þeir kynnu skil á lögum og reglum sem um starfsemina giltu. Gæti vanþekking á lögum og reglum ekki leyst þá undan ábyrgð og þætti kærandi ekki hafa sýnt fram á að honum yrði ekki kennt um að skattstofnar væru vantaldir, auk þess sem ekki yrði séð að önnur atvik ættu að leiða til þess að falla bæri frá álagi samkvæmt 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

III.

Kærandi hefur skotið úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 4. júní 2002, til yfirskattanefndar með kæru, dags. 4. september 2002. Kærandi tekur fram að dagverð á hljómplötum lækki hratt eftir útgáfu þeirra. Meðfylgjandi kærunni séu upplýsingar frá sölustjóra tónlistar hjá A hf. þar sem það sé staðfest að hljómplötur falli mikið í verði fljótlega eftir útgáfu. Vilji kærandi fá niðurstöðu um það hjá yfirskattanefnd hvort honum sé ekki heimilt að færa birgðir af hljómplötum eitthvað niður. Ef því verði hafnað óskar kærandi eftir því að fallið verði frá álagsbeitingu. Tekur kærandi fram í því sambandi að umþrætt niðurfærsla á bókfærðu verði lagers hafi verið gerð í góðri trú. Þá fylgdi kærunni bréf B, dags. 4. september 2002, þar sem fram kemur að hann hafi aðstoðað kæranda við framtalsgerð árið 2001 og ráðlagt honum hina umdeildu niðurfærslu á verðmæti geisladiska.

IV.

Með bréfi, dags. 25. október 2002, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu ríkisskattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geti átt við.“

V.

Eins og rakið hefur verið gjaldfærði kærandi í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 2000 niðurfærslu á birgðum af útgefnum geisladisk að fjárhæð 581.853 kr. Var umrædd gjaldfærsla gerð á þeim grunni að virði diskanna hefði minnkað um 30% og væri 728,75 kr. á hvern disk. Samkvæmt því sem fram kemur í efnahagsreikningi kæranda í árslok 1999 voru eignfærðir 1.863 diskar á 1.041 kr. hver diskur.

Um matsverð vörubirgða til eignar gildir ákvæði 4. tölul. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt ákvæðinu skal telja vörubirgðir, þar með taldar rekstrarvörubirgðir, til eignar á kostnaðar- eða framleiðsluverði eða dagverði í lok reikningsárs, að frádregnum afföllum á gölluðum og úreltum vörum. Hefur þessi regla verið talin vísa til þess að miða skuli við hið lægra af kostnaðar- eða framleiðsluverði eða dagverði sem er í samræmi við reglu reikningsskilaráðs nr. 2 um birgðir, sbr. auglýsingu nr. 354 frá 7. júní 1995 sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda. Með kæru til yfirskattanefndar fylgdu upplýsingar frá sölustjóra tónlistar hjá A hf. þar sem fram kemur að útsöluverð á geisladiskum falli verulega strax á næsta ári eftir útgáfuár og er þar um að ræða u.þ.b 30% samkvæmt þeim tölum sem þar koma fram. Að þessu virtu og þar sem ríkisskattstjóri hefur einungis byggt vefengingu sína á því að ekki hafi verið sýnt fram á að dagverðið hafi verið lægra en kostnaðar- eða framleiðsluverð þykir mega taka kröfu kæranda til greina varðandi gjaldfærslu á niðurfærslu birgða, enda hefur kærandi hagað uppgjöri sínu á þann veg að eignfæra birgðir geisladiska í árslok og gjaldfæra kostnaðarverð seldra diska á hverju ári fyrir sig. Í reynd er því um birgðabreytingu að ræða. Af niðurstöðunni leiðir sjálfkrafa að álag fellur niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja