Úrskurður yfirskattanefndar

  • Eftirlaun frá alþjóðastofnun
  • Teknategund

Úrskurður nr. 291/2014

Gjaldár 2013

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 8. gr. 2. mgr. 6. tölul., 30. gr. 1. mgr. A-liður 2., 4. og 5. tölul.  

Kærandi, sem fékk greidd eftirlaun frá Sameinuðu þjóðunum á árinu 2012, mótmælti skattlagningu eftirlaunanna og taldi að um væri að ræða tvísköttun, enda hefðu öll framlög kæranda til eftirlaunasjóðsins verið greidd af sköttuðu fé. Í úrskurði yfirskattanefndar voru af þessu tilefni reifaðar skattareglur um frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda og m.a. bent á að lífeyrir teldist fortakslaust skattskyldar tekjur og skipti ekki máli í því sambandi hvernig frádráttarrétti iðgjalda hefði verið hagað að lögum á þeim tíma er lífeyrisréttur myndaðist eða hvort frádráttarrétti hefði yfirleitt verið til að dreifa. Var ekki talið skipta máli hvort rekja mætti lífeyrisgreiðslur kæranda til iðgjalda eða annarra framlaga sem greidd hefðu verið af sköttuðu fé eða ekki. Varakröfu kæranda, sem laut að því að litið yrði á hluta lífeyrisgreiðslna sem ávöxtun eða arð sem telja bæri til fjármagnstekna, var sömuleiðis hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að á árinu 2012 fékk kærandi greiddan lífeyri frá Sameinuðu þjóðunum að fjárhæð USD 58.673 eða 7.319.457 kr. Gerði kærandi grein fyrir tekjum þessum í athugasemdareit skattframtals síns árið 2013 og tók fram að skattar hefðu verið greiddir Sameinuðu þjóðunum meðan lífeyrisins var aflað. Með bréfi, dags. 22. júlí 2013, tilkynnti ríkisskattstjóri kæranda um þá breytingu á skattframtali hans árið 2013, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að umræddar lífeyrisgreiðslur frá Sameinuðu þjóðunum, sem gerð væri grein fyrir í athugasemdareit í skattframtalinu, að fjárhæð 7.319.457 kr. væru færðar í reit 2.8 í skattframtalinu sem skattskyldar tekjur. Tók ríkisskattstjóri fram að lífeyrisgreiðslur vegna fyrri starfa hjá alþjóðastofnunum féllu utan frádráttarheimildar 2. tölul. A-liðar 30. gr. laga nr. 90/2003. Kom fram að við álagningu væri tekið tillit til persónuafsláttar eiginkonu kæranda og væri miðað við komudag til landsins þann 18. september 2012.

Með kæru, dags. 15. ágúst 2013, mótmælti umboðsmaður kæranda álagningu opinberra gjalda kæranda árið 2013. Kom fram í kærunni að íslenskir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna greiddu tekjuskatt til stofnunarinnar af mánaðarlegum brúttótekjum sínum í formi „staff assessment“. Skattur þessi rynni síðan óbeint til íslenska ríkisins í gengum svokallaðan skattjöfnunarsjóð eða „Tax Equalization Fund“ og teldist í raun hluti af skylduframlagi Íslands til Sameinuðu þjóðanna (The UN budget, Peacekeeping and Financial budgets). Samkvæmt þessu hefði kærandi greitt skatt til íslenska ríkisins allan sinn starfsferil hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar sem skattur þessi hefði verið greiddur beint af brúttótekjum starfsmanna þýddi þetta að allar inngreiðslur í lífeyrissjóð Sameinuðu þjóðanna hefðu í raun verið skattlagðar. Því fæli skattlagning íslenska ríkisins á greiðslur úr eftirlaunasjóði Sameinuðu þjóðanna í sér óheimila tvísköttun. Væri þess krafist að tekið yrði tillit til fyrri skattlagningar á starfstíma kæranda hjá Sameinuðu þjóðunum við endurskoðun álagningar hans. Kærunni fylgdi launaseðill kæranda vegna starfs hans hjá Sameinuðu þjóðunum í janúar 2004 þar sem fram kom að frá tekjum hans hefðu verið dregnar greiðslur í „staff assessment“, lífeyrisjóðsiðgjald og greiðslur fyrir tryggingar.

Með kæruúrskurði, dags. 12. desember 2013, ákvað ríkisskattstjóri að fyrrgreind breyting á skattframtali kæranda stæði óhögguð. Ríkisskattstjóri tók fram að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 hvíldi sú skylda á öllum, sem væru heimilisfastir hér á landi, að greiða tekjuskatt af tekjum sínum, sama hvar þeirra væri aflað. Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. gr. laga nr. 90/2003 teldist lífeyrir til skattskyldra tekna. Heimildarákvæði 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna ætti ekki við um eftirlaun sem greidd væru vegna fyrri starfa hjá alþjóðastofnunum, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 4/2004 sem birtur væri á heimasíðu yfirskattanefndar. Vegna þeirrar málsástæðu af hálfu kæranda að eftirlaun kæranda væru tvísköttuð, þar sem kærandi hefði greitt svokallað „staff assessment“ af launum sínum þegar hann hefði starfað hjá Sameinuðu þjóðunum, tók ríkisskattstjóri fram að umræddu gjaldi sem greitt væri af starfsmönnum samtakanna yrði ekki jafnað til tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003. Kæran yrði heldur ekki skilin svo að sambærilegt gjald væri lagt á eftirlaunagreiðslur til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna. Teldist því ekki um tvísköttun að ræða. Vísaði ríkisskattstjóri til heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en þar væri fjallað um svokallað „staff assessment“ og ráðstöfun þess. Kæmi þar fram að ekki væri um að ræða afdráttarskatt (withholding tax) heldur væri gjaldi þessu haldið eftir af brúttólaunum starfsmanna samtakanna án tillits til þjóðernis þeirra í samræmi við starfsmannareglugerðir samtakanna. Þar sem „staff assessment“ væri ekki afdráttarskattur gætu starfsmenn ekki sótt um endurgreiðslu á því og væri það ekki frádráttarbært á skattframtali Sameinuðu þjóðanna. Rynnu „staff assessment“ greiðslur í svokallaðan Tax Equalization Fund, en þau aðildarríki samtakanna sem skattlegðu ekki launatekjur frá samtökunum fengju hluta af greiðslum í sjóðinn til að vega upp á móti fjárframlögum þeirra til samtakanna. Þá kæmi fram á heimasíðunni að þyrftu starfsmenn samtakanna að greiða skatt af tekjum sínum frá Sameinuðu þjóðunum fengju þeir endurgreiðslur frá umræddum sjóði óháð framlagi og því sem haldið hefði verið eftir af launum þeirra. Ekki væri gerður greinarmunur á því hvort um væri að ræða laun eða eftirlaun. Væri kröfu kæranda hafnað með vísan til framangreinds.

II.

Með kæru, dags. 25. febrúar 2014, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 12. desember 2013, til yfirskattanefndar. Í kærunni er bent á að hefði kærandi greitt tekjuskatt af inngreiddu lífeyrisframlagi á Íslandi hefði hann fengið útgreiðslu úr lífeyrissjóði án skattlagningar. Nú lægi fyrir að kærandi hefði greitt skatt af framlagi sínu í lífeyrissjóð starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og ennfremur lægi fyrir að sá skattur rynni til íslenska ríkisins þar sem skatturinn væri notaður til að greiða hluta af framlagi Íslands til Sameinuðu þjóðanna. Því blasi við að verið sé að tvískatta lífeyrisframlag hans. Ísland hafi ekki gert tvísköttunarsamning við alþjóðastofnun eins og Sameinuðu þjóðirnar, þar sem landið hafi skatttekjur „í gegnum innheimta skatta af starfsmönnum hjá viðkomandi stofnun“. Í hinum kærða úrskurði komi fram að þeim skatti, sem dreginn sé af starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna sem svokallað „staff assessment“, verði ekki jafnað til tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003. Síðar í úrskurðinum sé þó viðurkennt að aðildarríki samtakanna njóti þessara skatttekna til að vega upp á móti fjárframlögum þeirra til samtakanna í formi greiðslna í gegnum skattjöfnunarsjóð (Tax Equalization Fund). Þrátt fyrir að laun frá alþjóðasamtökum skuli samkvæmt 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 undanþegin tekjuskatti hafi íslenska ríkið í raun þegið tekjuskattsgreiðslur af launum kæranda alla hans starfstíð hjá Sameinuðu þjóðunum. Sé „staff assessment“ skattur greiddur af brúttólaunum og hafi inngreiðslur í lífeyrissjóð því þegar verið skattlagðar og skattgreiðslur runnið til íslenska ríkisins. Með því að leggja tekjuskatt á allar útgreiðslur úr sjóðnum sé íslenska ríkið að tvískatta sömu innkomuna sem varla geti samrýmst skattalögum. Sé það skoðun kæranda að um tvísköttun sé að ræða og sé því krafist endurskoðunar á álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2013.

III.

Með bréfi, dags. 7. apríl 2014, hefur ríkisskattstjóri lagt fram þá kröfugerð fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 8. apríl 2014, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 22. apríl 2014, hefur umboðsmaður kæranda gert grein fyrir athugasemdum sínum. Er vísað til þess að í úrskurði ríkisskattstjóra komi fram að samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, teljist lífeyrir til skattskyldra tekna og að 30. gr. laganna eigi ekki við um eftirlaun sem greidd séu vegna fyrri starfa hjá alþjóðastofnunum, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 4/2004. Tekur umboðsmaðurinn fram að um þetta sé ekki deilt, en bendir á að ekki tíðkist á Íslandi að leggja skatt á inngreiðslur launagreiðanda/launþega í hérlendan lífeyrissjóð og síðan aftur á útgreiðslur úr sjóðnum. Þegar starfsmenn Sameinuðu þjóðanna greiði í lífeyrissjóð samtakanna séu greiðslur teknar af nettótekjum eða eftir að svokallað „staff assessment“ hafi verið reiknað af brúttólaunum. Greiðslur í lífeyrissjóði á Íslandi séu hins vegar dregnar af brúttólaunum. Framlag launagreiðanda í lífeyrissjóð sé í beinu hlutfalli við framlag launþegans og gildi því það sama um þær greiðslur. Í úrskurði ríkisskattstjóra sé því haldið fram að svokölluðu „staff assessment“ verði ekki jafnað til tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003 og gerð grein fyrir ráðstöfum þessara greiðslna. Af þessu tilefni tekur umboðsmaðurinn fram að starfsmenn, sem greiða þurfi tekjuskatt til síns heimalands af launum hjá Sameinuðu þjóðunum, eins og t.d. Bandaríkjamenn, fái þann skatt endurgreiddan frá Sameinuðu þjóðunum í gegnum skattjöfnunarsjóð (Tax Equalization Fund) sem fjármagnaður sé með „staff assessment“ greiðslum. Þær greiðslur séu því jafngildi tekjuskatts. Til að gæta jafnræðis á milli aðildarríkja fái þær þjóðir, sem ekki leggi tekjuskatt á launatekjur þegna sinna frá Sameinuðu þjóðunum, sambærilegan hluta af „staff assessment“ metinn sem hluta af skylduframlagi þeirra til samtakanna. Því sé ljóst að kærandi hafi með „staff assessment“ greiðslum sínum greitt hluta af skylduframlagi íslenska ríkisins til Sameinuðu þjóðanna þegar hann hafi starfað þar. Ályktun ríkisskattstjóra um að svokallaðar „staff assessment“ greiðslur teljist ekki tekjuskattur sé því ekki rökrétt. Þess misskilnings gæti hjá ríkisskattstjóra að um hafi verið að ræða eftirlaun til kæranda frá Sameinuðu þjóðunum, en útgreiðslur úr lífeyrissjóði starfsmanna Sameinuðu þjóðanna séu ekki eftirlaun, sem greidd séu af samtökunum, heldur sé verið að greiða út uppsafnaðan sparnað sem dreginn hafi verið af launum viðkomandi starfsmanns á starfstíma hans. Ákvæði skattalaga um tekjuskattsskyldu eftirlauna frá alþjóðastofnunum eigi því ekki við í málinu og sé þetta viðurkennt af ýmsum þjóðríkjum, svo sem Danmörku og Svíþjóð. Af framangreindu megi vera ljóst að um tvísköttun hinna umþrættu greiðslna sé að ræða og þess því krafist aðallega að niðurstöðu ríkisskattstjóra um skattlagningu greiðslnanna verði hnekkt. Til vara sé þess krafist að litið verði á greiðslurnar sem ávöxtun eða arð sem greiða skuli fjármagnstekjuskatt af en ekki almennan tekjuskatt.

IV.

Eins og fram er komið, sbr. m.a. I. kafla hér að framan, er ágreiningsefni máls þessa sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda árið 2013, sem staðfest var með hinum kærða úrskurði, dags. 12. desember 2013, að færa kæranda til tekna sem skattskyldar tekjur eftirlaun frá Sameinuðu þjóðunum að fjárhæð USD 58.673 eða 7.319.457 kr. á árinu 2012 sem kærandi gerði grein fyrir í athugasemdareit skattframtals síns árið 2013. Af hálfu kæranda er þessari breytingu á skattframtalinu mótmælt á þeim grundvelli að allar innborganir kæranda í lífeyrissjóð Sameinuðu þjóðanna hafi þegar verið skattlagðar og skattlagning umræddra lífeyrisgreiðslna frá Sameinuðu þjóðunum feli því í sér tvísköttun.

Eftirlaun og lífeyrir telst til skattskyldra tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá er óumdeilt að ákvæði 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna eigi ekki við um umræddar greiðslur til kæranda frá Sameinuðu þjóðunum, sbr. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 22. apríl 2014, sbr. og úrskurð yfirskattanefndar nr. 4/2004 sem birtur er á vef nefndarinnar (www.yskn.is). Kærandi telur á hinn bóginn að þar sem hann hafi greitt sérstakt gjald, svonefnt „staff assessment“, til Sameinuðu þjóðanna, sem dregið hafi verið af launum hans hjá samtökunum, feli skattlagning lífeyrisgreiðslnanna í sér tvísköttun, enda verði að telja umrætt gjald ígildi tekjuskatts. Af hálfu kæranda er í þessu sambandi bent á að hér á landi tíðkist ekki að skattleggja bæði iðgjöld launþega/launagreiðanda í lífeyrissjóð og lífeyrisgreiðslur, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 22. apríl 2014.

Af þessu tilefni er rétt að benda á að í 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 5. og 6. tölul. laga nr. 75/1981, er mælt fyrir um frádrátt frá tekjum á iðgjöldum launþega og manna, sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem numið getur að hámarki 4% af iðgjaldsstofni, og að auki frádrátt frá tekjum á iðgjöldum greindra aðila vegna viðbótartryggingaverndar að hámarki allt að 4% af iðgjaldsstofni, sbr. þó bráðabirgðaákvæði XLIX í lögum nr. 90/2003. Vegna sjónarmiða kæranda í málinu þykir rétt að rekja nánar frádráttarreglur í skattalögum um þetta atriði.

Samkvæmt 1. tölul. D-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var heimilt að draga iðgjöld af lífeyri frá tekjum manna samkvæmt II. kafla laganna, sem ekki voru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, enda væri lífeyristryggingin keypt hjá lífeyrissjóði, vátryggingarfélagi eða stofnun sem starfaði eftir reglum sem fjármálaráðherra samþykkti, þó að hámarki 11% af þeim launum sem almennt voru til viðmiðunar slíkum greiðslum. Hefði atvinnurekandi greitt hluta iðgjaldsins skertist réttur launþega til frádráttar sem því nam. Með lögum nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, voru gerðar allróttækar breytingar á reglum um álagningu beinna skatta á einstaklinga og meðal þeirra breytinga var niðurfelling umrædds D-liðar 1. mgr. 30. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 49/1987. Kom fram í almennum athugasemdum við lagafrumvarp það, sem varð að lögum nr. 49/1987, að breytingunum væri ætlað að einfalda álagningarreglur sem væri m.a. talið skilyrði þess að komið yrði á einföldu og skilvirku staðgreiðslukerfi. Væri breytingum samkvæmt frumvarpinu skipt í tvo þætti; annars vegar yrði myndaður einn sameiginlegur og breyttur skattstofn og hins vegar yrði álagningarreglum breytt verulega. Kom fram að frádráttarliðir yrðu afnumdir, en persónuafsláttur myndi hækka mikið auk þess sem eitt skatthlutfall kæmi í stað tekjuskatts, sjúkratryggingagjalds, framlags í Framkvæmdasjóð aldraðra, sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds. Í skýringum við 4. gr. frumvarpsins sagði að afnám hinna fjölmörgu frádráttarheimilda frá tekjum, sem í gildi hefðu verið í lengri eða skemmri tíma, væri forsenda þess að tekið yrði upp staðgreiðslukerfi skatta sem bæði uppfyllti þær kröfur að vera einfalt og öruggt í framkvæmd. Af þessum sökum yrði ekki komist hjá því að afnema nær allar gildandi frádráttarheimildir frá tekjum sem um ræddi í A-, C-, D- og E-lið 1. mgr. 30. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Á móti kæmi m.a. að persónuafsláttur væri rúmlega tvöfaldaður.

Ákvæði um frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda frá tekjum manna utan atvinnurekstrar voru á ný lögtekin með 2. gr. laga nr. 30/1995, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Með lögum þessum var nýjum tölulið bætt við A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og kveðið á um að frá tekjum manna, sem ekki væru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, mætti draga iðgjöld launþega sem greidd hefðu verið til lífeyrissjóða sem störfuðu samkvæmt lögum eða hlotið hefðu staðfestingu fjármálaráðuneytisins samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, að hámarki 4% af heildarlaunum. Kom fram í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/1995 að framangreind breyting á lögum nr. 75/1981 byggði á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 20. febrúar 1995 í tengslum við kjarasamninga lands- og svæðasambanda innan ASÍ og vinnuveitenda. Með b-lið 3. gr. laga nr. 30/1995, sbr. og breytingar með 5. gr. laga nr. 145/1995, var mælt fyrir um hliðstæðan frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda sjálfstætt starfandi manna. Ákvæðin um frádrátt lífeyrissjóðsiðgjalda komust í grundvallaratriðum í núverandi horf með 2. gr. laga nr. 141/1997 þegar tekin var upp frádráttarheimild vegna viðbótartryggingaverndar allt að 2% af iðgjaldsstofni, en breytingar voru gerðar á þessum ákvæðum með 3. gr. laga nr. 76/2007 og 5. gr. laga nr. 86/2000, sbr. einnig bráðabirgðaákvæði XLIX í lögum nr. 90/2003 sem lögfest var með 164/2011, um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, voru iðgjöld launþega til lífeyrissjóðs ekki frádráttarbær frá skattskyldum tekjum þeirra um nokkurt árabil og frádráttarheimild iðgjalda vegna viðbótartryggingaverndar ekki fyrir að fara fyrr en með lögum nr. 141/1997. Það breytir því þó ekki að lífeyrir telst fortakslaust skattskyldar tekjur samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, og skiptir ekki máli í því sambandi hvernig frádráttarrétti iðgjalda hefur verið hagað að lögum á þeim tíma sem lífeyrisrétturinn myndaðist eða hvort frádráttarrétti hafi yfirleitt verið til að dreifa. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að ekki skiptir máli hvort rekja megi lífeyrisgreiðslur kæranda til iðgjalda eða annarra framlaga sem greidd hafi verið af sköttuðu fé eða ekki. Að öðru leyti skal tekið fram að röksemdir kæranda í kæru til yfirskattanefndar virðast í grundvallaratriðum vera hinar sömu og í kærumáli því sem um var fjallað í fyrrgreindum úrskurði yfirskattanefndar nr. 4/2004. Þykir í þessu sambandi mega vísa til úrskurða- og dómaframkvæmdar sem rakin er í þeim úrskurði.

Samkvæmt framansögðu og þar sem ekki liggur annað fyrir en að álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2013 hafi verið hagað í samræmi við lög verður að hafna aðalkröfu kæranda.

Í bréfi til yfirskattanefndar, dags. 22. apríl 2014, er sú krafa gerð til vara að litið verði á hinar umdeildu lífeyrisgreiðslur sem ávöxtun eða arð sem teljist þá til fjármagnstekna. Verður að telja að varakrafa kæranda lúti að þeim hluta greiðslnanna sem telst ávöxtun iðgjalda hans. Ekki er þetta þó nánar útfært í kærunni. Af þessu tilefni skal bent á að samkvæmt 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, sbr. áður 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/1981, sbr. b-lið 1. gr. laga nr. 154/1998, um breyting á hinum fyrrnefndu lögum, þar sem ákvæðið var lögtekið, skulu vextir, verðbætur og önnur ávöxtun af lífeyrissparnaði samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða teljast til tekna sem lífeyrir samkvæmt A-lið 7. gr. laganna þegar slíkar greiðslur eru greiddar út. Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 154/1998, segir m.a. svo um þetta: „Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði skýrt á um að 1. tölul. 2. mgr. 8. gr. eigi ekki við í þessu tilviki heldur komi tekjur þessar ekki til skattlagningar fyrr en við útborgun á lífeyri og teljast þær þá til tekna skv. A-lið 7. gr. og skattleggjast í almennu skatthlutfalli en ekki sem fjármagnstekjur.“ Ákvæði þetta tekur þannig beint til tilviks kæranda og gengur það skýrlega gegn kröfu hans. Verður því að telja að enginn grundvöllur sé fyrir varakröfu kæranda. Er þeirri kröfu kæranda því einnig hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja