Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður
  • Fyrning
  • Fyrnanleg eign

Úrskurður nr. 180/2007

Gjaldár 2003

Lög nr. 90/2003, 13. gr. 1. mgr., 14. gr., 33. gr.  

Kærandi var einkahlutafélag og hafði með höndum rekstur og útleigu fasteigna. Kæruefni málsins var sú ákvörðun skattstjóra að heimila ekki sérstaka fyrningu fyrnanlegra eigna á móti tekjufærslu skattskylds söluhagnaðar vegna sölu kæranda á atvinnuhúsnæði á árinu 2002 sem kærandi hafði keypt á sama ári. Voru forsendur skattstjóra þær að hin selda fasteign gæti ekki talist til fyrnanlegra eigna þar sem eignin hefði ekki verið notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda, enda hefði kærandi afhent kaupanda fasteignina sama dag og kærandi hefði sjálfur fengið eignina afhenta frá seljanda. Yfirskattanefnd benti á að með kaupum sínum á atvinnuhúsnæðinu hefði kærandi yfirtekið gildandi húsaleigusamning seljanda við leigutaka þótt ekki kæmi til þess að kærandi hefði leigutekjur af eigninni vegna eftirfarandi sölu félagsins á húsnæðinu til leigutakans og þar sem lögskiladagar vegna kaupa og sölu á eigninni féllu saman. Að því athuguðu og að virtri starfsemi kæranda taldi yfirskattanefnd ekki ástæðu til að vefengja að kaup kæranda á húsnæðinu hefðu verið gerð með það fyrir augum að nýta húsnæðið til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda. Var því fallist á kröfu kæranda.

I.

Með kæru, dags. 13. október 2006, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar úrskurði skattstjóra, dags. 5. september 2006, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2003. Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt úrskurðinum að heimila ekki sérstaka fyrningu fyrnanlegra eigna á móti tekjufærslu skattskylds söluhagnaðar vegna sölu fasteignar á árinu 2002.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til kæranda, dags. 5. apríl 2006, lagði skattstjóri fyrir kæranda að gera grein fyrir tilgreindum atriðum í skattframtali félagsins árið 2003, m.a. hvort tilgreindar leigutekjur í skattframtalinu væru vegna útleigu fasteignar við X-götu. Tók skattstjóri fram að ef kærandi hefði ekki haft neinar leigutekjur af fasteigninni skyldi gerð grein fyrir því hvernig eignin hefði verið notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri félagsins á meðan hún hefði verið í eigu þess. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 26. apríl 2006, kom fram að kærandi hefði ekki haft neinar leigutekjur af fasteigninni við X-götu sem keypt hefði verið á árinu 2002. Þannig hefði háttað til að sama dag og fasteignin hefði verið afhent kæranda hefði eignin verið seld aðilum sem hefðu haft hana á leigu.

Með bréfi, dags. 17. maí 2006, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda félagsins gjaldárið 2003 þar sem fyrirhugað væri að fella niður gjaldfærða sérstaka fyrningu fyrnanlegra eigna að fjárhæð 5.963.688 kr. á móti söluhagnaði sömu fjárhæðar vegna sölu X-götu í skattframtali kæranda umrætt ár, sbr. reiti 1050 og 4070 í skattframtali rekstraraðila (RSK 1.04). Tók skattstjóri fram að í málinu væri komið fram að um væri að ræða hagnað af sölu atvinnuhúsnæðis sem kærandi hefði keypt á árinu 2002 og selt á sama ári. Einnig væri upplýst að kærandi hefði afhent kaupanda fasteignina sama dag og kærandi hefði fengið eignina afhenta frá seljanda. Fasteignin hefði þannig aldrei verið nýtt til öflunar tekna í rekstri félagsins og gæti því ekki talist fyrnanleg eign í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Af því leiddi að kæranda hefði ekki verið heimilt að fyrna sérstakri fyrningu fyrnanlegar eignir á móti greindum söluhagnaði á grundvelli 14. gr. laga nr. 90/2003. Í tilviki kæranda ættu því við ákvæði 15. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fjallað væri um söluhagnað eigna sem ekki væri heimilt að fyrna. Engin heimild væri í skattalögum til að fyrna eignir sérstakri fyrningu á móti söluhagnaði fasteigna sem féllu undir 15. gr. laga nr. 90/2003. Með vísan til framanritaðs væri fyrirhugað að fella niður gjaldfærða sérstaka fyrningu 5.963.688 kr. í reit 4070 í skattframtali kæranda árið 2003 og hækka bókfært verð fasteigna um sömu fjárhæð.

Með bréfi, dags. 1. júní 2006, mótmælti umboðsmaður kæranda fyrirhugaðri breytingu skattstjóra. Kom fram í bréfinu að ekki væru forsendur til þess að endurákvarða á árinu 2006 opinber göld sem hefðu verið lögð á kæranda árið 2003. Tók umboðsmaður kæranda fram að verslunarhúsnæði væri óumdeilanlega fyrnanleg eign samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 og yrði slíkt húsnæði ekki fellt undir ákvæði 15. gr. sömu laga. Engu breytti í því sambandi þótt fasteignin hefði verið keypt og seld aftur á sama ári.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. september 2006, hratt skattstjóri hinni boðuðu breytingu á skattframtali kæranda árið 2003 í framkvæmd og endurákvarðaði áður álögð opinber gjöld félagsins gjaldárið 2003 til samræmis. Í úrskurðinum rakti skattstjóri málavexti og gerði grein fyrir andmælum umboðsmanns kæranda. Vegna þeirra andmæla vísaði skattstjóri til ákvæðis um tímafrest til endurákvörðunar í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 og kvaðst ekki geta fallist á með kæranda að umrætt ákvæði hefði bundið hendur skattstjóra til að gera hina umdeildu breytingu á skattframtali félagsins árið 2003, enda hefði ekkert komið fram um það í skattframtali kæranda umrætt ár hvort fasteignin við X-götu hefði verið notuð til öflunar tekna á árinu 2002. Því hefði skattstjóri ekki haft nægilegar upplýsingar í höndum til þess að fella niður gjaldfærða sérstaka fyrningu á móti söluhagnaði á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003. Að svo búnu rakti skattstjóri ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr., 33. gr. og 34. gr. laga nr. 90/2003 og ítrekaði að hin umþrætta fasteign, sem kærandi hefði keypt á árinu 2002 og selt aftur á sama ári, hefði aldrei verið nýtt til öflunar tekna í atvinnurekstri félagsins, enda væri upplýst í málinu að fasteignin hefði verið afhent nýjum eigendum sama dag og kærandi hefði fengið eignina afhenta. Eignir, sem ekki væru nýttar til tekjuöflunar, gætu ekki fallið undir 13. og 14. gr. laga nr. 90/2003. Í slíkum tilvikum ættu við ákvæði 15. gr. sömu laga nema kaup og sala eigna félli undir atvinnurekstur skattaðila, en þá ættu við ákvæði 21. gr. laganna. Með vísan til framanritaðs væri gjaldfærð sérstök fyrning 5.963.688 kr. á móti hagnaði af sölu X-götu í skattframtali kæranda árið 2003 felld niður.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 13. október 2006, er þess krafist að ákvörðun skattstjóra um að fella niður sérstaka fyrningu 5.963.688 kr. á móti söluhagnaði vegna sölu á X-götu og hækka bókfært verð fasteigna um sömu fjárhæð verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að mati yfirskattanefndar.

Í kærunni er rakið að kærandi hafi keypt verslunarhúsnæðið við X-götu með kaupsamningi, dags. 15. apríl 2002, og hafi kaupverð eignarinnar numið 30.036.312,30 kr. Samkvæmt 3. gr. kaupsamningsins skyldi kaupandi yfirtaka húsaleigusamning við Z ehf. Með kaupsamningi, dags. 20. júní 2002, hafi kærandi síðan selt Z ehf. húsnæðið fyrir 36.000.000 kr. Vegna þessa hafi þótt eðlilegast að búa þannig um hnútana að kærandi afhenti Z ehf. eignina sama dag og kærandi hefði fengið hana afhenta. Þar af leiðandi hafi kærandi ekki haft neinar leigutekjur af eigninni. Þar með sé þó ekki sagt að eignin hafi ekki verið nýtt til öflunar tekna fyrir kæranda. Þvert á móti hafi kærandi hagnast um tæplega 6 milljónir króna á þessum viðskiptum. Þá hafi söluverð eignarinnar til Z ehf. miðast við að engar leigutekjur hefðu komið til. Sé því spurning hvort skattstjóri hefði ekkert aðhafst í málinu ef afhending hefði átt sér stað síðar á árinu og kærandi þannig haft leigutekjur af eigninni, en á móti fengið lægra verð fyrir hana. Kærandi hafi aldrei fengið tækifæri til þess að gera grein fyrir framangreindum viðskiptum. Skattstjóri hafi aðeins litið til þess að kærandi hefði afhent kaupanda eignina sama dag og félagið hefði fengið hana afhenta frá sínum seljanda. Ekki verði séð að skattstjóri hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eina málsástæða skattstjóra í málinu sé sú að eignin hafi ekki verið nýtt til tekjuöflunar fyrir kæranda og þar með geti ekki verið um fyrnanlega eign að ræða samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003. Sú málsástæða hljóti þó að falla um sjálfa sig þar sem umrætt atvinnuhúsnæði hafi aflað kæranda tekna að fjárhæð 6.000.000 kr. á árinu 2002. Eignin hafi því sannarlega verið notuð til öflunar tekna. Samkvæmt framansögðu verði ekki séð að úrskurður skattstjóra „gangi upp hvorki að því er varðar form né að byggt sé á réttum lagaákvæðum“ og af þeim sökum sé þess krafist að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

IV.

Með bréfi, dags. 8. desember 2006, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. desember 2006, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæruefni máls þessa er sú ákvörðun skattstjóra, sem hann tók með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 5. september 2006, að heimila ekki sérstaka fyrningu fyrnanlegra eigna á móti tekjufærslu skattskylds söluhagnaðar sem myndaðist á árinu 2002 vegna sölu atvinnuhúsnæðis að X-götu, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Byggði skattstjóri hina umdeildu ákvörðun sína á því að umrædd fasteign gæti ekki talist til fyrnanlegra eigna í skilningi 33. gr. laga nr. 90/2003 þar sem eignin hefði ekki verið notuð til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003 telst hagnaður af sölu eigna, sem heimilt er að fyrna samkvæmt 33. gr. laganna, og af sölu réttinda, sem tengd eru þessum eignum, að fullu til skattskyldra tekna á söluári og skiptir ekki máli hve lengi skattaðili hefur átt hina seldu eign. Á því ári sem skattskyldur söluhagnaður eigna samkvæmt 13. gr. laga nr. 90/2003 færist til tekna er skattaðila heimilt samkvæmt 1. málsl. 14. gr. laganna að fyrna eignir, sem fyrnanlegar eru samkvæmt 33. gr. sömu laga, um fjárhæð sem nemur hinum skattskylda söluhagnaði. Samkvæmt 33. gr. laga nr. 90/2003 eru fyrnanlegar eignir varanlegir rekstrarfjármunir sem notaðir eru til öflunar tekna í atvinnurekstri eða í sjálfstæðri starfsemi og rýrna að verðmæti við eðlilega notkun eða aldur, sbr. nánari upptalningu á helstu flokkum fyrnanlegra eigna í lagagreininni.

Samkvæmt gögnum málsins, þ.m.t. fyrirliggjandi ársreikningi kæranda fyrir árið 2002, er starfsemi kæranda fólgin í rekstri og útleigu fasteigna. Með kaupsamningi, dags. 15. apríl 2002, keypti kærandi verslunarhúsnæði á jarðhæð fasteignarinnar að X-götu af Y ehf. fyrir 30.036.312,30 kr. Var tekið fram í samningnum að kaupandi yfirtæki sem leigusali með öllum réttindum og skyldum húsaleigusamning sem upphaflega hefði verið gerður við T ehf., en síðar með viðauka, dags. 27. september 2001, við Z ehf. Þá kom fram að afsal fyrir eigninni skyldi gefið út 1. maí 2002 og þann dag tæki kaupandi formlega við eigninni og hirti arð hennar og greiddi af henni skatta og skyldur frá og með þeim degi en seljandi fram til þess dags. Með kaupsamningi, dags. 20. júní 2002, seldi kærandi síðan Z ehf. umrætt húsnæði fyrir 36.000.000 kr. Í samningnum kom fram að hið selda hefði verið afhent í umsömdu ástandi þann 1. maí 2002 og lögskil vegna kaupanna skyldu miðast við þann dag.

Ljóst er samkvæmt framansögðu að með kaupum sínum á atvinnuhúsnæðinu við X-götu yfirtók kærandi gildandi húsaleigusamning seljanda við Z ehf. þótt ekki kæmi til þess að kærandi hefði leigutekjur af eigninni vegna eftirfarandi sölu félagsins á húsnæðinu til leigutakans, Z ehf., og þar sem lögskiladagar vegna kaupa og sölu á eigninni féllu saman. Að því athuguðu og að virtri starfsemi kæranda þykir ekki ástæða til að vefengja að kaup kæranda á umræddu atvinnuhúsnæði hafi verið gerð með það fyrir augum að nýta húsnæðið til öflunar tekna í atvinnurekstri kæranda. Verður því að telja að um hafi verið að ræða skattskyldan söluhagnað samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 90/2003. Var kæranda því heimil umrædd sérstök fyrning samkvæmt 14. gr. laga nr. 90/2003, en óumdeilt er að þær eignir, sem fyrndar voru sérstakri fyrningu, voru fyrnanlegar. Með vísan til framanritaðs þykir mega fallast á kröfu kæranda í máli þessu.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að mati yfirskattanefndar, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins og þar sem ganga verður út frá því að um útlagðan kostnað kæranda vegna meðferðar málsins sé að ræða þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds ákvæðis. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákveðinn 40.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 40.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja