Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 222/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl., 30. gr. 1. mgr. C-liður 3. tl.  

Nám — Nám erlendis — Námsferð — Námsstyrkur — Styrkur — Skattskyldar tekjur — Leiðrétting skattframtals — Kærumeðferð skattstjóra — Námskostnaður — Námsfrádráttur

Málavextir eru þeir að kærandi fór til náms til Bandaríkja Norður-Ameríku sumarið 1984. Vegna námsferðar þessarar hlaut kærandi styrk frá Fræðsluráði Reykjavíkur 10.000 kr. og frá starfsmenntunarsjóði starfsmanna ríkisins í Bandalagi háskólamanna. Þegar kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti árið 1985 nafngreindi hann á skattframtal sitt 1985 þá aðila er styrktu hann til námsferðarinnar, en gat einungis um fjárhæð styrksins úr starfsmenntunarsjóði B.H.M. Þann 14. mars 1985 reit kærandi skattstjóra bréf og fór fram á að styrkfjárhæðin 10.000 kr. frá borgarsjóði yrði færð inn á framtalið. Tók hann fram að honum hefði ekki borist launamiði frá þeim styrkveitanda áður en hann skilaði skattframtali árið 1985. Við álagningu opinberra gjalda það ár lagði skattstjóri framtalið óbreytt til grundvallar, en tók bréf kæranda frá 14. mars 1985 sem skattkæru. Kvað skattstjóri upp kæruúrskurð 24. október 1985 og færði nefndar 10.000 kr. til tekna með hækkun gjalda sem af því leiddi, svo sem kærandi hafði farið fram á.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 18. nóvember 1985. Krefst hann þess að umræddir styrkir verði ekki skattskyldir og honum úrskurðaður námsfrádráttur vegna tveggja mánaða náms. Er rökstuðningur kæranda svohljóðandi:

„Forsaga þessa máls er að ég fór í nám um sumarið 1984, þ.e. 3. júlí — 1. ágúst, til Bandaríkjanna (Iowa) og sótti um styrk til Fræðsluráðs Reykjavíkur vegna þessa náms. Styrkur fékkst kr. 10.000 upp í námskostnað, frá Fræðsluráði.

Við útfyllingu skattframtals fyrir 1984 láðist mér að geta þessa styrks svo að ég sendi inn bréf til yðar þar sem ég fer fram á að þessi styrkur yrði færður inn á skattframtalið, sem styrkur, þar sem útlagður kostnaður við ferðalag og nám til Bandaríkjanna er meiri en 10.000 kr. Með þessu bréfi eru nokkrar kvittanir sem sýna að kostnaður var fyrir hendi t.d. hvað varðar hótelkostnað. Einnig sendi ég með staðfestingu á þessu námi. Farseðlakvittanir eru því miður glataðar. Helmingur skólagjalda var borgaður af mér samtals 23.000.

Það er augljóst að 10.000 kr. ferða og námskostnaðarstyrkur fyrir kennara er ekki feitur biti. Hvað þá ef svo á að borga af honum 5.703 kr. í skatt. Það lætur nærri að ég skili styrknum svo að þetta sé út úr myndinni.

Mér finnast vinnubrögð Skattstofu með ólíkindum þar sem farið er aftan að fólki á þennan hátt. Bréf mitt sent í góðum tilgangi í marsbyrjun og fá svokallaða kæru 24. október sama ár. Bréf mitt sent inn sem leiðrétting vegna styrks en ekki sem kæra. Þessi vinnubrögð þykja mér ótæk og væri slæmt ef þau spyrðust út.

Með bréfi dags. 24. febrúar 1986 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Skv. framtalsgögnum fær kærandi kr. 18.000 í styrki vegna þátttöku sinnar í nám­skeiði í Bandaríkjunum frá 8. júlí — 29. júlí 1984. Með vísan til leiðbeininga ríkisskattstjóra, bls. 13, er fallist á að ekki sé um skattskyldar tekjur að ræða.

Krafa kæranda um tveggja mánaða námsfrádrátt vegna þriggja vikna námskeiðs er óraunhæf. Þegar um námskeið er að ræða reiknast námsfrádráttur í samræmi við kennslustundafjölda, sbr. leiðbeiningar ríkisskattstjóra, bls. 14. Þar sem þegar hefur verið fallist á að styrkirnir séu ekki skattskyldir og ljóst er að námsfrádráttur getur ekki orðið hærri en fengnir styrkir er ekki tekin töluleg afstaða til hans.

Styrkir þeir, sem í málinu greinir, teljast til skattskyldra tekna samkvæmt 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en nægilega þykir liggja fyrir, að kærandi hafi haft þann kostnað á móti styrk þessum, að eigi komi til skattlagningar, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga. Er því fallist á þennan þátt í kæru kæranda.

Eftir því sem upplýst er í málinu um nám kæranda á árinu 1984 þykir hann eiga rétt á nokkrum námsfrádrætti skv. 3. tl. C-liðar 1. mgr. 30. gr. áðurnefndra laga á móti tekjum skv. 1. tl. A-liðar 7. gr. sömu laga. Telst hann hæfilega ákvarðaður með 10.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja