Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Skattstofn vegna lánsveðs

Úrskurður nr. 479/2012

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 1. mgr., 5. gr.  

A lést á árinu 2010. Talið var að skuld vegna láns, sem einn erfingi A tók í eigin þágu og tryggð var með veði í fasteign A, gæti ekki talist með frádráttarbærum skuldum A við ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúi hennar.

I.

Með ódagsettri kæru, sem barst yfirskattanefnd 14. desember 2011, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi A, sem lést í mars 2010, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 20. nóvember 2011. Í kærunni kemur fram að kæruefni málsins lúti að þeirri ákvörðun sýslumanns, sbr. bréf hans, dags. 28. nóvember 2011, að hafna því að telja með skuldum arfleifanda skuld við Lífeyrissjóð X að fjárhæð 8.743.169 kr. Í kærunni er rakið að umrædd skuld sé vegna láns sem kærandi, D, hafi tekið og hafi skuldin verið tryggð með veði í fasteign arfleifanda við M. Kemur fram að reynt hafi verið að fá skuldareiganda, lífeyrissjóðinn, til þess að aflétta veðböndum af fasteigninni, en sú málaleitan hafi reynst árangurslaus. Þá kemur fram að lántaki, þ.e. kærandi D, hafi sótt um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara og sé fjárhagsstaða hennar með þeim hætti að afar ólíklegt sé að hún muni geta staðið við skuldbindingar sínar. Sé þess því vænst að lánardrottinn muni annað hvort afskrifa skuldina ellegar ganga að fasteigninni til fullnustu hennar. Krafa samerfingja D á hendur henni vegna þessara atvika hafi hins vegar ekkert fjárhagslegt gildi í ljósi framangreinds. Í ljósi þess að lífeyrissjóðurinn hafi hafnað því að aflétta veðböndum af fasteigninni sé afar líklegt að hann muni leita fullnustu í eigninni. Telji kærendur því rétt að umrædd skuld komi til frádráttar eignum dánarbús A heitinnar við ákvörðun erfðafjárskatts. Sé farið fram á úrskurð yfirskattanefndar í þeim efnum.

II.

Með bréfi, dags. 9. mars 2012, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður sýslumanns verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun sýslumanns.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 15. mars 2012, var kæranda, C, sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Hinn 21. mars 2012 hafa kærendur lagt fram frekari gögn í málinu. Er þar um að ræða bréf Umboðsmanns skuldara til kæranda, D, dags. 4. janúar 2012, ásamt samþykktum samningi um greiðsluaðlögun vegna hennar, dags. 21. desember 2011.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi A, sem lést í mars 2010, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 20. nóvember 2011. Er skýrslan árituð, yfirfarin og staðfest af sýslumanninum í Reykjavík þann 30. desember 2011. Fram er komið að ágreiningur hafi risið með kærendum og sýslumanni um skattstofn erfðafjárskatts þar sem sýslumaður hafnaði því að telja lán frá Lífeyrissjóði X að eftirstöðvum 8.743.169 kr. á dánardegi A með frádráttarbærum skuldum arfleifanda, sbr. 5. gr. laga nr. 14/2004. Kom fram í bréfi sýslumanns til kæranda, C, dags. 28. nóvember 2011, að þar sem um væri að ræða skuld eins erfingja, D, en ekki skuld arfleifanda væri óheimilt að draga skuldina frá skattstofni erfðafjárskatts samkvæmt fyrrgreindu ákvæði. Í kæru kærenda til yfirskattanefndar er því haldið fram að skuldin sé frádráttarbær þar sem hún hafi verið tryggð með veði í fasteign arfleifanda við M og vegna vanskila lántaka, D, komi skuldin til með að falla á aðra erfingja A.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Í 5. gr. laga nr. 14/2004 segir að skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skuli koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem falli á búið vegna ráðstafana samkvæmt 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skuli einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sæti opinberum skiptum eða einkaskiptum. Þessir liðir skuli sundurliðaðir á erfðafjárskýrslu og studdir gögnum.

Fyrir liggur að D er skuldari þess láns frá Lífeyrissjóði X sem málið varðar og hefur ekki annað komið fram í málinu en að lánið hafi verið tekið í hennar þágu. Að því virtu verður að fallast á með sýslumanni að skuld vegna lánsins geti ekki talist skuld arfleifanda í skilningi 5. gr. laga nr. 14/2004 og getur ekki skipt máli í því sambandi þótt lánið hafi verið tryggt með veði í fasteign A heitinnar og kunni í kjölfar skiptaloka að falla á kærendur sem eigendur fasteignarinnar af þeim sökum. Verður því að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja