Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 181/2012

Virðisaukaskattur 2010

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr.  

Kröfu einkahlutafélags um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti var hafnað, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til mistaka starfsmanns félagsins við sendingu rafrænna fyrirmæla til viðskiptabanka um greiðslu á virðisaukaskattinum.

I.

Með kæru, dags. 30. júní 2011, hefur kærandi kært úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 20. apríl 2011, varðandi ákvörðun álags að fjárhæð 109.267 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2010 vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti, sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

II.

Málavextir eru þeir að greiðsla virðisaukaskatts kæranda uppgjörstímabilið nóvember-desember 2010 að fjárhæð 10.926.724 kr. fór ekki fram fyrir eða á gjalddaga þess tímabils, sem var 7. febrúar 2011, en kærandi stóð skil á skattinum með tveimur greiðslum 8. febrúar 2011 að fjárhæð 9.999.999 kr. og 926.725 kr. Vegna hinna síðbúnu skila virðisaukaskattsins ákvarðaði ríkisskattstjóri kæranda álag samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, að fjárhæð 109.267 kr.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 4. mars 2011, óskaði kærandi eftir því að álag vegna síðbúinna skila á virðisaukaskatti greiðslutímabilið nóvember-desember 2010 yrði fellt niður, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Fram kom að starfsmaður kæranda hefði greitt virðisaukaskatt vegna umrædds tímabils að fjárhæð 10.926.724 kr. í gegnum fyrirtækjabanka Landsbankans kl. 08:32 hinn 7. febrúar 2011, þ.e. á gjalddaga. Eins og fram kæmi í meðfylgjandi útskrift væri stofnupphæð og upphæð greiðslu sú sama og að framan greindi. Engin villuboð hefðu komið fram og hefði starfsmaður kæranda því verið í góðri trú um að virðisaukaskattur hefði verið greiddur. Þegar starfsmaðurinn hefði farið inn í fyrirtækjabankann daginn eftir, þ.e. 8. febrúar 2011, hefði komið í ljós að greiðsluseðill vegna framangreinds virðisaukaskatts væri ógreiddur. Hann hefði þá millifært fjárhæðina í tvennu lagi (9.999.999 kr. + 926.725 kr.), auk álags að fjárhæð 109.267 kr. Í kærunni var tekið fram að í fyrirtækjabanka kæmu fram þær upplýsingar annars vegar að væru greiðslur gerðar utan bankadags eða eftir kl. 21:00 bókuðust þær næsta virka bankadag og hins vegar að greiðslur sem næmu 10.000.000 kr. eða hærri fjárhæð þyrfti að greiða fyrir kl. 16:15. Ekki kæmi fram að greiðsluna þyrfti að framkvæma milli kl. 09:00 og 16:15 á opnunartíma Seðlabanka Íslands, sbr. þær skýringar sem fengist hefðu hjá starfsmanni Landsbankans þegar þeirra hefði verið leitað. Gögn málsins sýndu þannig að starfsmaður kæranda hefði greitt virðisaukaskattinn skilvíslega á gjalddaga. Hins vegar hefðu tæknileg atriði, sem starfsmaðurinn hefði ekki getað séð fyrir, orðið þess valdandi að greiðslan hefði ekki farið í gegn. Með vísan til framangreinds væru því gild rök fyrir því að fella mætti niður álag samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 6. mgr. 27. gr. sömu laga.

Með kæruúrskurði, dags. 20. apríl 2011, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda. Ríkisskattstjóri tók fram að í framkvæmd hefði verið litið svo á að ríkar ástæður þyrfti til að niðurfellingarheimild 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 væri beitt, svo sem að utanaðkomandi óviðráðanleg atvik yllu síðbúnum skilum virðisaukaskatts. Yrði ekki talið að atvikum væri þannig háttað í tilviki kæranda að tilefni væri til þess að falla frá beitingu álags.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 30. júní 2011, eru framkomnar skýringar á ástæðum síðbúinna skila á virðisaukaskatti vegna greiðslutímabilsins nóvember-desember 2010 áréttaðar og tekið fram að kærandi telji að gildar ástæður séu fyrir því að fallist verði á niðurfellingu álags, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Það hafi verið fyrsta verk starfsmanns kæranda hinn 7. febrúar 2011 að greiða virðisaukaskatt með gjalddaga þann dag. Greiðslan hafi verið gerð í gegnum fyrirtækjabanka Landsbankans. Engin villuboð hafi komið upp á skjáinn um að greiðsla hefði ekki verið rétt framkvæmd. Því hafi starfsmaður kæranda staðið í þeirri trú að virðisaukaskatturinn hefði verið greiddur. Það geti vart talist til mistaka þegar starfsmaður kæranda hafi í höndum gögn sem sýni að greiðsla hafi verið innt af hendi á tilskilinn hátt á réttum gjalddaga. Tæknileg atriði hafi valdið því að greiðslan hafi ekki farið í gegn. Hefði greiðslan verið framkvæmd 30 mínútum síðar hefði allt verið í lagi því þá hefði verið kominn nýr „bankadagur“.

IV.

Með bréfi, dags. 14. október 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Af hálfu kæranda er fullyrt að starfsmaður félagsins hafi greitt 10.926.724 kr. í gegnum fyrirtækjabanka Landsbankans þann 7. febrúar 2011 kl. 08.32. Engin villuboð virðast hafi birst og hafi starfsmaður því verið í góðri trú um að virðisaukaskattur hafi verið greiddur. Þegar viðkomandi starfsmaður hafi svo farið inn í fyrirtækjabankann daginn eftir, þ.e. 8. feb., hafi komið í ljós að greiðsluseðill vegna virðisaukaskattsins hafi verið ógreiddur. Kærandi kveðst hafa fengið þær upplýsingar hjá Landsbankanum að greiðsluna hefði þurft að framkvæma milli kl. 09.00 og 16.15, þ.e. á opnunartíma Seðlabankans.

Af þessu tilefni óskaði ríkisskattstjóri eftir nánari upplýsingum frá Reiknistofu bankanna og Landsbankanum, sbr. meðfylgjandi tölvupóstsamskipti. Eins og fram kemur í þeim samskiptum þá eru þessar upplýsingar ekki alls kostar sambærilegar, þ.e. um það hvernig meðferð er háttað á greiðslum sem hærri eru en 10.000.000 kr. og og berast fyrir opnun á hinu svokallaða stórgreiðslukerfi. Samkvæmt þeim svörum sem ríkisskattstjóri aflaði frá Landsbankanum er það ekki algilt fyrir alla banka að greiðslur sem berast fyrir opnun fari inn á svokallaða biðskrá. Fram kemur að Landsbankinn notfæri sér ekki þá tilhögun. Þá kemur fram að kærandi hafi ítrekað reynt að greiða fyrir opnunartíma stórgreiðslukerfisins en fengið eftirfarandi villuskilaboð:

,,Stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands er opið á milli 09:00 og 16:15 alla daga. Utan þess tíma er ekki hægt að millifæra upphæðir umfram 10 milljónir kr. til annarra bankastofnana. Upphæðir yfir 10 milljónum kr. er hægt að millifæra innan Landsbankans allan sólarhringinn. Sjá reglur um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands nr. 788/2003.“

Ekki verður séð að kærandi geti á grundvelli tilvitnaðra reglna nr. 788/2003 byggt á því að honum hafi átt að vera kleift að inna hina umþrættu greiðslu af hendi utan tilgreinds opnunartíma, sbr. framanritað.

Með vísan til framangreinds er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með kröfugerð ríkisskattstjóra fylgdu afrit af tölvupóstsamskiptum embættisins við Landsbankann hf. Í tölvupósti til Landsbankans hf., dags. 19. september 2011, vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt greiðsluseðli úr heimabanka/fyrirtækjabanka Landsbankans, sem kærandi hefði lagt fram, hefði greiðsla virðisaukaskatts verið innt af hendi 7. febrúar 2011 kl. 8:32. Af þessu tilefni og vegna upplýsinga frá Reiknistofu bankanna væri óskað eftir upplýsingum um það hvaða dag greiðsla virðisaukaskatts bókaðist væri hún greidd 6. janúar 2011 kl. 16:30 og hvenær greiðsla bókaðist væri hún greidd 7. janúar 2011 kl. 08:30. Þá óskaði ríkisskattstjóri eftir skilmálum Landsbankans hf. um stórgreiðslukerfi Seðlabankans Íslands. Svör við fyrirspurnum ríkisskattstjóra bárust með tölvupósti starfsmanns Landsbankans hf., dags. 26. september 2011, þar sem fram kom að samkvæmt gögnum bankans hefði starfsmaður kæranda ekki greitt umrædda kröfu kl. 08:32 þann 7. febrúar 2011, en óskað væri eftir því að ríkisskattstjóri léti Landsbankanum í té þau gögn sem vísað væri til í fyrirspurninni og ættu að sýna greiðslu umræddan dag. Þá kom fram að Landsbankinn hf. nýtti sér ekki þann möguleika að greiðslubeiðnir, sem bærust fyrir opnun stórgreiðslukerfis, færu á svokallaða biðskrá, nema um safngreiðslur (bunkagreiðslur) væri að ræða. Greiðslur utan stórgreiðslumarka (hærri en 10 milljónir kr.) væru ekki endurteknar sjálfkrafa innan opnunartíma. Þá var greint frá því í tölvupósti Landsbankans hf. að dagana 4. og 7. febrúar 2011 hefði tilgreindur notandi fyrirtækjabankans á vegum kæranda reynt að greiða kröfu að fjárhæð 10.926.724 kr. með gjalddaga 7. febrúar 2011 fyrir klukkan 09:00 að morgni en ekki tekist. Í fyrra skiptið hefði verið reynt að greiða klukkan 08:26:37 föstudaginn 4. febrúar 2011, en í síðara skiptið klukkan 08:31:14 mánudaginn 7. febrúar 2011. Í bæði skiptin hefði notandi fengið þau skilaboð á skjánum að stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands væri lokað og að ekki væri hægt að greiða umbeðna fjárhæð þar sem hún væri yfir 10.000.000 kr. Hvergi kæmi fram að bankinn myndi sjálfur reyna að nýju. Næsta dag, þann 8. febrúar 2011, kl. 08:17:30, hefði umræddur notandi reynt að nýju að greiða kröfuna, sem þá hefði verið komin upp í 11.035.991 kr., og aftur fengið þau skilaboð að stórgreiðslukerfið væri lokað. Meðfylgjandi væri skjámynd úr rekstrarkerfi bankans sem sýndi m.a. skýringartextann sem kærandi hefði fengið á skjáinn. Stórgreiðslumörk væru æðri öðrum reglum. Samkvæmt þessu væri spurningum ríkisskattstjóra svarað þannig að greiðslur á umspurðum tímum undir stórgreiðslumörkum væru bókaðar samdægurs, en væru greiðslur yfir stórgreiðslumörkum greiddist hún ekki og bankinn reyndi ekki að greiða fjárhæðina að nýju.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. október 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 31. október 2011, hefur kærandi gert grein fyrir athugasemdum sínum. Fram kemur að starfsmaður kæranda kannist ekki við að hafa margreynt að greiða viðkomandi greiðsluseðil, hvað þá að villuskilaboð, sem tilgreind séu í bréfi ríkisskattstjóra, hafi birst á skjánum. Ætla verði að starfsmaður hefði veitt því athygli ef villuskilaboð birtust „margoft“ og beðið með að framkvæma greiðsluna þar til kl. 09:00, ef svo hefði verið. Þá er þeirri spurningu varpað fram hvernig unnt sé að prenta út kvittun þar sem fram komi að fjárhæðin sé greidd ef hún sé ógreidd og hvort ekki geti verið um að ræða einhverja villu í tölvusamskiptum af bankans hálfu sem starfsmaður kærandi hafi ekki getað séð fyrir.

V.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Beri gjalddaga upp á helgidag eða almennan frídag færist gjalddagi á næsta virkan dag á eftir. Í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 741/2001, segir að það teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef greitt er í banka eða sparisjóði í síðasta lagi á gjalddaga. Greiðsla á grundvelli rafrænna greiðslufyrirmæla teljist því aðeins innt af hendi á gjalddaga, að greiðslufyrirmælin berist banka eða sparisjóði innan þeirra tímamarka sem viðkomandi banki eða sparisjóður setji fyrir því að greiðsla teljist hafa farið fram á þeim degi. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Í málinu liggur fyrir að hinn 7. febrúar 2011 kl. 8.32 reyndi kærandi að greiða virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins nóvember-desember 2010 að fjárhæð 10.926.724 kr., en vegna reglna svonefnds stórgreiðslukerfis Seðlabanka Íslands, sem tekur til greiðslna að fjárhæð 10.000.000 kr. eða hærri, fór greiðsla ekki fram, enda er stórgreiðslukerfið einungis starfrækt milli kl. 9:00 og 17:00 á almennum bankadögum, sbr. reglur nr. 703/2009, um stórgreiðslukerfi Seðlabanka Íslands. Þá kemur fram í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu að viðskiptabanki kæranda, Landsbankinn hf., færi greiðslubeiðnir, sem berist í netbanka fyrir opnun stórgreiðslukerfis, ekki á biðskrá þannig að þær fari fram eftir opnun kerfisins. Undantekning frá þessu mun þó vera ef greiðslubeiðni er skráð fram í tímann (framvirk greiðsla), en kærandi mun ekki hafa nýtt sér þann möguleika. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að greiðslufyrirmæli kæranda hafi ekki verið í samræmi við tímamörk viðskiptabanka kæranda og því ekki fullnægt skilyrðum í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995. Ganga verður út frá því að kæranda hafi átt að vera kunnugt um skilmála viðskiptabanka síns varðandi rafræn greiðslufyrirmæli.

Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Kröfu kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja