Úrskurður yfirskattanefndar

  • Virðisaukaskattur
  • Áætlun
  • Álag á virðisaukaskatt
  • Málsmeðferð skattstjóra

Úrskurður nr. 342/2006

Virðisaukaskattur 2005

Lög nr. 50/1988, 25. gr. 2. mgr., 27. gr. 1. og 6. mgr., 29. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 13. gr.  

Kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005 og sætti af þeim sökum áætlun virðisaukaskatts umrætt uppgjörstímabil. Í kjölfarið barst skattstjóra virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir greint uppgjörstímabil og tók skattstjóri skýrsluna til meðferðar sem kæru og féllst á að leggja hana til grundvallar ákvörðun virðisaukaskatts kæranda, en ákvarðaði kæranda álag vegna hinna síðbúnu skila. Yfirskattanefnd taldi ekki tilefni til athugasemda við framangreinda málsmeðferð skattstjóra, þ.e. hvorki að því er varðaði áætlun virðisaukaskatts kæranda né meðferð skattstjóra á innsendri virðisaukaskattsskýrslu hans. Þá var ekki fallist á með kæranda að brotið hefði verið gegn lögfestum andmælarétti hans með því að honum var ekki gefinn kostur á að tjá sig um álagsbeitingu skattstjóra og var í því sambandi tekið fram að umrætt álag væri lögbundið og leiddi sjálfkrafa af tilgreindum aðstæðum. Þá var kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins hafnað, en hin síðbúnu skil stöfuðu af mistökum starfsmanns kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005 og sætti félagið því áætlun virðisaukaskatts umrætt tímabil, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Hinn 10. janúar 2006 barst skattstjóra virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir greint uppgjörstímabil og tók skattstjóri skýrsluna til meðferðar sem kæru, sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Með kæruúrskurði, dags. 12. janúar 2006, féllst skattstjóri á að leggja virðisaukaskattsskýrsluna til grundvallar ákvörðun virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið september-október 2005 og felldi niður áætlun virðisaukaskatts félagsins umrætt uppgjörstímabil. Ákvarðaði skattstjóri kæranda álag vegna síðbúinna skila virðisaukaskatts, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

II.

Með kæru, dags. 25. janúar 2005 (misritun fyrir 2006), hefur fyrirsvarsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 12. janúar 2006, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæran lúti annars vegar að áætlun skattstjóra á virðisaukaskatti kæranda uppgjörstímabilið september-október 2005 og hins vegar að ákvörðun virðisaukaskatts félagsins umrætt tímabil samkvæmt hinum kærða úrskurði. Er kröfugerð í kærunni svohljóðandi:

„Geri ég þá formkröfu að nefndir úrskurðir verði ómerktir en til vara að álagning samkvæmt úrskurði [skattstjóra], dags. 12. janúar 2006, [...] standi óbreytt en að álag verði fellt niður.“

Þá er þess sérstaklega krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, hver sem málsúrslit verði.

Í kærunni er greint frá málavöxtum og rakið að haustið 2005 hafi fyrirkomulagi á útsendingu virðisaukaskattsskýrslna verið breytt og skýrslur fyrir þrjú uppgjörstímabil, þ.e. tímabilin september-október og nóvember-desember 2005 og janúar-febrúar 2006, verið sendar út í einu lagi. Vegna þessarar breyttu tilhögunar á útsendingu greiðsluseðla hafi viðkomandi starfsmaður kæranda gleymt að greiða virðisaukaskattinn á gjalddaga og hafi þau mistök uppgötvast þann 10. janúar 2006. Þegar hafi þá verið úr þessu bætt með framvísun virðisaukaskattsskýrslu ásamt greiðslu hjá tollstjóranum í Reykjavík. Degi síðar hafi kæranda þó borist greiðsluáskorun frá tollstjóra, dags. 9. janúar 2006, með tilheyrandi hótunum um stöðvun rekstrar. Bréfi þessu hafi fylgt tilkynning skattstjóra, dags. 6. janúar 2006, um ákvörðun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið september-október 2005 þar sem kæranda hafi verið veittur 30 daga kærufrestur. Umrædd tilkynning skattstjóra hafi einvörðungu verið send tollstjóra sem hafi framsent hana til kæranda. Þá virðist sem skil kæranda á virðisaukaskattinum þann 10. janúar 2006 hafi ranglega verið tekin til afgreiðslu sem kæra þar sem skattstjóri hafi tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 12. janúar 2006, um afgreiðslu á virðisaukaskattsskýrslu félagsins og niðurfellingu áætlunar og kæranda verið leiðbeint um kærufrest til yfirskattanefndar vegna þeirrar ákvörðunar.

Í kærunni kemur fram að kröfur kæranda séu byggðar á því að félaginu hafi hvorki verið gefinn kostur á að tjá sig um áætlun virðisaukaskatts né síðari ákvörðun skattsins „og að ákvarðanir skattstjóra og tollstjóra standist hvorki skattalög né stjórnsýslulög“, eins og segir í kærunni. Sérstaklega séu hótanir tollstjóra ámælisverðar og brjóti gegn stjórnarskrárvörðum rétti kæranda til atvinnufrelsis. Kæranda hafi ekki verið gefinn neinn kostur á að tjá sig um málið á lægra stjórnsýslustigi og þannig enginn gaumur verið gefinn að hugsanlegum málsbótum með tilliti til álagsbeitingar, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Byggt sé þannig á því að málsmeðferð skattstjóra og tollstjóra „og óstaðfestar og óundirritaðar tölvuákvarðanir þeirra“ standist ekki ákvæði 7., 10., 11., 12., 13., 14., 15. og 19. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er tekið fram að varakrafa kæranda sé studd sömu rökum og að framan greinir. Í niðurlagi kærunnar kemur fram að vinnustundir lögmanns vegna málsins séu fimm.

III.

Með bréfi, dags. 10. apríl 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gjalddagi virðisaukaskatts vegna uppgjörstímabilsins september-október 2005 var 5. desember 2005. Bar kæranda því að skila virðisaukaskattsskýrslu og standa skil á virðisaukaskatti vegna þess tímabils í síðasta lagi 5. desember 2005. Sé skýrslu eigi skilað innan tilskilins tíma, engin skýrsla er send eða ef skýrsla eða fylgigögnum er ábótavant skal skattstjóri áætla skatt samkvæmt 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. sömu laga skal innsend fullnægjandi skýrsla tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlun samkvæmt 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta má fella niður álag samkvæmt 6. mgr. 27. gr. laganna og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað skuli telja gildar ástæður í þessu sambandi.

Skattstjóri áætlaði skatt kæranda, samanber tilkynningu þess efnis dags. 6. janúar 2006. Bréf tollstjóra, varðandi áskorun um greiðslu vanskila á virðisaukaskatti, var dags. 9. janúar 2006. Kærandi stóð skil á virðisaukaskattsskýrslu og greiddi virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins september-október 2005 þann 10. janúar 2006.

Að virtum atvikum málsins þykir ekki ástæða til að fella niður álag á virðisaukaskatt kæranda, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, svo sem krafist er.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. apríl 2006, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur.

Með bréfi, dags. 24. apríl 2006, hefur fyrirsvarsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er áréttað að málið hafi verið kært til yfirskattanefndar þar sem skattstjóri hafi við meðferð málsins ekki fylgt þeim lagaákvæðum sem vísað sé til í kröfugerð ríkisskattstjóra. Sé þannig ítrekað að einungis innheimtumanni ríkissjóðs hafi verið tilkynnt um áætlun virðisaukaskatts kæranda sem sé andstætt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988. Kærandi hafi staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu þann 10. janúar 2006 án þess að vera kunnugt um áætlun skattstjóra á virðisaukaskatti félagsins og því fái ekki staðist að skattstjóri hafi tekið virðisaukaskattsskýrsluna til meðferðar sem kæru. Skattstjóri hafi ekki sent kæranda tilkynningu um áætlunina, þrátt fyrir lagaskyldu, og verði ekki bætt úr því með fylgiskjali með bréfi frá tollstjóra. Röng málsmeðferð skattstjóra hafi þannig leitt til þess að kærandi hafi aldrei átt þess kost að koma á framfæri kröfu um niðurfellingu álags og röksemdum fyrir henni við meðferð málsins á skattstjórastigi. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram vegna málskostnaðarkröfu kæranda að vinnustundir vegna kærunnar séu fjórar.

IV.

Eins og fram er komið stóð kærandi ekki skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005 og sætti því áætlun virðisaukaskatts umrætt uppgjörstímabil, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Hinn 10. janúar 2006 barst skattstjóra virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir greint tímabil og með hinum kærða úrskurði, dags. 12. janúar 2006, féllst skattstjóri á að leggja innsenda skýrslu til grundvallar ákvörðun virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005, en ákvarðaði kæranda álag samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu athuguðu verður að skilja kröfugerð kæranda svo, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 25. janúar 2006, að aðalkrafa kæranda lúti að því að ákvörðun virðisaukaskatts félagsins uppgjörstímabilið september-október 2005 verði alfarið felld úr gildi vegna annmarka sem kærandi telur að séu á málsmeðferð skattstjóra. Varakrafa kæranda lýtur hins vegar að niðurfellingu álags á virðisaukaskatt og er studd sömu rökum.

Athugasemdir kæranda við málsmeðferð skattstjóra eru í meginatriðum á þá lund að kæranda hafi ekki gefist kostur á að tjá sig um þær ákvarðanir skattstjóra sem í málinu greinir, þ.e. hvorki áætlun virðisaukaskatts félagsins uppgjörstímabilið september-október 2005, sbr. tilkynningu skattstjóra, dags. 6. janúar 2006, sem er meðal fylgiskjala með kæru til yfirskattanefndar, né ákvörðun virðisaukaskatts umrætt tímabil til samræmis við innsenda virðisaukaskattsskýrslu, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 12. janúar 2006. Er m.a. sérstaklega fundið að því í kærunni að skattstjóri hafi ekki tilkynnt kæranda um áætlun virðisaukaskatts félagsins þrátt fyrir lagaskyldu þar að lútandi, sbr. 4. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, enda hafi tilkynning skattstjóra, dags. 6. janúar 2006, einungis fylgt greiðsluáskorun tollstjórans í Reykjavík, dags. 9. janúar 2006. Þá eru gerðar athugasemdir við að skattstjóri hafi tekið innsenda virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir umrætt tímabil til afgreiðslu sem kæru.

Vegna framangreindra sjónarmiða kæranda skal tekið fram að samkvæmt niðurlagsákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988 skal innsend fullnægjandi virðisaukaskattsskýrsla tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir samkvæmt 25. gr. laganna. Var meðferð skattstjóra á innsendri virðisaukaskattsskýrslu kæranda því lögum samkvæmt og er ekki tilefni til athugasemda við málsmeðferð skattstjóra að því leyti. Í 4. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að skattstjóri skuli tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið. Fyrir liggur að kæranda barst þann 11. janúar 2006 tilkynning skattstjóra, dags. 6. janúar 2006, um áætlun virðisaukaskatts félagsins, en í tilkynningunni var kæranda m.a. leiðbeint um 30 daga kærufrest til skattstjóra samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988. Hafði virðisaukaskattsskýrsla kæranda fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005 þá borist eða 10. janúar 2006 er skattstjóri afgreiddi sem kæru með greindum kæruúrskurði, dags. 12. janúar 2006, eins og fyrr segir. Samkvæmt þessu verður ekki séð að sú staðreynd, að tilkynning skattstjóra mun hafa borist með greiðsluáskorun frá tollstjóranum í Reykjavík, hafi valdið kæranda neinum réttarspjöllum. Af hinum síðbúnu skilum á virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005 leiddi að skattstjóra bar að áætla virðisaukaskatt kæranda umrætt uppgjörstímabil, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 50/1988, og er ekki tilefni til athugasemda við málsmeðferð skattstjóra með tilliti til áætlunar virðisaukaskatts í tilviki kæranda.

Af hálfu kæranda er því m.a. haldið fram að brotið hafi verið gegn lögfestum andmælarétti kæranda með því að félaginu hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um álagsbeitingu skattstjóra samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar litið er til eðlis þess álags, sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sem er lögbundið og leiðir sjálfkrafa af tilgreindum aðstæðum í 1. mgr. greinarinnar, verður út af fyrir sig ekki að því fundið þótt álagsbeitingin hafi ekki verið boðuð kæranda sérstaklega. Var kæranda og í lófa lagið að bera sig upp undan álagsbeitingu þegar hann lagði fram virðisaukaskattsskýrslu fyrir umrætt uppgjörstímabil.

Samkvæmt framansögðu verður að hafna aðalkröfu kæranda í máli þessu. Þá verður varakrafa kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt ekki tekin til greina á þeim grundvelli að málsmeðferð skattstjóra hafi verið áfátt. Rétt þykir að líta svo á að varakrafa kæranda sé jafnframt studd efnislegum rökum, enda kemur fram í kærunni til yfirskattanefndar að hin síðbúnu skil á virðisaukaskattsskýrslu kæranda uppgjörstímabilið september-október 2005 eigi rót sína að rekja til breytinga á tilhögun á útsendingu virðisaukaskattsskýrslna til gjaldenda sem átt hafi sér stað á árinu 2005.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Fyrir liggur að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á virðisaukaskattsskýrslu fyrir uppgjörstímabilið september-október 2005 þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Samkvæmt fram komnum skýringum kæranda stöfuðu hin síðbúnu skil af mistökum starfsmanns félagsins sem áttu rót sína að rekja til breytinga á fyrirkomulagi við útsendingu virðisaukaskattsskýrslna af hálfu ríkisskattstjóra, svo sem nánar er lýst í kæru til yfirskattanefndar. Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Verður því að hafna varakröfu kæranda um niðurfellingu álags.

Vegna athugasemda kæranda í kæru til yfirskattanefndar varðandi málsmeðferð og innheimtuaðgerðir tollstjóra skal tekið fram að litið hefur verið svo á að ágreiningsefni varðandi innheimtu virðisaukaskatts eigi ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 29. gr. laga nr. 50/1988 og lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Er því ekki á valdsviði yfirskattanefndar að fjalla um ágreining um innheimtu virðisaukaskatts og málsmeðferð tollstjóra í því sambandi.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins og þar sem ekki verður séð að kærandi, sem rekið hefur málið sjálfur á öllum stigum þess, hafi borið kostnað vegna málsins, enda er eingöngu um að ræða vinnu fyrirsvarsmanns kæranda við málareksturinn, eru ekki lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja