Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning hjóna
  • Hjúskaparslit

Úrskurður nr. 364/2003

Gjaldár 2002

Lög nr. 75/1981, 63. gr. 1. mgr., 64. gr. 1. mgr.  

Hjónin A og B slitu samvistir í ársbyrjun 2001 og skildu að borði og sæng í mars sama ár. Í maí 2001 andaðist B. Talið var að lagaheimild skorti til þess að skattleggja A og B sem hjón allt árið 2001 þar sem þau voru skilin að borði og sæng þegar B lést. Var kröfu A þess efnis því hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi og B slitu samvistum á árinu 2001 samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá Hagstofu Íslands og skildu að borði og sæng hinn 9. mars 2001. Taldi kærandi fram til skatts sem einstaklingur fyrir allt tekjuárið 2001, sbr. fyrirliggjandi skattframtal kæranda árið 2002.

Með kæru til skattstjóra, dags. 16. ágúst 2002, mótmælti kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002. Í kærunni kom fram að B hefði andast 20. maí 2001. Fór kærandi fram á að við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2002 yrði tekið tillit til millifærðs persónuafsláttar frá látnum maka.

Með kæruúrskurði, dags. 22. janúar 2003, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum gerði skattstjóri grein fyrir ákvæðum 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Tók skattstjóri fram að samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá Hagstofu Íslands hefðu kærandi og fyrrum eiginmaður hennar fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng hinn 9. mars 2001, en formleg samvistarslit átt sér stað 13. janúar sama ár. Hefði fyrrum maki kæranda látist þann 20. maí 2001 eða rúmum fjórum mánuðum eftir samvistarslit. Hefði kærandi skilað skattframtali árið 2002 sem einhleypingur. Þar sem fyrir lægi að kærandi hefði ekki verið í hjúskap við andlát fyrrum maka hennar sæti hún ekki í óskiptu búi og ekki væri um gagnkvæman erfðarétt að ræða milli þeirra. Lagaheimild skorti jafnframt fyrir því að kæranda væri heimilt að nýta persónuafslátt látins maka í níu mánuði frá og með andlátsmánuði þar sem kærandi og fyrrum maki hennar hefðu ekki heimild til að telja fram til skatts sameiginlega árið 2002 vegna hjúskaparslita og væri framtalsgerð kæranda samkvæmt því. Ákvæði 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 varðandi nýtingu persónuafsláttar látins maka ætti einungis við um aðila sem ekki hefðu slitið hjúskap á andlátsárinu.

II.

Með kæru, dags. 21. apríl 2003, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 22. janúar 2003, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að framtalsskil kæranda árið 2002 hafi verið samkvæmt því skattframtali sem kærandi hefði fengið sent frá skattstjóra. Tekur kærandi fram að sé það skattframtal ekki rétt miðað við skráningu Hagstofu Íslands sé ekki við kæranda að sakast í því efni. Allar greiðslur sem kærandi hafi fengið frá Tryggingastofnun ríkisins árið 2001 sem og afdregin staðgreiðsla af þeim taki mið af stöðu kæranda samkvæmt skráningu Hagstofu Íslands. Samkvæmt þeirri skráningu sé kærandi ekkja og sé þess krafist að álagning opinberra gjalda gjaldárið 2002 sé samkvæmt því.

III.

Með bréfi, dags. 6. júní 2003, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 90/2003, um tekju- og eignarskatt, segir m.a. að eftirlifandi maka skuli ætíð heimilt að telja fram allar tekjur sínar og hins látna maka sem hjón væru í samræmi við ákvæði 63. gr., í allt að níu mánuði frá og með andlátsmánuði makans og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun persónuafsláttar samkvæmt því. Skilyrði fyrir því að fá að nýta persónuafslátt látins maka í níu mánuði frá andlátsmánuði er að þau hafi verið í samvistum. Samkvæmt þjóðskrá slitu [kærandi] og B samvistum 13. janúar 2001 og skildu að borði og sæng þann 9. mars 2001.

Ekki verður séð að hægt sé að fallast á kröfu kæranda um nýtingu persónuafsláttar B. Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eru reglur um skattskil á því ári þegar hjúskapur er stofnaður eða honum lýkur. Um er að ræða þau tilvik þegar skilyrði hjónasköttunar, sbr. 63. gr. laganna, eru aðeins uppfyllt hluta úr ári. Tekur 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 til stofnunar eða slita hjúskapar, slita á samvistum og andláts maka. Meginreglan er sú samkvæmt þessu lagaákvæði að skattaðilum ber að telja fram tekjur sínar í samræmi við reglur 63. gr. laganna fyrir þann tíma ársins sem skilyrði þessarar lagagreinar voru uppfyllt, þ.e.a.s. telja fram sem hjón þann tíma. Tekjur á öðrum tíma ársins skal telja fram hjá þeim, sem þær hafði, sem einstaklingi og skattleggja þær samkvæmt því. Um útreikning tekjuskatts og ónýtts persónuafsláttar fer eftir ákvæðum 2. mgr. 70. gr. Settar eru reglur um tímamörk og skal miða við þann dag sem til hjúskapar var stofnað eða skilnaður eða samvistarslit urðu eða andlátsdag maka. Í 4.–6. málsl. 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 eru heimildir til að víkja frá framangreindum meginreglum. Samkvæmt ákvæðunum er það lagt á vald skattaðila hvort þeir nýta sér frávik frá meginreglunum sem felast í þessum heimildarákvæðum. Efnislega eru þessi frávik þrenns konar: a) Þeim sem gengið hafa í hjúskap á árinu eða uppfyllt hafa skilyrði 3. mgr. 63. gr. er jafnan heimilt að telja fram allar tekjur sínar á árinu sem hjón í samræmi við ákvæði 63. gr. og fer þá um álagningu tekjuskatts og ákvörðun ónýtts persónuafsláttar samkvæmt því. b) Ljúki hjúskap vegna andláts maka er með hliðstæðum hætti og greinir í a-lið veitt heimild fyrir eftirlifandi maka að telja fram allar tekjur sínar og hins látna sem hjón væru í samræmi við ákvæði 63. gr. í allt að níu mánuði frá og með andlátsmánuði makans. c) Hjónum, sem slíta hjúskap eða samvistum á árinu, er heimilt að telja fram allar tekjur sínar á því ári hvoru í sínu lagi.

Eins og fram er komið slitu kærandi og B samvistir í ársbyrjun 2001 og þau skildu að borði og sæng hinn 9. mars 2001. Byggði kærandi skattskil sín gjaldárið 2002 á fyrrgreindri heimild í 1. mgr. 64. gr. laga nr. 75/1981 og taldi fram til skatts sem einhleypingur, sbr. lið c) hér að framan. Skilja verður kröfugerð kæranda svo, sbr. kæru hennar til yfirskattanefndar, að krafa hennar lúti að því að hverfa frá þessari tilhögun skattskilanna og telja fram tekjur sínar og B, sem lést 20. maí 2001, sem hjón væru til ársloka 2001, sbr. heimild eftirlifandi maka samkvæmt lið b) hér að framan. Sú heimild á ekki við í tilviki kæranda þar sem þau B voru skilin að borði og sæng þegar B lést. Engin lagaheimild er því til þess að skattleggja kæranda og B heitinn sem hjón allt árið 2001. Samkvæmt því verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja