Úrskurður yfirskattanefndar

  • Dagpeningar

Úrskurður nr. 304/1999

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.), 106. gr. 2. mgr.   Lög nr. 2/1995, 63. gr. 1. mgr., 68. gr. 1. mgr.   Reglugerð nr. 591/1987, 6. gr. 2. mgr.  

Kærandi var stjórnarformaður hlutafélags en þáði ekki stjórnarlaun. Skattstjóri synjaði um frádrátt á móti dagpeningagreiðslum frá hlutafélaginu á þeim forsendum að kærandi hefði ekki verið launþegi hjá því. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að óumdeilt væri að kærandi hefði sinnt viðskiptaerindum í þágu félagsins vegna stöðu sinnar við stjórnun þess. Var ekki talið að lög girtu fyrir frádrátt í tilviki kæranda, eins og atvikum væri háttað, og var krafa kæranda tekin til greina.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali sínu árið 1997 taldi kærandi sér til tekna í reit 23 dagpeninga frá X hf. að fjárhæð 864.014 kr. en færði sömu fjárhæð til frádráttar í reit 33. Samkvæmt skattframtalinu hafði kærandi hvorki launatekjur né tekjur af eigin atvinnurekstri.

Með bréfi, dags. 4. maí 1998, fór skattstjóri fram á að kærandi fyllti út greinargerð um dagpeninga (RSK 3.11), upplýsti hver hefði staðið straum af ferðakostnaði og legði eftir atvikum fram gögn af því tilefni. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 13. maí 1998, kom fram að kærandi hefði verið stjórnarformaður X hf. frá árinu 1982 fram til haustins 1996, en frá þeim tíma átt sæti í stjórn félagsins. Tók umboðsmaðurinn fram að kærandi hefði ekki gert ráðningarsamning við X hf. Um ástæður þess að félagið hefði greitt kæranda dagpeninga kom fram að kærandi hefði „frá upphafi haldið meira og minna á erlendum viðskiptasamböndum X hf. og þeir dagpeningar […] tengst ferðum hans til Evrópu til að semja um sölu og útflutning á ... við erlenda viðskiptavini, einkum í Þýskalandi …“. Í umræddum ferðum hefði kærandi greitt kostnað vegna veitinga og matarboða sem félagið hefði þurft að halda fyrir erlenda viðskiptavini. Bréfi umboðsmannsins fylgdi greinargerð um dagpeninga kæranda vegna fimm ferða til útlanda á vegum X hf.

Með bréfi, dags. 18. maí 1998, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju að fella niður frádrátt á móti dagpeningum kæranda og endurákvarða áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1997 til samræmis. Vék skattstjóri að ákvæðum 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og tók fram að frádráttur á móti dagpeningum ætti eingöngu við í „ferðum eða ferðalögum á vegum launagreiðanda“. Benti skattstjóri á að kærandi hefði ekki verið á launaskrá X hf. þegar hann fékk greidda umrædda dagpeninga. Þá kvaðst skattstjóri ætla að bæta 25% álagi á hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda, sem af framangreindri breytingu leiddi, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981.

Umboðsmaður kæranda mótmælti hinum fyrirhuguðu breytingum með bréfi, dags. 30. maí 1998, þar sem meðal annars sagði svo:

„Tekjur X hf. […] eru nánast eingöngu vegna útflutnings og því eru samskipti við erlenda aðila mikil, einkum erlendis en einnig hér á landi. [Kærandi] hefur verið einn af frumkvöðlum rannsókna og útflutnings [á framleiðsluvöru kæranda] hér á landi í áratugi og unnið þeim málum brautargengi bæði með einkaaðilum og opinberum aðilum þótt sjaldnast hafi hann þegið laun fyrir þau störf. Hann hefur til margra ára verið stjórnarformaður X hf. […] en afsalað sér stjórnarlaunum hjá félaginu. Nú síðustu árin hefur verið nokkur uppgangur hjá félaginu eftir langvarandi lægð og hafa því umsvif félagsins erlendis aukist. Í kringum 1980 starfaði hér á landi félag sem hét Z hf. og var í eigu Þjóðverja og Íslendinga, þ.á m. [kæranda]. Þetta félag gerði á sínum tíma miklar rannsóknir [á framleiðsluvöru kæranda] með þátttöku Þjóðverjanna og meðal annars í gegnum það starf myndaði [kærandi] ýmis sambönd í Þýskalandi og víðar sem nýst hafa X hf. allt til þessa dags. Þegar rannsóknunum var lokið var félag þetta sameinað X hf.“

Hinn 8. september 1998 kvað skattstjóri upp úrskurð um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda. Frádráttur á móti dagpeningum kæranda var felldur niður en fallið frá að bæta álagi við hækkun tekjuskatts- og útsvarsstofns kæranda. Vísaði skattstjóri til þess að kærandi hefði ekki verið launþegi hjá þeim aðila sem hefði greitt honum dagpeninga árið 1996, sbr. 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 591/1987. Um athugasemdir umboðsmanns kæranda sagði skattstjóri að hann drægi ekki í efa að kærandi hefði á undanförnum árum lagt X hf. lið í uppbyggingu og öflun markaða. Sú staðreynd stæði hins vegar óhögguð að kærandi hefði ekki verið á launaskrá félagsins árið 1996. Ákvæði laga og reglugerða auk leiðbeininga ríkisskattstjóra væru það ótvíræð um þetta atriði að engan veginn væri unnt að fallast á heimild til frádráttar á grundvelli tengsla eins og kærandi hefði við X hf.

II.

Með kæru, dags. 3. desember 1998, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Umboðsmaðurinn gerir kröfu um að skattframtal kæranda verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda árið 1997. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi átt sæti í stjórn X hf. og lengst af gegnt starfi stjórnarformanns félagsins. Hafi félagið leitað til kæranda við öflun viðskiptasambanda og látið hann annast samningagerð við erlenda viðskiptamenn félagsins. Þeirri túlkun skattstjóra er sérstaklega mótmælt að það sé skilyrði fyrir dagpeningafrádrætti samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 að viðtakandi dagpeninga sé launamaður hjá greiðanda.

Með bréfi, dags. 30. desember 1998, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 1. tölulið A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 2. gr. laga nr. 92/1987, um breytingu á þeim lögum, má draga frá tekjum manna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Í skattframkvæmd hefur verið gengið út frá því að dagpeningagreiðslur nefnist allar þær greiðslur sem launagreiðandi innir af hendi vegna tilfallandi ferðalaga launþega utan fasts samningsbundins vinnustaðar. Af framansögðu verður sú regla dregin að skilyrði frádráttar dagpeninga eigi eingöngu við í ferðum eða ferðalögum á vegum launagreiðanda. Verður af málinu heildstætt virtu ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi verið launþegi hjá launagreiðanda og ber af þeirri ástæðu að hafna frádrætti dagpeninga.

Með vísan til ofangreinds svo og til forsendna hins kærða úrskurðar þá er það krafa ríkisskattstjóra að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

III.

Með hinum kærða úrskurði felldi skattstjóri niður frádrátt á móti dagpeningum sem X hf. greiddi kæranda vegna kostnaðar af ferðum við viðskiptaerindi sem hann rak fyrir félagið á árinu 1996. Ákvörðun skattstjóra er eingöngu byggð á því að kærandi hefði ekki verið á launaskrá X hf. á umræddu ári.

Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, má draga frá tekjum manna skv. II. kafla laganna, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, útgjöld að hámarki móttekinni fjárhæð ökutækjastyrkja, dagpeninga eða hliðstæðra endurgreiðslna á kostnaði sem sannað er að séu ferða- og dvalarkostnaður vegna atvinnurekanda og eru í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Kærandi átti sæti í stjórn X hf. á árinu 1996 og gegndi starfi stjórnarformanns fram á haustdaga það ár. Fram er komið að kærandi hafi afsalað sér stjórnarlaunum. Um skipun og hlutverk félagsstjórnar eru ákvæði í IX. kafla hlutafélagalaga nr. 2/1995. Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laganna skal hluthafafundur kjósa stjórn í hlutafélagi. Í 1. mgr. 68. gr. segir að félagsstjórn fari með málefni félags og skuli annast um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Félagsstjórn og framkvæmdastjóri fara með stjórn félags. Óumdeilt er að kærandi sinnti umræddum erindum í þágu félagsins vegna stöðu sinnar við stjórnun þess. Að þessu virtu og þar sem vefenging skattstjóra og ríkisskattstjóra er byggð á þeim grundvelli einum að kærandi hafi ekki verið á launaskrá hjá félaginu er fallist á kröfu kæranda, enda verður ekki talið að ákvæði 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 girði fyrir frádrátt í tilviki kæranda, eins og atvikum er háttað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Fallist er á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja