Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði

Úrskurður nr. 477/2012

Gjaldár 2011

Lög nr. 90/2003, bráðabirgðaákvæði XXXV.  

Talið var að frádráttur vegna vinnu við viðhald og endurbætur á íbúðarhúsnæði til eigin nota kæmi ekki til álita þegar framkvæmdir væru í reynd liður í nýbyggingu viðkomandi húsnæðis, enda þótti vafalaust að ætlun löggjafans með lögtöku frádráttarheimildarinnar hefði ekki verið sú að veita húsbyggjendum slíkan frádrátt. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að framkvæmdir við múrverk og flísalagnir í votrými íbúðarhúsnæðis hans yrðu taldar til viðhalds eða endurbóta þegar litið var til þess skamma tíma sem liðinn var frá byggingu húsnæðisins þegar kærandi réðist í umræddar framkvæmdir.

I.

Með kæru, dags. 27. febrúar 2012, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 2. febrúar 2012, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2011. Úrskurð þennan kvað ríkisskattstjóri upp að undangengnu fyrirspurnarbréfi, dags. 5. janúar 2012, sem svarað var með bréfi, dags. 9. janúar 2012, og boðunarbréfi, dags. 13. janúar 2012, sem andmælt var af hálfu kæranda með bréfi, dags. 24. janúar 2012. Með úrskurðinum felldi ríkisskattstjóri niður í skattframtali kæranda árið 2011 tilfærðan frádrátt að fjárhæð 300.000 kr. vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota, sbr. ákvæði til bráðabirgða XXXV í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 92/2010, um breyting á þeim lögum. Fram kom í úrskurðinum að um væri að ræða frádrátt vegna aðkeyptrar vinnu við múrverk og flísalagnir í íbúðarhúsnæði kæranda við M, sbr. m.a. fyrirliggjandi reikning X ehf., dags. 13. desember 2010, að fjárhæð 1.061.673 kr. án virðisaukaskatts. Benti ríkisskattstjóri á að samkvæmt því sem skráð væri í Þjóðskrá hefði byggingarár húsnæðisins verið 2008 og byggingarstig/matsstig verið skráð 4 þar til í október 2010 er byggingarstig hefði breyst í 8, þ.e. „í notkun en óklárað“. Þá lægi fyrir að kærandi hefði óskað eftir endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbyggingar á árinu 2010, en ekki vegna endurbóta, sbr. skýrslu um endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 13. júlí 2011. Þrátt fyrir að fyllt hefði verið út rangt eyðublað vegna umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts, þ.e. eyðublað RSK 10.18 (endurbætur) í stað RSK 10.19 (nýbygging) hefði kærandi fengið endurgreiddan virðisaukaskatt vegna vinnu við nýbyggingu en ekki endurbætur. Hefði frádráttur því ekki færst sjálfkrafa í skattframtal og kærandi sjálfur fyllt út eyðublað um frádrátt vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði (RSK 3.22). Um væri að ræða óklárað húsnæði og yrði því ekki annað séð en að um nýbyggingu væri að ræða en ekki endurbætur. Tilfærður frádráttur að fjárhæð 300.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2011 væri því felldur niður.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að í máli kæranda sé deilt um það hvort framkvæmdir við múrverk og flísalagnir í votrými húsnæðisins við M á árinu 2010 teljist hluti húsbyggingarkostnaðar, eins og ríkisskattstjóri hafi talið, ellegar viðhald og endurbætur á húsnæðinu. Í kærunni er bent á að kærandi hafi sótt um endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri vinnu viðkomandi verktaka við viðhald og endurbætur, sbr. eyðublað RSK 10.18, og hafi virðisaukaskatturinn verið endurgreiddur athugasemdalaust. Þá kemur fram að skattframtali kæranda árið 2008 hafi m.a. fylgt húsbyggingarskýrsla (RSK 3.03), en ekki vegna tekjuársins 2009. Byggingu hússins sé að stærstum hluta lokið og flutt hafi verið inn í húsið í september 2008. Sú viðgerð, sem um ræðir, hafi þannig verið framkvæmd tveimur árum síðar. Ágangur og umgengni fjögurra manna fjölskyldu um votrými hússins, miklir þvottar og tíðar baðferðir, hafi leitt í ljós að fyrri frágangur votrýmisins hafi verið óviðunandi. Í byrjun hafi fjölskylda kæranda þannig orðið að sætta sig við óviðunandi lausn vegna peningaleysis. Aðallega hafi verið um að ræða flísalagnir, en þau efni, sem upphaflega hafi verið notuð, hafi lítt dugað og því hafi verið ráðist í hinar umdeildu endurbætur, ekki síst vegna hvatningar stjórnvalda, sbr. bráðabirgðaákvæði XXXV í lögum nr. 90/2003. Augljóslega sé því um að tefla viðhald og endurbætur á húsnæðinu. Þá kemur fram að athugasemdum ríkisskattstjóra þess efnis að sótt hafi verið um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna nýbyggingar sé mótmælt, enda hafi verið sótt um endurgreiðsluna vegna aðkeyptrar vinnu verktaka við endurbætur eða viðhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota, þ.e. á eyðublaði RSK 10.18. Ekki hafi verið gerðar neinar athugasemdir við endurgreiðslubeiðnina og gildi hún því „og reglur um frádrátt á tekjuskattsstofni í framhaldi af því.“ Um sé að ræða viðhald og endurbætur í kjölfar um tveggja ára búsetu í húsnæðinu.

II.

Með bréfi, dags. 25. maí 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 30. maí 2012, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XXXV í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 92/2010, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, heimilast við álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2011 og 2012 til frádráttar tekjuskattsstofni samkvæmt 1. tölul. og a-lið 3. tölul. 61. gr. laga nr. 90/2003 50% af þeirri fjárhæð sem greidd er vegna vinnu án virðisaukaskatts sem unnin er á árunum 2010 og 2011, að hámarki 200.000 kr. hjá einstaklingi og 300.000 kr. hjá hjónum og samsköttuðum, vegna viðhalds og endurbóta á íbúðar- og frístundahúsnæði til eigin nota. Í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins, eins og það hljóðaði á þeim tíma sem hér um ræðir, kemur fram að framangreindur frádráttur sé háður því skilyrði að staðin hafi verið skil á fullgildum reikningum vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts af sama tilefni þar sem vinnuþáttur er samtals að lágmarki 50.000 kr., sbr. 42. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Þá skal skila launamiðum eða öðrum gögnum á þann hátt sem ríkisskattstjóri ákveður. Sækja þarf um frádráttinn samhliða umsókn um endurgreiðslu á virðisaukaskatti á þar til gerðu eyðublaði ríkisskattstjóra innan hvers árs fyrir sig og í síðasta lagi fyrir 1. febrúar árið 2011 vegna tekjuársins 2010 og 1. febrúar árið 2012 vegna tekjuársins 2011. Frádrátturinn ákvarðast og afmarkast við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekjuársins 2010 og álagningu 2012 vegna tekjuársins 2011, sbr. 98. gr., sbr. og 99. gr. Er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og framkvæmd frádráttar samkvæmt ákvæðinu, svo sem nánar greinir. Slík reglugerð hefur ekki verið sett.

Kæruefnið í máli þessu er niðurfelling ríkisskattstjóra á tilfærðum frádrætti að fjárhæð 300.000 kr. í skattframtali kæranda árið 2011, sem færður var á grundvelli framangreinds ákvæðis til bráðabirgða XXXV í lögum nr. 90/2003, vegna aðkeyptrar vinnu við múrverk og flísalagnir í íbúðarhúsnæði kæranda við M. Var ákvörðun ríkisskattstjóra byggð á því að ekki væri um að ræða kostnað vegna viðhalds eða endurbóta í skilningi bráðabirgðaákvæðisins heldur þátt í byggingarkostnaði húsnæðisins, þ.e. vinnu við nýbyggingu þess. Vísaði ríkisskattstjóri í því sambandi til upplýsinga í fasteignaskrá um byggingarár og byggingarstig húsnæðisins, en samkvæmt þeim upplýsingum var fasteignin í byggingu á árunum 2008-2010 og húsnæðið óklárað í október 2010 þrátt fyrir að hafa verið tekið í notkun.

Fallast verður á það með ríkisskattstjóra að frádráttur vegna vinnu við viðhald eða endurbætur íbúðarhúsnæðis á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða XXXV í lögum nr. 90/2003 komi ekki til álita þegar framkvæmdir eru í reynd liður í nýbyggingu viðkomandi húsnæðis, enda er vafalaust, m.a. með hliðsjón af athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 92/2010, að ætlun löggjafans með lögtöku frádráttarheimildarinnar var ekki sú að veita húsbyggjendum hliðstæðan frádrátt, heldur að örva framkvæmdir við viðhald og endurbætur. Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi byggingu íbúðarhúsnæðisins við M á árinu 2007, sbr. m.a. húsbyggingarskýrslu (RSK 3.03) með skattframtali hans árið 2009 þar sem fram kom að byggingarkostnaður ársins 2008 hefði numið alls 8.460.892 kr. vegna kaupa á byggingarefni og aðkeyptri þjónustu og heildarkostnaður frá fyrra ári numið alls 16.487.359 kr. Fyrir liggur að kærandi flutti í húsið ásamt fjölskyldu sinni í september 2008 og af hans hálfu er lögð á það áhersla að allnokkur tími hafi þannig liðið frá því að húsnæðið var tekið í notkun og þar til ráðist var í hinar umdeildu framkvæmdir við múrverk og flísalagnir. Í málinu verður hins vegar ekki litið framhjá því að gögn málsins benda eindregið til þess að húsnæðið hafi ekki verið fullgert á þeim tíma þegar kærandi tók það í notkun, sbr. m.a. upplýsingar í fasteignaskrá um matsstig þess sem ríkisskattstjóri vísaði til. Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar er ekkert að þessu vikið þrátt fyrir tilefni. Að þessu athuguðu og þegar litið er til þess skamma tíma sem liðinn var frá framkvæmdum við byggingu íbúðarhúsnæðisins við M þegar kærandi réðist í framkvæmdir við múrverk og flísalagnir í votrými húsnæðisins á árinu 2010 verður ekki talið að kærandi hafi sýnt fram á að framkvæmdir þessar verði taldar til viðhalds eða endurbóta í skilningi ákvæðis til bráðabirgða XXXV í lögum nr. 90/2003. Verður ekki annað ráðið en að um hafi verið að ræða framkvæmdir við hið ófullgerða íbúðarhúsnæði kæranda og þannig lið í nýbyggingu þess. Verður því að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja