Úrskurður yfirskattanefndar

  • Dagpeningar
  • Skattmat
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 224/2014

Gjaldár 2011 og 2012

Lög nr. 90/2003, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 101. gr. 2. mgr., 118. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2010 og 2011.  

Kærandi starfaði á vegum launagreiðanda síns, sem var með starfsstöð í Hafnarfirði, við framkvæmdir í E-bæ og nágrenni í öðrum landshluta. Yfirskattanefnd taldi ljóst að kærandi hefði starfað að meginstefnu til óslitið í E-bæ vegna umrædds verkefnis og varð ekki annað séð en að um samfellda dvöl hefði verið að ræða að mestu leyti frá því að störfin hófust. Var fallist á með skattstjóra að vinnustaður kæranda hefði verið í E-bæ á greindum tíma og að frádráttur samkvæmt reglum um dagpeninga kæmi því ekki til greina í tilviki kæranda. Var kröfu kæranda hafnað.

I.

Með kæru, dags. 9. apríl 2013, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2013, til yfirskattanefndar, sbr. einnig úrskurð ríkisskattstjóra, dags. 14. febrúar 2013, um synjun ríkisskattstjóra á endurupptöku fyrrnefnds úrskurðar síns. Kæruefni málsins er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum frá 10. janúar 2013 að fella niður tilfærðan dagpeningafrádrátt í reit 33 í skattframölum kæranda árin 2011 og 2012 að fjárhæð 785.400 kr. fyrra árið og 3.289.700 kr. síðara árið, en frádráttarfjárhæðir þessar voru færðar á móti tekjufærðum dagpeningum að sömu fjárhæð í reit 23 í skattframtölunum. Taldi ríkisskattstjóri að ekki væru uppfyllt lagaskilyrði fyrir frádrætti eftir reglum um dagpeninga í tilviki kæranda, sbr. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og skattmatsreglur ríkisskattstjóra, enda væri ekki um að ræða tilfallandi ferðir á vegum launagreiðanda utan venjulegs vinnustaðar.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. apríl 2013, er þess krafist að niðurfelling ríkisskattstjóra á tilfærðum dagpeningafrádrætti í reit 33 í skattframtölum kæranda árin 2011 og 2012 verði felld úr gildi.

II.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárin 2008, 2009, 2011 og 2012. Við almenna álagningu opinberra gjalda þessi gjaldár sætti kærandi því áætlun skattstjóra/ríkisskattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt gögnum málsins bárust skattframtöl kæranda árin 2008, 2009, 2011 og 2012 til ríkisskattstjóra þann 26. september 2012. Í skattframtölum árin 2011 og 2012 færði kærandi til tekna dagpeninga frá vinnuveitanda sínum, X ehf., að fjárhæð 785.400 kr. fyrra árið og 3.291.200 kr. síðara árið. Til frádráttar á móti dagpeningum færði kærandi 785.400 kr. í skattframtali árið 2011 og 3.289.700 kr. í skattframtali árið 2012.

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2012, fór ríkisskattstjóri fram á upplýsingar og gögn frá kæranda varðandi dagpeningagreiðslur tekjuárin 2010 og 2011. Rakti ríkisskattstjóri færslur vegna dagpeninga til tekna og tilfærðan frádrátt á móti tekjufærðum dagpeningum af hendi kæranda í skattframtölum árin 2011 og 2012. Ríkisskattstjóri tók fram að dagpeningum, sem greiddir væru vegna ferðalaga launþega á vegum launagreiðanda, væri ætlað að standa undir kostnaði launþegans vegna fjarveru frá heimili sínu, svo sem gisti- og fæðiskostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferðinni hlytist. Væri frádráttur á móti dagpeningum háður þeim skilyrðum að dagpeningar hefðu verið greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda utan venjulegs vinnustaðar, að launþegi hefði sannanlega greitt ferðatengdan kostnað samkvæmt reikningi og gæti sýnt fram á það og að fyrir lægju í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launamanni, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga. Vísaði ríkisskattstjóri um þetta í reglur um skattmat nr. 1088/2009 og nr. 1057/2010 sem birtar hefðu verið í B-deild Stjórnartíðinda. Beindi ríkisskattstjóri því til kæranda að hann gerði grein fyrir og legði fram gögn vegna hverrar ferðar í þágu launagreiðanda, þar sem kæmi fram tilefni hverrar ferðar, fjöldi daga í hverri ferð og upplýsingar um dvalarstað. Var kæranda veittur 12 daga frestur til að láta umbeðnar upplýsingar í té, en að beiðni umboðsmanns kæranda 27. nóvember 2012 var sá frestur framlengdur um sjö daga.

Með úrskurði, dags. 10. janúar 2013, tók ríkisskattstjóri mál kæranda til afgreiðslu á grundvelli 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum kom fram að auk skattframtala sem borist hefðu 26. september 2012 hefði skattframtal kæranda árið 2007 borist ríkisskattstjóra þann 11. desember 2012. Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á að leggja hin innsendu skattframtöl til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2007, 2008, 2009, 2011 og 2012 í stað áætlaðra skattstofna. Ríkisskattstjóri bætti 15% álagi við skattstofna samkvæmt skattframtölunum vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003. Þá gerði ríkisskattstjóri þær breytingar á skattframtölum kæranda árin 2011 og 2012 að tilfærður frádráttur í reit 33 að fjárhæð 785.400 kr. í skattframtali árið 2011 og 3.291.200 kr. í skattframtali árið 2012 var felldur niður. Ríkisskattstjóri tók fram að um frádrátt á móti dagpeningum færi eftir 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30 gr. laga nr. 90/2003 og skattmatsreglum ríkisskattstjóra, sbr. auglýsingar nr. 1088/2009 og nr. 1057/2010 í B-deild Stjórnartíðinda. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir fyrirspurnarbréfi embættisins, dags. 15. nóvember 2012, svo og framlengdum fresti til svara, og tók fram að ekkert svar hefði borist við fyrirspurnarbréfinu. Því væri tilfærður frádráttur á móti dagpeningum í skattframtölum kæranda árin 2011 og 2012 felldur niður.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 12. febrúar 2013 vísaði umboðsmaður kæranda til þess að hann hefði með tölvupósti 11. desember 2012 sent embættinu gögn og bréf, dags. 10 desember 2012, vegna fyrirspurnarbréfsins frá 15. nóvember 2012. Væru gögn þessi og svarbréf nú send að nýju. Að því er varðaði tilfærðan dagpeningafrádrátt kom fram í bréfi umboðsmannsins að kærandi hefði fengið greidda dagpeninga vegna starfa á vegum X ehf. við framkvæmdir í E-bæ fyrir sveitarfélagið, sem unnið hefði verið að frá október 2010 fram í júlí 2012, en einnig hefðu komið til önnur verkefni á svæðinu, bæði fyrir sveitarfélagið H og fyrirtæki í E-bæ og F-bæ. Þannig hefði kærandi dvalið meira og minna í E-bæ frá október 2010 út júlí 2012, með nokkrum hléum. Á árinu 2010 hefði kærandi dvalið 58 daga í E-bæ en þó einungis þegið dagpeninga fyrir 42 daga. Á árinu 2011 hefði hann starfað 239 daga í E-bæ eða nágrenni, en þegið dagpeninga fyrir 176 daga. Kærandi ætti lögheimili í Garðabæ og útilokað væri að keyra fram og til baka samdægurs. Kærandi hefði því borið ferðatengdan kostnað vegna verksins og þurft að greiða fyrir gistingu og fæði. Bréfinu fylgdi verksamningur á milli X ehf. og sveitarfélagsins H, yfirlit yfir unna daga kæranda í E-bæ og hreyfingalisti um tekjufærða reikninga X ehf. vegna vinnu í E-bæ og nágrenni á árunum 2010 og 2011.

Með úrskurði, dags. 14. febrúar 2013, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda að erindi hans, dags. 10. desember 2012, sem móttekið hefði verið 12. febrúar 2013, væri tekið til meðferðar sem beiðni á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 10. janúar 2013, yrði tekinn til meðferðar að nýju og lagt yrði á samkvæmt innsendum skattframtölum. Af þessu tilefni áréttaði ríkisskattstjóri lagaskilyrði vegna frádráttar á móti dagpeningum og tók fram að slíkur frádráttur heimilaðist aðeins á móti dagpeningum sem greiddir væru vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda utan venjulegs vinnustaðar. Gögn kæranda sýndu aðeins að dvalið hefði verið á einum stað, E-bæ, og því væri ekki um tilfallandi ferðir að ræða. Samkvæmt þessu þættu framlögð gögn kæranda ekki vera þess eðlis að lagaskilyrði væri fyrir endurupptöku á úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 10 janúar 2013, og var beiðni þar að lútandi því hafnað.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. apríl 2013, rekur umboðsmaður kæranda gang málsins og bréfaskipti í því. Fram kemur að fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 15. nóvember 2012, hafi verið svarað með tölvupósti þann 11. desember 2012. Að sögn ríkisskattstjóra hefði umræddur tölvupóstur ekki borist embættinu og því hafi umboðsmaður kæranda ákveðið að senda sömu fylgigögn og svarbréf að nýju með tölvupósti 12. febrúar 2013.

Af hálfu kæranda er þess krafist í málinu að hinn kærði úrskurður verði felldur niður og að tilfærður dagpeningafrádráttur í skattframtölum kæranda árin 2011 og 2012 verði látinn standa óbreyttur. Er krafa kæranda byggð á því að úrskurður ríkisskattstjóra hafi verið haldinn bæði formlegum og efnislegum annmörkum. Þannig hafi ríkisskattstjóri ekki séð til þess að mál kæranda hafi verið nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt rökstuðningi ríkisskattstjóra sé byggt á því að kærandi hafi einungis dvalið á einum stað, þ.e. E-bæ, en gögn sem send hafi verið embættinu 12. febrúar 2013 sýni fram á að einnig hafi verið unnið í F-bæ og G-bæ. Þetta megi vera ljóst af hreyfingalista frá X ehf. þar sem fram komi reikningar á lögaðila með lögheimili í F-bæ og G-bæ. Einnig telji ríkisskattstjóri að ekki hafi verið um að ræða tilfallandi ferðir á vegum vinnuveitanda, heldur hafi kærandi dvalið í E-bæ meðan á framkvæmd verkefnis stóð yfir. Þessar forsendur ríkisskattstjóra standist ekki. Kærandi hafi ekki dvalið í E-bæ svo mánuðum skipti samfleytt, heldur hafi hann farið til síns heima, í Garðabæ, þá daga sem hann hafi ekki starfað fyrir X ehf. Kærandi hafi ekki fengið greidda dagpeninga nema að hámarki 20 daga og allt niður í sjö daga fyrir einstaka mánuði. Einnig hafi ekkert verið unnið í febrúar 2011, enda hafi kærandi engin laun fengið fyrir þann mánuð. Verði að telja túlkun ríkisskattstjóra á tilfallandi ferðum allt of þrönga. Þá verði að telja að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi ekki verið gætt. Kærandi hafi átt rétt á dagpeningum og því hafi verið farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til með því að fella niður allan frádrátt á móti dagpeningum í skattframtölum árin 2011 og 2012.

IV.

Með bréfi, dags. 3. júní 2013, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 10. júní 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Ágreiningur í máli þessu varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra að fella niður í skattframtölum kæranda árin 2011 og 2012 tilfærðan frádrátt að fjárhæð 785.400 kr. fyrra árið og 3.289.700 kr. síðara árið á móti tilfærðum dagpeningum frá launagreiðanda kæranda, X ehf. Byggði ríkisskattstjóri ákvörðun sína á því að ekki væri um að ræða tilfallandi ferðir á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar og því væru ekki uppfyllt skilyrði til frádráttar samkvæmt reglum um dagpeninga, sbr. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 má draga frá tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur fjármálaráðherra. Í 118. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir gildistöku 21. gr. laga nr. 128/2009, segir að í upphafi hvers árs skuli fjármálaráðherra að fengnum tillögum ríkisskattstjóra gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr., og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Með greindum lögum nr. 128/2009 var útgáfa skattmatsreglna færð í hendur ríkisskattstjóra að fenginni staðfestingu fjármálaráðherra. Í reglum fjármálaráðherra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2010, sbr. reglur nr. 1088, 30. desember 2009 í B-deild Stjórnartíðinda, og í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárið 2011, sbr. reglur nr. 1057, 29. desember 2010 í B-deild Stjórnartíðinda, er að finna ákvæði um frádrátt dagpeninga og hliðstæðra endurgreiðslna í lið 3.2. Þar segir m.a. svo:

„Frádráttur á móti dagpeningum sem launþegi hefur fengið greidda frá launagreiðanda sínum er heimill, enda hafi dagpeningarnir verið greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar og launþeginn greitt gistingu og fæði og annan ferðatengdan kostnað, svo sem fargjöld að og frá flugvöllum. Frádrátturinn er jafnframt háður því skilyrði að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og hjá launþega, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launþega.“

Síðan eru raktar þær fjárhæðir sem draga má frá dagpeningum.

Samkvæmt framanrituðu þykir verða við það að miða að frádráttur dagpeninga samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 komi að meginstefnu ekki til álita nema á móti greiðslum sem vinnuveitandi hefur greitt launamanni vegna „tilfallandi ferða á vegum launagreiðandans utan venjulegs vinnustaðar“. Í þessu sambandi er og rétt að vísa til sambærilegrar túlkunar vegna eldri gjaldára samkvæmt úrskurðaframkvæmd, sbr. m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 298/1997 sem birtur er á vefsíðu yfirskattanefndar (www.yskn.is). Um úrskurðaframkvæmd á þessu sviði skal jafnframt vísað til úrskurða yfirskattanefndar nr. 103/2010 og 192/2010 sem birtir eru á vefsíðu nefndarinnar.

Í kæru til yfirskattanefndar er fundið að því að ríkisskattstjóri hafi ekki aflað nægilegra upplýsinga um störf og starfsskilyrði kæranda á árunum 2010 og 2011 sem kunni að hafa áhrif á heimild hans til frádráttar vegna dagpeninga. Jafnframt er því haldið fram að ríkisskattstjóri hafi dregið rangar ályktanir af gögnum sem kærandi lagði fram í málinu. Af þessu tilefni skal tekið fram að með erindi til ríkisskattstjóra 26. september 2012 fór kærandi fram á það að meðfylgjandi skattframtöl yrðu lögð til grundvallar álagningu opinberra gjalda tilgreind gjaldár í stað áætlunar skattstofna. Með úrskurði, dags. 10. janúar 2013, tók ríkisskattstjóri hin innsendu skattframtöl kæranda til afgreiðslu sem skatterindi samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 og féllst á að leggja skattframtölin til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda, en með breytingum sem raktar eru hér að framan að því er varðar skattframtöl árin 2011 og 2012. Eins og mál kæranda bar að samkvæmt framansögðu var ríkisskattstjóri ekki bundinn af tilkynningar- og fyrirspurnarákvæðum 96. gr. laga nr. 90/2003 hygðist hann hafna erindi kæranda eða einungis verða við því að hluta. Ríkisskattstjóra bar hins vegar að sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust þess. Þá bar honum að rökstyðja ákvörðun sína með fullnægjandi hætti, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Tekið skal fram að almennt ber undir skattaðila að sýna fram á að um sé að ræða kostnað sem draga megi frá tekjum, sbr. m.a. dóma Hæstaréttar Íslands frá 30. janúar 1997 (H 1997:385) og 20. febrúar 1997 (H 1997:759), sbr. og dóm Hæstaréttar frá 30. maí 1996 (H 1996:1955). Hvað varðar sérstaklega frádrátt af þeim toga, sem um ræðir í máli þessu, verður að telja að það beri undir skattaðila að sýna fram á með gögnum eða á annan hátt að hann eigi rétt á frádrætti samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, þar á meðal að hann hafi borið ferða- og dvalarkostnað, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands frá 28. september 2000 í málinu nr. 124/2000: Kristján Ólafsson gegn íslenska ríkinu og SÍF hf. til vara (H 2000:2922) og frá 12. október 2000 í málinu nr. 92/2000: Erlendur Birgir Blandon gegn íslenska ríkinu (H 2000:3118). Með bréfi til kæranda, dags. 15. nóvember 2012, beindi ríkisskattstjóri því til hans að gefa skýringar og leggja fram gögn vegna tilfærðs frádráttar á móti dagpeningum í skattframtölum árin 2011 og 2012. Skyldi kærandi leggja fram gögn vegna hverrar ferðar sem hann hefði tekist á hendur á vegum launagreiðanda á árunum 2010 og 2011 og tiltók ríkisskattstjóri í því sambandi að upplýsa þyrfti um tilefni hverrar ferðar, fjölda daga í hverri ferð og dvalarstað. Í bréfi sínu vakti ríkisskattstjóri athygli á því að skilyrði frádráttar vegna dagpeninga væri að launþegi hefði sannanlega greitt ferðatengdan kostnað samkvæmt reikningi og gæti sýnt fram á það. Ekki krafði ríkisskattstjóri kæranda þó sérstaklega um gögn til stuðnings því að hann hefði borið ferða- og dvalarkostnað vegna starfs síns. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. desember 2012, og gögnum með því, kom heldur ekkert fram um útgjöld kæranda. Af svarbréfinu og gögnum með því varð hins vegar ráðið að launagreiðandi kæranda, X ehf., hefði haustið 2010 tekið að sér umfangsmikið verkefni í E-bæ sem jafnframt hefði verið helsta viðfangsefni félagsins á árinu 2011. Þá fylgdu gögn um unna daga kæranda við umrætt verkefni launagreinandans á árinu 2011. Kom fram í bréfi umboðsmanns kæranda að vegna þessara starfa kæranda „[í E-bæ] eða nágrenni“ hefði hann dvalið meira og minna í E-bæ frá október 2010 út júlí 2012 með nokkrum hléum. Samkvæmt framansögðu verður ekki annað séð en að ríkisskattstjóri hafi í öllum meginatriðum leitast við að upplýsa málið áður en hann tæki ákvörðun um erindi kæranda. Svo virðist sem svarbréf umboðsmanns kæranda, dags. 10. desember 2012, hafi misfarist í fórum ríkisskattstjóra, en það var sent ríkisskattstjóra með tölvupósti 11. desember 2012 eftir því sem best verður séð af gögnum málsins. Að fram kominni athugasemd umboðsmanns kæranda um þetta tók ríkisskattstjóri málið til nýrrar meðferðar með úrskurði, dags. 14. desember 2013, þar sem niðurstaðan varð efnislega sú að upplýsingar í svarbréfinu gæfu ekki tilefni til breytinga á fyrri úrskurði. Komu ástæður fyrir þeirri niðurstöðu fram í úrskurðinum. Að öllu þessu athuguðu verður ekki talið að slíkir annmarkar séu á málsmeðferð ríkisskattstjóra sem leitt geti til ógildingar hins kærða úrskurðar hans.

Kærandi, sem er búsettur í Garðabæ, starfaði á umræddu tímabili á vegum launagreiðanda síns, X ehf., sem er með starfsstöð í Hafnarfirði, við framkvæmdir á vegum vinnuveitanda síns í E-bæ og nágrenni. Var nánar tiltekið um að ræða verk í tengslum við framkvæmdir í E-bæ sem X ehf. tók að sér með samningi, dags. 8. nóvember 2010, en var unnið á tímabilinu október 2010 til loka júlí 2012. Kom fram í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. desember 2012, að kærandi hefði dvalið meira og minna í E-bæ meðan verkið stóð yfir. Þá kom fram að X ehf. hefði sinnt smærri verkefnum fyrir aðra aðila í E-bæ, F-bæ og G-bæ á umræddu tímabili. Í kæru til yfirskattanefndar eru þessar skýringar áréttaðar. Kemur fram að á tímabilinu október 2010 til nóvember 2011 hafi kærandi fengið greidda dagpeninga vegna ferða á vegum vinnuveitanda síns sökum verkefna á hans vegum [í E-bæ og nágrenni]. Hafi verið greiddir dagpeningar vegna sjö til tuttugu daga þessa mánuði að frátöldum janúar 2011, en þann mánuð hafi kærandi ekki verið á launaskrá. Tekið skal fram að í greinargerð um dagpeninga (RSK 3.11), sem fylgdi skattframtali kæranda árið 2011, tilgreindi kærandi 31 ferðadag á tímabilinu júní til september 2010 og þrjá ferðadaga á tímabilinu október til desember 2010. Ekki er að sjá að þessi tilgreining geti staðist, enda kemur fram í gögnum með kæru til yfirskattanefndar að dagpeningar voru greiddir kæranda vegna sjö daga í október, 20 daga í nóvember og 15 daga í desember 2010.

Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi starfaði að meginstefnu til óslitið [í E-bæ] á því tímabili sem um ræðir vegna umrædds verkefnis launagreiðanda. Verður ekki annað séð en að um samfellda dvöl hafi verið að ræða að mestu leyti frá því að störfin hófust í október 2010 og verður að taka undir með ríkisskattstjóra að vinnustaður kæranda hafi verið í E-bæ á greindum tíma. Verður ekki talið að það sem fram er komið um störf kæranda við önnur verkefni á vegum X ehf. í E-bæ, F-bæ og G-bæ á þessu tímabili breyti þessu. Að þessu athuguðu verður ekki fallist á með kæranda að um tilfallandi ferðir utan venjulegs vinnustaðar í framangreindum skilningi hafi verið að ræða þannig að frádráttur eftir reglum um dagpeninga komi til álita. Samkvæmt þessu verður að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja