Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 489/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður   Lög nr. 35/1960, 2. gr.  

I.

Kæruefni í máli þessu sem barst ríkisskattanefnd með kæru, dags. 8. nóvember 1991, er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður vaxtagjöld að fjárhæð 179.490 kr. í reit 87 á skattframtali 1991, sbr. kæruúrskurð, dags. 14. október 1991, ásamt tilkynningu, dags. 25. júlí 1991. Kærandi krefst þess að opinber gjöld gjaldárið 1991 verði ákvörðuð til samræmis við innsent framtal hans.

Framangreindar breytingar gerði skattstjóri á grundvelli 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Voru forsendur skattstjóra þær að framangreind vaxtagjöld væru ekki af skuldum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og féllu því ekki undir C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Einnig byggði skattstjóri á því að á greinargerð um vaxtagjöld væri „upphafleg lánsfjárhæð“ yfirtekinna lána ekki rétt tilgreind og ekki væru allir reitir greinargerðar útfylltir. Í kæruúrskurði skattstjóra kemur fram að kærandi hafi ekki verið skráður með lögheimili í húsnæði sínu frá því hann fékk það afhent þann 10. apríl 1990. Vísaði skattstjóri til 2. gr. laga nr. 35/1960, um lögheimili.

Af hálfu kæranda kom fram í kæru til skattstjóra að öll lán sem tilgreind væru á greinargerð um vaxtagjöld væru vegna íbúðarkaupa kæranda, hluta þeirra hafi hann yfirtekið við kaupin en tekið önnur vegna kaupa á íbúðinni. Lagði kærandi fram endurgerða greinargerð um vaxtagjöld (RSK 3.09). Í kæru til ríkisskattanefndar segir:

„Skattstjórinn byggir úrskurð sinn á því að umbj. okkar hafi ekki haft skráð lögheimili sitt að X árið 1990 og að enginn hafi tilkynnt lögheimili sitt þangað árið 1990. Þessum úrskurði er hér með mótmælt. Þrátt fyrir að umbj. okkar hafi láðst að tilkynna lögheimilisskipti þá bjó hann í íbúðinni frá því að hann fékk hana afhenta þ.e. frá 10. apríl 1990 og býr þar enn í dag.“

Einnig kemur fram að á árunum 1988-1989 bjó kærandi í leiguhúsnæði á a.m.k. tveimur stöðum og hirti því ekki um að tilkynna um lögheimilisskipti þar sem hann var einungis í leiguhúsnæði tímabundið. Kæru fylgir afrit tilkynningar til þjóðskrár, dags. 13. nóvember 1991, um flutning kæranda í íbúð sína þann 20. apríl 1990. Einnig fylgdu afrit af rafmagns- og símareikningum.

Með bréfi, dags. 23. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

II.

Yfirskattanefnd úrskurðar í máli þessu, sbr. 23. gr. laga nr. 30/1992.

Með hliðsjón af þeim skýringum sem fram hafa komið af hálfu kæranda er fallist á kröfu hans.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda. Vaxtabætur kæranda ákvarðast 90.114 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja