Úrskurður yfirskattanefndar

  • Teknategund
  • Útleiga á íbúðarhúsnæði
  • Heildarfyrningargrunnur íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 330/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 2. mgr., 35. gr. 1. mgr.   Lög nr. 8/1984, 4. gr. d-liður  

I.

Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda árið 1990 fylgdi ársreikningur vegna útleigu hans á íbúðarhúsnæði árið 1989 og miðaðist reikningurinn við að um atvinnurekstur væri að ræða. Að teknu tilliti til vaxtagjalda, fyrninga og aðstöðugjalds var tap að fjárhæð 456.373 kr. af rekstrinum. Að undangengnum bréfaskiptum endurákvarðaði skattstjóri gjöld kæranda 28. maí 1991. Hafnaði hann því að útleiga kæranda á íbúðarhúsnæði væri atvinnurekstur og vísaði til þess að fyrningargrunnur útleigðra íbúða kæranda væri 11.054.000 kr. en samkvæmt síðustu mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt teldist útleiga hjóna á íbúðarhúsnæði ekki til atvinnureksturs nema heildarfyrningargrunnur þess næmi 36.400.000 kr. Umboðsmaður kæranda kærði þessa ákvörðun til skattstjóra 3. júní 1991. Mótmælti hann ákvörðun skattstjóra á þeirri forsendu að þar sem heildarfyrningargrunnur alls íbúðarhúsnæðis í eigu kæranda í árslok 1989 hefði verið hærri en 36.400.000 kr. teldist útleiga hans á íbúðarhúsnæði atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi. Til vara gerði hann kröfu um niðurfellingu álags.

Með kæruúrskurði, dags. 22. júlí 1991, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með vísan til síðustu mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og 1. mgr. 35. gr. sömu laga. Samkvæmt síðari greininni væri fyrningargrunnur eigna það verðmæti sem fyrning væri reiknuð af sem í tilviki kæranda væri 11.054.000 kr. Samkvæmt fyrri greininni væri útleiga íbúðarhúsnæðis því aðeins atvinnurekstur að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis væri 36.400.000 kr. Teldi skattstjóri að samkvæmt framansögðu væri ekki ástæða til breytinga á ákvörðun sinni.

Með kæru, dags. 21. ágúst 1991, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Krefst hann þess að álagning opinbera gjalda á kæranda 1990 verði færð til samræmis við að útleiga hans á íbúðarhúsnæði sé atvinnurekstur þar sem fyrningargrunnur alls íbúðarhúsnæðis hans sé hærri en 36.400.000 kr.

Með bréfi, dags. 17. október 1991, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Í máli þessu heldur kærandi því fram að skýra beri lokamálslið síðustu málsgreinar 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, svo að við mat á því hvort lágmarksfjárhæð samkvæmt ákvæðinu sé náð beri að líta til alls íbúðarhúsnæðis í eigu hans. Á þennan skilning verður ekki fallist. Ákvæði þetta er lögtekið með d-lið 4. gr. laga nr. 8/1984, um breyting á fyrrnefndu lögunum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 8/1984 kemur meðal annars fram varðandi nýmæli þetta að átt sé við það húsnæði sem leigt sé út eða á annan hátt notað til öflunar tekna í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi og teljist íbúðarhúsnæði til eigin nota ekki með við mat á því hvort lágmarksfjárhæð sé náð. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kæranda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja