Úrskurður yfirskattanefndar

  • Fyrning
  • Fjárfestingarsjóður

Úrskurður nr. 390/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981, 38. gr., 55. gr., 55. gr. A   Lög nr. 8/1984, 11. gr.  

I.

Málavextir eru þeir að í ársreikningi með skattframtali sínu 1990 eignfærði kærandi skrifstofuáhöld að kaupverði 260.591 kr. Hann færði síðan 90% kaupverðsins eða 234.532 kr. til gjalda sem fyrningu áhaldanna. Þar af færði hann 232.857 kr. sem fyrningu á móti upplausn fjárfestingarsjóðs samkvæmt heimild í 55. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 11. gr. laga nr. 8/1984. Mismuninn, 1.675 kr., færði hann sem almenna fyrningu ársins.

Með bréfi, dags. 12. mars 1991, boðaði skattstjóri kæranda að fyrirhugað væri að leiðrétta framangreindan framtalshátt og færa almenna fyrningu 20% að fullu með 52.118 kr. áður en tekið yrði tillit til fyrninga á móti upplausn fjárfestingarsjóðs. Þær fyrningar yrðu þá 182.414 kr. Upplausn fjárfestingarsjóðs umfram fyrningar yrði þá 50.443 kr. og væri fyrirhugað að bæta 40% álagi á tekjufærslu þeirrar fjárhæðar, sbr. 55. gr. A, eða 20.177 kr. Svar barst ekki frá kæranda. Með bréfi, dags. 15. apríl 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld kæranda til samræmis. Jafnframt lækkaði hann álagt aðstöðugjald.

Með kæru, dags. 13. maí 1991, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingum skattstjóra og krafðist þess að hækkun á álögðum gjöldum yrði felld niður. Fór hann fram á tilvísun í þau lög sem lægju að baki ákvörðun skattstjóra. Taldi hann ekki skylt samkvæmt lögum að færa 20% almenna fyrningu á undan aukafyrningu.

Með kæruúrskurði, dags. 20. ágúst 1991, hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með svofelldum rökstuðningi:

„Með a-lið 2. gr. laga nr. 97/1988 var gerð eftirfarandi breyting á 38. gr. laga nr. 75/1981: „Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 29. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 31. gr. skal fyrning vera árlegur hundraðshluti af fyrningargrunni einstakra eigna eða eignarflokks sem hér segir:“. Með þessari lagabreytingu má því ljóst vera að almenn fyrning skv. 38. gr. með síðari breytingum, er skyldufyrning og er 20% af skrifstofuáhöldum sbr. d-lið 2. gr. laga nr. 97/1988. Aukafyrning vegna upplausnar á fjárfestingarsjóði er gerð með heimild í 55. gr. laga nr. 75/1981. Aukafyrning vegna upplausnar á fjárfestingarsjóði er gerð með heimild í 55. gr. laga nr. 75/1981 og er skv. þessu aðeins heimil að undangenginni almennri fyrningu skv. 38. gr. nefndra laga.“

Með kæru, dags. 10. september 1991, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Óskar hann úrskurðar um hvort það sé fullnægjandi fyrning á kaupári að fyrna 90% kaupverðs á móti upplausn fjárfestingarsjóðs og hvort viðkomandi þurfi á því ári að fyrna skv. 38. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 22. nóvember 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Kærandi fyrndi umrædda eign almennri fyrningu, svo sem skylt er eftir að 1. ml. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var breytt með a-lið 2. gr. laga nr. 97/1988, sbr. athugasemdir með frumvarpi því er varð að þeim lögum. Þá bar kæranda að nota lögbundið fyrningarhlutfall fyrir hlutaðeigandi eign, sbr. a-lið 4. tl. 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en þess gætti kærandi ekki. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er kröfu kæranda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja