Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 223/1986

Gjaldár 1985

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr., 59. gr. 1. mgr., 96. gr., 99. gr. 1. mgr. 2. ml., 106. gr. 1. mgr. 2. ml.  

Reiknað endurgjald — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Vefenging skattframtals — Skattframtal tortryggilegt — Skattframtal síðbúið — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Kæra síðbúin — Vítaleysisástæður — Heimilisfang rangt

I.

Málavextir eru þeir, að skattframtal árið 1985 barst ekki frá kærendum innan tilskilins framtalsfrests. Áætlaði skattstjóri því kærendum skattstofna til álagningar opinberra gjalda við frumálagningu gjaldárið 1985. Var 25% álagi bætt við hina áætluðu skattstofna skv. heimildarákvæðum 1. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kærenda árið 1985 hafði borist skattstjóra hinn 3. júlí 1985 með bréfi umboðsmanns kærenda. í bréfinu er tekið fram, að kærendur hafi verið erlendis í júnímánuði og vegna upplýsingaskorts hafi ekki reynst unnt að ljúka framtalsgerð, fyrr en við heimkomu þeirra. Þá segir í bréfi umboðsmanns kærenda: „Með tilliti til þeirra aðstæðna er skapast af árstíðabundnu álagi vegna framtalsskila og með vísan til 106. gr. laga nr. 75/1981, þá er óskað eftir að heimildarákvæðum um viðurlög verði ekki beitt við álagningu opinberra gjalda 1985.

Skattstjóri tók innsent skattframtal sem kæru skv. 2. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Með úrskurði, dags. 21. nóvember 1985, féllst hann á að leggja framtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1985, en að viðbættu 15% álagi á skattstofna samkvæmt framtalinu vegna hinna síðbúnu framtalsskila, sbr. heimildarákvæði 2. ml. 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, þó að gerðri þeirri breytingu á tekjuframtali kæranda, eiginkonu, að áætla henni reiknað endurgjald 225.000 kr. við eigin atvinnurekstur „X., kaffistofa. Um þetta atriði segir m.a. í úrskurði skattstjóra: „Meðfylgjandi rekstursreikningur árið 1984 yfir atvinnurekstur hennar er að marki tortryggilegur, þar sem engin vinnulaun koma fram og vinnuframlags eiganda er að engu getið. Slík starfsemi sem rekstur kaffistofu og sælgætissölu útheimtir töluvert vinnuafl.

II.

Með kæru, dags. 31. janúar 1986, hefur umboðsmaður kærenda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Gerir umboðsmaðurinn þá grein fyrir síðbúinni kæru til ríkisskattanefndar, að úrskurður skattstjóra, dags. 21. nóvember 1985, hafi ekki borist í hendur umbjóðenda sinna fyrr en 10. janúar 1986 vegna búferlaflutninga kærenda. Vísar hann í þessu sambandi til gagna er kærunni fylgja. Af þessum sökum segist umboðsmaðurinn vænta þess, að kærufrestur verði talinn hefjast hinn 10. janúar 1986 í stað 21. nóvember 1985. Varðandi efnisatriði málsins segir m.a. í kæru umboðsmannsins:

„Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að ákvarða E. laun vegna atvinnurekstrar hennar, sem rekinn var með tapi á árinu 1984. E. hefur starfað að mestu leyti ein við þennan rekstur, en hefur þó notið aðstoðar sonar síns sem er námsmaður. Um er að ræða rekstur lítillar kaffistofu sem útheimtir ekki meiri vinnu en svo, að E. hefur getað annað henni með aðstoð sonar síns hluta dags. Aðdróttanir í bréfi skattstjóra tel ég ekki svaraverðar, en þess skal getið að E. hætti rekstri kaffistofunnar í mars 1985 þar eð reksturinn bar sig ekki.

Þá segist umboðsmaðurinn vænta þess, að úrskurði skattstjóra verði hnekkt og að skattframtal 1985 verði lagt óbreytt til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1985. Ennfremur fer umboðsmaðurinn fram á það að felld verði niður 15% viðurlög á skattstofna og vísar í því sambandi til bréfs síns, dags. 3. júlí 1985, er skattframtalinu 1985 fylgdi.

III.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 4. mars 1986, gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Úrskurður skattstjóra er póstlagður 21. nóv. 1985 en skv. framtalsgögnum var hann ekki móttekinn af kærendum fyrr en á Skattstofu Reykjavíkur hinn 10. janúar 1986 en kærendur búa ekki á því heimilisfangi er hann var sendur á. Að þessu athuguðu fellst ríkisskattstjóri á að taka kæruna til efnismeðferðar.

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Svo sem atvikum máls þessa er varið er kæran til ríkisskattanefndar tekin til efnismeðferðar.

Eftir atvikum og að þessu sinni er fallið frá beitingu álags.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt má ákvörðun skattstjóra aldrei mynda tap sem nemur meira en samanlögðum almennum fyrningum skv. 38. gr. og gjaldfærslu skv. 53. gr. Samkvæmt rekstrarreikningi starfsemi þeirrar, er hér um ræðir, árið 1984 nam rekstrarhalli af henni 83.742 kr. Gjaldfærðar fyrningar námu 67.002 kr., en tekjufærsla 16.926 kr. Sú ákvörðun skattstjóra að reikna kæranda, E., reiknað endurgjald að fjárhæð 225.000 kr., brýtur því í bága við fyrrgreind ákvæði 1. mgr. 59. gr. téðra laga. Þykir því bera að fella þá ákvörðun úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja