Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 321/2004

Virðisaukaskattur 2003

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.  

Kærandi stóð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið september-október 2003 í netbanka á gjalddaga skattsins þann 5. desember 2003, en þar sem greiðslan fór fram eftir kl. 21 þann dag var greiðslan ekki bókuð fyrr en á næsta bankadegi. Af þessum sökum sætti kærandi álagsbeitingu skattstjóra vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti umrætt uppgjörstímabil. Yfirskattanefnd hafnaði kröfu kæranda um niðurfellingu álags, en féllst á varakröfu um lækkun álags þar sem ekki lá annað fyrir en að greiðsla kæranda hefði borist innheimtumanni daginn eftir gjalddaga, þ.e. 6. desember 2003.

I.

Með kæru, dags. 11. febrúar 2004, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði skattstjóra, dags. 30. janúar 2004, um ákvörðun álags að fjárhæð 9.884 kr. vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti uppgjörstímabilið september-október 2003, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í kærunni er þess krafist að álag verði fellt niður á grundvelli heimildar í 6. mgr. sömu lagagreinar. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

II.

Málavextir eru þeir að með kæru til skattstjóra, dags. 21. janúar 2004, óskaði kærandi eftir upplýsingum um það á hvaða grundvelli kærandi hefði sætt álagi á virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins september-október 2003, en greiðsla skattsins hefði verið innt af hendi á réttum tíma. Væri álagsbeiting skattstjóra kærð til niðurfellingar. Meðfylgjandi kærunni var kvittun úr netbanka vegna greiðslu á virðisaukaskatti kæranda fyrir uppgjörstímabilið september-október 2003.

Með kæruúrskurði, dags. 30. janúar 2004, tók skattstjóri til afgreiðslu kröfu kæranda um að fallið yrði frá beitingu álags. Vísaði skattstjóri til ákvæðis 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 og tók fram að samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar mætti fella álag niður ef skattþegn sýndi fram á að gildar ástæður væru til niðurfellingar þess. Ættu skattyfirvöld mat um það hvað teldust gildar ástæður í þessu sambandi. Í framkvæmd hefði jafnan verið beitt álagi vegna vangreidds virðisaukaskatts nema vangreiðsla stafaði af óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, bæri að skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok hvers uppgjörstímabils. Í 9. gr. sömu reglugerðar væri fjallað um það hvað teldust fullnægjandi skil á virðisaukaskatti og kæmi fram í 1. tölul. 1. mgr. greinarinnar að skil væru fullnægjandi ef greitt hefði verið í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga. Gjalddagi uppgjörstímabilsins maí-júní 2002 hefði verið 5. desember 2003, en samkvæmt upplýsingakerfi skattstjóra hefði greiðsla kæranda borist 6. desember 2003 til innheimtumanns ríkissjóðs. Í útprentun úr netbanka, sem fylgt hefði kæru kæranda, kæmi fram að greiðsla hefði verið innt af hendi þann 5. desember 2003 kl. 21:46. Í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. janúar 1999, nr. 902/1999, kæmi fram að samkvæmt upplýsingum frá bönkum, Sambandi íslenskra sparisjóða og Reiknistofu bankanna væru færslur sem bærust eftir kl. 21 bókaðar á næsta bankadag. Með vísan til framanritaðs teldust það fullnægjandi skil ef gjaldandi færði greiðsluna í heimabanka sínum í síðasta lagi kl. 21 á gjalddaga virðisaukaskatts. Teldi skattstjóri að um væri að ræða atvik sem kærandi bæri einn ábyrgð á og yrðu þau ekki talin til utanaðkomandi eða óviðráðanlegra atvika. Þætti því ekki vera tilefni til að falla frá hinni kærðu álagsbeitingu á grundvelli 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Væri kröfu kæranda um niðurfellingu álags synjað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 11. febrúar 2004, er krafist niðurfellingar álags vegna síðbúinnar greiðslu virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið september-október 2003, enda hafi kærandi innt af hendi greiðslu virðisaukaskatts fyrir greint uppgjörstímabil á réttum tíma þann 5. desember 2003. Atvikum málsins sé rétt lýst í hinum kærða úrskurði, en að mati kæranda standist ekki að lögum að gera honum að greiða álag þegar greiðsla skatts hafi verið innt af hendi á réttum degi jafnvel þó dregist hafi að greiða um tæpa klukkustund ef miðað sé við svonefndan bankadag. Er gerð sú krafa til vara að álagið verði lækkað og að það verði látið nema 1% af skattstofni. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði.

IV.

Með bréfi, dags. 12. mars 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans og eftirfarandi athugasemda, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, kemur fram að greiðsla á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla teljist því aðeins innt af hendi á gjalddaga, að greiðslufyrirmælin berist banka eða sparisjóði innan þeirra tímamarka sem viðkomandi banki eða sparisjóður setur fyrir því að greiðsla teljist hafa farið fram á þeim degi. Í málinu er óumdeilt að greiðsla kæranda fór fram á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla í skilningi ákvæðisins og að greiðslan var ekki færð fyrr en kl. 21.46 þann 5. desember 2003. Auk þess er óumdeilt að færslur sem berast bönkum eftir kl. 21.00 eru bókaðar á næsta bankadag. Því er ótvírætt að skil kæranda á virðisaukaskatti teljast ekki fullnægjandi í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili sæta álagi sé virðisaukaskattur ekki greiddur á réttum tíma og hefur skattstjóri ekkert val um það hvort til beitingar álags kemur eða ekki, jafnvel þótt greiðsla dragist ekki nema lítillega fram yfir gjalddaga. Skattstjóra er þó heimilt að vissum skilyrðum uppfylltum að fella niður álag, sbr. ákvæði 6. mgr. 27. Að mati ríkisskattstjóra getur kærandi ekki réttlætt greiðsludrátt sinn með vísan til þeirra ástæðna sem talin eru upp í ákvæðinu enda eingöngu um atvik sem hann bar einn ábyrgð á.“

V.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir. Í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2001, segir að það teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef greitt er í banka eða sparisjóði í síðasta lagi á gjalddaga. Greiðsla á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla telst því aðeins innt af hendi á gjalddaga, að greiðslufyrirmælin berist banka eða sparisjóði innan þeirra tímamarka sem viðkomandi banki eða sparisjóður setur fyrir því að greiðsla teljist hafa farið fram á þeim degi. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla skv. 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Í málinu liggur fyrir að kærandi stóð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið september-október 2003 eftir kl. 21 þann 5. desember 2003 í gegnum netbanka Íslandsbanka hf. Greiðslan var þó ekki bókuð af bankanum þann dag, enda munu greiðslur sem fara fram í netbönkum eftir kl. 21 vera bókaðar næsta bankadag, sbr. það sem kemur fram um þetta atriði í hinum kærða úrskurði. Telja verður að með vísan til framangreinds liggi fyrir að kærandi hafi ekki staðið skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið september-október 2003 á tilskildum tíma, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Taka verður undir það með skattstjóra að af hálfu kæranda hafa ekki verið færðar fram slíkar ástæður sem eiga að leiða til niðurfellingar álags eftir heimildarákvæði 6. mgr. 27. gr. þeirra laga. Aðalkröfu kæranda er því hafnað.

Álag samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal vera 1% af þeirri fjárhæð, sem vangreidd er, fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Af hálfu kæranda er þess krafist til vara að álag verði lækkað í 1% af fjárhæð virðisaukaskatts sem honum bar að greiða uppgjörstímabilið september-október 2003 og verður að telja að krafan sé byggð á því að greiðsla hafi verið innt af hendi einum degi eftir gjalddaga. Samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu kæranda og tilkynningu skattstjóra, dags. 8. janúar 2004, bar kæranda að greiða 307.936 kr. í virðisaukaskatt fyrir uppgjörstímabilið september-október 2003. Álagsfjárhæð samkvæmt tilkynningu skattstjóra nemur 9.884 kr. sem hvorki er í samræmi við það að greiðsla hafi borist innheimtumanni 6. desember 2003, sem segir í hinum kærða úrskurði skattstjóra, né að greiðsla hafi verið bókuð mánudaginn 8. desember 2003 sem telja verður næsta bankadag eftir að greiðsla fór fram. Í kröfugerð ríkisskattstjóra er ekkert vikið að varakröfu kæranda og liggur ekki annað fyrir en að greiðsla hafi borist innheimtumanni daginn eftir gjalddaga. Samkvæmt því þykir bera að leiðrétta fjárhæð álags í 3.079 kr. en sú fjárhæð er ákvörðuð í samræmi við úrskurðaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 526/1995.

Fyrirsvarsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Þar sem ekki verður séð að kærandi, sem rekið hefur mál sitt sjálfur á öllum stigum þess, hafi borið kostnað vegna málsins, enda er eingöngu um að ræða vinnu fyrirsvarsmanns kæranda við málareksturinn, eru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt greindu ákvæði. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Aðalkröfu kæranda um niðurfellingu álags á virðisaukaskatt fyrir uppgjörstímabilið september-október 2003 er hafnað. Fallist er á varakröfu kæranda um lækkun álags. Málskostnaðarkröfu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja