Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðakostnaður
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 71/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul.  

I.

Málavextir eru þeir að kærandi, sem stundar sjálfstæða starfsemi við húsamálun, gjaldfærði bifreiðakostnað 165.450 kr. á rekstrarreikningi vegna starfsemi þessarar gjaldárið 1989, sbr. rekstrarreikning fyrir árið 1988. Samkvæmt rekstraryfirliti fólksbifreiðar (RSK 4.03), er fylgdi framtali kæranda, gerði hann ráð fyrir 15.000 km akstri í þágu atvinnurekstrar síns en heildarakstur var talinn 21.000 km.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 30. október 1990, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 10. nóvember 1990, þar sem hann gerði grein fyrir akstursþörfum sínum í starfi, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 19. nóvember 1990, að akstur í þágu atvinnurekstrar hefði verið lækkaður í 8.000 km og bifreiðakostnaður á rekstrarreikningi lækkaður í samræmi við það úr 165.450 kr. í 88.240 kr. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1989 í samræmi við þetta. Skattstjóri hafði í bréfi sínu, dags. 30. október 1990, vefengt akstursskiptingu kæranda og talið tilfærðan akstur í þágu atvinnurekstrar of mikinn. Í svarbréfi sínu, dags. 10. nóvember 1990, hafði kærandi gefið nokkrar skýringar á þessum akstri m.a. vegna verkefna fjarri heimabæ sínum. Í endurákvörðun sinni, dags. 19. nóvember 1990, hafnaði skattstjóri skýringum kæranda og skaut og þeirri stoð einni undir ákvörðun sína að mikið ósamræmi væri milli heildaraksturs og eldsneytiskostnaðar. Af hálfu kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 29. nóvember 1990, og andæfði hann því að ósamræmi væri milli heildaraksturs og eldsneytiskostnaðar og leiddi fram útreikninga á bensíneyðslu miðað við tilfærðar tölur á RSK 4.03. Með kæruúrskurði, dags. 17. desember 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til röksemda í endurákvörðun, dags. 19. nóvember 1990.

Umboðsmaður kæranda skaut kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. janúar 1991, og mótmælti breytingu skattstjóra er hann taldi órökstudda. Skattstjóri hafi ekki hrakið að akstur í þágu rekstrar hafi verið 15.000 km og það fái ekki staðist hjá skattstjóra að ósamræmi sé milli heildaraksturs og eldsneytiskostnaðar.

Með bréfi, dags. 22. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Skattstjóri vefengdi upphaflega akstursskiptingu kæranda og taldi akstur í þágu atvinnurekstrar offærðan, sbr. bréf skattstjóra, dags. 30. október 1990. Kærandi gaf skýringar á tilfærðum akstri í bréfi sínu, dags. 10. nóvember 1990. Hafnaði skattstjóri skýringum kæranda án þess að þær fengju þó efnislega úrlausn. Jafnframt bar skattstjóri því við að ósamræmi væri milli tilfærðs heildaraksturs og eldsneytiskostnaðar. Rétt hefði verið að sú viðbára kæmi fram þegar í upphafi þannig að kæranda gæfist kostur á að tjá sig um hana áður en skattstjóri hratt hinni umdeildu endurákvörðun í framkvæmd. Þá þykir þessi forsenda skattstjóra ekki fá staðist í ljósi þess sem fyrir liggur í málinu. Að því virtu hvernig málsmeðferð skattstjóra hefur verið háttað og með vísan til skýringa og andsvara kæranda þykir bera að hnekkja breytingu skattstjóra og fallast á kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda í máli þessu er tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja