Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erlent félag
  • Skattskylda

Úrskurður nr. 325/2004

Gjaldár 2001 og 2002

Lög nr. 75/1981, 2. gr. 1. mgr. 1. og 5. tölul.   Reglugerð nr. 245/1963, 2. gr. 2. mgr.  

Kærandi í máli þessu var félag með takmarkaðri ábyrgð sem skráð var í Hollandi. Var kæruefni málsins sú ákvörðun skattstjóra að telja kæranda bera sjálfstæða skattskyldu hér á landi þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins væri hér á landi, sbr. 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981. Yfirskattanefnd féllst ekki á að umrætt ákvæði fæli í sér slíka heimild til að skattleggja hér á landi félög með takmarkaðri ábyrgð sem skráð væru erlendis, enda tæki ákvæðið einungis til annarra félaga, sjóða og stofnana en þeirra sem talin væru í öðrum töluliðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981. Með vísan til þess og þar sem í lögum nr. 75/1981 væri ekki fyrir að fara almennri aðsetursreglu varðandi ótakmarkaða skattskyldu lögaðila var ákvörðun skattstjóra felld úr gildi.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra, sem hann tók með úrskurði, dags. 23. september 2003, að telja kæranda, sem er félag með lögheimili í Hollandi, bera sjálfstæða skattskyldu hér á landi á grundvelli 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003, um sama efni, og leggja opinber gjöld á kæranda gjaldárin 2001 og 2002 í samræmi við þá niðurstöðu á grundvelli áætlunar, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Forsendur þessarar ákvörðunar skattstjóra voru þær, sbr. m.a. bréf skattstjóra til kæranda, dags. 7. ágúst 2003, þar sem skattstjóri tilkynnti kæranda um fyrirhugaða ákvörðun opinberra gjalda félagsins gjaldárin 2001 og 2002 og skoraði á kæranda að leggja fram skattframtöl vegna þeirra ára, en bréfi þessu var ekki svarað af hálfu kæranda, að kærandi teldist eiga heimili hér á landi þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins væri hér á landi, sbr. 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 þar sem fram kemur að félag, sjóður eða stofnun teljist eiga hér heimili ef það er skráð hér á landi, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi. Með úrskurði sínum, dags. 23. september 2003, áætlaði skattstjóri tekjuskattsstofn kæranda með 500.000 kr. gjaldárið 2001 og 5.000.000 kr. gjaldárið 2002 og eignarskattsstofn félagsins umrædd ár með sömu fjárhæðum.

Í bréfi skattstjóra til kæranda, dags. 7. ágúst 2003, kom fram að ríkisskattstjóri hefði með bréfi til skattstjóra, dags. 13. febrúar 2003, farið fram á það að skattstjóri hlutaðist til um álagningu opinberra gjalda á kæranda. Aðdragandi þess hefði verið sá að ríkisskattstjóri hefði með bréfi, dags. 13. febrúar 2003, synjað umsókn kæranda frá 9. október 2002 um leiðréttingu á afdreginni staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og tímabundna undanþágu vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts á vaxtatekjur (RSK 5.33). Forsendur ríkisskattstjóra hefðu verið þær að þar sem allir stjórnarmenn í kæranda væru íslenskir ríkisborgarar búsettir hér á landi væri ljóst að stefnumótun og ákvarðanataka í málefnum kæranda færi fram hér á landi og yrði því að líta svo á að raunveruleg framkvæmdastjórn félagsins væri hér á landi í skilningi 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003. Kærandi væri þar af leiðandi skattskyldur hér á landi vegna vaxtatekna og ætti ekki rétt á undanþágu frá staðgreiðslu skatts af slíkum tekjum, sbr. 2. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur. Skattstjóri tók fram í bréfi sínu að samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 teldist félag, sem ekki væri skráð hér á landi, engu að síður eiga skattalega heimilisfesti á Íslandi ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess væri hér á landi. Við ákvörðun þess hvar raunveruleg framkvæmdastjórn félags teldist vera væri m.a. litið til þess hvar stefnumótun og ákvarðanataka í mikilvægustu málum þess færi fram, hvar stjórn félagsins væri, hvar eftirlit með starfsemi félagsins færi fram og hvar þeir sem kæmu fram fyrir hönd félagsins væru búsettir. Að öllu jöfnu væri það sá staður þar sem þeir sem kæmu fram fyrir félagið væru búsettir. Við mat á því hvar raunveruleg framkvæmdastjórn félags væri lægi áhersla ekki á því að kanna formsatriði, svo sem heimilisfang félags, heldur væru raunverulegar aðstæður kannaðar og við þá könnun litið heildstætt á málavexti. Ríkisskattstjóri hefði með bréfi til kæranda, dags. 5. nóvember 2002, skorað á félagið að upplýsa um eignarhald að því, hverjir skipuðu stjórn þess, hvar stjórnarfundir væru haldnir, hvort félagið hefði fastráðna starfsmenn og lagt fyrir kæranda að leggja fram staðfestingar á skattgreiðslum í Hollandi. Með bréfi til ríkisskattstjóra, dags. 2. desember 2002, hefði umboðsmaður kæranda greint frá því að félagið væri í eigu tilgreindra lögaðila, íslenskra og erlendra, og eins Íslendings, en ekki hefði verið greint frá eignarhaldi að hinum erlendu lögaðilum sem væru meðal eigenda kæranda. Í umræddu bréfi umboðsmanns kæranda kom fram að eigendur kæranda væru ... . Þá kom fram að stjórnarmenn í kæranda væru ... . Bréfinu fylgdi ljósrit af staðfestingu hollensks fyrirtækis, Y BV, dags. 25. nóvember 2002, á því að fyrirtækið væri „registered director of X BV“. Þá fylgdi ljósrit af hollensku skattframtali kæranda fyrir árið 2000.

Skattstjóri tók fram í bréfi sínu til kæranda, dags. 7. ágúst 2003, að samkvæmt framlögðum ársreikningi kæranda fyrir árið 2000 væri enginn starfsmaður hjá félaginu í Hollandi og ekki væri um að ræða neinar launagreiðslur, húsnæðiskostnað eða annan almennan rekstrarkostnað hjá félaginu. Þegar litið væri til þess sem og þeirrar staðreyndar að allir stjórnarmenn kæranda væru íslenskir og búsettir á Íslandi, sem og annarra þeirra atriða sem að framan væri getið, yrði að líta svo á að raunveruleg framkvæmdastjórn kæranda í skilningi 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 væri hér á landi. Bæri því að skattleggja kæranda hér á landi. Í úrskurði skattstjóra, dags. 23. september 2003, kom fram að þar sem kærandi hefði þrátt fyrir áskorun skattstjóra ekki lagt fram skattframtöl vegna áranna 2000 og 2001 yrði að áætla gjaldstofna kæranda gjaldárin 2001 og 2002. Með hliðsjón af eðli og umfangi kæranda og fyrirliggjandi gögnum, þ.e. þeim gögnum sem félagið hefði lagt fram hjá ríkisskattstjóra, þættu gjaldstofnar hæfilega áætlaðir með þeim fjárhæðum sem áður greinir.

II.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 23. desember 2003, sbr. greinargerð, dags. 22. mars 2004, er þess aðallega krafist að úrskurður skattstjóra frá 23. september 2003 verði felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að lagður verði tekjuskattur á kæranda miðað við 30% skatthlutfall í stað 38% hlutfalls samkvæmt ákvörðun skattstjóra. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

Í kærunni er rakið að ákvörðun skattstjóra um skattlagningu kæranda hér á landi eigi rót sína að rekja til ákvörðunar ríkisskattstjóra frá 13. febrúar 2003, sbr. kæruúrskurð þess embættis frá 15. maí 2003, um að synja kæranda um endurgreiðslu staðgreiðslu af vaxtatekjum. Umboðsmaður kæranda telji að kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. maí 2003, hafi verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 7. júní 2003, sbr. bréf yfirskattanefndar til kæranda, dags. 29. desember 2003. Sú kæra hafi hins vegar ekki fundist hjá yfirskattanefnd þrátt fyrir eftirgrennslan. Á hinn bóginn sé ljóst að í máli vegna úrskurðar skattstjóra frá 23. september 2003 muni reyna á sömu atriði og fjallað hafi verið um í fyrrnefndum úrskurði ríkisskattstjóra, þ.e. skattalega stöðu kæranda. Sé því sérstaklega óskað eftir því að yfirskattanefnd kynni sér afgreiðslu ríkisskattstjóra á málinu og taki afstöðu til málsins á grundvelli þeirra gagna og upplýsinga sem fram hafi komið við meðferð málsins hjá ríkisskattstjóra, enda hafi skattstjóri byggt ákvörðun sína á sjónarmiðum ríkisskattstjóra og endurákvörðunin verið framkvæmd samkvæmt sérstökum tilmælum ríkisskattstjóra.

Til rökstuðnings aðalkröfu kæranda kemur fram í kæru umboðsmanns kæranda að kærandi sé hlutafélag sem hafi verið stofnað og skráð í Hollandi árið 1999. Samkvæmt hollenskum skattalögum teljist félagið vera skattskyldur aðili þar í landi og hafi félagið athugasemdalaust staðið skil á skattframtölum í Hollandi. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. í tvísköttunarsamningi Íslands og Hollands gildi sú regla að þegar aðili annar en maður telst eiga heimilisfesti í báðum samningsríkjunum samkvæmt 1. mgr. sömu greinar teljist hann heimilisfastur í því ríki þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn hans hefur aðsetur. Sé niðurstaða ríkisskattstjóra í máli kæranda rétt sé þannig komin upp sú staða að bæði samningsríkin leggi sömu tekjur til grundvallar skattlagningu kæranda. Kærandi ætti þannig rétt á að skattyfirvöld leituðu úrræða og samkomulags sem tryggði að kærandi sætti ekki skattlagningu í báðum ríkjunum vegna sömu tekna, sbr. 27. gr. fyrrgreinds tvísköttunarsamnings. Muni eflaust reyna á þetta ef niðurstaða yfirskattanefndar verði sú að staðfesta ákvörðun skattstjóra. Hafi ríkisskattstjóra reyndar mátt vera ljóst að afstaða hans myndi leiða til tvísköttunar sömu tekna kæranda og verði því að telja að réttast hefði verið að ríkisskattstjóri hefði haft samband við skattyfirvöld í Hollandi til þess að leysa úr ágreiningi um skattlagningu félagsins áður en hann tók afstöðu sína.

Varðandi þau sjónarmið, sem skattstjóri og ríkisskattstjóri lögðu til grundvallar þeirri niðurstöðu sinni að raunveruleg framkvæmdastjórn kæranda væri á Íslandi, kemur fram í kæru umboðsmanns kæranda að því sé mótmælt að eignarhald að kæranda skipti máli í því sambandi. Þess skuli þó getið að á því tímabili sem ákvörðun skattstjóra taki til hafi erlend félög átt meira en 60% hlut í kæranda. Ekki verði séð hvaða máli eignaraðild hinna erlendu félaga skipti, enda sé áherslan lögð á stjórnun félags í 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003 en ekki eignarhald. Rétt sé hjá ríkisskattstjóra og skattstjóra að allir stjórnarmenn kæranda séu íslenskir. Sú staðreynd nægi þó ekki ef raunveruleg stjórnun félags fer fram annars staðar og í því sambandi verði að greina á milli daglegrar stjórnunar annars vegar og stefnumótunar í rekstri hins vegar. Í tilviki kæranda liggi fyrir að verulegur kostnaður hafi verið færður til gjalda hjá félaginu vegna ferða stjórnenda félagsins til Hollands vegna stjórnunar félagsins þar. Þá hafi verið gerður sérstakur þjónustusamningur við hollenskan aðila um framkvæmdastjórn félagsins, en sá samningur fylgi kæru til yfirskattanefndar. Ríkisskattstjóra hafi verið send staðfesting sama aðila og þær upplýsingar hafi þannig átt að vera skattstjóra aðgengilegar. Rangt sé að enginn starfsmaður hafi verið hjá kæranda í Hollandi þar sem félagið hafi gert umræddan þjónustusamning við sjálfstæðan þjónustuaðila um að hann tæki að sér að sinna öllum nauðsynlegum störfum vegna framkvæmdastjórnar félagsins í Hollandi. Ekkert komi fram í hollenskri löggjöf sem banni slíkt fyrirkomulag sem raunar sé algengt þar í landi. Ennfremur sé rangt að enginn almennur rekstrarkostnaður hafi fallið til í starfsemi kæranda, enda hafi félagið samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi þurft að bera verulegan stjórnunarkostnað og kostnað vegna greiðslna til þjónustusala. Sá kostnaður sé m.a. innifalinn í liðnum „Operating expenses – General and administrative“ í ársreikningnum, en sá liður hafi numið 309.504 evrum á árinu 2000 og 69.527 evrum á árinu 2001.

Vegna varakröfu er tekið fram í kæru umboðsmanns kæranda að gjaldárin 2001 og 2002, sem ákvörðun skattstjóra taki til, hafi ákvæði 72. gr. laga nr. 75/1981 gilt um skatthlutfall lögaðila og mælt fyrir um 30% tekjuskatt á lögaðila samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga en 38% tekjuskatt á sameignarfélög. Með lögum nr. 143/2003 hafi ákvæðum um skatthlutfall lögaðila hins vegar verið breytt og tilgreint að aðilar, sem skattskyldir væru samkvæmt 4. og 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 90/2003, skyldu greiða skatt í sama hlutfalli og sameignarfélög. Í athugasemdum við lagafrumvarpið komi fram að mistök hafi átt sér stað við lagasetningu á árinu 2001, sbr. lög nr. 133/2003 (sic), sem hafi leitt til ósamræmis í skattlagningu félags og félagsaðila í félögum þar sem ábyrgð væri ekki takmörkuð annars vegar og félögum með takmarkaða ábyrgð hins vegar. Þessi athugasemd í frumvarpinu sé í raun óskiljanleg þegar haft sé í huga að þessi ákvörðun á skatthlutfalli lögaðila hafi verið í lögum um tekjuskatt og eignarskatt allt frá gildistöku laga nr. 122/1993 og breyting sú, sem orðið hafi með lögum nr. 133/2003 (sic), hafi aðeins lotið að lækkun skatthlutfalla þar sem nokkuð sambærileg lækkun hafi orðið hjá öllum lögaðilum. Það sem standi a.m.k. upp úr sé að það fyrirkomulag varðandi skatthlutfall lögaðila sem breytt hafi verið með lögum nr. 143/2003 hafi verið við líði frá árinu 1993 og sé því ljóst að skattstjóra hafi borið að miða við 30% skatthlutfall í tilviki kæranda.

Varðandi málskostnaðarkröfu kæranda kemur fram í kæru umboðsmanns félagsins að þess sé krafist að málskostnaður verði ákvarðaður að álitum.

III.

Með bréfi, dags. 4. júní 2004, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Eftir atvikum þykir mega fallast á varakröfu kæranda.“

IV.

Kæra í máli þessu varðar þá ákvörðun skattstjóra að telja kæranda bera sjálfstæða skattskyldu hér á landi á grundvelli 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. nú lög nr. 90/2003, um sama efni, og leggja opinber gjöld á kæranda gjaldárin 2001 og 2002 í samræmi við þá niðurstöðu á grundvelli áætlunar, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981. Byggði skattstjóri á því að kærandi teldist eiga heimili hér á landi, þrátt fyrir að félagið væri skráð í Hollandi, þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn þess væri hér á landi, sbr. ákvæði 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, sem skattstjóri vísaði til í þessu sambandi, þar sem fram kemur að félag, sjóður eða stofnun teljist eiga hér heimili ef það er skráð hér á landi, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi. Ganga verður út frá því samkvæmt þessu að skattstjóri hafi byggt á því að kærandi bæri sjálfstæða skattskyldu á grundvelli 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981, enda kom ekki annað fram af hálfu skattstjóra.

Fram er komið að aðdragandi að ákvörðun skattstjóra var sá að ríkisskattstjóri synjaði með bréfi, dags. 13. febrúar 2003, umsókn kæranda frá 9. október 2002 um leiðréttingu á afdreginni staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og tímabundna undanþágu vegna staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts á vaxtatekjur. Voru forsendur ríkisskattstjóra þær sem að framan greinir, þ.e. að félagið væri skattskylt hér á landi samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn þess væri hér á landi. Í kjölfar þessarar ákvörðunar ríkisskattstjóra, sbr. og kæruúrskurð embættisins, dags. 15. maí 2003, beindi ríkisskattstjóri því til skattstjóra með bréfi, dags. 13. febrúar 2003, að skattstjóri hlutaðist til um að leggja opinber gjöld á kæranda. Boðaði skattstjóri kæranda hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 7. ágúst 2003, og hratt henni í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 23. september 2003. Af hálfu kæranda er þess aðallega krafist að ákvörðun skattstjóra verði felld úr gildi.

Ákvæði 2. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 2. gr. laga nr. 90/2003, fjalla um skattskyldu lögaðila. Í fimm töluliðum 1. mgr. greinarinnar eru taldir þeir lögaðilar sem á hvílir skylda til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum, hvar sem þeirra er aflað, og eignarskatt af öllum eignum sínum, hvar sem þær eru. Í 5. tölul. 1. mgr. greinarinnar kemur fram að skattskyldan hvíli á „öðrum félögum, sjóðum og stofnunum, þar með töldum sjálfseignarstofnunum, sem hér eiga heimili, sbr. þó 6. tl. 4. gr., svo og dánarbúum og þrotabúum.“ Með „öðrum félögum, sjóðum og stofnunum“ er þannig átt við önnur félög, sjóði og stofnanir en þau sem talin eru í 1. – 4. tölul. 1. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. greinarinnar kemur fram að félag, sjóður eða stofnun teljist eiga hér heimili ef það er skráð hér á landi, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi.

Kærandi í máli þessu er félag með takmarkaðri ábyrgð („besloten vennootschap, BV“) sem skráð er í Hollandi. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 er það skilyrði sett fyrir ótakmarkaðri skattskyldu hlutafélaga, samlagshlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð hér á landi að slík félög séu skráð hér á landi á lögmæltan hátt. Af hálfu ríkisskattstjóra og skattstjóra er hins vegar talið að kærandi falli undir fyrrgreint ákvæði 5. tölul. 1. mgr. sömu greinar þar sem félagið teljist eiga heimili hér þar sem raunveruleg framkvæmdastjórn þess sé hér á landi, sbr. framangreinda skýringarreglu 2. mgr. umrædds töluliðar. Ekki verður fallist á að ákvæði 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 feli í sér slíka heimild til að skattleggja hér á landi félög með takmarkaðri ábyrgð sem skráð eru erlendis, enda tekur ákvæðið sem fyrr greinir einungis til annarra félaga, sjóða og stofnana en þeirra sem talin eru í öðrum töluliðum 1. mgr. greinarinnar. Þykir bera að skýra ákvæði 2. gr. laganna til samræmis að þessu leyti, sbr. ennfremur forsögu þessara ákvæða. Að því er varðar sérstaklega ákvæði 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna skal tekið fram að ákvæðið var tekið upp í lög um tekjuskatt og eignarskatt með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sem síðar urðu lög nr. 75/1981. Í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 40/1978, er ekki að finna neinar skýringar á ákvæðinu. Af lögskýringargögnum verða þannig ekki dregnar neinar ályktanir um að ákvæðinu hafi verið ætlað svo rúmt gildissvið sem ríkisskattstjóri og skattstjóri hafa byggt á. Þá verður að hafa í huga í þessu sambandi að ákvörðun um skattskyldu svo sem á reynir í máli þessu krefst skýrrar lagaheimildar.

Tekið skal fram að í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sem telja verður að sé í gildi að því marki sem ákvæði reglugerðarinnar eiga sér stoð í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt og samræmast þeim, er kveðið svo á um að félag teljist vera innlent, þ.e. hérlendis heimilisfast, ef það er skrásett hér á landi sem hérlent félag. Sé félagið ekki skrásett hér, þá skuli það talið heimilisfast hér á landi ef yfirstjórn þess hefur hér aðsetur sitt. Sama gildir um sjóði og stofnanir. Í 5. gr. laga nr. 70/1962, um tekjuskatt og eignarskatt, en greind reglugerð var sett á grundvelli þeirra laga, var ekki til að dreifa sérstökum áskilnaði um skráningu hlutafélaga, samlagshlutafélaga og annarra félaga með takmarkaðri ábyrgð hér á landi á lögmæltan hátt. Slíkur áskilnaður kom fyrst til sögunnar með 2. gr. laga nr. 40/1978, sbr. og fyrrgreindar breytingar með þeim lögum. Að því virtu, sem hér hefur verið rakið, og með sérstöku tilliti til greinds skilyrðis 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 75/1981 um skráningu hér á landi verður ekki talið að fyrrnefnt ákvæði 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 245/1963 geti haft þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu og þar sem í lögum nr. 75/1981, sbr. nú lög nr. 90/2003, er ekki fyrir að fara almennri aðsetursreglu varðandi ótakmarkaða skattskyldu lögaðila verður að fella hina kærðu ákvörðun skattstjóra úr gildi. Er aðalkrafa kæranda tekin til greina á þeim grundvelli.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Er þess krafist að fjárhæð málskostnaðar verði ákveðin að álitum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli þessa lagaákvæðis. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði ákvarðast málskostnaður kæranda 50.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða ákvörðun skattstjóra er felld úr gildi. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 50.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja