Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Hámark vaxtagjalda miðað við skuldastöðu

Úrskurður nr. 266/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður (brl. nr. 122/1993, 9. gr.).  

Í málinu var deilt um hvernig túlka bæri lagaákvæði um að vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta geti ekki orðið hærri en 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Kærandi hafði á tekjuárinu lækkað skuldir sínar með því að minnka við sig íbúðarhúsnæði. Krafðist hann þess að við mat á skuldastöðu til útreiknings vaxtabóta yrði litið til skuldastöðu á söludegi í stað ársloka. Yfirskattanefnd vísaði til þess að samkvæmt lagaákvæðinu skyldi miða við skuldastöðu í árslok. Frá því væru frávik, annars vegar vegna þeirra, sem væru skattskyldir hluta úr ári vegna brottflutnings á tekjuárinu, og hins vegar vegna þeirra, sem selt hefðu íbúðarhúsnæði sitt á tekjuárinu án þess að hefja byggingu eða festa kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári. Hvorugt undantekningartilvikið ætti við í tilviki kæranda.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1996 og sætti því áætlun skattstjóra á gjaldstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda, dags. 14. júní 1996, barst skattstjóra 18. júní 1996 samkvæmt áritun skattstjóra um móttöku þess. Tók skattstjóri framtalið sem kæru samkvæmt 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og féllst með kæruúrskurði, dags. 10. september 1996, á að leggja það til grundvallar álagningu opinberra gjalda.

Umboðsmaður kæranda mótmælti álagningunni með kæru til skattstjóra, dags. 7. október 1996. Voru rök hans að kærandi hefði á árinu 1995 selt íbúðarhúsnæði til eigin nota og keypt annað minna í þess stað, sömuleiðis til eigin nota. Krefst hann að hámark vaxtagjalda verði 7% af skuldum sem kaupandi hafi yfirtekið við sölu eldri íbúðar kæranda auk 7% af skuldum í árslok samkvæmt ákvörðun skattstjóra. Kærandi hafi verið að minnka við sig íbúðarhúsnæði og losa sig úr verulegum vanskilum og vaxtabótakerfið geti ekki átt að vera þannig að sá sem selji íbúð og kaupi aðra í hennar stað sé verr settur gagnvart vaxtabótum en sá sem selji íbúð án þess að kaupa aðra í hennar stað eða selji t.d. í árslok og kaupi á næsta ári, t.d. í ársbyrjun. Ákvæði um viðmiðun við skuldastöðu á söludegi hafi verið sett inn til að koma til móts við seljendur. Breytingum samkvæmt lögum nr. 122/1993 geti ekki hafa verið ætlað að þrengja rétt þeirra sem séu í sporum kæranda.

Skattstjóri framsendi yfirskattanefnd kæruna með bréfi, dags. 15. október 1996, með því að hún hafi borist honum í kærufresti til nefndarinnar. Jafnframt tilkynnti hann kæranda um framsendinguna.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 1996, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda gert svofellda kröfu í málinu:

„Samkvæmt 3. mgr. c-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, geta vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta, aldrei orðið hærri en sem nemur 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok. Sé íbúðarhúsnæði selt án þess að hafin sé bygging eða fest kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári fellur réttur til vaxtabóta niður frá þeim tíma sem sala átti sér stað. Við útreikning vaxtabóta skal þá miða við skuldastöðu eins og hún var við sölu, sbr. 6. mgr. sömu greinar.

Samkvæmt framangreindum ákvæðum er það meginreglan að miða skuli við skuldastöðuna eins og hún er í árslok. Frá þeirri reglu er þó sú undantekning að sé íbúðarhúsnæði selt án þess að keypt sé eða bygging hafin á öðru á sama ári, þá skal miða við skuldastöðuna á söludegi. Með lögum nr. 122/1993 um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru gerðar breytingar á ákvæðum er vörðuðu vaxtabætur. M.a. komu þau ákvæði inn í lögin sem hér er deilt um túlkun á. Af greinargerð með lögum þessum verður eigi ráðið að túlka beri ákvæði þessi rýmra en orðalag þeirra gefur skýrt til kynna.

Kærandi seldi íbúð sína að X þann 3. nóvember 1995 og voru skuldir tengdar henni á söludegi kr. 2.405.148. Þann sama dag festi kærandi kaup á íbúð að Y. Skuldir kæranda í árslok vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota voru kr. 1.775.364 og ber að miða við þá fjárhæð við ákvörðun á þeim vaxtagjöldum sem mynda stofn til útreiknings vaxtabóta, sbr. áður nefnd lagaákvæði.

Ríkisskattstjóri gerir því þær kröfur að úrskurður skattstjóra verði staðfestur."

II.

Samkvæmt 1. málsl. 3. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, geta vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta ekki orðið hærri en nemur 7% af skuldum sem stofnað hefur verið til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota eins og þær eru í árslok. Þau frávik eru frá þessari reglu að samkvæmt 3. málslið málsgreinarinnar skal hjá þeim, sem eru skattskyldir hluta úr ári vegna brottflutnings á tekjuárinu, miða við skuldastöðu eins og hún var fyrir brottflutning og að samkvæmt 6. mgr. stafliðarins skal þegar íbúðarhúsnæði er selt, án þess að hafin sé bygging eða fest kaup á íbúðarhúsnæði til eigin nota á sama ári, miða við skuldastöðu á söludegi. Í báðum tilvikum fellur réttur til vaxtabóta niður frá sama tímapunkti. Hvorugt undantekningartilvikið á við í tilviki kæranda. Óumdeilt er út af fyrir sig að skuldir kæranda vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota hafi í árslok 1995 numið þeirri fjárhæð sem miðað var við í úrskurði skattstjóra. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfum kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja