Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Lögboðin upplýsingagjöf
  • Afurðamiðar

Úrskurður nr. 61/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 92. gr. 4. mgr.  

I.

Kærandi hafði með höndum fiskverkun. Á rekstrarreikningi fyrir starfsemina árið 1989 gjaldfærði hann keypt hráefni 2.412.773 kr. Kærandi skilaði sjávarafurðamiðum (RSK 2.05) vegna fiskkaupa að fjárhæð 1.471.908 kr. Framtali kæranda fylgdi greinargerð þar sem fram kom að kærandi taldi ekki mögulegt að skila sjávarafurðamiðum vegna kaupa á hákarli fyrir 940.865 kr. Með bréfi dags. 16. júlí 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda, með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um lækkun frádráttar vegna gjaldfærslu á hráefni 940.865 kr., lækkun stofns til aðstöðugjalds og hækkun hreinna tekna um sömu upphæð. Ástæður breytingarinnar kvað skattstjóri þær að afurðamiðum var ekki skilað.

Með bréfum, dags. 4. og 7. ágúst 1990, mótmælti kærandi breytingum skattstjóra. Kærandi kveðst hafa greitt umrædda upphæð vegna kaupa á hákarli af áhöfnum 13 togara og átta rækjuveiðiskipa. Hann kveðst enga möguleika hafa á að upplýsa hverjir skráðir séu á skipin hverju sinni, en telur um að ræða 347 menn og því um smáa upphæð að ræða hjá hverjum og einum. Með úrskurði, dags. 21. september 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kæranda hafi borið að skila afurðamiðum hvort sem hráefnið hafi verið keypt af áhöfnum skipa eða útgerð, svo og með vísan til lokamálsgreinar 92. gr. laga nr. 75/1981.

II.

Með bréfi til ríkisskattstjóra dags. 1. október 1990 fer kærandi fram á úrskurð í málinu. Ríkisskattstjóri sendi bréfið til ríkisskattanefndar og er það tekið sem kæra. Í bréfi sínu kveðst kærandi kaupa hákarl til verkunar af áhöfnum skipa, en ekki útgerð þeirra. Hann kveðst hafa keypt hákarl fyrir 1.354.140 kr. á árinu 1989, þar af fyrir 413.201 kr. af X. Mismuninn kr. 940.865 hafi skattstjóri fært sem hreinar tekjur á framtal. Kærandi fjallar um fjölda áhafnarmanna á þessum skipum svo sem hann hefur reifað við meðferð málsins hjá skattstjóra og telur ómögulegt fyrir sig að skila afurðamiðum vegna þessara kaupa. Kærandi kveðst verða að hætta þessari framleiðslu ef hann fái ekki þennan útlagða kostnað frádreginn. Þess vegna hafi hann lítið tekið af hákarli undanfarna tvo mánuði. Kærunni fylgdu nótur frá hafnarvoginni þar sem fram kom magn hákarls og úr hvaða skipi vegið var.

III.

Með bréfi dags. 22. maí 1991 hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, samkvæmt. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Skattstjóri hefur byggt lækkun sína á nefndum gjaldalið, þ.e. hákarlskaupum kæranda, eingöngu á því að sjávarafurðamiðum hafi ekki verið skilað, sbr. 4. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981. Efnislega hefur skattstjóri ekki vefengt gjaldalið þennan. Að virtum þessum forsendum skattstjóra og með því að lögfest eru sérstök úrræði til þess að knýja fram nefndar upplýsingar eða aðrar leiðir til þess að fá þær fram, þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina, enda þykja eigi efni til véfengingar á þessum kostnaði kæranda. Með vísan til framanritaðs er fallist á kröfu kæranda í þessu máli.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja