Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattskyldar tekjur
  • Ferðavinningur
  • Skattframkvæmd

Úrskurður nr. 252/1997

Gjaldár 1994

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 4. tölul., 30. gr. 1. mgr. A-liður 3. tölul. (brl. nr. 49/1987, 3. gr.), 30. gr. 2. mgr., 120. gr.  

Kærandi mótmælti skattlagningu ferðavinnings, m.a. með vísan til skattframkvæmdar. Yfirskattanefnd féllst ekki á þau sjónarmið, enda ljóst að ekki var um tækifærisgjöf að ræða. Þá yrði ekki séð að fjármálaráðherra hefði ákveðið að vinningurinn teldist ekki til skattskyldra tekna, svo sem honum væri veitt heimild til. Heimild til að undanþiggja smálega vinninga skattskyldu hefði fyrst komið til framkvæmda á gjaldárinu 1995 og kæmi hún þegar af þeirri ástæðu ekki til skoðunar. Til vara krafðist kærandi þess að tiltekinn kostnaður, sem hann hefði haft af því að nýta sér vinninginn, svo sem ferðir og gisting innanlands, yrði dreginn frá hinum skattskyldu tekjum. Yfirskattanefnd féllst ekki á þessa kröfu og taldi að um persónulegan kostnað kæranda hefði verið að ræða.

I.

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 10. maí 1995, tilkynnti skattstjóri kærendum að fyrirhugað væri að færa kæranda A til tekna vinning frá X að fjárhæð 59.420 kr. Vísaði skattstjóri til 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, um skattskyldu vinninga. Með bréfi, dags. 15. maí 1995, mótmæltu kærendur áformum skattstjóra. Í fyrsta lagi bentu þau á að slíkir minni háttar vinningar sem hér um ræddi hefðu almennt ekki verið skattlagðir hjá móttakendum þeirra. Í öðru lagi hefði löggjafarvaldið staðfest þessa framkvæmdavenju skattyfirvalda með 1. gr. laga nr. 147/1994, sem breytt hefði lögum nr. 75/1981 og fellt niður skattskyldu slíkra vinninga. Í þriðja lagi bentu kærendur á að raunverulegt verðmæti þess „vinnings" sem hér um ræddi hefði í raun verið allt annað og minna en fram hefði komið í bréfi skattstjóra vegna ýmissa takmarkana sem honum hefðu fylgt. Nefndu þau að um hefði verið að ræða ferðavinning sem ekki hefði verið hægt að selja, framselja öðrum eða nýta á nokkurn annan hátt en fara í þessa ferð. Þá hefði orðið að fara ferðina síðari hluta árs og ekki verið unnt að fresta henni til næsta árs. Kærendur hefðu orðið að taka launalaust leyfi til þess að geta nýtt ferðina, þau hefðu orðið að koma sér sjálf til Reykjavíkur og heim aftur ásamt því að bera kostnað af gistingu í tvær nætur við brottför og heimkomu. Töldu þau að framangreindur kostnaður hlyti að koma til frádráttar vinningsfjárhæð, sbr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Þegar tekið hefði verið tillit til framangreindra atriða auk þess sem slíkar ferðir hefðu alltaf í för með sér ýmsan aukakostnað þá yrði ljóst að þau hefðu ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af umræddum happdrættisvinningi sem skattskyldur gæti talist. Skattstjóri hratt boðaðri breytingu í framkvæmd með tilkynningu, dags. 29. ágúst 1995. Vísaði hann til þess að allir vinningar sem ekki væru sérstaklega undanþegnir skattskyldu væru skattskyldar tekjur, sbr. 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Varðandi tilvísun kæranda til 1. gr. laga nr. 147/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, tók skattstjóri fram að sú breyting tæki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1995 og gilti við álagningu opinberra gjalda það ár. Með umræddri breytingu hefðu ýmsir smálegir vinningar verið undanþegnir skattskyldu, s.s. húfur, geisladiskar, bolir, bíómiðar og pítsur, sbr. greinargerð með frumvarpi laganna. Skattstjóri taldi að sá kostnaður sem kærendur hefðu tilgreint gæfi ekki tilefni til lækkunar tekjufærslu. Skattstjóri tók fram að heimilt væri að draga frá tekjur samkvæmt 4. tölul. 7. gr. sem skattfrjálsar væru samkvæmt sérlögum eða ákvörðun fjármálaráðherra, sbr. 120. gr. laga nr. 75/1981. Verðmæti umrædds vinnings hefði verið 59.420 kr. og hefðu kærendur nýtt sér vinninginn.

Umboðsmaður kærenda mótmælti breytingum skattstjóra, sbr. kæru, dags. 27. september 1995, og greinargerð, dags. 17. október 1995. Byggði hann í fyrsta lagi á því að skattstjóri hefði ekki gætt ákvæða 96. gr. laga nr. 75/1981 með því að hann hefði þegar í bréfi sínu 10. maí 1995 tilkynnt kærendum um þá fjárhæð sem hann hygðist færa þeim til tekna. Væri sú málsmeðferð andstæð síðastnefndu lagaákvæði svo og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðru lagi byggði hann á því að skattstjóri hefði vikið frá þeirri framkvæmdavenju skattyfirvalda að minni háttar happdrættisvinningar svo sem hér um ræddi hefðu ekki verið skattlagðir hjá viðtakendum þeirra, sbr. 1. gr. laga nr. 147/1994, um breytingu á lögum nr. 75/1981. Í þriðja lagi byggði hann á því að ef tekið væri tillit til þess kostnaðar sem hagnýting vinningsins hefði í för með sér þá verði ekki um skattskyldan hagnað að ræða fyrir kærendur. Gerði hann grein fyrir beinum kostnaði og áætlaði óbeinan kostnað að hluta og vísaði til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri staðfesti ákvörðun sína með kæruúrskurði, dags. 28. nóvember 1995. Féllst hann ekki á að formlegur annmarki hefði verið á meðferð málsins. Ítrekaði hann þau sjónarmið sem hann hafði áður byggt á og tók fram að í 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. sé tæmandi talning á heimiluðum frádrætti á móti tekjum skv. 4. tölul. 7. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 27. desember 1995, sbr. greinargerð, dags. 3. apríl 1996. Gerir hann þá aðalkröfu að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi. Til vara er gerð krafa um að til frádráttar umræddum tekjum verði heimilaður frádráttur kostnaðar vegna öflunar þessara tekna. Kærendur ítreka sjónarmið sín varðandi málsmeðferð skattstjóra. Í kærunni kemur fram að hér hafi ekki verið um venjulegt happdrætti að ræða þar sem aðilar kaupi miða í von um vinning heldur virðist X hafa í auglýsingaskyni dregið út einhverja viðskiptavini sína sem hljóta skyldu ferðavinning í verðlaun. Þegar þetta sé haft í huga auk takmörkunar á nýtingu ferðarinnar og þess að ekki var möguleiki á að framselja hana eða breyta í peningaleg verðmæti þá telja kærendur að því fari fjarri að þau hafi haft nokkurn þann ávinning af þessari ferð sem talist gæti þeim til skattskyldra tekna. Þessu til stuðnings benda þau á 1. gr. laga nr. 147/1994 um breytingu á lögum nr. 75/1981 og þau sjónarmið sem uppi voru við þá lagasetningu. Varakrafa kærenda varðar frádrátt á beinum kostnaði frá tekjufærðri fjárhæð. Fara þau fram á frádrátt 28.300 kr., sem gerð er sundurliðuð grein fyrir í kæru, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.

Með bréfi, dags. 10. janúar 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans."

II.

Ekki verður séð að neinir þeir annmarkar bagi hina kærðu breytingu að ómerkingu valdi.

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi A fékk utanlandsferð frá X án endurgjalds og nýttu kærendur sér ferð þessa. Skattstjóri færði kæranda A ferðina til tekna með 59.420 kr. Ekki liggur fyrir í málinu hvernig verðmæti fararinnar var ákvarðað en af hálfu kærenda hefur því atriði út af fyrir sig ekki verið mótmælt. Kærendur hafa hins vegar mótmælt tekjufærslu fjárhæðarinnar á þeim forsendum að þau telja að ekki sé um skattskyld verðmæti að ræða, m.a. vegna fyrri skattframkvæmdar og einnig hafa þau vísað til 1. gr. laga nr. 147/1994, sem breytti 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til vara gera þau kröfu um frádrátt kostnaðar sem þau hafi haft af því að þiggja ferðina.

Samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981 teljast m.a. til skattskyldra tekna verðlaun og heiðurslaun, vinningar í happdrætti, veðmáli eða keppni. Í 3. málsl. töluliðarins er gerð undantekning varðandi tækifærisgjafir, enda sé verðmæti þeirra ekki meira en almennt gerist um slíkar gjafir. Af hálfu kærenda hefur komið fram að fyrirtækið X hafi í auglýsingaskyni dregið út viðskiptavini félagsins sem hljóta skyldu ferðavinning í verðlaun. Kærendur hafi verið dregin út og hafi þau þegið ferð til Glasgow. Verður að telja að umræddur vinningur kærenda falli undir tilvik þau sem framangreindur 4. tölul. A-liðar 7. gr. tekur til, en ljóst er að ekki var um tækifærisgjöf að ræða. Samkvæmt 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 er heimilt að draga frá tekjum manna tekjur samkvæmt 4. tölul. A-liðar 7. gr. sem skattfrjálsar eru samkvæmt sérlögum eða ákvörðun fjármálaráðherra, sbr. ákvæði 120. gr. laganna. Samkvæmt 120. gr. laga nr. 75/1981 er fjármálaráðherra heimilt að ákveða fyrir eitt ár í senn að vinningar í tilteknum happdrættum teljist ekki til skattskyldra tekna, enda séu uppfyllt tiltekin skilyrði um ráðstöfun ágóða af happdrættum. Í málinu liggur ekki fyrir að umræddur vinningur uppfylli nefnd skilyrði. Frádráttarheimild 3. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 á því ekki við um tilvik kærenda. Kærendur hafa vísað til 1. gr. laga nr. 147/1994, sem breytti 4. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 147/1994 kemur ákvæði 1. gr. þeirra til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1995. Þegar af þeirri ástæðu koma þau ekki til skoðunar við úrlausn ágreiningsefnis máls þessa. Að öllu framangreindu virtu er aðalkröfu kærenda synjað. Til vara hafa kærendur farið fram á frádrátt þess beina kostnaðar sem til féll við það að þau þáðu umrædda ferð. Ekki verður fallist á að umræddur kostnaður teljist til öflunar tekna í skilningi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, heldur verður að telja þennan kostnað persónulegan kostnað kærenda. Að svo vöxnu er kæruatriði þessu hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja