Úrskurður yfirskattanefndar

  • Reiknað endurgjald

Úrskurður nr. 407/2006

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 58. gr.   Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald árið 2002  

Kærandi í málinu var prentari að mennt og framkvæmdastjóri X ehf. sem rak prentsmiðju. Skattstjóri hækkaði reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu hans á vegum félagsins og miðaði í því sambandi við viðmiðunarflokk B-3 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Kærandi taldi hins vegar að viðmiðunarflokkur D-1 ætti við í tilviki hans. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að skilsmunur milli viðmiðunarflokka B og D í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fælist einkum í því að hvaða marki stjórnun væri þáttur í starfi. Með hliðsjón af m.a. skýringum kæranda og eðli umræddrar starfsemi, sem félli undir löggilta iðngrein og iðnréttindi kæranda, yrði naumast séð að stjórnun hefði verið sá þáttur í starfi kæranda að útilokaði viðmiðunarflokk D-1 í tilviki kæranda. Var fallist á kröfu kæranda um að reiknað endurgjald hans yrði miðað við flokk D-1.

I.

Með kæru, dags. 13. mars 2006, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 13. desember 2005, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurðinum að hækka reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. um 656.426 kr. umrætt gjaldár. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda tók skattstjóri mið af viðmiðunarflokki B-3 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi fyrir tekjuárið 2002.

Af hálfu kæranda er þess krafist að reiknað endurgjald hans gjaldárið 2003 verði miðað við viðmiðunarflokk D-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt gögnum málsins er kærandi framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar X ehf. og ásamt eiginkonu sinni eigandi alls hlutafjár í félaginu. Í skattframtali sínu árið 2003 tilfærði kærandi laun frá félaginu að fjárhæð 1.978.774 kr. Þá voru tilfærð bifreiðahlunnindi vegna afnota af bifreið félagsins 964.800 kr.

Með bréfi til X ehf., dags. 13. janúar 2004, lagði skattstjóri fyrir félagið að gera grein fyrir fjárhæðum reiknaðs endurgjalds vegna starfa kæranda og eiginkonu hans í þágu félagsins á árinu 2002. Fór skattstjóri fram á að gerð yrði grein fyrir því hvernig laun þeirra hefðu verið ákvörðuð, hvert væri umfang og eðli starfa þeirra og undir hvaða flokk í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald umrædd störf féllu. Umboðsmaður X ehf. svaraði bréfi skattstjóra með bréfi, dags. 13. febrúar 2004, þar sem fram kom að kærandi og eiginkona hans hefðu fyrir allmörgum árum ákvarðað sér laun í rekstrinum eins og þau hefðu verið í starfi fyrir óskyldan aðila og að miðað hefði verið við að um fullt starf þeirra beggja væri að ræða. Laun þeirra hefðu síðan hækkað í samræmi við almennar launabreytingar iðnaðarmanna í viðkomandi starfsgreinum, en ekki hefði verið litið sérstaklega til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í því sambandi. Kærandi væri í fullu starfi við rekstur prentsmiðjunnar, en starfshlutfall eiginkonu hans væri að mati þeirra nær því að vera 80%. Þá kom fram í bréfi umboðsmanns félagsins að frá og með ársbyrjun 2004 myndu laun kæranda taka mið af flokki D-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra og laun eiginkonu hans mið af flokki H-1 í reglunum. Með bréfum til kæranda og eiginkonu hans, dags. 7. desember 2004 og 10. mars 2005, gaf skattstjóri þeim kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna fyrrgreindra bréfaskipta skattstjóra og X ehf. Ekki urðu viðbrögð af hálfu kæranda og eiginkonu hans við þessum bréfum skattstjóra.

Með bréfi, dags. 14. nóvember 2005, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda hans gjaldárið 2003 þar sem fyrirhugað væri að hækka reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. á árinu 2002 úr 2.943.574 kr. í 3.600.000 kr. eða um 656.426 kr. Í bréfinu rakti skattstjóri gang málsins og efni bréfs umboðsmanns X ehf. frá 13. febrúar 2004. Að svo búnu gerði skattstjóri grein fyrir ákvæðum 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. og 58. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og efni viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald tekjuárið 2002, sbr. auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/2002 sem birst hefði í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 39, 17. janúar 2002. Kvaðst skattstjóri líta svo á að vegna eigna- og stjórnunartengsla kæranda og X ehf. teldist kærandi ráðandi aðili við stjórnun félagsins, en kærandi væri framkvæmdastjóri félagsins og ásamt eiginkonu sinni eigandi alls hlutafjár í félaginu. Samkvæmt skattframtali kæranda árið 2003 hefði hann eingöngu starfað hjá X ehf. á árinu 2002 og bentu skil á staðgreiðslu opinberra gjalda til þess að vinnuframlag kæranda hefði verið nokkuð jafnt yfir árið. Reiknað endurgjald kæranda hefði þó aldrei náð lágmarksviðmiðun sem kveðið væri á um í viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald fyrir tekjuárið 2002. Vegna athugasemda umboðsmanns X ehf. varðandi viðmiðunarflokk sem við ætti í tilviki kæranda benti skattstjóri á að í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra kæmi fram að til flokks D teldust iðnaðarmenn í löggiltum iðngreinum, en væri stjórnun svo sem framkvæmdastjórn félags aðalþáttur starfsins skyldi miða reiknað endurgjald við flokka B-1, B-2 eða B-3. Rekstur X ehf. væri fólginn í offset- og hæðarprentun og heildarvelta félagsins á árinu 2002 hefði numið 45.752.391 kr. Samkvæmt skýrslu stjórnar með ársreikningi félagsins hefði fjöldi starfsmanna verið að meðaltali 7-8 starfsmenn á árinu 2002, auk útburðarfólks, og hefðu launagreiðslur numið samtals 14.173.488 kr. Þegar litið væri til umfangs starfsemi X ehf. mætti leiða líkur að því að stjórnun félagsins væri verulegur hluti starfs kæranda sem framkvæmdastjóra félagsins og félli starfið því undir flokk B í viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald. Þar kæmi fram að undir flokk B-3 í reglunum félli maður sem stýrði rekstri sem greiddi laun sem samsvöruðu árslaunum 2-4 starfsmanna eða væri með sambærileg umsvif í rekstri með aðkeyptri þjónustu. Með hliðsjón af virðisaukaskattsskilum X ehf. og umsvifum félagsins í rekstri yrði ekki talið að nein ofáætlun væri fólgin í því að telja kæranda falla undir greindan flokk B-3. Samkvæmt framansögðu væri fyrirhugað að hækka reiknað endurgjald kæranda í skattframtali árið 2005 til samræmis við viðmiðunarfjárhæð 3.600.000 kr. samkvæmt flokki B-3 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2002.

Með bréfi, dags. 22. nóvember 2005, mótmælti umboðsmaður kæranda hinum boðuðu breytingum skattstjóra. Í bréfinu kom fram að kærandi væri ekki þeirrar skoðunar að stjórnun væri aðalþáttur í starfi sínu hjá X ehf. Starfsmenn félagsins væru flestir faglærðir og þyrftu því óverulega tilsögn við störf sín. Rekstur félagsins væri í afar föstum skorðum og verkefni þess þau sömu frá degi til dags. Stjórnun væri því lítill hluti af starfi kæranda sem væri lærður prentari og ynni mest við þá iðngrein. Þá yrði að efast um að kærandi fengi hærri laun fyrir sambærilegt starf hjá óskyldum aðila en sem svaraði til viðmiðunarfjárhæðar samkvæmt flokki D-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra. Loks mætti taka tillit til þess að kærandi hefði orðið 65 ára á árinu 2002. Í niðurlagi bréfsins gerði umboðsmaður kæranda athugasemdir við að málið hefði dregist á langinn og af þeim sökum hefði kærandi gert ráð fyrir því að málinu væri lokið.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 13. desember 2005, hratt skattstjóri hinni boðuðu hækkun reiknaðs endurgjalds kæranda í skattframtali árið 2003 í framkvæmd og hækkaði tilgreind laun kæranda frá X ehf. um 656.426 kr. Í úrskurðinum áréttaði skattstjóri áður fram komin rök og sjónarmið í málinu. Vegna athugasemda í bréfi umboðsmanns kæranda frá 22. nóvember 2005 kom fram í úrskurði skattstjóra að starf framkvæmdastjóra félags fælist yfirleitt ekki einungis í daglegri tilsögn starfsmanna, heldur fylgdi þeirri stöðu ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, auk annarrar stjórnunar og stefnumótunar. Í ljósi þess kvaðst skattstjóri telja að viðmiðunarfjárhæð reiknaðra launa samkvæmt flokki B-3 væri „algjört lágmark“ í tilviki kæranda. Hefði skattstjóri því með vísan til alls framangreinds hrundið hinum boðuðu breytingum í framkvæmd og hækkað reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 2003 um 656.426 kr. og endurákvarðað opinber gjöld kæranda til samræmis við það.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 13. mars 2006, er þess krafist að reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 2003 verði miðað við viðmiðunarflokk D-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 2002. Um rökstuðning fyrir þeirri kröfu er vísað til bréfs umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 22. nóvember 2005, og tekið fram að afar ólíklegt sé að kærandi hefði haft launakjör í samræmi við flokk B-3 í viðmiðunarreglunum í starfi fyrir óskyldan aðila ... á þeim tíma sem um sé að ræða í málinu. Verði að líta til aldurs kæranda sem orðið hafi 65 ára á árinu 2002. Þá sé bent á að starfsemi X ehf. fari fram í N-bæ sem almennt sé ekki talið til hálaunasvæða, en taka verði tillit til rekstrarumhverfis hverju sinni. Þá sé til þess að líta að málið hafi tekið langan tíma í meðförum skattstjóra.

IV.

Með bréfi, dags. 23. júní 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Í 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt (áður 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt) er að finna grundvallarákvæðið um reiknað endurgjald og sköttunarheimild þess til tekjuskatts, sbr. 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar útsvar. Samkvæmt áðurnefndu ákvæði laga nr. 90/2003 ber þeim manni, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Í 58. gr. laga nr. 90/2003 (áður 59 gr. laga nr. 75/1981) eru ákvæði um véfengingu skattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi af hendi skattaðila, ákvarðanir skattstjóra í því sambandi, viðmiðanir og skorður sem þessu ákvörðunarvaldi eru settar. Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003, kemur fram að fjármálaráðherra setji árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra og að við ákvörðun lágmarksendurgjalds skuli hafa hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Í 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 segir að færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið er í reglum fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr., skal skattstjóri hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali sem honum beri að gera ótilkvöddum.

Með lögum nr. 133/2001, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt voru reglur um reiknað endurgjald styrktar. Markmið þeirra breytinga var að koma í veg fyrir að hluthafar og hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun langt undir því sem almennt geti talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila.

Með vísan til 3. málsl. 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt setti ríkisskattstjóri reglur um reiknað endurgjald vegna starfa á árinu 2002, sem birtar voru með auglýsingu nr. 39/2002 í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 3. kafla reglnanna skal framteljandi reikna sér endurgjald eigi lægra en viðmiðunarfjárhæðir í 4. kafla reglnanna og að teknu tilliti til launa eða reiknaðs endurgjalds í öðru starfi hjá ótengdum eða óskyldum aðila, umfangs og eðlis starfseminnar og starfs hans, taxta fyrir útselda vinnu, afkomu rekstrar og eigin fjár í rekstri, sbr. 1. kafla.

Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2006, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skattstjóra að hækka reiknað endurgjald kæranda vegna vinnu á vegum X ehf. um 656.426 kr. gjaldárið 2003, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 13. desember 2005, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003. Eins og fram er komið tilfærði kærandi í skattframtali sínu umrætt ár laun og bifreiðahlunnindi frá félaginu að fjárhæð samtals 2.943.574 kr. Skattstjóri taldi að atvikum væri svo farið að kæranda bæri að reikna sér endurgjald vegna starfa sinna hjá félaginu, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og áleit að hin tilfærðu laun og bifreiðahlunnindi væru lægra endurgjald en ef kærandi hefði innt starfið af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila, sbr. áskilnað lagaákvæðisins. Við ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds kæranda vegna vinnu á vegum félagsins tók skattstjóri mið af viðmiðunarflokki B-3 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald tekjuárið 2002, þ.e. mánaðarlaunum að fjárhæð 300.000 kr. og árslaunum að fjárhæð 3.600.000 kr. Samkvæmt því væri reiknað endurgjald kæranda vanreiknað um 656.426 kr. og í því sambandi tók skattstjóri með í reikninginn tilfærð bifreiðahlunnindi að fjárhæð 964.800 kr. og byggði þannig á því að tilfært reiknað endurgjald af hendi kæranda hefði talist 2.943.574 kr. og því verið vanfært um greinda fjárhæð 656.426 kr. Skattstjóri féllst ekki á það sjónarmið kæranda að hann félli undir flokk D-1 í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra vegna umræddra starfa í þágu X ehf.

Grundvallarákvæðið um reiknað endurgjald og sköttunarheimild þess til tekjuskatts er 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að því er varðar útsvar. Samkvæmt nefndu ákvæði laga nr. 90/2003 ber þeim manni, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, að telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt og hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með áorðnum breytingum, er fjallað um ákvörðun og meðferð reiknaðs endurgjalds í staðgreiðslu samkvæmt þeim lögum, sbr. 2. tölul. 4. gr. og 2. tölul. 5. gr. laganna. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um vefengingu skattstjóra á tilfærðu reiknuðu endurgjaldi af hendi skattaðila, ákvarðanir skattstjóra í því sambandi, viðmiðanir og skorður sem þessu ákvörðunarvaldi eru settar. Kemur fram í 1. mgr. greinarinnar að fjármálaráðherra setji árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skuli höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Í 2. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 er tekið fram að færi maður sér til tekna á framtali lægra endurgjald en áskilið sé í reglum fjármálaráðherra, sbr. 1. mgr., skuli skattstjóri hækka endurgjaldið, óháð ákvörðun á staðgreiðsluári, enda hafi framteljandi ekki lagt fram fullnægjandi gögn og rökstuðning með skattframtali sem honum beri að gera ótilkvöddum. Skattstjóra sé heimilt að fallast á lægra endurgjald en viðmiðunarreglur fjármálaráðherra kveði á um, enda liggi fyrir viðhlítandi gögn og rökstuðningur framteljanda og eftir atvikum launagreiðanda sem réttlætt geti slíka ákvörðun. Skuli framteljandi m.a. láta í té upplýsingar um umfang og eðli starfs og starfsemi, afkomu rekstrarins, fjármagn bundið í rekstri og upplýsingar um útselda vinnu eftir því sem það eigi við. Samkvæmt 4. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 skulu ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar gilda um starf á vegum lögaðila, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Samkvæmt framansögðu er skylda manna til að reikna sér endurgjald ekki bundin við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, heldur tekur hún jafnframt til vinnu manna við atvinnurekstur eða starfsemi, sem rekin er í sameign með öðrum og einnig um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 75/1981, nú lög nr. 90/2003, er m.a. eftirfarandi tekið fram um reiknað endurgjald: „Er miðað við að maður skuli telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hefði hann innt starfið af hendi fyrir óskyldan aðila, hvort sem hann vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða þá hjá félagi sem honum er tengt.“ Í athugasemdum með 7. gr. fyrrgreinds frumvarps segir m.a. svo: „2. mgr. 1. tl. er nýmæli. Mælt er fyrir um að maður, sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skuli telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hefði hann innt það af hendi fyrir óskyldan og ótengdan aðila, eins og nú gildir um mann sem vinnur hjá félagi í atvinnurekstri.“ Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 133/2001, um breyting á ýmsum skattalögum, kemur fram varðandi breytingar á reglum um reiknað endurgjald samkvæmt 7. og 59. gr. laga nr. 75/1981 að nauðsynlegt sé talið „að styrkja þá framkvæmd að vinna manns í atvinnurekstri lögaðila (sameignarfélagi, hlutafélagi, samlagshlutafélagi, einkahlutafélagi o.fl.), sem hann eða fjölskylda hans á eignar- eða stjórnunaraðild að, verði skattlögð með sambærilegum hætti og vinna hans í eigin rekstri“. Þetta sé gert með tillögum að breytingum um ítarlegra orðalag í 7. og 59. gr. gildandi laga og með þeim breytingum sé reynt að koma í veg fyrir að hluthafar og hlutareigendur í fyrirtækjum ákvarði sér laun langt undir því sem almennt geti talist eðlilegt endurgjald fyrir sambærileg störf fyrir óskylda eða ótengda aðila. Sömu sjónarmið koma fram í athugasemdum með 2. gr. frumvarpsins er breytti 7. gr. laga nr. 75/1981. Eftir þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 133/2001 á 7. og 59. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 7. og 58. gr. laga nr. 90/2003, er skýrar kveðið á um þau tengsl sem verða að vera á milli viðkomandi einstaklings og lögaðilans, önnur en vinnusambandið.

Fram er komið að X ehf. er að öllu leyti í eigu kæranda og eiginkonu hans og er kærandi framkvæmdastjóri félagsins. Ljóst er því að kæranda bar að reikna sér endurgjald vegna vinnu sinnar á vegum þessa einkahlutafélags, sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 4. mgr. 58. gr. laganna, og er raunar ekki ágreiningur um það.

Samkvæmt auglýsingu ríkisskattstjóra nr. 4/2002 um reiknað endurgjald tekjuárið 2002, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda sem auglýsing nr. 39, 17. janúar 2002, falla undir viðmiðunarflokk B í reglum þessum „menn sem vinna við iðnaðar- og iðjurekstur, hvers konar verslun og viðskipti, veitingastarfsemi, útgerð og fiskvinnslu, framleiðslu landbúnaðarvara, verktakastarfsemi hvers konar og þjónustu, sem ekki heyrir undir flokk A eða C“. Er tekið fram að stjórnun rekstrarins eða félagsins sé hluti af störfum þeirra sem falla undir flokk B-1, B-2 og B-3, enda þótt þeir vinni einnig önnur störf. Tilgreindir eru fjórir flokkar undir B, miðað við umsvif og starfsmannafjölda. Undir viðmiðunarflokk B-3 fellur „Maður sem stýrir rekstri sem greiðir laun sem samsvara árslaunum 2 til 4 starfsmanna eða er með sambærileg umsvif í rekstri með aðkeyptri þjónustu.“ Árslaun samkvæmt þessum flokki nema 3.600.000 kr.

Undir viðmiðunarflokk D í viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra falla iðnaðarmenn í löggiltum iðngreinum. Fram kemur að ef stjórnun, svo sem framkvæmdastjórn félags, er aðalþáttur starfsins skuli miða reiknað endurgjald við flokk B-1, B-2 eða B-3 í reglunum. Tilgreindir eru tveir flokkar undir D. Undir flokk D-1 fellur „Iðnaðarmaður, sem hefur iðnlærða menn eða tvo eða fleiri ófaglærða aðstoðarmenn í þjónustu sinni eða er með sambærileg umsvif í rekstri með aðkeyptri þjónustu.“ Árslaun samkvæmt þeim flokki nema 2.700.000 kr. Ekki verður annað ráðið af viðmiðunarreglunum en átt sé við lágmarkslaun fyrir fullt starf, sbr. skýringar á viðmiðunarfjárhæðum í upphafi 4. kafla greindra viðmiðunarreglna. Samkvæmt viðmiðunarreglunum eru viðmiðunarfjárhæðir miðaðar við þá tegund atvinnurekstrar eða starfsemi sem framteljandi stendur fyrir og er um lágmarksfjárhæðir að ræða sé viðkomandi ekki í öðru launuðu föstu starfi eða starfi sem reikna skal endurgjald fyrir, sbr. 1. kafla reglnanna og upphaf 4. kafla þeirra.

Þegar bornir eru saman annars vegar viðmiðunarflokkur B og hins vegar viðmiðunarflokkur D samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra verður ekki annað ráðið en skilsmunur milli flokka þessara felist einkum í því að hvaða marki stjórnun er þáttur í starfinu, enda er sérstaklega tekið fram í viðmiðunarflokki D að sé stjórnun, svo sem framkvæmdastjórn félags, aðalþáttur í starfinu beri að miða við viðmiðunarflokka B-1, B-2 eða B-3 eftir atvikum. Á þessu hefur skattstjóri byggt og þá einkum horft til veltu og starfsmannafjölda X ehf.

Eins og atvikum var háttað verður að telja að það hafi borið undir kæranda að sýna fram á að stjórnun hafi ekki verið aðalþáttur starfsins, sbr. fyrrgreindan skilsmun viðmiðunarflokka B og D. Af hálfu kæranda er því haldið fram, sbr. einkum bréf umboðsmanns kæranda til skattstjóra, dags. 22. nóvember 2005, að stjórnun sé ekki aðalþáttur í starfi kæranda. Er bent á í bréfinu að flestir starfsmenn X ehf. séu faglærðir á sínu sviði og að kærandi sé prentari að mennt og starfi einkum við prentun. Í þessu sambandi er til þess að líta að kærandi var með bréfum skattstjóra, dags. 7. desember 2004 og 10. mars 2005, ekki sérstaklega krafinn um upplýsingar um störf sín að þessu leyti. Að þessu athuguðu og með vísan til framkominna skýringa kæranda svo og með hliðsjón af því sem fram er komið um eðli umræddrar starfsemi, sem fellur undir löggilta iðngrein og iðnréttindi kæranda, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 940/1999, um löggiltar iðngreinar, og iðnaðarlög nr. 42/1978, verður naumast séð að stjórnun hafi verið sá þáttur í starfi kæranda að útiloki viðmiðunarflokk D-1 í tilviki kæranda. Samkvæmt því þykir mega fallast á sjónarmið kæranda varðandi viðmiðunarflokk vegna reiknaðs endurgjalds vegna vinnu kæranda í þágu X ehf. Eins og fram er komið nema árslaun samkvæmt viðmiðunarflokki D-1 2.700.000 kr. Af því leiðir að hin kærða hækkun reiknaðs endurgjalds kæranda gjaldárið 2003 fellur niður, enda verður ekki talið að krafa kæranda gangi lengra, sbr. það viðhorf skattstjóra að telja bifreiðahlunnindi með við ákvörðun sína þannig að reiknað endurgjald samkvæmt skattframtali var talið 2.943.574 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja