Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 191/2011

Virðisaukaskattur 2009

Lög nr. 50/1988, 27. gr. 1. og 6. mgr., 28. gr.   Lög nr. 30/1992, 1. gr., 2. gr.  

Virðisaukaskattur kæranda var vantalinn uppgjörstímabilin mars-apríl, júlí-ágúst og nóvember-desember. Hins vegar átti kærandi inneign í virðisaukaskatti uppgjörstímabilin maí-júní og september-október. Kærandi mótmælti því að beitt væri álagi vegna vangreidds virðisaukaskatts uppgjörstímabilið mars-apríl 2009 og að dráttarvextir væru reiknaðir vegna þeirra tímabila þar sem virðisaukaskattur væri vangreiddur án þess að tekið væri tillit til inneigna á öðrum tímabilum. Yfirskattanefnd taldi að kærandi hefði ekki fært fram gildar ástæður sem gætu leyst hann undan greiðslu álags. Þá kom fram í úrskurði yfirskattanefndar að kröfu um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta yrði í tilviki kæranda að beina til tollstjóra og eftir atvikum fjármálaráðuneytisins, enda yrði ekki talið að kærumeðferð eftir ákvæðum laga um yfirskattanefnd ætti við um ákvörðun dráttarvaxta af vangreiddum virðisaukaskatti. Því væri ekki á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti. Var þeim hluta kærunnar vísað frá, en erindi kæranda varðandi dráttarvexti framsent innheimtumanni ríkissjóðs, tollstjóra, til afgreiðslu.

I.

Með kæru, dags. 28. desember 2010, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurðum ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2010, til yfirskattanefndar. Með úrskurðum þessum endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt kæranda öll uppgjörstímabil ársins 2009 í samræmi við innsenda leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts árið 2009. Samkvæmt úrskurði vegna uppgjörstímabilsins mars-apríl 2009 var kæranda ákvarðað álag að fjárhæð 247.417 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að umrætt álag falli niður. Þá er ákvörðun dráttarvaxta mótmælt og þess krafist að útreikningi dráttarvaxta verði hagað með öðrum hætti en gert hafi verið, svo sem nánar er rakið í kærunni.

II.

Helstu málavextir eru þeir að samkvæmt leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts (RSK 10.26), sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2010, átti kærandi inneign í virðisaukaskatti uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2009 að fjárhæð 85.957 kr., maí-júní 2009 að fjárhæð 4.940.962 kr., júlí-ágúst 2009 að fjárhæð 22.272 kr. og september-október 2009 að fjárhæð 1.020.364 kr., en virðisaukaskattur til greiðslu nam 4.934.378 kr. uppgjörstímabilið mars-apríl 2009 og 1.012.847 kr. uppgjörstímabilið nóvember-desember 2009. Með úrskurðum, dags. 26. nóvember 2010, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um breytingu á virðisaukaskatti í samræmi við innsenda leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts árið 2009. Fram kom að álagi að fjárhæð 247.417 kr. væri bætt við hækkun virðisaukaskatts uppgjörstímabilið mars-apríl 2009, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri tók fram að dráttarvextir yrðu reiknaðir hjá innheimtumanni ríkissjóðs og væru þeir hinir sömu og Seðlabanki Íslands ákvarðaði samkvæmt lögum nr. 38/2001.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að rekstur kæranda, sem er einkahlutafélag, byggist á því að halda tvo útsölumarkaði á ári með sölu á ... Fyrri markaður ársins 2009 hafi verið haldinn 9. apríl til og með 3. maí 2009 og sá síðari frá 30. október til og með 30. nóvember 2009. Á mörkuðunum sé bæði selt efni af eigin lager og innfluttar vörur og vörur frá Y ehf., Z ehf. og Q ehf. í umboðssölu. Y ehf. og Q ehf. hafi haft þann háttinn á að skrifa út reikninga á kæranda eftir því sem vörur á markaðinn bárust og gefa síðan út kreditreikning fyrir óseldum vörum. Þessir reikningar hafi verið gerðir á sama tímabili og salan hjá kæranda átti sér stað. Z ehf. hafi hins vegar afhent vörur á markaðinn án þess að skrifa út reikninga, en síðan gefið út reikninga fyrir seldum eintökum nærri mánuði eftir að mörkuðum lauk. Þetta fyrirkomulag hafi valdið kæranda verulegum vandræðum, því kæranda hafi borið að skila útskatti af allri sölu í apríl án þess að fá innskatt á móti af vörum frá Z ehf., en sá innskattur hafi numið 5.335.703 kr. Við þessu hafi verið brugðist með því að taka alla sölu og vörukaup vegna markaðarins á eitt uppgjörstímabil, þ.e. mars-apríl 2009, og virðisaukaskattsskýrslu skilað þannig inn, þrátt fyrir að markaðurinn stæði til 3. maí 2009 og að vörukaup frá Z ehf. hafi ekki verið dagsett fyrr en í maí 2009. Það sama hafi gerst með síðari markað ársins, en öll vörukaup frá Z ehf. séu dagsett í desember 2009 með innskatti að fjárhæð 5.910.018 kr. Því komi fram mismunur á uppgjörstímabilum virðisaukaskatts í skattframtali kæranda árið 2010 og sé honum ekki mótmælt.

Hins vegar mótmæli kæranda meðferð yfirvalda á skuld og inneign virðisaukaskatts árið 2009. Telji kærandi það óréttlátt og varla í anda laganna að beitt sé álagi og dráttarvöxtum á skuld vegna virðisaukaskatts uppgjörstímabilið mars-apríl 2009 að fjárhæð 4.934.378 kr., miðað við gjalddaga 5. júní 2009, en inneign á tímabilinu maí-júní 2009 að fjárhæð 4.940.962 kr. sé ekki verðbætt á nokkurn hátt frá gjalddaga 5. ágúst 2009, heldur sé þessari inneign skuldajafnað á móti skuldinni frá mars-apríl 2009 þann 26. nóvember 2010 og inneign tímabilið september-október 2009 að fjárhæð 1.020.364 kr. sé skuldajafnað þann 26. nóvember 2010 á móti álögðum kostnaði tímabilið mars-apríl 2009 án þess að vera verðbætt á nokkurn hátt. Eðlilegra hefði verið að skuldajafna inneigninni vegna maí-júní 2009 á móti skuldinni vegna mars-apríl 2009 á gjalddaga þess tímabils, þ.e. 5. ágúst 2009, í stað þess að dráttarvaxtareikna skuldina vegna mars-apríl 2009 til 26. nóvember 2010. Á sama hátt sé eðlilegra að skuldajafna inneign vegna september-október á móti nóvember-desember 2009 í stað þess að dráttarvaxtareikna skuldina vegna nóvember-desember til 20. desember 2010.

Umboðsmaður kæranda tekur fram að aðgerðir hins opinbera, sem raktar hafi verið í kærunni, íþyngi kæranda verulega eins og sjá megi á yfirliti tollstjóra sem fylgi kærunni ásamt öðrum gögnum.

IV.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2011, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Kærður er úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 26. nóvember 2010. Ekki verður af kærunni ráðið að gerður sé ágreiningur um álagninguna sem slíka, þ.e. færslu skattskyldrar veltu, útskatts og innskatts á viðkomandi tímabil. Kærandi gerir athugasemdir við beitingu álags og kveður þá ákvörðun óréttláta og „varla í anda laga“. Nánari röksemdir eru þó ekki færðar fyrir beiðni um niðurfellingu álags. Af því tilefni vill ríkisskattstjóri taka fram að samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili sæta álagi til viðbótar skatti sé virðisaukaskattur ekki greiddur á tilskildum tíma. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. skal álag skv. 1. mgr. vera 1% af þeirri fjárhæð sem vangreidd er fyrir hvern byrjaðan dag eftir gjalddaga, þó ekki hærra en 10%. Samkvæmt 6. mgr. 27. gr. má fella niður álag skv. 2. mgr. ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta. Í framkvæmd hefur verið litið svo á að ríkar ástæður þurfi til að niðurfellingarheimildinni verði beitt. Eins og fram hefur komið virðist kærandi fallast á álagninguna sem slíka og ekki er uppi ágreiningur um túlkun reglna á sviði virðisaukaskatts. Kærandi hefur því að mati ríkisskattstjóra ekki fært fram gildar vítaleysisástæður sér til málsbóta.

Kærandi gerir ágreining um beitingu dráttarvaxta og aðferð við skuldjöfnun hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Ákvörðun um slíkt heyrir ekki undir yfirskattanefnd og er því gerð sú krafa að þessum hluta kærunnar verði vísað frá nefndinni.

Þess er krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur að öðru leyti með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 23. febrúar 2011, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Telja verður að kæra í máli þessu varði annars vegar ákvörðun álags á virðisaukaskatt uppgjörstímabilið mars-apríl 2009 og hins vegar útreikning dráttarvaxta vegna síðbúinnar greiðslu virðisaukaskatts uppgjörstímabilin mars-apríl og nóvember-desember 2009. Samkvæmt skýringum kæranda stóð félagið skil á of lágum virðisaukaskatti umrædd uppgjörstímabil með því að í virðisaukaskattsskýrslum félagsins var færður hærri innskattur en vera bar miðað við dagsetningu vörukaupareikninga, sbr. reglu þá um uppgjör innskatts sem fram kemur í 4. mgr. 15. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. einnig lokamálsgrein 20. gr. sömu laga. Er út af fyrir sig óumdeilt að virðisaukaskattur kæranda hafi verið vangreiddur umrædd uppgjörstímabil af þessum sökum. Telja verður að sú aðferð við uppgjör viðskipta kæranda og Z ehf., sem gerð er grein fyrir í kæru, hafi verið í samræmi við ákvæði 4. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988, enda er ekki öðru haldið fram af hálfu kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988 skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 25. gr. sömu laga hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi. Eins og fram er komið liggur fyrir að kærandi stóð ekki í tæka tíð skil á greiðslu virðisaukaskatts fyrir uppgjörstímabilið mars-apríl 2009, þannig að lagaskilyrði voru til beitingar álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Þegar virt eru atvik að þeim drætti á virðisaukaskattsskilum, sem í málinu greinir, eins og þeim er lýst samkvæmt skýringum kæranda, verður að telja að hér sé um að ræða atriði sem kærandi ber einn ábyrgð á og verða ekki að neinu leyti kennd utanaðkomandi og óviðráðanlegum atvikum. Samkvæmt þessu þykir kærandi ekki hafa fært fram gildar ástæður er geti leyst hann undan greiðslu álags samkvæmt 1. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Að því er snertir mótmæli kæranda við dráttarvöxtum skal tekið fram að í 28. gr. laga nr. 50/1988 eru ákvæði um dráttarvexti vegna síðbúinnar greiðslu skattaðila á virðisaukaskatti og vegna síðbúinnar endurgreiðslu af hálfu ríkissjóðs. Ekki er sérstaklega kveðið á um málsmeðferð vegna þessara atriða í lögunum. Fer þá um það atriði eftir ákvæðum laga nr. 90/2003, sbr. lokamálsgrein 49. gr. laga nr. 50/1988. Um vexti af vangreiddu og ofgreiddu skattfé er fjallað í 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í XIII. kafla þeirra laga um innheimtu og ábyrgð. Hefur verið litið svo á að ágreiningsefni varðandi innheimtu álagðra opinberra gjalda, þ.m.t. vexti, eigi ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 99. gr. laga nr. 90/2003 og lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Af lagasamræmi leiðir að líta verður svo á að kærumeðferð eftir ákvæðum 29. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. nú lög nr. 30/1992, eigi ekki við um ákvörðun dráttarvaxta af vangreiddum virðisaukaskatti. Samkvæmt 1. mgr. 111. gr. laga nr. 90/2003 skulu skattar sem álagðir eru samkvæmt lögunum renna í ríkissjóð og þar segir jafnframt að tollstjórinn í Reykjavík hafi á hendi innheimtu þeirra í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur en sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum. Kröfu um niðurfellingu eða lækkun dráttarvaxta ber því í tilviki kæranda að beina til tollstjóra, sbr. lög nr. 147/2008, um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og fleiri lögum, og eftir atvikum fjármálaráðuneytisins, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt framansögðu er eigi á valdsviði yfirskattanefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kæranda varðandi dráttarvexti og er þeim hluta kærunnar af þeim sökum vísað frá. Með vísan til 7. gr. laga nr. 37/1993 þykir rétt að framsenda innheimtumanni ríkissjóðs, tollstjóra, til afgreiðslu erindi kæranda að því leyti sem það varðar dráttarvexti.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda um niðurfellingu álags er hafnað. Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd að því er varðar dráttarvexti og framsend tollstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja