Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Skattstofn vegna verðbréfa

Úrskurður nr. 277/2015

Lög nr. 14/2004, 4. gr. 1. og 2. mgr., 5. gr.  

Yfirskattanefnd féllst á með sýslumanni að skuldbinding vegna fjármagnstekjuskatts, sem félli til við sölu eða annars konar ráðstöfun dánarbús eða erfingja á verðbréfum í eigu hins látna, gæti ekki talist til skulda arfleifanda í skilningi laga um erfðafjárskatt sem kæmu til frádráttar erfðafjárskatti.

I.

Með kæru, dags. 19. ágúst 2015, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar ágreiningi um ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúi A, sem lést 5. apríl 2015, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 22. júlí 2015, sem fylgdi kærunni. Í kærunni kemur fram að kæruefni málsins lúti að þeirri ákvörðun sýslumanns, sbr. tilkynningu hans um álagningu erfðafjárskatts, dags. 23. júlí 2015, að hafna því að telja til frádráttarbærrar skuldar við ákvörðun erfðafjárskatts kærenda áfallinn fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 5.063.639 kr. vegna vaxta af verðbréfaeign. Kom fram í tilkynningunni að ekki væri heimilt væri að telja til skuldar í erfðafjárskýrslu áætlaðan fjármagnstekjuskatt af óinnleystum hagnaði verðbréfaeignar, sem ekki hefði verið seld á dánardegi arfleifanda. Í kærunni er tekið fram að fjármagnstekjuskattur sé reiknaður sem 20% af áföllnum vöxtum, en ekki sé ágreiningur um réttmæti fjárhæðar skattsins. Kemur fram að sýslumaður hafi hafnað því að telja fjárhæðina til skuldar í erfðafjárskýrslu þrátt fyrir skýr ákvæði 5. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Sé þess krafist af hálfu kærenda að við ákvörðun erfðafjárskatts vegna arfs úr dánarbúinu verði umrædd fjárhæð talin til skulda og erfðafjárskattur lækkaður til samræmis.

II.

Með bréfi, dags. 31. ágúst 2015, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Kemur fram í umsögninni að sýslumaður hafi ekki frekari athugasemdir vegna málsins og vísi til hinnar kærðu ákvörðunar sinnar.

III.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi A, sem lést 5. apríl 2015, sbr. erfðafjárskýrslu, dags. 22. júlí 2015. Er skýrslan árituð, yfirfarin og staðfest af sýslumanni þann 23. sama mánaðar. Eins og skýrslan ber með sér féllst sýslumaður ekki á að við ákvörðun erfðafjárskatts kærenda vegna arfs úr dánarbúinu bæri að taka tillit til reiknaðs fjármagnstekjuskatts af verðbréfaeign sem tilgreind var með öðrum eignum hins látna í erfðafjárskýrslunni, sbr. tilkynningu sýslumanns, dags. 23. júlí 2015, um álagningu erfðafjárskatts. Þar kom fram að um væri að ræða „áætlaðan fjármagnstekjuskatt af óinnleystum hagnaði verðbréfaeignar“ sem hefði verið óseld á dánardegi hins látna. Af hálfu kærenda er þess krafist að við ákvörðun erfðafjárskatts verði tekið tillit til greindrar skattskuldar vegna verðbréfaeignar og kemur fram í kæru að fjárhæð skattsins 5.063.639 kr. sé ágreiningslaus í málinu, en um sé að ræða 20% fjármagnstekjuskatt. Til stuðnings kröfunni er vísað til 5. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, er skattstofn erfðafjárskatts heildarverðmæti allra fjárhagslegra verðmæta og eigna sem liggja fyrir við andlát arfleifanda að frádregnum skuldum og kostnaði samkvæmt 5. gr. laganna. Í 5. gr. laga nr. 14/2004 segir að skuldir arfleifanda, þ.m.t. væntanleg opinber gjöld, skuli koma til frádráttar áður en erfðafjárskattur er reiknaður, svo og útfararkostnaður arfleifanda. Kostnaður sem falli á búið vegna ráðstafana samkvæmt 17.-21. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., skuli einnig koma til frádráttar hvort heldur bú sæti opinberum skiptum eða einkaskiptum.

Í málinu liggja ekki fyrir nánari upplýsingar um verðbréfaeign sem um ræðir, enda er yfirlit yfir eignina, sem mun hafa fylgt erfðafjárskýrslu, ekki meðal gagna málsins fyrir yfirskattanefnd. Á hinn bóginn virðist ágreiningslaust að vaxtatekjur af umræddum verðbréfum falli einungis til við innlausn eða sölu þeirra, sbr. tilkynningu sýslumanns, dags. 23. júlí 2015, þar sem þetta kemur fram. Verður því að miða við að um sé að ræða vaxtatekjur af gengishækkun hlutdeildarskírteina samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Það leiðir af ákvæðum 2. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 59. gr. sömu laga, að slíkar tekjur ber að telja til tekna við innlausn eða sölu skírteinis, sbr. ennfremur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með áorðnum breytingum, þar sem þessi regla kemur fram að því er snertir afdrátt staðgreiðslu. Ekki verður annað séð en að hin umdeilda skuld sé til komin vegna mögulegrar skattskyldu kærenda vegna sölu eða annars konar ráðstöfunar þeirra verðbréfa sem um ræðir. Verður að fallast á með sýslumanni að slík skuldbinding geti ekki talist til skulda arfleifanda í skilningi 5. gr. laga nr. 14/2004. Verður því að hafna kröfu kærenda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja