Úrskurður yfirskattanefndar

  • Þungaskattur, sekt
  • Gildistaka skattalagabreytinga

Úrskurður nr. 306/2006

Þungaskattur 2005

Lög nr. 3/1987, 18. gr. 1. og 3. mgr., bráðabirgðaákvæði IX (sbr. brl. nr. 71/2005, 1. gr. a-liður)   Lög nr. 87/2004, 24. gr.  

Ríkisskattstjóri gerði kæranda sekt á grundvelli laga nr. 3/1987 þar sem vanrækt hefði verið að færa ökutæki kæranda til álestrar af ökumæli á 2. gjaldtímabili ársins 2005, þ.e. að komið hefði verið með ökutækið til álestrar að liðnum 30 dögum frá lokum þess álestrartímabils 30. júní 2005. Með lögum nr. 87/2004, sem öðluðust gildi 1. júlí 2005, voru lög nr. 3/1987 felld úr gildi frá og með sama tíma. Yfirskattanefnd benti á að dráttur á að kærandi færði bifreið sína til álestraraðila hefði fyrst getað varðað sekt að liðnum 30 dögum af júlímánuði 2005. Þar sem ekki varð örugglega ráðið að greind refsiheimild laga nr. 3/1987 hefði þá gilt var hin kærða sektarákvörðun ríkisskattstjóra felld niður.

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, sem móttekin var 6. desember 2005, hefur fyrirsvarsmaður kæranda mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 13. október 2005, að gera kæranda sekt að fjárhæð 12.500 kr. samkvæmt 3. mgr., sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, á þeim grundvelli að vanrækt hefði verið að færa ökutæki kæranda, X, til álestrar af ökumæli á 2. álestrartímabili ársins 2005, þ.e. komið hefði verið með ökutækið til álestrar að liðnum 30 dögum frá lokum 2. álestrartímabils ársins 2005. Af hálfu kæranda er þess krafist að sektarákvörðun ríkisskattstjóra verði felld niður.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt álestrarskrá ríkisskattstjóra kom kærandi með bifreiðina X til álestraraðila til að láta lesa á og skrá stöðu ökumælis bifreiðarinnar vegna 2. gjaldtímabils þungaskatts árið 2005 hinn 23. ágúst það ár. Í kjölfar þess sendi ríkisskattstjóri kæranda bréf, dags. 30. ágúst 2005, með yfirskriftinni „Boðun sektar þar sem lesið var af ökumæli að liðnum þrjátíu dögum frá lokum álestrartímabils.“ Vísaði ríkisskattstjóri til þess að lesið hefði verið af ökumæli bifreiðarinnar X þann 23. ágúst 2005, en ekki hefði verið mætt með ökutækið til álestrar á 2. álestrartímabili 2005, þ.e. á tímabilinu 15. júní til 30. júní 2005. Væri það brot á 2. mgr. 7. gr. B-liðar laga nr. 3/1987, sbr. bráðabirgðaákvæði IX þeirra laga, en í hinu fyrrnefnda ákvæði kæmi fram að eigandi eða umráðamaður bifreiðar skyldi, án sérstakrar tilkynningar, koma með bifreið sína til álestraraðila á síðustu 20 dögum hvers gjaldtímabils, þ.e. á tímabilinu 20. janúar til 10. febrúar, 20. maí til 10. júní og 20. september til 10. október ár hvert og láta lesa á og skrá stöðu ökumælis. Samkvæmt greindu bráðabirgðaákvæði IX skyldi öðru gjaldtímabili ljúka 30. júní 2005 í stað 10. júní 2005. Eigandi eða umráðamaður ökutækis skyldi án sérstakrar tilkynningar koma með ökutæki sitt til álestraraðila á tímabilinu frá 15. júní til 30. júní 2005 og láta lesa af ökumæli og skrá stöðu hans. Þá væri kveðið á um það í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 að sekta skyldi eiganda ökutækis hefði verið komið með ökutæki til álestrar að liðnum 30 dögum frá lokum álestrartímabils. Í 3. mgr. sömu lagagreinar kæmi fram að hefði eigandi eða umráðamaður ökutækis brotið gegn 1. mgr. án þess að talið yrði að akstur hefði verið vantalinn skyldi ríkisskattstjóri ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 50.000 kr. Hefði ríkisskattstjóri á grundvelli þessa ákvæðis sett sér verklagsreglur um beitingu sekta í þeim tilvikum þegar komið væri með ökutæki til álestrar að liðnum 30 dögum frá lokum álestrartímabils, en það væri sá tími sem gjaldandi hefði til þess að kæra álagningu skatta (kærufrestur). Væri miðað við í reglunum að sekt næmi 12.500 kr. ef fjórar vikur væru liðnar frá því að kærufrestur væri runninn út þegar komið væri með ökutæki til álestrar. Í samræmi við þetta væri fyrirhugað að ákvarða kæranda sekt að fjárhæð 12.500 kr. á grundvelli 3. mgr., sbr. 1. og 4. mgr., 18. gr. laga nr. 3/1987.

Af hálfu kæranda var bréfi ríkisskattstjóra ekki svarað og með úrskurði, dags. 13. október 2005, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu sektarákvörðun í framkvæmd og ákvað kæranda 12.500 kr. sekt á framangreindum grundvelli. Ítrekaði ríkisskattstjóri fyrri rökstuðning og vísaði til þess að kærandi hefði ekki andmælt hinni boðuðu sektarákvörðun. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir viðeigandi refsiheimild á hliðstæðan hátt og í bréfi embættisins, dags. 30. ágúst 2005.

III.

Með ódagsettri kæru til yfirskattanefndar, sem barst nefndinni þann 6. desember 2005, hefur fyrirsvarsmaður kæranda mótmælt sektarákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 13. október 2005. Í kærunni kemur fram að kærandi sé ósáttur við sektina. Er rakið að fyrirsvarsmaðurinn hafi mætt með bifreiðina X til álestrar af ökumæli klukkan átta að morgni þann 1. júlí 2005, „en þá stóð á hurðinni lokað vegna sumarleyfa frá 1. júlí til ca 10. ágúst!“ Fyrirsvarsmaður kæranda hafi svo sjálfur farið í sumarfrí í byrjun ágúst og verið í fríi til 22. ágúst. Strax daginn eftir hafi hann farið með ökutækið til álestrar. Er tekið fram að þetta sé „ömurleg þjónusta sem bíleigendum sé boðið upp á hér í Vestmannaeyjum“ og að kærandi sé ekki ánægður með að fá sekt þegar ekki sé hægt að láta lesa af mæli.

IV.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að sektarúrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

I.

Ríkisskattstjóri sendi kæranda boðunarbréf dags. 30. ágúst 2005, tilvísun 200503954 24899, þar sem fram kom að fyrirhugað væri að beita kæranda sekt að fjárhæð kr. 12.500.- skv. heimild í 3. mgr., sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. síðari breytingar. Ekki var mætt með ökutækið til álestrar á 2. álestrartímabili 2005, 15. júní – 30. júní, en mætt var í álestur þann 23. ágúst 2005. Veittur var 30 daga frestur frá dagsetningu boðunarbréfsins til að koma að skriflegum athugasemdum en engar athugasemdir bárust.

II.

Athugasemdir kæranda voru mótteknar 6. desember 2005 hjá yfirskattanefnd. Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi mætt með bifreiðina í álestur þann 1. júlí 2005 en þá hafi skoðunarstöðin verið lokuð vegna sumarleyfis frá 1. júlí 2005 til 10. ágúst 2005. Kærandi fór síðan sjálfur í sumarleyfi frá byrjun ágúst 2005 til 22. ágúst 2005. Þann 23. ágúst 2005 lét kærandi lesa af ökumæli bifreiðarinnar. Kærandi er ekki ánægður með að fá sekt þegar ekki er hægt að láta lesa af ökumæli.

III.

Ríkisskattstjóri vill taka fram að hér er um formbrot að ræða sem ber að sekta fyrir skv. ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987. Ríkisskattstjóri hefur sett sér verklagsreglur um beitingu sekta þegar mætt er með ökutæki í álestur utan kærufrests. Sé mætt með ökutæki til álestrar á 2. álestrartímabili 2005, 2. ágúst eða síðar, varðar það sekt sem hækkar eftir því sem lengra líður frá lokum álestrartímabils í samræmi við eftirfarandi:

2/8 – 8/8 er sektin kr. 5.000.

9/8 – 15/8 er sektin kr. 7.500.

16/8 – 22/8 er sektin kr. 10.000.

23/8 – 29/8 er sektin kr. 12.500.

30/8 eða síðar er sektin kr. 15.000.

Kærandi mætti í álestur á 2. gjaldtímabili 2005 þann 23. ágúst 2005 og ákvarðaði ríkisskattstjóri honum því 12.500 kr. sekt.

Í byrjun 2. álestrartímabils 2005 var kæranda send orðsending nr. 3/2005 um álestrartímabil þungaskatts. Í orðsendingunni kemur fram hvenær mæta skuli í álestur, hver sektin er ef ekki er mætt í álestur á réttum tíma og vakin athygli á því að sé ökutæki óökufært og ekki mögulegt að mæta með það til álestraraðila sé hægt að óska eftir álestri frá álestraraðila/vegagerð. Þá kemur fram að ekki sé þörf á álestri á álestrartímabili hafi álestur farið fram vegna innlagnar númera/afskráningar ökutækis. Í tilviki kæranda var hvorki um innlögn númera né afskráningu bifreiðar að ræða. Kæranda mátti því vera það ljóst að mætti hann ekki á réttum tíma með bifreið sína í álestur varðaði það viðurlögum. Þar sem kærandi mætti ekki í álestur á álestrartímabili verður að telja það á hans ábyrgð að láta lesa af ökumæli bifreiðarinnar. Þar sem skoðunarstöðin í Vestmannaeyjum var lokuð vegna sumarleyfis eftir að álestrartímabili lauk bar honum að leita eftir álestri hjá Vegagerðinni eða annarri skoðunarstöð vildi hann komast hjá sektarbeitingu ríkisskattstjóra.

Ríkisskattstjóri fer fram á að ákvörðun ríkisskattstjóra um sekt verði staðfest með vísan til forsendna, þar sem gögn og málsástæður varðandi kæruefnið gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. febrúar 2006, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er til umfjöllunar sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurði, dags. 13. október 2005, að gera kæranda sekt að fjárhæð 12.500 kr. eftir ákvæðum 3. mgr., sbr. 1. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, fyrir það að vanrækt hefði verið að færa ökutæki kæranda, X, til álestrar af ökumæli á 2. álestrartímabili ársins 2005, þ.e. komið hefði verið með ökutækið til álestrar að liðnum 30 dögum frá lokum 2. álestrartímabils 2005. Ákvæði 3. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, vísar til þeirrar verknaðarlýsingar sem er í 1. mgr. sömu lagagreinar „án þess að akstur hafi verið vantalinn ...“, eins og þar segir. Þar er m.a. kveðið á um refsinæmi þess ef eigandi eða umráðamaður ökutækis hefur ekki komið með ökutæki til álestrar innan þrjátíu daga frá lokum álestrartímabils og eru saknæmisskilyrðin ásetningur eða stórkostlegt gáleysi. Í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. g-lið 15. gr. laga nr. 68/1996, kemur fram að gera megi lögaðila sekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans.

Með lögum nr. 87, 9. júní 2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., voru lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með áorðnum breytingum, felld úr gildi, sbr. 24. gr. hinna fyrrnefndu laga. Samkvæmt gildistökuákvæði þessu öðluðust lög nr. 87/2004 gildi 1. júlí 2005 og frá og með sama tíma féllu lög nr. 3/1987 úr gildi. Tekið er fram í ákvæðinu að ákvæði laga nr. 3/1987 skuli þó gilda um þungaskatt sem greiða eigi af notkun ökutækja til 1. júlí 2005. Með 1. gr. laga nr. 71, 11. maí 2005, um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, var þremur nýjum ákvæðum til bráðabirgða aukið við hin síðarnefndu lög. Samkvæmt a-lið 1. gr. laga nr. 71/2005 (bráðabirgðaákvæði IX) var tekið fram að í stað þess að öðru gjaldtímabili þungaskatts samkvæmt B-lið 7. gr. lyki 10. júní 2005 skyldi því ljúka 30. júní 2005. Eigandi eða umráðamaður ökutækis skyldi án sérstakrar tilkynningar koma með ökutæki sitt til álestraraðila á tímabilinu frá 15. júní til 30. júní 2005 og láta lesa af ökumæli og skrá stöðu hans. Þá var tekið fram að gjalddagi þungaskatts skv. 1. mgr. væri 1. júlí 2005 og eindagi 15. ágúst 2005. Ennfremur var mælt fyrir um áætlun aksturs frá álestrardegi til loka álestrartímabils væri lesið af ökumæli ökutækis undir 10.000 kg að leyfðri heildarþyngd eða ökumæli bifreiðar ætlaðri til fólksflutninga á tímabilinu 15. til og með 29. júní. Tekið var fram í lokamálsgrein ákvæðisins að ef eigandi eða umráðamaður ökutækis léti ekki lesa af ökumæli þess á álestrartímabilinu giltu ákvæði 2. og 3. mgr. 13. gr., þ.e. ákvæði um áætlun þungaskatts og álag.

Eins og fram er komið gerði ríkisskattstjóri kæranda hina umdeildu sekt á grundvelli 3. mgr., sbr. 1. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987. Í 1. mgr. lagagreinar þessarar er boðið að brjóti eigandi eða umráðamaður ökutækis af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi gegn ákvæðum laganna, þar á meðal að koma ekki með ökutæki til álestrar innan þrjátíu daga frá lokum álestrartímabils, sbr. B-lið 7. gr. laganna, skuli hann sæta sekt allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem ætla má að hann hafi dregið undan eða ofendurgreidd hafi verið. Í 3. mgr. 18. gr. er mælt svo fyrir að hafi eigandi eða umráðamaður ökutækis brotið gegn 1. mgr. greinarinnar án þess að talið verði að akstur hafi verið vantalinn skuli ríkisskattstjóri ákvarða honum sekt að lágmarki 5.000 kr. en að hámarki 50.000 kr. Miðað við verknaðarlýsingu 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987, sbr. og 1. mgr. í bráðabirgðaákvæði IX í lögum þessum, sbr. 1. gr. laga nr. 71/2005 varðandi lok gjaldtímabils, gat dráttur á að kærandi færði bifreið sína til álestraraðila fyrst varðað sekt samkvæmt hinu fyrstnefnda ákvæði að liðnum 30 dögum af júlímánuði 2005. Að þessu athuguðu og þar sem ekki verður örugglega ráðið hvorki af gildistökuákvæði 24. gr. laga nr. 87/2004 né bráðabirgðaákvæði IX í lögum nr. 3/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 71/2005, að greind refsiheimild 1. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1987 hafi þá gilt verður kæranda ekki gerð sekt í máli þessu. Hin kærða sektarákvörðun ríkisskattstjóra er því felld niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er felld niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja