Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á erfðafjárskatt

Úrskurður nr. 400/2006

Lög nr. 14/2004, 6. gr. 3. mgr., 13. gr.  

Eignir dánarbús B voru vanframtaldar í erfðafjárskýrslu með því að engin grein var gerð fyrir fyrirframgreiddum arfi. Kröfu erfingja um niðurfellingu álagsins var hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að hinn 28. febrúar 2006 barst skattstjóra frá sýslumanni erfðafjárskýrsla (RSK 1.12), dags. 22. febrúar 2006, vegna arfs úr dánarbúi B sem lést í desember 2005.

Með bréfi til kærenda, dags. 9. mars 2006, greindi skattstjóri frá því að í skattframtali dánarbús B árið 2006 væri tilgreind verðbréfaeign 2.489.844 kr. og bankainnstæður 21.347.719 kr. Í erfðafjárskýrslu vegna arfs úr búinu væru hins vegar tilgreindar bankainnstæður 7.562.409 kr. og engin verðbréfaeign. Fór skattstjóri fram á skýringar kærenda á þessu misræmi.

Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 29. mars 2006, kom fram að B hefði selt verðbréfin þann 19. ágúst 2005 fyrir 2.505.607 kr. og lagt andvirði bréfanna inn á bankareikning sinn. Þann 25. ágúst 2005 hefði B tekið fé út af bankareikningnum og greitt börnum sínum, þ.e. kærendum, 15.900.000 kr. þannig að í hlut hvers og eins hefðu komið 3.975.000 kr. Samkvæmt þessu hefðu kærendur skuldað B 15.900.000 kr. í árslok 2005 og hefði sú fjárhæð átt að koma fram í erfðafjárskýrslu sem „aðrar eignir“ og eignir dánarbúsins að hækka sem því næmi.

Með bréfi, dags. 6. apríl 2006, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 10. gr. laga nr. 14/2004 að fyrirhugað væri að hækka stofn til erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi B úr 25.586.345 kr. í 45.461.345 kr. eða um 19.875.000 kr. Vísaði skattstjóri í því sambandi til bréfs umboðsmanns kærenda, dags. 29. mars 2006, þar sem fram kæmi að eignir dánarbúsins væru vanframtaldar í innsendri erfðafjárskýrslu. Þá væri fyrirhugað að bæta 25% álagi við vantalinn skattstofn, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004. Samkvæmt því yrði hrein eign til skipta að viðbættu 25% álagi 45.461.345 kr. og væri því fyrirhugað að hækka erfðafjárskatt úr 1.279.316 kr. í 2.273.067 kr.

Með bréfi, dags. 21. apríl 2006, mótmælti umboðsmaður kærenda fyrirhugaðri álagsbeitingu skattstjóra. Í bréfinu var ítrekað að B hefði greitt lögerfingjum sínum verulega fjárhæð í ágúst 2005. Við frágang á erfðafjárskýrslu vegna dánarbús B hefði láðst að geta um þessar greiðslur þar sem erfingjar hefðu ekki gert sér grein fyrir því að í eðli sínu hefði verið um lán að ræða og þar með eign dánarbús B. Eftir athugasemd skattstjóra í bréfi, dags. 9. mars 2006, hefði málið verið kannað og upplýst að fullu með bréfi umboðsmanns kærenda, dags. 29. mars 2006. Ekki yrði því séð að um neinn ásetning erfingja til að lækka erfðafjárskatt hefði verið að ræða heldur einföld mistök eða yfirsjón. Af þessum sökum væri þess krafist að 25% álag yrði fellt niður.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2006, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 10. gr. laga nr. 14/2004 um þá breytingu á erfðafjárskýrslu vegna arfs úr dánarbúi B að hrein eign til skipta samkvæmt skýrslunni hefði verið hækkuð úr 26.586.345 kr. í 42.486.345 kr. eða um 15.900.000 kr. og að skattstjóri hefði bætt 25% álagi samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004 við þá hækkun á stofni til erfðafjárskatts sem af þessu leiddi. Vegna kröfu umboðsmanns kærenda um niðurfellingu álags tók skattstjóri fram að í ljósi atvika málsins féllist hann ekki á að fram komnar skýringar kærenda ættu að leiða til niðurfellingar álags, enda yrði ekki annað séð en að erfingjum yrði kennt um annmarka á erfðafjárskýrslu. Nam fjárhæð álags 3.975.000 kr.

II.

Með kæru, dags. 12. maí 2006, hefur umboðsmaður kærenda skotið ákvörðun skattstjóra frá 27. apríl 2006 til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kæruefnið sé beiting 25% álags samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004. Er greint frá málavöxtum og tekið fram að greiðsla B þann 25. ágúst 2005 á 15.900.000 kr. til kærenda hafi í raun verið fyrirframgreiðsla arfs sem láðst hafi að gera grein fyrir við frágang á erfðafjárskýrslu vegna dánarbús B í febrúar 2006. Ítrekar umboðsmaður kærenda að ætlun kærenda hafi ekki verið sú að vantelja eignir dánarbúsins. Andlát náinna ástvina komi ávallt róti á huga manna og veraldlegt vafstur sé ekki efst í huga á slíkum tímum. Í tilviki kærenda sé þannig um að ræða mannleg mistök sem stafað hafi af hugsunar- eða fyrirhyggjuleysi. Þá beri að hafa í huga að uppgjör dánarbúa sé sem betur fer ekki daglegt viðfangsefni þorra manna og því skiljanlegt að þekkingu skorti á uppgjöri erfðamála, enda skorti á leiðbeiningar í þeim efnum. Fram að setningu laga nr. 14/2004 hafi ekki komið til beitingar 25% álags á vanframtalda skattstofna. Með hliðsjón af framansögðu og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá verði ekki annað séð en að álagsbeiting sé harkaleg í tilviki kærenda, enda sé ásetningi til undanskota ekki til að dreifa. Sé þess því krafist að yfirskattanefnd felli niður álagsbeitingu skattstjóra. Í niðurlagi kærunnar er þess krafist að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Er tekið fram að kostnaður kærenda af málinu nemi 110.000 kr. fyrir utan virðisaukaskatt og sé vegna 10 klukkustunda vinnu umboðsmanns kærenda við málið.

III.

Með bréfi, dags. 1. september 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Gerð er krafa um staðfestingu á álagsbeitingu skattstjóra þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að tilvik kæranda séu þess eðlis að 2. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, eigi við.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. september 2006, var kæranda, A, sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Ágreiningur í máli þessu varðar einvörðungu þá ákvörðun skattstjóra að bæta 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, við þá hækkun skattstofns erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi B sem leiddi af breytingu skattstjóra á erfðafjárskýrslu, dags. 22. febrúar 2006, vegna dánarbúsins. Af hálfu kærenda er þess krafist að álagið verði fellt niður.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004 má skattstjóri bæta 25% álagi við áætlaða eða vantalda skattstofna séu verðmæti á erfðafjárskýrslu ranglega fram talin. Fella skal niður álag samkvæmt þessari grein ef erfingi færir rök að því að honum verði eigi kennt um annmarka á erfðafjárskýrslu, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar.

Óumdeilt er að eignir dánarbús B voru vanframtaldar í erfðafjárskýrslu með því að engin grein var gerð fyrir fjárhæð sem greidd var fyrirfram upp í arf í ágúst 2005, en fyrir liggur að sýslumanni var á þeim tíma ekki látin í té erfðafjárskýrsla til áritunar vegna hinna fyrirframgreiddu verðmæta svo sem boðið er í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 14/2004. Að þessu athuguðu verður hvorki talið að með framkomnum skýringum hafi af hálfu kærenda verið sýnt fram á að aðstæður hafi verið með þeim hætti sem greinir í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 14/2004 þannig að fella beri álagið niður né að tilefni sé til að falla frá beitingu heimildarákvæða 1. mgr. sömu lagagreinar í tilviki kærenda. Með vísan til þess, sem hér hefur verið rakið, er kröfu kærenda um niðurfellingu álags hafnað.

Umboðsmaður kærenda hefur gert kröfu um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kærendum málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Kröfu þar að lútandi er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja