Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tapað hlutafé
  • Slitameðferð fjármálafyrirtækis

Úrskurður nr. 366/2013

Gjaldár 2012

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 5. tölul.   Lög nr. 161/2002, 101. gr. (brl. nr. 44/2009, 6. gr.), 103. gr. a (brl. nr. 44/2009, 8. gr.)  

Kröfu einkahlutafélags um gjaldfærslu tapaðrar stofnfjáreignar í fjármálafyrirtæki, sem sætti sérstakri slitameðferð á grundvelli laga nr. 162/2002, var hafnað með vísan til þess að skilyrði slíkrar gjaldfærslu væru þá fyrst uppfyllt er fjármálafyrirtæki hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta.

I.

Með kæru, dags. 9. maí 2013, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 20. febrúar 2013, vegna álagningar opinberra gjalda árið 2012. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda um að færa 60.947.525 kr. til gjalda í reit 4386, skattalegar leiðréttingar hlutabréfa og/eða verðbréfa, í skattframtali félagsins árið 2012 vegna tapaðrar stofnfjáreignar í sparisjóðnum X. Byggði ríkisskattstjóri ákvörðun sína á því að ekki hefði verið sýnt fram á að um sannanlega tapaða stofnfjáreign væri að ræða, sbr. 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að fallist verði á gjaldfærslu umræddrar stofnfjáreignar með tilliti til þess að hún sé sannanlega töpuð. Jafnframt er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

II.

Forsaga málsins er að með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 29. nóvember 2012, óskaði umboðsmaður kæranda eftir leiðréttingu á skattframtali félagsins árið 2012 þar sem láðst hefði að tilgreina tapaða stofnfjáreign í X að fjárhæð 72.049.000 kr. og var farið fram á að sú fjárhæð yrði færð í reit 4386 í framtalinu. Með fyrirspurnarbréfi, dags. 24. janúar 2013, óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum á því að umbeðin fjárhæð væri ekki sú sama og framtalin stofnfjáreign í skattframtali félagsins árið 2009, en þar væri stofnfjáreign kæranda tiltekin 60.947.525 kr. Með tölvupósti, dags. 19. febrúar 2013, benti umboðsmaður kæranda á að í meðfylgjandi ársreikningi félagsins fyrir rekstrarárið 2009 væri kaupverð stofnfjáreignar félagsins tilgreint 72.049.000 kr., en af hálfu kæranda væri fallist á að miða gjaldfærsluna við 60.947.525 kr., væri það hin rétta fjárhæð. Óskað hefði verið eftir staðfestingu slitastjórnar á því að raunvirði stofnfjáreignarinnar væri núll krónur, en samkvæmt eignastýringaryfirlitum og öðrum gögnum frá fjármálafyrirtækum væru stofnfjárbréf í X talin verðlaus. Í framhaldi af þessu bárust ríkisskattstjóra tölvupóstsamskipti milli meðlims í slitastjórn X og umboðsmanns kæranda þar sem slitastjórnarmeðlimurinn staðfesti að alveg væri ljóst að stofnfjáreigendur X myndu ekki fá neitt upp í bréf sín.

Með kæruúrskurði, dags. 20. febrúar 2013, hafnaði ríkisskattstjóri kærunni á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki sýnt fram á að um sannanlega tapaða stofnfjáreign væri að ræða samkvæmt 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Tók ríkisskattstjóri fram að í greindu ákvæði kæmi fram að frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stöfuðu af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða væru tengdar slíkum rekstri mætti draga sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hefðu gjaldþrota eða hlutafé sem fært hefði verið niður í kjölfar nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991, um gjaldþotaskipti o.fl.

III.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 9. maí 2013, er þess krafist að 60.947.525 kr. komi til gjalda í skattframtali kæranda árið 2012 vegna stofnfjáreignar í X sem sé sannarlega töpuð. Er bent á að ljóst sé að eignir þrotabús X séu mun lægri en sem nemi kröfum í bú bankans. Fyrir liggi að veðhafar fái aðeins lítinn hluta krafna sinna greiddan. Forgangskröfur og almennar kröfur verði ekki greiddar og liggi því fyrir að stofnfjáreigendur fái ekkert upp í stofnfjáreign sína. Í 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 sé frádráttarheimild bundin við sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hafi gjaldþrota. Með hliðsjón af orðalagi 1. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. breytingu á þeim lögum með lögum nr. 44/2009, annist slitastjórn X skipti á „þrotabúi“ fjármálafyrirtækis. Þá sé í 6. gr. sömu laga vísað til þess að um slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti, svo sem nánar er rakið í kærunni. Þá bendir umboðsmaður kæranda á að slitastjórnarmeðlimur X hafi staðfest að ljóst sé að stofnfjáreigendur X muni ekkert fá upp í bréf sín.

IV.

Með bréfi, dags. 8. júlí 2013, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda gert kröfu um staðfestingu á hinum kærða úrskurði með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 11. júlí 2013, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Ágreiningur í máli þessu varðar þá ákvörðun ríkisskattstjóra, sbr. hinn kærða úrskurð, dags. 20. febrúar 2013, að hafna beiðni kæranda um gjaldfærslu meintrar tapaðrar stofnfjáreignar í sparisjóðnum X að fjárhæð 60.947.525 kr. í skattframtali kæranda árið 2012. Byggði ríkisskattstjóri á því að gjaldfærslan uppfylli ekki skilyrði ákvæðis 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að fallist verði á gjaldfærslu 60.947.525 kr. í skattframtali félagsins árið 2012 vegna stofnfjáreignar í X sem sé sannarlega töpuð. Fyrir liggi að eignir þrotabús X standi ekki undir veðkröfum nema að litlu leyti og forgangskröfur og almennar kröfur verði ekki greiddar. Muni stofnfjáreigendur ekkert fá upp í stofnfjáreign sína, svo sem umboðsmaður kæranda hafi fengið staðfest hjá meðlimi í slitastjórn X. Þá er af hálfu kæranda byggt á því að um slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti, sbr. tilvísuð ákvæði í lögum nr. 161/2002 svo sem þeim var breytt með lögum nr. 44/2009, og falli hlutabréf og stofnfé í fjármálafyrirtækjum í slitameðferð því undir 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003.

Samkvæmt 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 er heimilt að færa frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri sannanlega tapað hlutafé í félögum sem orðið hafa gjaldþrota, svo og hlutafé sem tapast hefur vegna þess að það hefur verið fært niður í kjölfar nauðasamninga samkvæmt lögum nr. 21/1991. Fyrir liggur að X sætir nú sérstakri slitameðferð á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt 103. gr. a laganna er gert ráð fyrir því að slitameðferð fjármálafyrirtækis geti lokið með því að bú þess sé tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum. Þá getur slitameðferð einnig lokið með því að fyrirtæki sé afhent eigendum til umráða í því skyni að taka upp starfsemi á ný eða í kjölfar þess að leitað hafi verið nauðasamninga þegar eignir fjármálafyrirtækis hafa ekki nægt til fullrar greiðslu krafna sem ekki hefur endanlega verið hafnað við slitameðferð. Með hliðsjón af framangreindu teljast skilyrði 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 þá fyrst uppfyllt er fjármálafyrirtæki hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 4. og 5. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002, og nægir ekki að fyrirtæki hafi verið tekið til slitameðferðar. Ekki er því unnt að fallast á það með kæranda að félaginu sé heimilt á grundvelli 5. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 að færa meinta tapaða stofnfjáreign félagsins í X til gjalda í skattframtali félagsins árið 2012. Vísast í þessu sambandi til sjónarmiða í úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 303/2010, sem birtur er á vef yfirskattanefndar (www.yskn.is), en um skattframkvæmd á þessu sviði vísast til ákvarðandi bréfs ríkisskattstjóra nr. 8/2011.

Með vísan til þess, sem hér að framan greinir, verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja