Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 194/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. B-liður og C-liður 2. tl., 31. gr. 1. tl., 59. gr. 1. mgr.  

Málavextir eru þeir, að skattframtali kæranda árið 1985 fylgdi landbúnaðarskýrsla. Tekjumegin í skýrslunni voru færðar veiðitekjur að fjárhæð 70.000 kr. Aðrar tekjur var þar ekki að finna. Ýmsir liðir voru færðir gjaldamegin í skýrslunni alls að fjárhæð 62.969 kr. Virtust þeir tengjast hrossaeign kæranda, en nokkur hross voru færð sem bústofnseign í landbúnaðarskýrslunni. Hvorki voru tekjur né eign færð til skattlagningar í skattframtali. Með bréfi, dags. 19. júlí 1985, tilkynnti skattstjóri kæranda, að umræddar veiðileigutekjur 70.000 kr. hefðu verið færðar til tekna í reit 72 í skattframtalinu með vísan til 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þá hefði matsverð hrossa 158.375 kr. verið fært til eignar í reit E-8 í skattframtalinu. í kæru, dags. 21. ágúst 1985, mótmælti kærandi meðferð skattstjóra á veiðileigutekjum. Tekjur þessar væru hluti af búrekstri kæranda. Með kæruúrskurði, dags. 22. október 1985, ákvað skattstjóri, að álögð opinber gjöld skyldu óbreytt standa. Tók skattstjóri fram, að kærandi ræki hrossabúskap og yrði ekki annað séð af gjalda-liðum, en þeir væru einvörðungu tilkomnir vegna þess búskapar og því óskyldir tekjum af veiðileigu. Væri því synjað um frádrátt þeirra.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. nóvember 1985. Segir svo í kærunni:

„1. Leyfi mér að kæra úrskurð Skattstofu Reykjanesumdæmis varðandi veiðileigutekjur kr. 70.000 af búskap mínum.

2. Óska eftir að reiknuð vinnulaun mín hjá B. fyrir árið 1984 verði lækkuð um kr. 186.144. Beiðni mína byggi ég á því að mér var ekki kunnugt um ákvæði 59. gr. skattalaganna: „........ má aldrei mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 1986, eru af hálfu ríkisskattstjóra svofelldar kröfur gerðar í málinu:

„1. Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

2. Skv. ársreikningi 1984, er fylgdi framtalsgögnum, ákvarðaði kærandi sér kr. 280.000 í laun vegna atvinnurekstrar. Í kæru er farið fram á að reiknuð laun lækki um kr. 186.144 og er sú krafa einungis byggð á 1. mgr. 59. gr. i.f. laga nr. 75/1981 en það ákvæði á einungis við ef skattstjóri ákvarðar reiknuð laun. Ber því að hafna kröfu kæranda.

Um 1. tl.

Kærandi er eigandi jarðar í X-hreppi. Af veiðihlunnindum jarðarinnar, sem seld hafa verið á leigu, hefur hann haft tekjur, er hann tekjufærði í landbúnaðarskýrslu. Skattstjóri virðist telja, að slíkar tekjur tilheyri eigi búrekstri. Á það sjónarmið er eigi fallist. Gjaldaliðir landbúnaðarskýrslu virðast stafa af hrossaeign kæranda. Að virtum gögnum málsins og þegar litið er til þeirrar eignar þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á, að hann hafi á árinu 1984 haft þá starfsemi með höndum, að frádrátt þann, sem hér um ræðir, megi draga frá skattskyldum tekjum. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur að niðurstöðu til varðandi þetta kæruatriði.

Um 2. tl.

Kærandi rekur varahlutaverslun og fylgdi skattframtali hans árið 1985 ársreikningur vegna þeirrar starfsemi. Kærandi færði sér til tekna reiknað endurgjald að fjárhæð 280.000 kr. vegna vinnu við þennan rekstur, en laun fyrir annan starfa hefur kærandi eigi haft að undanskilinni þóknun frá X- hreppi vegna sveitarstjórnar. Rekstrarhalli af nefndri verslunarstarfsemi nam 186.144 kr. Hvorki var um að ræða gjaldfærðar almennar fyrningar né gjaldfærslu vegna verðbreytinga. Vill kærandi með skírskotun til lokamálsliðs 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að tilfært reiknað endurgjald hans verði lækkað um fjárhæð nefnds rekstrartaps. Lagaákvæði þetta bindur hendur skattstjóra varðandi ákvörðun um fjárhæð reiknaðs endurgjalds. Kærandi færði sér til tekna reiknað endurgjald fyrir starf sitt á grundvelli 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt því lagaákvæði skal slíkt endurgjald vera sambærilegt og hefði starfið veríð innt af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Þegar litið er til þessa og framtalsgagna kæranda í heild þykja engin þau efnisrök fram færð af hans hálfu, er gefi tilefni til þess að álíta, að hann hafi ofmetið sér reiknað endurgjald til tekna í skattframtali árið 1985. Eftir atvikum þykir rétt að vísa þessu kæruatriði frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja