Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Frádráttur vegna greiddrar leigu
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 215/2014

Gjaldár 2013

Lög nr. 90/2003, 30. gr. 3. mgr.   Reglugerð nr. 990/2001, 4. gr.  

Fallist var á kröfu kæranda, sem hafði starfað erlendis á vegum alþjóðastofnunar um sjö ára skeið, um frádrátt greiddrar húsaleigu erlendis frá tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis hér á landi. Kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að í tiltækum lögskýringargögnum með viðkomandi frádráttarheimild kæmi ekkert fram sem benti til þess að löggjafinn hefði haft í huga sérstakar tímatakmarkanir í því sambandi.

I.

Með kæru, dags. 29. janúar 2014, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. október 2013, vegna álagningar opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2013. Er kæruefnið sú ákvörðun ríkisskattstjóra að synja kærendum um frádrátt greiddrar húsaleigu frá húsaleigutekjum í skattframtali árið 2013, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kom fram í úrskurði ríkisskattstjóra að kærendur, sem haft hefðu aðsetur í Belgíu frá 1. ágúst 2007, hefðu leigt út íbúð að M á árinu 2012. Ríkisskattstjóri benti á að það væri skilyrði fyrir frádrætti húsaleigugjalda á móti leigutekjum af útleigu íbúðarhúsnæðis að útleiga íbúðarhúsnæðis væri tímabundin, sbr. ákvæði 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Almennt skyldi miða við að tímabundnar aðstæður gætu ekki varað lengur en í þrjú ár, sbr. til hliðsjónar 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um vaxtabætur, með síðari breytingum. Með vísan til þeirrar túlkunar embættis ríkisskattstjóra á tímabundnum notum yrði ekki fallist á að greidd húsaleiga í Belgíu yrði færð á móti tekjum af útleigu íbúðarhúsnæðisins að M, enda yrði ekki talið að um væri að ræða tímabundna útleigu í skilningi 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001. Yrði því að hafna kröfu kærenda.

Í kæru kærenda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi, A, hafi starfað tímabundið hjá alþjóðastofnun í Brussel frá 1. ágúst 2007. Hjá stofnuninni sé í gildi svonefnd sex ára regla, þ.e. þriggja ára ráðningarsamningur sé að öllu jöfnu einungis endurnýjaður einu sinni. Vegna sérstakra verkefna hafi stofnunin þó boðið kæranda að framlengja ráðningarsamning til 1. ágúst 2015, sbr. meðfylgjandi afrit húsaleigusamnings. Með vísan til framangreinds sé þess óskað að greidd leiga í Belgíu komi til frádráttar húsaleigutekjum kærenda hér á landi.

II.

Með bréfi, dags. 17. mars 2014, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 21. mars 2014, var kærendum sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og þeim gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2014, hafa kærendur gert grein fyrir athugasemdum sínum. Í bréfinu er ítrekað að kærandi, A, hafi verið ráðinn tímabundið til starfa hjá alþjóðastofnun. Muni hin tímabundna ráðning renna sitt skeið á enda í júlí 2015. Er vísað til meðfylgjandi staðfestingar stofnunninnar, dags. 27. mars 2014, á ráðningu kæranda og tekið fram að sýnt hafi verið fram á að ráðning kæranda hjá stofnunninni hafi verið tímabundin. Frá og með 1. ágúst 2015 muni kærendur því taka íbúðarhúsnæði sitt á ný til eigin nota. Þá er bent á að kærendur hafi haldið lögheimili sínu á Íslandi á grundvelli heimildar í lögum þar að lútandi.

III.

Húsaleigutekjur eru skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölul. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Um frádrátt frá tekjum manna utan atvinnurekstrar er fjallað í 30. gr. laga nr. 90/2003. Í 3. mgr. þeirra lagagreinar kemur fram að hafi maður leigutekjur af íbúðarhúsnæði, án þess að það teljist vera atvinnurekstur eða sjálfstæð starfsemi, er honum heimilt að draga frá þeim tekjum húsaleigugjöld af íbúðarhúsnæði til eigin nota. Er tekið fram að frádráttur þessi leyfist eingöngu til frádráttar leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu.

Umrætt frádráttarákvæði í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 var tekið upp í lög um tekjuskatt með 1. gr. laga nr. 57/1994, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Í frumvarpi því, er varð að lögum nr. 57/1994, var ekki gert ráð fyrir því að frádráttarheimildin tæki eingöngu til tímabundinnar útleigu á eigin íbúðarhúsnæði, eins og bent var á í athugasemdum með frumvarpinu. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis gerði hins vegar breytingar á frumvarpinu í það horf, sem að lögum varð, og þrengdi heimildina þannig að hún varð bundin við frádrátt frá leigutekjum af íbúðarhúsnæði sem ætlað er til eigin nota en er tímabundið til útleigu.

Af hálfu kærenda er komið fram að kærandi, A, hafi á árinu 2007 verið ráðinn til tímabundinna starfa hjá alþjóðastofnun. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar verður að ætla að kærandi hafi upphaflega verið ráðinn til þriggja ára frá og með 1. ágúst 2007 og að ráðning kæranda hafi síðan tvívegis verið framlengd, þ.e. til þriggja ára frá og með 1. ágúst 2010 og til tveggja ára frá og með 1. ágúst 2013, en í bréfi stofnunarinnar, dags. 27. mars 2014, sem kærendur hafa lagt fyrir yfirskattanefnd kemur fram að gildandi ráðningarsamningur kæranda renni út 31. júlí 2015. Kemur og fram í kærunni að kærendur ráðgeri þá að taka íbúðarhúsnæðið að M til eigin nota á nýjan leik. Eins og fram er komið hafnaði ríkisskattstjóri því að um tímabundna útleigu íbúðarhúsnæðisins hefði verið að ræða í skilningi 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 og vísaði í því sambandi til ákvæðis 4. gr. reglugerðar nr. 990/2001, um greiðslu vaxtabóta, þar sem fjallað er um eigin not íbúðarhúsnæðis í skilningi vaxtabótareglna, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, og m.a. tekið fram að almennt skuli miða við að tímabundnar aðstæður, sem ekki hafa í för með sér missi vaxtabótaréttar, vari ekki lengur en þrjú ár, sem þó sé heimilt að framlengja í fimm ár þegar sérstaklega stendur á, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 639/2011, um breyting á hinni fyrrnefndu reglugerð. Ekki verður litið framhjá því í málinu að reglugerð nr. 990/2001 varðar eingöngu vaxtabótarétt og fjallar ekki að neinu leyti um þann frádrátt frá tekjum sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003. Þá kemur ekkert fram í tiltækum lögskýringargögnum með nefndu ákvæði sem bendir til þess að löggjafinn hafi haft í huga sérstakar tímatakmarkanir í þessu sambandi. Að framangreindu virtu og fram komnum skýringum kærenda og þar sem ekki verður annað séð en að greidd húsaleiga kærenda í Belgíu á tekjuárinu 2012 hafi numið hærri fjárhæð en sem nam húsaleigutekjum þeirra hér á landi á sama ári, sbr. gögn sem fylgdu beiðni kærenda um leiðréttingu skattframtals árið 2013, dags. 25. júlí 2013, þykir mega fallast á kröfu þeirra í málinu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kærenda um frádrátt greiddrar húsaleigu frá húsaleigutekjum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja