Úrskurður yfirskattanefndar

  • Barnabætur

Úrskurður nr. 605/2012

Gjaldár 2011

Lög nr. 90/2003, 6. gr., 68. gr. A-liður 1. mgr.  

A, sem var 15 ára gömul og bjó í foreldrahúsum, eignaðist barn á árinu 2010. A var ekki talin uppfylla skilyrði barnabóta gjaldárið 2011 þar sem lagaskilyrði um skattskyldu framfæranda barns væri ekki uppfyllt í tilviki barna innan 16 ára aldurs á tekjuári, sem væru á framfæri foreldra sinna, enda væru þau ekki sjálfstæðir skattaðilar. Var kröfu foreldra A um að A yrðu ákvarðaðar barnabætur því hafnað.

I.

Með kæru, dags. 30. nóvember 2011, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. nóvember 2011, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2011. Samkvæmt kærunni er gerð sú krafa að „skattyfirvöldum verði gert við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2011 að ákvarða kæranda, A, barnabætur samkvæmt a. lið 1. mgr. 68. gr. laga nr. 90/2003, með syni hennar, D“. Jafnframt er gerð krafa um að kærendum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að í skattframtali kærenda árið 2011 voru þrjú börn tilgreind með lögheimili hjá kærendum í lok árs 2010, þar á meðal A og D. Skattframtalinu fylgdi skattframtal barns árið 2011 vegna A þar sem tilgreindar voru sem launatekjur og starfstengdar greiðslur í reit 21 greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði 683.412 kr. og Félagsþjónustunni í Reykjavík 504.776 kr. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2010 voru kærendum ákvarðaðar barnabætur að fjárhæð alls 273.638 kr. vegna fyrrgreindra þriggja barna.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 1. júlí 2011, mótmælti umboðsmaður kærenda því að A hefði ekki fengið greiddar barnabætur vegna barns síns, D, heldur hefðu þær verið greiddar foreldrum hennar, kærendum í máli þessu. Í kærunni kom fram að A uppfyllti öll skilyrði A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 til ákvörðunar barnabóta, enda væri hún framfærandi barns síns og væri skattskyld samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003, þrátt fyrir að hún teldist ekki sjálfstæður skattaðili, en ekki yrði séð að það væri skilyrði til greiðslu barnabóta samkvæmt lögum nr. 90/2003 eða reglugerð nr. 555/2004, um greiðslu barnabóta.

Með kæruúrskurði, dags. 24. nóvember 2011, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kærenda. Ríkisskattstjóri vísaði til þess að A, sem hefði ekki verið orðin 16 ára á tekjuárinu 2010, hefði átt lögheimili hjá foreldrum sínum á árinu 2010. Barn innan 16 ára væri ekki sjálfstæður skattaðili, sbr. 6. gr. laga nr. 90/2003, og bæri því ekki ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt 1. gr. laganna. Barnabætur væru ákvarðaðar til framfærenda sem skattskyldir væru samkvæmt 1. gr. laganna, sbr. 1. mgr. A-liðar 68. gr. sömu laga. Þar sem A hefði verið innan 16 ára aldurs í lok árs 2010 teldist hún ekki framfærandi barns í skilningi 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Krafa kærenda samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 30. nóvember 2011, er byggð á því að A uppfylli öll þau þrjú skilyrði sem fram komi í upphafsákvæði A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til að henni verði ákvarðaðar barnabætur með barni sínu, D. D sé fæddur 21. febrúar 2010, hann sé heimilisfastur hér á landi og sé alfarið á framfæri móður sinnar sem sé skattskyld samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003. Að mati kærenda sé það röng fullyrðing í úrskurði ríkisskattstjóra að A sé ekki skattskyld samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 þar sem hún sé ekki sjálfstæður skattaðili. Sú túlkun ríkisskattstjóra að framfærandi barns þurfi að vera sjálfstæður skattaðili til að eiga rétt á barnabótum eigi sér ekki stoð í lögum nr. 90/2003 og því beri að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

A hafi son sinn hjá sér og annist alfarið framfærslu hans. Í því sambandi skuli bent á að samkvæmt skattframtali A árið 2011 námu launatekjur og starfstengdar greiðslur hennar á árinu 2010 alls 1.188.188 kr. auk þess sem hún hafi fengið meðlagsgreiðslur að fjárhæð 216.570 kr. Með þessum tekjum hafi A annast framfærslu sonar síns. Foreldrar hennar hafi ekki annast framfærslu barnsins og sé vandséð að þau eigi rétt til barnabóta með því, enda uppfylli þau ekki skilyrði laganna um að vera framfærendur barnsins.

Við túlkun skattalaga beri almennt að beita þröngri lögskýringu, en í því felist að sé vafi um merkingu eða túlkun skattalaga beri almennt að skýra lögin hinum skattskylda í hag. Þegar sett séu ákveðin skilyrði eða kröfur í ákvæðum skattalaga, sem þurfi að uppfylla, sé jafnan talað um íþyngjandi ákvæði. Slík ákvæði beri alla jafnan að túlka með þeim hætti að ekki séu settar meiri hömlur en örugglega rúmist innan orðalags viðkomandi ákvæðis.

IV.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram þá kröfugerð að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 14. febrúar 2012, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 18 ára aldurs á tekjuárinu sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins. Skilyrði lagaákvæðisins um skattskyldu framfæranda samkvæmt 1. gr. laga nr. 90/2003 felur í sér að barnabætur eru einungis greiddar þeim mönnum sem á hvílir skattskylda samkvæmt því lagaákvæði. Þetta skilyrði er ekki uppfyllt í tilviki barna innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem eru á framfæri foreldra sinna, enda eru þau ekki sjálfstæðir skattaðilar að öðru leyti en því að launatekjur barns eru skattlagðar hjá því sjálfu, sbr. 6. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt þessu er kröfu kærenda varðandi greiðslu barnabóta hafnað. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kærenda um að þeim verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja