Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skógrækt
  • Rekstarkostnaður
  • Virðisaukaskattur

Úrskurður nr. 18/1999

Gjaldár 1995 og 1996

Virðisaukaskattur 1994 og 1995

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul.   Lög nr. 50/1988, 15. gr. 3. mgr., 16. gr. 1. mgr.   Lög nr. 30/1992, 5. gr.   Lög nr. 93/1997  

Ágreiningur í máli þessu snerist um þá ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldfærðan kostnað vegna skógræktar í rekstrarreikningum kæranda fyrir rekstrarárin 1994 og 1995 og lækka innskatt samsvarandi. Í úrskurði yfirskattanefndar var vísað til þess að kærandi hefði haft með höndum rekstur bifreiðaverkstæðis og gröfuþjónustu á árunum 1994 og 1995, en ekki haft neinar sölutekjur af skógarafurðum á þeim tíma og ekki gert samning um nytjaskógrækt í samræmi við lög þar um. Var kærandi ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hefði haft þá starfsemi með höndum sem leyft gæti gjaldfærslu kostnaðar og innskattsfrádrátt vegna skógræktar.

I.

Með kæru, dags. 15. apríl 1998, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 3. júlí 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið til yfirskattanefndar endurákvörðun skattstjóra á opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1995 og 1996 og endurákvörðun virðisaukaskatts rekstrarárin 1994 og 1995, sbr. úrskurð skattstjóra, dags. 9. mars 1998.

II.

Málavextir eru þeir að í ársreikningum kæranda fyrir árin 1994 og 1995, er voru vegna bílaviðgerða, færði kærandi til frádráttar tekjum „kostnað vegna skógræktar“ 265.392 kr. fyrra árið og 325.149 kr. síðara árið. Með bréfi, dags. 20. janúar 1997, krafði skattstjóri kæranda skýringar á færslu á kostnaði vegna skógræktar á rekstrarreikning gröfu- og bílaviðgerða. Fram kom að ekki væri heimilt að færa á sama rekstrarreikning tvær eða fleiri atvinnugreinar. Fór skattstjóri fram á að kærandi gerði grein fyrir því hvort um atvinnuskógrækt væri að ræða og þá hvar skógræktin væri staðsett og hver landeigandi væri. Þá óskaði skattstjóri eftir greinargerð um hvort ekki væri frekar um stofnkostnað að ræða en rekstrargjöld.

Með bréfi, dags. 13. nóvember 1997, boðaði skattstjóri hinar kærðu breytingar á skattframtölum kæranda gjaldárin 1995 og 1996 og virðisaukaskatti hans rekstrarárin 1994 og 1995. Fram kom í bréfinu að þar sem ekkert svar hefði borist við fyrirspurn skattstjóra væri fyrirhugað að fella niður gjaldaliðinn „kostnaður vegna skógræktar“ af rekstrarreikningi með framtali 1995, samtals 265.392 kr., og af rekstrarreikningi með framtali 1996, samtals 325.149 kr. Innskattur vegna þessa myndi lækka um 65.021 kr. rekstrarárið 1994 og um 79.661 kr. rekstrarárið 1995

Með bréfi, dags. 18. desember 1997, greindi umboðsmaður kæranda frá því að kærandi hefði hin síðari ár haft nokkurn kostnað af ræktun skjólbelta. Ræktunin hefði farið fram eftir leiðbeiningum ráðunautar hjá Búnaðarsambandi Suðurlands. Eins og fram kæmi í orðsendingu ríkisskattstjóra frá júlí 1997 teldist ræktun skjólbelta í þágu landbúnaðar þáttur í landbúnaði aðila og giltu almenn ákvæði um innskatt um þennan kostnað. Þar sem skattstjóra mætti vera ljóst að innskattur vegna þessa kostnaðar væri endurgreiðsluhæfur myndi hann væntanlega hætta við þær fyrirætlanir sínar að fella niður frádráttarbæran kostnað og innskatt. Meðfylgjandi bréfi umboðsmanns kæranda var afrit af orðsendingu ríkisskattstjóra nr. 4/1997 til aðila í nytjaskógrækt og uppdráttur af svæði því sem kærandi hafði ræktað ásamt útreikningi á flatarmáli.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 9. mars 1998, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd. Skattstjóri vísaði til bréfa sinna, dags. 20. janúar 1997 og 13. nóvember 1997, og tók fram að kærandi hefði engar tekjur haft af landbúnaði né hefði hann gert samning við Skógrækt ríkisins. Ræktun skjólbelta væri því ekki þáttur í virðisaukaskattsskyldri starfsemi kæranda. Því kæmu boðaðar breytingar til framkvæmda, enda hefði virðisaukaskráningu kæranda lokið 1. janúar 1996 samkvæmt beiðni í apríl 1996.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. apríl 1998, sbr. greinargerð umboðsmanns kæranda, dags. 3. júlí 1998, er gerð sú krafa að úrskurður skattstjóra verði felldur úr gildi þar sem forsendur hans séu brostnar. Fram kemur að á árunum 1994 og 1995 hafi kærandi undirbúið jörðina A undir skjólbeltarækt og hafið ræktun skjólbeltaskóga. Kærandi hafi haft af þessu töluverðan kostnað en upp hafi komið ágreiningur milli framkvæmdaraðila og bænda sem hafi hafið þessa ræktun og kærandi hafi álitið að það væri ekki þess virði að halda áfram miðað við þær forsendur sem þá hafi verið í málinu. Hann hafi því lagt inn virðisaukaskattsnúmer sitt í apríl 1996 en tekið það í notkun aftur í október sama ár. Öll vinna hans og það efni sem hann hafi lagt til standi þó eftir og ekki hafi verið hætt við skógræktina sjálfa. Nú hafi gengið saman með aðilum og eins og fram komi í meðfylgjandi bréfi frá framkvæmdastjóra Suðurlandsskóga stundi kærandi bæði skjólbeltaræktun, sem aldrei hafi fallið niður, og uppeldi á græðlingum til sölu. Tekjur af skjólbeltarækt komi ekki fyrr en löngu eftir að lagt hafi verið í þann kostnað sem þurfi til öflunar teknanna og geti sú staðreynd ekki verið forsenda fyrir niðurstöðu skattstjóra. Kærandi stundi þau störf sem greint hafi verið frá og eigi því skilyrðislaust að fá ílagðan kostnað ásamt innskatti af aðföngum frádreginn. Meðfylgjandi bréfi umboðsmanns kæranda fylgir vottorð frá framkvæmdastjóra Suðurlandsskóga, dags. 16. apríl 1998, um skjólbeltaræktun kæranda og uppeldi hans á trjáplöntum og vottorð um jarðrækt, dags. 17. september 1997, frá Búnaðarfélagi Íslands.

IV.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd sem of seint fram kominni sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Úrskurður skattstjóra var kveðinn upp 9. mars 1998 en kæran til yfirskattanefndar er dagsett 15. apríl 1998 en þá er lögmæltur kærufrestur liðinn sbr. áðurnefnt ákvæði laga nr. 30/1992.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 1998, var kæranda send kröfugerð ríkisskattstjóra og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana.

Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 2. desember 1998, kemur fram að viðræður við skattstjóra hafi dregið málið á langinn. Þá er skírskotað til þess að með lögum nr. 96/1998 hafi kærufrestur til yfirskattanefndar verið lengdur í þrjá mánuði. Slíkt hefði ekki verið gert nema af því að brýna nauðsyn hefði borið til og telur umboðsmaður kæranda að sú nauðsyn hafi komið fram löngu fyrir gildistöku laganna.

V.

Að því virtu sem fram er komið um viðræður við skattstjóra í kjölfar úrskurðar hans þykja ekki efni til að vísa kæru þessari frá yfirskattanefnd svo sem krafist er af ríkisskattstjóra.

Ágreiningur í máli þessu snýst um þá ákvörðun skattstjóra að fella niður gjaldaliðinn „kostnaður vegna skógræktar“ af rekstrarreikningum kæranda fyrir árin 1994 og 1995 og samsvarandi lækkun hans á innskatti kæranda rekstrarárin 1994 og 1995. Skattstjóri hefur byggt hina kærðu ákvörðun á því að kærandi, sem rak bifreiðaviðgerðir og gröfuþjónustu, hafi ekki haft neinar tekjur af landbúnaði á því tímabili sem mál þetta varðar, þ.e. árunum 1994 og 1995. Skattstjóri skírskotar einnig til þess að kærandi hafi á þeim tíma ekki gert samning við Skógrækt ríkisins um nytjaskógrækt og því hafi ræktun skjólbelta ekki verið þáttur í virðisaukaskattsskyldri starfsemi hans.

Af hálfu kæranda er komið fram að kærandi hafi hafið undirbúning skjólbeltaræktunar á jörðinni A á árunum 1994 og 1995 og haft af því töluverðan kostnað. Á árinu 1997 gaf Búnaðarfélag Ísland út vottorð um jarðrækt kæranda og með bréfi, dags. 16. apríl 1998, hefur framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga vottað að kærandi hafi stundað skjólbeltaræktun á jörðinni A og að Skógrækt ríkisins hafi gert skjólbeltaáætlun fyrir jörðina. Þá kemur fram í bréfinu að á A sé stundað uppeldi á trjáplöntum og að á árinu 1997 hafi Skógrækt ríkisins keypt 2175 trjáplöntur af kæranda.

Eins og rakið hefur verið hafði kærandi með höndum rekstur bifreiðaviðgerða og gröfuþjónustu á árunum 1994 og 1995. Hann hafði engar sölutekjur af skógarafurðum á þeim tíma og ekki er í máli þessu um að ræða samning við Suðurlandsskóga, sbr. lög nr. 93/1997, um Suðurlandsskóga. Þrátt fyrir það sem upplýst er um kostnað kæranda af skógrækt þykir ekki hafa verið sýnt fram á að kærandi hafi á árunum 1994 og 1995 haft þá starfsemi með höndum sem leyft geti gjaldfærslu kostnaðar vegna skógræktar, sbr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða frádrátt virðisaukaskatts af kostnaði við aðföng vegna skógræktar, sbr. 3. mgr. 15. gr. og 1.mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Samkvæmt þessu er kröfu kæranda synjað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja