Úrskurður yfirskattanefndar

  • Útlagður kostnaður
  • Sjálfboðastörf

Úrskurður nr. 89/1999

Gjaldár 1997

Lög 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.), 30. gr. 2. mgr.  

Kærandi fékk greidda dagpeninga vegna ferðar á vegum Rauða kross Íslands. Skattstjóri felldi niður frádrátt á móti dagpeningum þar sem kærandi væri ekki launamaður hjá samtökunum, og skilyrði til frádráttar væru því ekki uppfyllt. Yfirskattanefnd taldi ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi hefði borið kostnað sem næmi móttekinni greiðslu vegna ferðar sinnar fyrir Rauða kross Íslands. Var skattlagning á umrædda greiðslu felld niður með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981.

I.

Samkvæmt launauppgjöf fékk kærandi greidda dagpeninga frá Rauða krossi Íslands 117.000 kr. Tekjufærði kærandi þessa fjárhæð í reit 23 í skattframtali sínu árið 1997 ásamt öðrum fengnum dagpeningum. Nam fjárhæð alls 324.462 kr. Sömu fjárhæð færði kærandi til frádráttar í reit 33 í skattframtalinu. Í greinargerðum um dagpeninga (RSK 3.11), sem fylgdi framtalinu, kom fram að um var að ræða dagpeninga vegna átta daga ferðar til Z-lands í júlí 1996. Með bréfi, dags. 24. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að greiðslur sem kærandi hefði fengið frá Rauða krossi Íslands að fjárhæð 117.000 kr. hefðu verið færðar úr reit 23 á skattframtali hans árið 1997 yfir á rekstrarreikning vegna gjaldársins 1997, þar sem um verktakagreiðslur væri að ræða en ekki dagpeninga. Jafnframt var felldur niður frádráttur frá dagpeningum í reit 33 á skattframtali. Við þessar breytingar hækkuðu rekstrartekjur kæranda úr 1.208.149 kr. í 1.325.149 kr. Ákvörðun sinni til stuðnings vísaði skattstjóri til þess að 1. mgr. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 sem fjallaði um frádrátt frá dagpeningum ætti einungis við um útgjöld sem væru ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda. Þar sem kærandi væri ekki launþegi hjá Rauða krossi Íslands teldust framangreindar greiðslur ekki dagpeningar. Með bréfi, dags. 9. febrúar 1998, tilkynnti skattstjóri að fyrirhugað væri að endurákvarða opinber gjöld kæranda með vísan til 96. gr. laga nr. 75/1981. Komið hefði í ljós að breyting á skattframtali kæranda vegna gjaldársins 1997, sem tilkynnt hefði verið með bréfi skattstjóra, dags. 24. júlí 1997, hefði ekki komið til framkvæmda. Skattstjóri áformaði því að gera þá leiðréttingu á skattframtali kæranda sem tilkynnt hefði verið í framangreindu bréfi. Var kæranda að lokum gefinn kostur á að koma að andmælum við fyrirhugaðri breytingu skattstjóra.

Með bréfi, dags. 11. febrúar 1998, mótmælti kærandi fyrirætlan skattstjóra. Umþrætt greiðsla frá Rauða krossi Íslands hefði komið til vegna ferðar til Z-lands, sem farin hafi verið í því skyni að velja flóttamenn sem sveitarfélagið Y ætlaði að taka á móti. Hefði kærandi farið sem fulltrúi sveitarfélagsins að ósk félagsmálaráðuneytisins. Greiðslan hafi ekki verið verktakagreiðsla heldur dagpeningar vegna ferðarinnar. Hafi kærandi ekki þegið nein laun vegna ferðarinnar, einungis dagpeninga vegna ferða- og dvalarkostnaðar. Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 17. mars 1998, hratt skattstjóri boðuðum breytingum í framkvæmd. Ítrekaði skattstjóri það sjónarmið sitt að fyrir þyrfti að liggja vinnusamband svo að reglur um dagpeninga ættu við.

II.

Með kæru, dags. 14. apríl 1998, skaut umboðsmaður kæranda úrskurði skattstjóra frá 17. mars 1998 til yfirskattanefndar hvað varðar framangreint atriði. Auk áður fram komins rökstuðnings er bent á til viðbótar og áherslu að umrædd ferð kæranda á vegum Rauða kross Íslands hafi tekið sjö og hálfan dag eða frá 25. júní 1996 til 2. júlí 1996. Kærandi hafi „gefið“ Rauða krossi Íslands sína vinnu á meðan á ferðinni stóð en fengið umþrætta greiðslu til að mæta þeim kostnaði sem hann hafi haft af ferðinni. Meðfylgjandi kærunni er yfirlit frá Rauða krossi Íslands, þar sem fram kemur uppgjör ferðakostnaðar kæranda vegna ferðar til Z-lands.

Með bréfi, dags. 4. september 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Upplýst er í máli þessu að kærandi fékk greiðslu að fjárhæð 117.000 kr. frá Rauða krossi Íslands til að standa straum af kostnaði vegna dvalar í Z-landi vegna erindisreksturs sem sjálfboðaliði í þágu Rauða kross Íslands. Ekki er ástæða til að draga í efa að kærandi hefur borið kostnað sem nemur fjárhæð þessari. Að svo vöxnu og með vísan til 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er skattlagning á umrædda greiðslu felld niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja