Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sjómannaafsláttur
  • Atvinnuleysisbætur

Úrskurður nr. 249/1999

Gjaldár 1998

Lög nr. 75/1981, 68. gr. B-liður (brl. nr. 85/1991, 10. gr.)   Lög nr. 12/1997, I. kafli   Reglugerð nr. 10/1992, 13. gr. 2. mgr.  

Ekki var fallist á að taka bæri tillit til atvinnuleysisbóta kæranda við ákvörðun launa hans fyrir sjómennsku. Af þessari niðurstöðu leiddi að í tilviki kæranda, sem hafði hluta tekna sinna af sjómennsku á skipi undir 12 rúmlestum brúttó, var ekki uppfyllt það skilyrði fyrir sjómannafslætti að laun fyrir sjómennsku væru a.m.k. 30% af tekjuskattsstofni.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1998. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1998 sætti kærandi því áætlun skattstofna af hálfu skattstjóra, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kæranda árið 1998 barst skattstjóra hinn 13. júlí 1998 samkvæmt áritun skattstjóra um móttöku þess. Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtalinu fylgdi greinargerð RSK 3.13 um sjómannaafslátt þar sem tilgreind voru laun vegna sjómennsku 570.103 kr. og sjómannadagar vegna sjómennsku á fiskiskipi undir 12 rúmlestum brúttó, til útreiknings sjómannaafsláttar voru tilteknir 110. Tekið var fram að af launum vegna sjómennsku væru 252.641 kr. vegna atvinnuleysisbóta frá sjómannafélagi. ...

Með kæruúrskurði, dags. 6. október 1998, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda framtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1998 að gerðum tilgreindum breytingum. Skattstjóri lækkaði framtalin sjómannslaun kæranda um 252.641 kr. eða sem nam atvinnuleysisbótum frá stéttarfélagi sjómanna. Kvað skattstjóri atvinnuleysisbætur ekki geta talist laun fyrir sjómennsku, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981. ...

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 30. október 1998. Er þess krafist að þær breytingar, sem skattstjóri gerði á skattframtali kæranda árið 1998 með hinum kærða úrskurði verði felldar úr gildi.

Krafan um að atvinnuleysisbætur frá sjómannafélaginu verði taldar með sjómannslaunum er byggð á því að þær séu hluti af launakjörum sjómanna og í því sambandi bent á að af bótunum séu dregnar greiðslur í Lífeyrissjóð sjómanna. Þá er tekið fram að bæturnar hafi engin áhrif á dagafjölda til sjómannaafsláttar. Kveður umboðsmaðurinn ófært að menn þurfi að afsala sér atvinnuleysisbótum frá Sjómannafélaginu til að njóta réttar til sjómannaafsláttar og geti það ekki samræmst tilgangi löggjafans. ...

Með bréfi, dags. 11. desember 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram þá kröfugerð að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III.

Krafa um sjómannaafslátt.

Samkvæmt 1. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 85/1991, um breyting á þeim lögum, skal maður, sem stundar sjómennsku á íslensku skipi eða skipi sem gert er út af íslensku skipafélagi, njóta sérstaks afsláttar, sjómannaafsláttar, sem koma skal til frádráttar reiknuðum tekjuskatti af þeim launum sem hann hafði fyrir sjómannsstörf. Í 2. og 3. mgr. þessa stafliðar er nánar fjallað um hverjir eigi rétt á sjómannaafslætti og er m.a. tekið fram að rétt til sjómannaafsláttar hafi þeir sem stunda sjómennsku, sbr. 4. mgr., og lögskráðir eru í skipsrúm á fiskiskipi. Í 4. mgr. stafliðarins er fjallað um fjárhæð sjómannaafsláttar og ákvörðun dagafjölda sem veitir rétt til sjómannaafsláttar. Hjá mönnum á fiskiskipum undir 12 rúmlestum brúttó, sem ekki er skylt að lögskrá á, er réttur til sjómannaafsláttar þó háður því að laun fyrir sjómennsku séu a.m.k. 30% af tekjuskattsstofni. Þeir dagar á ráðningartíma hjá útgerð, sem sjómaður getur ekki stundað vinnu vegna veikinda eða slysa en tekur laun samkvæmt kjarasamningi skulu veita rétt til sjómannaafsláttar.

Með skattframtali kæranda árið 1998 fylgdi greinargerð (RSK 3.13) um sjómannaafslátt vegna sjómennsku kæranda á X og voru upplýsingar færðar í þann kafla sem tekur til sjómennsku á skipum undir 12 rúmlestum brúttó. Er þar að finna upplýsingar um ráðningartíma kæranda og fjölda daga hans við sjómennsku. Tiltók kærandi ráðningardaga 128 og fjölda lögskráðra daga taldi kærandi 74. Tiltók kærandi 110 sjómannadaga í greinargerðinni.

Samkvæmt því sem fyrir liggur um sjómennsku kæranda giltu ákvæði 5. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 10/1992, um ákvörðun dagafjölda til sjómannaafsláttar. Ekki verður séð að tilgreiningar kæranda á sjómannadögum hafi verið í samræmi við ákvæði þessi. Samkvæmt kæruúrskurði og gögnum um álagningu hefur skattstjóri ekki ákvarðað kæranda neinn sjómannaafslátt gjaldárið 1998. Ljóst er að sú ákvörðun skattstjóra byggðist á ákvæði 6. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 þar sem kveðið er á um að réttur manna á fiskiskipum undir 12 rúmlestum brúttó til sjómannaafsláttar sé háður því að laun fyrir sjómennsku séu a.m.k. 30% af tekjuskattstofni þeirra. Með því að hafna því að reikna atvinnuleysisbætur 252.641 kr. með launum í þessu sambandi, þannig að sjómannslaun töldust 317.462 kr., var skilyrði þetta ekki uppfyllt í tilviki kæranda, enda er tekjuskattsstofn kæranda 1.078.876 kr. samkvæmt úrskurði skattstjóra.

Krafa kæranda byggist á því að telja beri atvinnuleysisbætur með við ákvörðun launa fyrir sjómennsku í skilningi 6. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981. Á þetta verður ekki fallist, enda standa skýr ákvæði 6. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981 í vegi fyrir slíkri túlkun, sbr. og skilgreiningu á atvinnuleysisbótum og skilyrði fyrir þeim í I. kafla laga nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Þá athugasemd þykir verða að gera við kæruúrskurð skattstjóra að ekki kemur þar nægilega skýrt fram hvaða lagalegar afleiðingar ákvörðun hans hefur, sbr. fyrrgreint skilyrði 6. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 75/1981. Þar sem ekki verður séð að þessi ágalli hafi valdið kæranda neinum málsspjöllum þykja ekki efni til að ómerkja ákvörðun skattstjóra.

...

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kærunni er hafnað að því er varðar sjómannaafslátt. ...

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja