Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 433/1986

Gjaldár 1983

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl. — 92. gr. — 95. gr. — 99. gr. 1. mgr.  

Launamiði — Launaframtal — Ólögmætt þvingunarúrræði — Rekstrarkostnaður — Áætlun skattstofna — Skattframtal, höfnun

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1983. Er kæruefnið sú ákvörðun skattstjóra að synja þeirri kröfu að leggja skattframtal kæranda árið 1983, sem barst skattstjóra í kærufresti eftir álagningu gjalda það ár, til grundvallar álagningu í stað áætlunar áður. Byggði skattstjóri þá ákvörðun sína á því að öll gjaldfærð laun í ársreikningi 1982 hefðu ekki verið gefin upp á launamiða.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra, dags. 21. febrúar 1986, verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 14. mars 1986. Er þess krafist að innsent skattframtal 1983 verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra áður. Er tekið fram að launamismunur sá er óuppgefin var hefði verið settur á launamiða, sem fylgja kærunni til ríkisskattanefndar.

Með bréfi dags. 7. júlí 1986 gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Þar sem umboðsmaður kæranda hefur nú fullnægt því atriði er skattstjóri byggði frávísun sína á er fallist á að innsent framtal verði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda.

Eigi var það rétt af skattstjóra að hafna skattframtali kæranda 1983 sem fullnægjandi álagningargrundvelli opinberra gjalda á því einu að laun hefðu verið vanframtalin á launaskýrslum. Til að knýja fram rétt skil þeirra ber að leita annarra lögmæltra úrræða. Með þessari athugasemd og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja