Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 350/1986

Gjaldár 1984

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl., 51. gr. 1. mgr. 1. tl. og 2. mgr.  

Vaxtagjöld — Verðbætur — Kaupsamningur — Íbúðarhúsnæði — Byggingarkostnaður — Byggingartími — Fast verð — Kaupverð — Vísitölutrygging kaupverðs — Greiðslur á byggingartíma — Byggingarvísitala — Verðtrygging kaupverðs — Þinglýsingarkostnaður — Afsal — Þinglýsingarkostnaður afsals — Stofnverð

Málavextir eru þeir, að meðal vaxtagjalda til frádráttar í reit 87 í skattframtali sínu árið 1984 færði kærandi 112.706 kr. sem greiddar verðbætur til S. Með bréfi, dags. 16. janúar 1985, krafði skattstjóri kæranda um staðfestingu og uppgjör á vaxtagjaldalið þessum. Með bréfi, dags. 26. janúar 1985, sendi umboðsmaður kæranda sundurliðun greiddra verðbóta af greiðslum nr. 4 og 6-8 samkvæmt II. kafla kaupsamnings milli kæranda og eiginkonu hans sem kaupanda og S. sem seljanda um íbúð í smíðum í Reykjavík. Þá fylgdi bréfi umboðsmannsins ljósrituð kvittun, að fjárhæð 1.258 kr. dagsett 3. júní 1983, fyrir þinglýsingarkostnaði vegna þessarar íbúðar.

Að svarbréfi kæranda og gögnum fengnum tilkynnti skattstjóri kæranda, með bréfi, dags. 10. apríl 1985, að fyrirhugað væri að fella nefndan frádrátt að fjárhæð 112.706 kr. niður á svofelldum forsendum:

„Málavextir eru þeir að samkvæmt framlögðum gögnum greidduð þér vexti og verðbætur samtals að fjárhæð 112.706 kr. á árinu 1983 af greiðslum af byggingarkostnaði íbúðar til S.

Hækkun á umsömdu verði í kaup- og verksamningi í hlutfalli við verðlagsþróun á byggingartíma telst ekki vera vextir af láni og því ekki frádráttarbær frá tekjum.

Greiðslur verðbóta í slíkum samningum er ætlað að mæta þeirri hækkun sem verður á vinnulaunum og efni á byggingartímanum og skal færa verðbætur þessar til hækkunar á grunnverði skv. samningum. Sama gildir um svokallaða vexti sem greiddir eru í stað verðbóta eða ásamt verðbótum, svo og vextir á greiddar verðbætur skv. slíkum samningi.

Með byggingarsamningi milli aðila telst ekki hafa myndast skuldasamband heldur tvíhliða kröfuréttarsamband milli aðila, en með skuld er venjulega átt við einhliða skyldu manna til að greiða peninga. Með byggingarsamningi telst félagið ekki veita samningsaðila sínum nokkurt lán.

Með bréfi, dags. 17. apríl 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda ráðagerð skattstjóra. Vísaði hann málsmeðferð og túlkun skattstjóra á bug. Taldi hann að ekki hefði verið um neinn verk- eða byggingarsamning, né byggingarsamvinnufélag að ræða, né söluverð bundið neinni verðlagsþróun á byggingartíma. Umbjóðandi sinn hafi gert ósköp venjulegan kaupsamning um íbúðina sem hann hafi keypt á föstu verði, þ.e. kaupverðið svari til þeirra verðmæta, er hann kaupi á þeim tíma þegar kaupsamningurinn hafi verið undirritaður. Allt sem hann hafi greitt til viðbótar kaupverði, séu frádráttarbærar verðbætur, er hann hafi greitt af skuld við seljanda íbúðarinnar. Þá benti umboðsmaðurinn á, að með skattframtali kæranda árið 1983, hafi fylgt fylgiskjal, „kaup og sala eigna. Þar hafi verið gerð grein fyrir íbúðarkaupunum, þ.e. kaupverði, greiðslum og skuldum við seljanda. Við þá meðferð hafi skattstjóri ekki gert neinar athugasemdir, þó svo að hann hafi þá þegar fengið ljósrit af kaup-samningi vegna fyrirspurnar um gjaldfærða vexti á því ári. Ekki féllst skattstjóri á þessar röksemdir kæranda og með bréfi, dags. 26. júlí 1985, tilkynnti hann kæranda, að umræddur frádráttarliður 112.706 kr. væri felldur niður og með skattbreytingaseðli, dags. sama dag, var tilkynnt um þá hækkun áður álagðra opinberra gjalda, sem af þessari breytingu leiddi.

Með kæru, dags. 23. ágúst 1985, mótmælti umboðsmaður kæranda breytingu skattstjóra. Segir þar m.a. að umbjóðandi sinn sætti sig ekki við rökstuðning skattstjóra í bréfi, dags. 10. apríl 1985, þar sem ekki sé um neinn verk- eða byggingarsamning milli aðila að ræða. Umræddan vaxtafrádrátt að upphæð 112.706 kr. telji umbjóðandi sinn fullkomlega lögmætan og að skattstjóri hafi ekki nokkra stoð í lögum, sem réttlæti niðurfellingu.

Með kæruúrskurði, dags. 4. október 1985, hafnaði skattstjóri kærunni á þeim grundvelli, að verðbætur þær á afborganir sem kærandi greiddi á byggingartíma íbúðar til byggingaraðila sem jafnframt var seljandi íbúðarinnar skoðist ekki sem frádráttarbær vaxtagjöld í skilningi 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 heldur sem hluti byggingarkostnaðar.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru umboðsmanns hans, dags. 3. nóvember 1985. Fylgdi kærunni umræddur kaupsamningur, dags. 31. mars 1982. Bendir umboðsmaðurinn á, að umbjóðandi sinn telji sig hafa keypt umrædda íbúð á föstu verði. Verðbætur á greiðslur séu því þóknun vegna lánsviðskipta sem séu því ekkert annað en vextir, er hljóti að leyfast til frádráttar samkvæmt 1. tl. E-liðs 1.mgr 30. gr. laga nr. 75/1981. Þá segir í kærunni til ríkisskattanefndar, að umbjóðandi sinn vilji benda á að öll ákvæði og leiðbeiningar til framteljenda í skattalögum og framtalsleiðbeiningum séu með þeim hætti að erfitt sé að skilja hvers vegna nefndar verðbætur séu ekki frádráttarbærar. Ef einungis meðlimum byggingarsamvinnufélaga leyfist að draga samsvarandi verðbætur frá tekjum sínum, þá sé ungu fólki, sem byggi í dag, stórlega mismunað. Krafist er að hin umdeilda fjárhæð verði leyfð til frádráttar tekjum og opinber gjöld kæranda verði leiðrétt að nýju samkvæmt því.

Með bréfi, dags. 13. janúar 1986, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Verðbætur þær, sem hér um ræðir 111.448 kr., voru reiknaðar á greiðslur skv. kaupsamningi, dags. 31. mars 1982, er gjaldféllu 1. janúar, 1. mars, 1. júní og 15. júlí 1983 og miðuðust verðbæturnar við þá hækkun, sem varð á byggingarvísitölu frá vísitölu tímabilsins 1. apríl — 30. júní 1982, til greiðsludaga, sbr. ákvæði samningsins þar um. Afgangur hinnar umdeildu fjárhæðar 1258 kr. er þinglýsingarkostnaður afsals vegna þeirrar íbúðar kæranda, er í málinu greinir. Samkvæmt III. kafla kaupsamningsins var gert ráð fyrir, að íbúðin yrði afhent kaupendum tilbúin undir tréverk í apríl 1983, sameigninni yrði lokið í júlí 1983 og framkvæmdum utanhúss yrði lokið haustið 1983. Að þessu athuguðu og málsatvikum að öðru leyti þykja verðbætur þessar eigi vera frádráttarbærar skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, heldur beri að telja þær til stofnverðs þeirrar húseignar sem í málinu greinir. Þá er eigi fallist á að þinglýsingarkostnaður að fjárhæð 1.258 kr. á afsali íbúðar kæranda sé frádráttarbær sem vextir. Er hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja