Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattlagning hjóna
  • Hjúskaparslit
  • Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði

Úrskurður nr. 528/2012

Gjaldár 2010

Lög nr. 90/2003, 12. gr. 2. mgr., 17. gr., 62. gr.  

Hjónin A og B seldu íbúðarhúsnæði á árinu 2007 og óskuðu eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar vegna sölu húsnæðisins í skattframtali árið 2008. A og B skildu á árinu 2009. Þar sem íbúðarhúsnæðið var að hálfu í eigu A var ríkisskattstjóra talið rétt að færa helming frestaðs söluhagnaðar til tekna í skattframtali A vegna tekjuársins 2009, enda áttu ákvæði um tekjuskattsstofn hjóna ekki við í tilviki A á því tekjuári. Þá voru eftirstöðvar áhvílandi lána við sölu íbúðarhúsnæðisins ekki taldar hafa neina þýðingu við útreikning söluhagnaðarins.

I.

Helstu málavextir eru þeir að í skattframtali kæranda og þáverandi eiginmanns hennar, B, árið 2008 var óskað eftir frestun á skattlagningu söluhagnaðar að fjárhæð 13.152.600 kr. vegna sölu íbúðarhúsnæðis við M á árinu 2007, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattstjóri féllst á umbeðna frestun á skattlagningu söluhagnaðarins í skattframtali kæranda og B umrætt ár.

Í athugasemdadálki í skattframtali kæranda árið 2010 var þess getið að kærandi og B hefðu skilið 21. ágúst 2009. Í skattframtalinu var enginn söluhagnaður færður til tekna. Var skattframtalið lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2010.

Með bréfi, dags. 17. október 2011, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2010, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Í bréfinu rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 og benti á að þar sem kærandi og B hefðu selt íbúð sína við M á árinu 2007 og ekki fjárfest í nýju íbúðarhúsnæði á árinu 2008 eða 2009 bæri að skattleggja frestaðan söluhagnað að fjárhæð 13.152.600 kr. í skattframtali þeirra árið 2010. Þar sem fyrir lægi að kærandi og B hefðu fengið lögskilnað þann 27. ágúst 2009 og teldu fram til skatts hvort í sínu lagi gjaldárið 2010 stæðu ekki rök til annars en að skipta umræddum söluhagnaði til helminga til skattlagningar milli þeirra sem eigenda fasteignarinnar á söludegi. Væri því fyrirhugað að tekjufæra helming söluhagnaðarins eða 6.576.300 kr. í reit 522 í skattframtali kæranda árið 2010.

Með bréfi, dags. 27. október 2011, mótmælti kærandi hinum boðuðu breytingum. Í bréfinu kom fram að fyrirhugaðri endurákvörðun ríkisskattstjóri væri mótmælt í ljósi þess að söluandvirði fasteignarinnar við M hefði runnið beint til Kaupþings banka hf., sbr. meðfylgjandi kaupsamning, dags. 15. maí 2007, og yfirlýsingu, dags. 14. sama mánaðar. Fasteignin hefði því í raun verið seld nauðungarsölu að kröfu Kaupþings banka hf. og ekki um að ræða neinn söluhagnað sem runnið hefði til kæranda eða fyrrum eiginmanns hennar. Þá gerði kærandi í bréfinu grein fyrir högum sínum og erfiðleikum í fjárhagslegu tilliti.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. desember 2011, hratt ríkisskattstjóri hinni boðuðu breytingu á skattframtali kæranda árið 2010 í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefði eignarhaldstími kæranda og fyrrverandi maka hennar á fasteigninni við M verið frá 2. nóvember 2005 til 15. maí 2007 eða tæpir 18,5 mánuðir. Þá vísaði ríkisskattstjóri til ákvæðis 3. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmi að hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis teldist mismunur á söluverði og stofnverði að frádregnum áður fengnum söluhagnaði. Staða áhvílandi lána skipti því ekki máli við útreikning á söluhagnaði. Þá gæti samkomulag kæranda við fyrrverandi eiginmann um ábyrgð á skuldum ekki haft nein áhrif á skattlagningu söluhagnaðarins. Kæmi hin boðaða endurákvörðun því til framkvæmda þannig að helmingur frestaðs söluhagnaðar af íbúðarhúsnæði 6.576.300 kr. yrði tekjufærður í skattframtali kæranda árið 2010.

II.

Með kæru, dags. 25. janúar 2012, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 6. desember 2012, til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að sú skattskuld, sem um ræðir, sé til komin vegna starfsemi á vegum fyrrverandi eiginmanns kæranda sem annast hafi um öll fjármál heimilisins. Við sölu íbúðarhúsnæðisins við M hafi allar greiðslur runnið til Kaupþings banka hf. og ekkert komið í hlut kæranda. Eftir sölu húsnæðisins hafi kærandi og eiginmaður hennar flutt í leiguhúsnæði. Við skilnað á árinu 2009 hafi fyrrverandi eiginmaður kæranda undirritað skjal þess efnis að hann tæki að sér greiðslu allra skulda þeirra. Kærandi starfi nú sem barnakennari og hafi leitað ásjár Umboðsmanns skuldara vegna fjárhagserfiðleika. Gangi kæranda erfiðlega að ná endum saman, en tveir synir kæranda í framhaldsskólanámi búi hjá kæranda og þurfi hún m.a. að standa straum af öllum kostnaði vegna náms þeirra. Sé þess óskað að álagning opinberra gjalda hennar gjaldárið 2010 verði tekin til endurskoðunar.

III.

Með bréfi, dags. 30. mars 2012, hefur ríkisskattstjóri krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. apríl 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis að fullu til skattskyldra tekna á söluári hafi maður átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár, en hafi hann átt hið selda í tvö ár eða lengur telst söluhagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna, sbr. nánari skilyrði sem sett eru í málsgrein þessari. Í 2. mgr. 17. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 164/2008, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, er mælt svo fyrir að maður geti farið fram á frestun söluhagnaðar um tvenn áramót frá söludegi. Kaupi hann annað íbúðarhúsnæði eða hefji byggingu íbúðarhúsnæðis hér á landi eða í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum í stað þess selda innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðinum innan þessara tímamarka telst mismunurinn til skattskyldra tekna á kaupári hinnar nýju eignar. Ef eignarinnar er ekki aflað innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn með skattskyldum tekjum á öðru ári frá því er hann myndaðist. Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laganna telst hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis mismunur á söluverði og stofnverði að frádregnum áður fengnum söluhagnaði, sbr. 2. mgr. þessarar lagagreinar og 4. mgr. 12. gr. sömu laga. Í 12. gr. laga nr. 90/2003 eru sameiginleg ákvæði um söluhagnað eigna. Samkvæmt 2. mgr. þeirrar lagagreinar telst stofnverð eigna kostnaðarverð þeirra, þ.e. kaup- eða framleiðsluverð, ásamt kostnaði við endurbætur, breytingar eða endurbyggingu og sérhverjum öðrum kostnaði sem á eignirnar fellur, en að frádregnum óendurkræfum styrkjum, afsláttum, eftirgjöfum skulda og skaðabótum sem til falla í sambandi við kaup þeirra, framleiðslu, breytingar eða endurbætur.

Fram er komið að kærandi og fyrrverandi eiginmaður hennar, B, seldu íbúðarhúsnæði sitt við M þann 15. maí 2007. Samkvæmt gögnum málsins keyptu þau íbúðina 2. nóvember 2005 og er ekki deilt um að hagnaður af sölu hennar sé skattskyldur í hendi kæranda og B á grundvelli 8. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga, enda var íbúðin í eigu þeirra í skemmri tíma en tvö ár. Í skattframtali kæranda og B árið 2008 var gerð grein fyrir útreikningi söluhagnaðar að fjárhæð 13.152.600 kr. vegna sölu íbúðarhúsnæðisins og var skattlagningu söluhagnaðarins frestað um tvenn áramót í skattframtalinu, sbr. ákvæði 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2003. Fyrir liggur að kærandi og B skildu á árinu 2009 og með hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 6. desember 2011, færði ríkisskattstjóri kæranda helming umrædds söluhagnaðar eða 6.576.300 kr. til tekna í skattframtali árið 2010 á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki aflað sér íbúðarhúsnæðis í stað hins selda innan tilskilins tíma samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Ágreiningslaust er að íbúðarhúsnæðið var að hálfu í eigu kæranda á móti fyrrverandi eiginmanni hennar og verður því talið rétt að helmingur söluhagnaðar teljist til tekna hjá kæranda, enda eiga ekki við ákvæði um tekjuskattsstofn hjóna í 62 gr. laga nr. 90/2003 í tilviki kæranda tekjuárið 2009. Vegna athugasemda kæranda í kæru til yfirskattanefndar, þar sem því er haldið fram að ekki hafi verið um neinn hagnað af sölu húsnæðisins að ræða að teknu tilliti til áhvílandi lána frá Kaupþingi banka hf., skal tekið fram að eftirstöðvar áhvílandi lána við sölu íbúðarhúsnæðis hafa enga þýðingu við útreikning söluhagnaðar eftir fyrrgreindum ákvæðum 17. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 12. gr. sömu laga. Lagaheimild skortir til þess að unnt sé að taka til greina kröfu kæranda um niðurfellingu umræddrar skattlagningar. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Í kæru til yfirskattanefndar er lýst högum kæranda og bágri fjárhagsstöðu. Skilja verður þann þátt kærunnar svo að hún lúti að ívilnun í sköttum samkvæmt ákvæðum 65. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Eftir gildistöku laga nr. 136/2009, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri lögum hinn 1. janúar 2010, sbr. 113. gr. greindra laga nr. 136/2009, eru ákvarðanir ríkisskattstjóra um slíkar ívilnanir kæranlegar til yfirskattanefndar eftir almennum reglum laga nr. 90/2003, sbr. lög nr. 30/1992. Í tilviki kæranda liggur hins vegar ekki fyrir neinn kæranlegur úrskurður um þetta efni, enda var ekki fjallað um beiðni kæranda um ívilnun í hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra. Af þessum sökum er kærunni vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar ívilnun í sköttum og send ríkisskattstjóra til meðferðar og afgreiðslu með vísan til 1. og 2. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún varðar beiðni um ívilnun í sköttum og framsend ríkisskattstjóra til meðferðar. Að öðru leyti er kröfum kæranda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja