Úrskurður yfirskattanefndar

  • Atvinnuleysisbætur
  • Tekjutímabil

Úrskurður nr. 492/2012

Gjaldár 2011

Lög nr. 90/2003, 59. gr. 2. mgr.  

Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta og vinnumarkaðsaðgerða í maí 2011 voru kæranda ákvarðaðar atvinnuleysisbætur vegna ársins 2010. Yfirskattanefnd taldi að um óvissar tekjur hefði verið að ræða þar til úrskurður um bótarétt kæranda lá fyrir á árinu 2011, enda hefði Vinnumálastofnun vefengt rétt kæranda til bótagreiðslu. Var því fallist á kröfu kæranda um skattlagningu bótanna tekjuárið 2011.

I.

Málavextir eru þeir að í skattframtali sínu árið 2011 tilfærði kærandi laun frá X ehf., samtals að fjárhæð 1.153.050 kr. Með bréfi, dags. 22. júlí 2011, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, um þá breytingu á skattframtali kæranda árið 2011 að honum hefðu verið færðar til tekna atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 610.282 kr. en um væri að ræða skattskyldar tekjur, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Í bréfinu greindi ríkisskattstjóri frá því að umrædd breyting byggði á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Við breytingu þessa hækkaði tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda úr 1.106.929 kr. í 1.763.332 kr.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 27. júlí 2011, óskaði kærandi eftir að umrædd greiðsla frá Vinnumálastofnun að fjárhæð 610.282 kr. yrði felld niður í skattframtali kæranda árið 2011. Um væri að ræða atvinnuleysisbætur sem greiddar hefðu verið kæranda á árinu 2011 vegna ársins 2010. Ástæðan væri sú að kæranda hefði verið neitað um atvinnuleysisbætur á árinu 2010 og hefði hann kært þá ákvörðun. Úrskurður hefði fallið kæranda í hag og honum hefðu verið greiddar bæturnar á árinu 2011. Taldi kærandi því að telja bæri greiðsluna til tekna í skattframtali hans árið 2012.

Með kæruúrskurði, dags. 10. ágúst 2011, hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda með vísan til þess að greiðslur bæri að telja fram á því tekjuári sem réttur til þeirra stofnaðist. Þá kom fram í úrskurðinum að vegna villu í leiðréttingarkeyrslu hefði frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð, sem tilgreint hefði verið í framtali kæranda, fallið niður. Væri sú villa leiðrétt og lífeyrissjóðsiðgjald alls 70.532 kr., að teknu tilliti til hækkunar á iðgjaldi vegna greiðslu Vinnumálastofnunar, fært í skattframtal kæranda. Leiddu framangreindar breytingar til lækkunar á stofni kæranda til tekjuskatts og útsvars úr 1.763.332 kr. í 1.692.800 kr.

II.

Með kæru, dags. 20. september 2011, hefur kærandi skotið kæruúrskurði ríkisskattsstjóra, dags. 10. ágúst 2011, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að yfirskattanefnd endurskoði ákvörðun ríkisskattstjóra um tekjufærslu greiðslu Vinnumálastofnunar í skattframtali kæranda árið 2011. Þá er farið fram á skýringar á því hvers vegna greiðslan frá Vinnumálastofnun hafi haft áhrif á ákvörðun opinberra gjalda B, sambýliskonu kæranda.

Í kærunni er rakið að kærandi hafi að loknu námi á árinu 2010 sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun en verið hafnað. Hann hafi kært ákvörðunina og hafi úrskurður fallið honum í vil í maí 2011. Greiðsla Vinnumálastofnunar til kæranda hafi verið innt af hendi 3. júní 2011, sbr. meðfylgjandi greiðsluseðil atvinnuleysistrygginga. Bótafjárhæð hafi verið 610.282 kr. en haldið hafi verið eftir staðgreiðslu opinberra gjalda og hafi útborgun til kæranda því numið 367.809 kr. Þá eru raktar breytingar ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, sbr. tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 22. júlí 2011, og áhrif þeirra á opinber gjöld kæranda og sambýliskonu hans. Hafi breyting ríkisskattstjóra leitt til hækkunar opinberra gjalda kæranda og þess að skuld myndaðist hjá sambýliskonu kæranda, en hún hefði nýtt skattkort hans. Hafi breytingin þannig haft margvísleg óhagstæð áhrif á skuldastöðu þeirra hjá innheimtumanni ríkissjóðs.

III.

Með bréfi, dags. 25. nóvember 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 29. nóvember 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

IV.

Ágreiningsefni máls þessa er sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2011 samkvæmt tilkynningu til kæranda, dags. 22. júlí 2011, sem staðfest var með hinum kærða úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 10. ágúst 2011, að færa kæranda til tekna í skattframtali hans árið 2011 atvinnuleysisbætur að fjárhæð 610.282 kr. Fram er komið að um var að ræða bótagreiðslu vegna ársins 2010 sem þó var ekki ákvörðuð fyrr en með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðs¬aðgerða í maí 2011. Fékk kærandi bótafjárhæðina greidda frá Vinnumálastofnun hinn 3. júní 2011. Til stuðnings ákvörðun sinni vísaði ríkisskattstjóri til upplýsinga úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, sbr. tilkynningu, dags. 22. júlí 2011. Kröfu kæranda um skattlagningu greiðslunnar gjaldárið 2012, sem fram kom í kæru til ríkisskattstjóra, dags. 27. júlí 2011, hafnaði ríkisskattstjóri á þeim forsendum að greiðslur beri að telja fram á því tekjuári sem réttur til þeirra stofnast.

Í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, segir að tekjur skuli að jafnaði telja til tekna á því ári sem þær verða til, þ.e. þegar myndast hefur krafa þeirra vegna á hendur einhverjum, nema um óvissar tekjur sé að ræða. Þegar litið er til atvika í máli þessu verður að telja að umrædd greiðsla til kæranda hafi verið óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 þar til úrskurður um bótarétt kæranda lá fyrir á árinu 2011, enda er ljóst að Vinnumálastofnun vefengdi rétt kæranda til bótagreiðslu. Samkvæmt þessu er krafa kæranda í máli þessu tekin til greina. Í samræmi við það lækkar tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda gjaldárið 2011, að teknu tilliti til lækkunar á frádrætti iðgjalds í lífeyrissjóð, um 585.871 kr. Rétt er ríkisskattstjóra að leiðrétta staðgreiðslu kæranda til samræmis við niðurstöðu þessa úrskurðar.

Gera verður þá athugasemd við málsmeðferð ríkisskattstjóra að í úrskurði hans, dags. 10. ágúst 2011, skorti alveg tilvísun til réttarreglna. Voru að því leyti annmarkar á rökstuðningi ríkisskattstjóra í málinu, sbr. ákvæði um efni rökstuðnings í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda um niðurfellingu atvinnuleysisbóta að fjárhæð 610.282 kr. í skattframtali kæranda árið 2011.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja