Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 217/2006

Virðisaukaskattur 2005

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.  

Kröfu einkahlutafélags um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti var hafnað, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til mistaka fyrirsvarsmanns félagsins við sendingu rafrænna fyrirmæla til viðskiptabanka um greiðslu á virðisaukaskattinum.

I.

Með kæru, dags. 13. desember 2005, hefur kærandi kært ákvörðun skattstjóra, dags. 8. desember 2005, varðandi beitingu álags að fjárhæð 54.103 kr. uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2005 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Krefst kærandi þess að álag verði fellt niður, sbr. 6. mgr. sömu lagagreinar.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til tollstjórans í Reykjavík, dags. 15. nóvember 2005, sem tollstjóri framsendi skattstjóra til meðferðar með bréfi, dags. 18. sama mánaðar, fór kærandi fram á niðurfellingu álags á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Voru málavextir raktir á þá leið að fyrirsvarsmaður kæranda hefði gert þau mistök við greiðslu virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2005 í netbanka X-banka að óska eftir skuldfærslu greiðslunnar á reikning nr. 01 við X-banka í stað þess að óska eftir skuldfærslu á reikning nr. 02 við sama banka. Þar sem fyrirsvarsmaðurinn hefði verið staddur erlendis á gjalddaga virðisaukaskatts þann 5. október 2005 og ekki komið til landsins fyrr en 26. sama mánaðar hefðu mistökin ekki uppgötvast fyrr. Af þessum sökum hefði kæranda verið gert að greiða 10% álag að fjárhæð 54.103 kr. sem væri óviðunandi þar sem um augljós mannleg mistök hefði verið að ræða og þar sem kærandi hefði ávallt staðið í skilum með virðisaukaskatt fram að þessu. Af hálfu kæranda væri því óskað eftir niðurfellingu eða lækkun álags. Bréfinu fylgdi útprentun úr netbanka vegna millifærslubeiðni, dags. 28. október 2005, vegna greiðslu virðisaukaskatts að fjárhæð 541.032 kr.

Með kæruúrskurði, dags. 8. desember 2005, hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Vísaði skattstjóri til ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og tók fram að samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar mætti fella álag niður ef skattþegn sýndi fram á að gildar ástæður væru til niðurfellingar þess. Ættu skattyfirvöld mat um hvað teldust gildar ástæður í þessu sambandi. Í framkvæmd hefði verið litið svo á að mjög ríkar ástæður þyrfti til þess að álag yrði fellt niður, svo sem að vangreiðsla stafaði af óviðráðanlegum utanaðkomandi atvikum. Ekki hefði verið litið svo á að mistök við færslu bókhalds eða uppgjör á virðisaukaskatti teldust til slíkra atvika. Eins og atvikum máls kæranda væri háttað þættu fram bornar ástæður fyrir niðurfellingu álags ekki vera þess eðlis að fella bæri álagið niður. Álag að fjárhæð 54.103 kr. stæði því óbreytt.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. desember 2005, er þess krafist að álag verði fellt niður. Í kærunni er ítrekað að fyrir gjalddaga virðisaukaskatts þann 5. október 2005 hafi legið fyrir greiðslubeiðni hjá X-banka um greiðslu virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 2005 á gjalddaga, en af hálfu kæranda hefðu þau mistök verið gerð að óska eftir skuldfærslu á reikningi félagsins nr. 01 í stað reiknings nr. 02. Þar sem ekki hefði verið næg innstæða fyrir greiðslunni á reikningi nr. 01 hefði skatturinn verið ógreiddur þegar fyrirsvarsmaður kæranda hefði snúið til baka úr fríi erlendis þann 26. október 2005. Um leið og mistökin hefðu komið í ljós hefði virðisaukaskatturinn verið greiddur með skuldfærslu af réttum reikningi nr. 02. Er greint frá því í kærunni að allt frá því að kærandi hefði tekið upp rafræn skil á virðisaukaskatti hafi skatturinn ávallt verið greiddur með skuldfærslu af reikningi nr. 02 en ekki reikningi nr. 01. Sé því krafist niðurfellingar álags.

IV.

Með bréfi, dags. 6. janúar 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra. Ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda sé þess eðlis að 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt geti átt við.“

V.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið júlí-ágúst 2005 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt skýringum kæranda dróst greiðsla virðisaukaskattsins fram yfir gjalddaga þessa uppgjörstímabils, sem var 5. október 2005, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, vegna mistaka fyrirsvarsmanns kæranda við sendingu rafrænna fyrirmæla til viðskiptabanka síns um greiðslu á virðisaukaskatti vegna umrædds uppgjörstímabils, en mistökin hafi verið fólgin í því að óska eftir skuldfærslu á röngum reikningi og að ekki hafi reynst innstæða á þeim reikningi sem skuldfærslubeiðnin tók til. Því er borið við til stuðnings kröfu um niðurfellingu álags að málsbætur séu til staðar þar sem ljóst sé að til hafi staðið að greiða virðisaukaskatt á gjalddaga og að mistökin hafi verið leiðrétt strax og þau hafi uppgötvast. Þá er vísað til þess að um einstakt tilvik sé að ræða. Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Verður því að hafna kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja